miðvikudagur, 17. júní 2009

Á þjóðhátíðardaginn.

Mæðgurnar
Við erum búin að fara tvisvar niður í miðbæ í dag. Fyrst fórum við upp úr tvö með Sigrúnu Huld og gengum hring umhverfis tjörnina í öllu mannhafinu. Þekktum að vísu engan. Veðrið var yndislegt þótt víða gæfi að líta skýjabakka fjær. Við gengum Tjarnargötuna til baka til þess að sleppa úr mestu mannþrönginni.
Sirrý og Sveinn Hversu oft hefur maður ekki rölt í niður í bæ á þessum degi. Fjær má sjá mannfjöldann á göngu eftir Fríkirkjuveginum. Þetta var nú á barns- og unglingsárunum sá dagur sem manni þótt hvað mest spennandi að fara í bæinn.
Hjörtur, Unnur, Sirrý og Sveinn Það er enginn 17. júní án þess að skella sér í miðbæinn að kvöldi til og taka stöðuna. Þetta hefur maður gert allt frá barnæsku og engin ástæða að hætta því þótt árunum fjölgi. Það eru nýjar kynslóðir sem hafa tekið við þessu bæjarrölti meira og minna. Við gengum frá Arnarhóli að Ingólfstorgi með viðkomu á Austurvelli. Skoðuðum fallegan blómvöndinn við styttu Jóns Sigurðssonar eftir að hafa gengið í mannhafinu í Austurstræti og hlustað á tónlist við Arnarhól. Nú rölti maður í bæinn með foreldrunum. Það hefði manni nú ekki þótt nógu gott á unglingsárunum en tímarnir breytast og mennirnir með.

Engin ummæli: