fimmtudagur, 4. júní 2009

Út í Eyjum.

Fór um hádegisbilið út í Eyjar á ráðstefnu sem þar var haldin um fyrningu aflaheimilda í sjávarútvegi. Þetta var fjölmenn ráðstefna með alls um 200 þátttakendum víða að komnum til þess að hlíða á fróðleg erindi og taka þátt í pallborðsumræðu. Mikil andstaða kom fram við þessa leið á fundinum og allflestir fundarmenn vöruðu við henni. Þessi lítt útskýrða hugmynd felst í því að taka af útgerðum veiðiheimildir og ráðstafa þeim á pólitískum forsendum eða bjóða þær hæstbjóðanda til sölu. Maður hefði talið að mikilvægari verkefni væru á dagskrá stjórnvalda sem glíma við mikinn fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja, gríðarlegt atvinnuleysi og vaxandi vonleysi fólks. Er þetta ekki stjórnmálaumræða í hnotskurn? Forðast að ræða um það sem skiptir máli, en láta umræðuna snúast um það hvernig megi auka óhagræði í sjávarútveginum, þeirri atvinnugrein sem stendur undir stórum hluta gjaldeyrisöflunarinnar og þarf nú sem aldrei fyrr að ganga eins vel og kostur er. Miðað við gang mála býð ég ekki í framhaldið á næstu mánuðum.

Engin ummæli: