sunnudagur, 14. júní 2009

Á söguslóðum Laxdælu.

Mikils er mjór vísir. Við félagar í Rótarýklúbbi Kópavogs fórum í gær ásamt mökum í ferð um söguslóðir Laxdælu. Farið var frá Turninum kl. 9.00 og komið til baka um miðnættið í bæinn. Saganastundin um Laxdælu hófst við Esjuberg en þar kom Auður Djúpauðga fyrst til Íslands. Fyrsti áfangastaðurinn var hjá Rótarýfélaga og eiginkonu hans sem búa að Oddsstöðum i Miðdölum. Á myndinni gróðursetur forseti klúbbsins hríslu í tilefni heimsóknarinnar. Síðan lá leiðin í Haukadal að Eiríksstöðum og tilgátuhús sem byggt er samkvæmt heimildum um hús karlsins skoðað þar. Þá var brunað í Búðardal og skoðað brúðarval, já eða þannig. Komið við í Leifsbúð og skoðuð Vínlands- landafundasýning sem þar hefur verið sett upp.
Kirkjan á Stað á Skarðsströnd.
Þar næst var Skarðströndin keyrð með leiðsögumanni og stoppað við Krosshólaborg, Kjarlaksstaðaá, Klofningi og loks var genigð til Kirkju að Skarði og saga hennar og Ólafar ríku rifjuð upp. Hver man ekki orð hennar við fréttir af andláti bónda síns: Eigi skal gráta Björn bónda heldur leita hemda. Eftir að enskir höfðu drepið mann hennar. Margt fallegra kirkjugripa er í kirkjunni og sérstaka athygli vakti mynd á predikunarstól og gömul altaristafla.
Staðarhólskirkja og minnismerki skáldjöfranna. Í Saurbænum keyrðum við framhjá þessari kirkju og minnismerki um skáldin Jóhannes úr Kötlum, Stefán frá Hvítadal og Stein Steinarr sem allir tengjast þessu svæði. Fyrr um daginn vorum við búin að minnast Jóns frá Ljárskógum. Nú lá leiðin til baka í gegnum Svínadal og var þar tekist á um hvern Guðrún Ósvífursdóttir hafi átt við þegar hún sagði: Þeim var ég verst er ég unni mest. Hringnum var lokað á Laugum og þar borðaður kvöldverður. Að loknu borðhaldi var svo brunað í bæinn og þanngað komið undir miðnætti eins og áður sagði.

Engin ummæli: