föstudagur, 21. október 2011

Bernskuminningar úr Kópavogi.

Kópavogsblaðið 20.10.2011
,,Fyrsti kennarinn minn var fallegasta kennslukonan á öllu landinu!”
Haustið er tími eftirvæntingar ekki síður en sumarið. Það er breyting í loftinu, þriðju árstíðarskiptin. Leikfélagar bernskuáranna sem fóru í sveitina komnir til baka. Endurfundir voru ánægjulegir og síðkvöldin úti við á haustin eftirminnileg í leikjum og einstaka prakkarastrikum. Skólinn hóf göngu sína að nýju um þetta leyti. Við vorum spennt að sjá hvort eða hvaða breytingar yrðu í bekknum, hvort sömu bekkjafélagar yrðu áfram, nýir kæmu í bekkinn eða hvort við yrðum með sama kennara.
Stundum voru breytingar. Góðir skólafélagar fluttu í önnur byggðalög og jafnvel til útlanda. Eftirminnilegasta breytingin var þegar fyrsti kennarinn minn og sú sem kenndi okkur lengst af í E – bekknum í Barnaskóla Kópavogs fór í barneignafrí. Hún hét Helga Sigurjónsdóttir, fallegasta kennslukona á öllu landinu, það fannst mér allavega. Helga varð síðar kunn sem stjórnmálamaður, baráttukona fyrir kvenréttindum og mikilsmetinn skólamaður. Hún lést í byrjun þessa árs. Það var erfitt að sjá að baki Helgu í barneignafríum. Á bekkjarmyndinni er yfirkennari skólans Óli Kr. Jónsson í stað hennar en hann var umsjónarkennari okkar í 12 – E síðasta veturinn.


12 ára bekkur E.
12 ára E í Barnaskóla Kópavogs 1965. Fremsta röð frá vinstri: Guðný Björgvinsdóttir, Halldóra Guðmundsdóttir, Una Elefsen (látin), Helga Austmann Jóhannsdóttir, Sigrún Hilmarsdóttir, Kristbjörg Sigurnýjasdóttir, Ástríður Kristinsdóttir, Ingibjörg Garðarsdóttir, Ingibjörg S Karlsdóttir. Önnur röð frá vinstri: Björgvin Vilhjálmsson, Lárus Már Björnsson (látinn), Hrafnhildur Jósefsdóttir, Gerður Einarsdóttir, Heiðrún Hansdóttir, Ragnheiður Lára Guðjónsdóttir, Jóna Ingvarsdóttir, Gerður Elín Hjámarsdóttir, Helgi Sigurðsson, Húgó Rasmus og umsjónarkennarinn, Óli Kr. Jónsson í tólf ára bekk. Þriðja röð frá vinstri: Páll Einarsson, Gylfi Norðdahl, Páll Ragnar Sveinsson, Þorsteinn Baldursson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Hjörtur Pálsson, Yngvi Þór Loftsson, Jón Halldór Hannesson (látinn), Atli Sigurðsson og Óli Jóhann Pálmason (látinn).
Við Esju rætur.
Við rætur Esju sumarið 1965, mynd tekin af föðurbróður mínum Finnbirni Hjartarsyni prentsmiðjustjóra, en hann og eiginkona hans Helga Guðmundsdóttir bjuggu fyrstu búskaparár sín í Kópavogi. Fyrst í húsi foreldra minna við Víðihvamm og síðar í Austurgerði í vesturbæ Kópavogs. Á myndinni erum við þrjú frændsystkinin af fimm börnum Finnbjörns og Helgu og þrjú af fjórum systkinum frá vinstri til hægri: Guðmundur Helgi Finnbjarnarson, Guðrún Finnbjarnardóttir, Þórunn Ingibjörg Hjartardóttir, Oddur Kristján Finnbjarnarson, Axel Garðar Hjartarson og ég, Sveinn Hjörtur. Tilefni ferðarinnar var bíltúr í nýja (gamla) Willis-jeppanum sem Finnbjörn hafði keypt. Bíltúrinn var upp að Esju þar sem við áttum góðan dagpart við klifur í klettabelti Esjunnar. Slíkar ferðir út fyrir Kópavoginn voru ekki tíðar á þessum árum og því afar eftirminnilegar.
Útskrift Valdimars.

Við brautskráningu sonarins sem lögfræðings frá Háskóla Íslands 16. júní 2007. Við foreldrarnir Sigurveig H. Sigurðardóttir, Sveinn Hjörtur Hjartarson og sonurinn Valdimar Gunnar Hjartarson.


Færðum kennaranum jólagjöf
Í bók sinni ,,Sveitin mín - Kópavogur” minnist Helga þess með hlýhug þegar við fjögur sem skipuð voru af bekknum til þess að heimsækja hana komum og færðum henni jólagjöf árið 1962. Við gáfum henni ljóðabókina ,,Heiðnuvötn” eftir Þorstein Valdimarsson skáld. Helga segir svo frá: „Ég var afskaplega upp með mér þegar fjórir nemendur mínir í Kópavogsskóla færðu mér bókina að gjöf um jólin 1962. Eftirfarandi skráði Þorsteinn í bókina:
,,Kverinu þykir heldur heiður
að hýsa jólagleðina;
Yngvi, Hjörtur, Húgó, Eiður
og Helga rekur lestina.
Yngvi er að sjálfsögðu sonur Guðrúnar [Þorsteinn Valdimarsson skáld var náfrændi Guðrúnar móður Yngva Þórs Loftssonar landslagsarkitekts], Sveinn Hjörtur er Hjartarson og hann er hagfræðingur. Húgó Rasmus er kennari í Kópavogi. Eiður heitir fullu nafni Eiður Örn og er Eiðsson. Hann er matreiðslumaður og rekur ásamt konu sinni Hótel Framnes í Grundarfirði.“ (Helga Sigurjónsdóttir, 2002 bls. 86). Í minningu minni vorum við hinsvegar fimm og Helga sem rekur lestina muni vera bekkjasystir okkar Helga Austmann Jóhannsdóttir.

Við fengum aðra Helgu kennslukonu en hún var ekki Helga mín. Það átti eftir að skila sér í heimsókn til skólastjórans Frímanns Jónassonar, sem leiddi þó ekki til tiltals. Sr. Gunnar Árnason, sem síðar fermdi okkur mörg hver var í heimsókn hjá honum og enginn tími til að hirta unga skólasveina. Þetta stirða samband okkar batnaði ekki við það að hún rak okkur tvo félagana síðar heim. Að vísu höfðum við Hjörtur Árnason, nú hótelhaldari í Borgarnesi, líklega unnið til þess. Hentum skólatöskum í hvor annan og ein þeirra lenti óvart á skólasystur okkar.

Endurfundir á Facebook
Margir voru í bekknum allt frá fyrstu tíð þar til við fórum yfir í Gagnfræðaskóla Kópavogs, bygging sem nú hýsir Menntaskólann í Kópavogi. Að loknu barnaskólanámi skildu leiðir en nokkrum hefur maður fylgst með gegnum lífið, mismikið þó. Það hefur auðveldað upprifjun þessara endurminninga að á Facebook-síðunni höfum við nokkur hist og rifjað upp minningar og nöfn fyrrum skólafélaga. Þannig auðveldar ný samskiptatækni t.d. endurfundi gamalla bekkjasystkina. Skólaferðalagið í lok tólf ára bekkjar var austur að Skógum og þótti mikið ferðalag á þessum árum.

fimmtudagur, 20. október 2011

Umhverfið mótar manninn.

Finnbjörn Hjartarson. Föðurbróðir minn hefði orðið 74 ára í gær.

Umhverfið mótar manninn, sagði Finnbjörn föðurbróðir minn síðast þegar við hittumst. Það var rétt viku fyrir andlátið. Hann bauð okkur í hádegisverð á sunnudegi enda orðið of langt síðan við höfðum hist. Við vorum meðal annars að ræða um land og þjóð, náttúruna, lífsbaráttuna og síðast en ekki síst Vestfirði og Ísafjörð. Þá barst talið að mynd sem hann hafði fengið listmálara til þess að mála af föður sínum í vestfirsku umhverfi. Framansögð ummæli frænda míns voru einmitt þema málverksins og eiga svo vel við hann.

Fyrir mér er þetta vestfirska umhverfi frekar framandi, þótt ættir eigi að rekja til þessa fjarlæga landshluta, en í sálu hans var þetta sá staður, þar sem ræturnar lágu og hann fékk aukna lífsfyllingu við það eitt að tala um.

Ferðirnar vestur voru margar á ári oft með litlum fyrirvara. Æskustöðvarnar toguðu og ekki spillti fyrir að hann hafði nú eignast jörð í Mjóafirði, sem hann og Helga höfðu áform um reisa sumarbústað á. Ég hafði fært honum litla ljósmynd af nýjasta skipi þeirra Vestfirðinga, Guðbjörgu ÍS, sem nú hangir uppi á vegg í stækkuðu formi.

Bubbi safnaði ýmsum nýjum og gömlum munum sem minntu á sögu þjóðarinnar, svo sem líkönum af gömlum árabátum. Hann hafði ánægju af málverkum og keypti gjarnan verk listamanna, sem með verkum sínum höfðuðu til hans þótt þeir færu lítt troðnar slóðir og fáum væru kunnar. Ég hef grun um að þessi áhugi hans hafi ekki síður verið vegna ánægjunnar af að umgangast listamenn.

Ræktarsemin við gömlu átthagana, frændfólk og vini var honum í blóð borin. Hann hafði gaman af að hitta fólkið sitt og lagði mikið upp úr því að rækta frændsemina og hafði frumkvæði að heimsóknum í þeim tilgangi ­ nokkuð sem fleiri mættu taka til eftirbreytni. Hann hafði yndi af að gleðja aðra með sínum sérstæða hætti og var mikið í mun að hjálpa. Það var gert af hispursleysi, velvilja og hlýju og það voru ekki höfð um það mörg orð ­ verkin látin tala. Stutt var í brosið og glensið, en undir niðri bjó alvara hins leitandi manns að æðri gildum lífsins í trú, leik og starfi.

Ég veit að leit hans hafði borið ríkulegan ávöxt. Bubbi og Helga voru ávallt mjög samrýnd hjón og miklir félagar. Þau störfuðu saman við fjölskyldufyrirtækið Hagprent hf. ásamt tveimur af fimm börnum sínum og tengdadóttur. Brátt og ótímabært fráfall hans er sársaukafullt og setur mikil spor á líf fjölskyldunnar svo og ættingja og vina, en eigi má sköpum renna.

Í minningunni geymum við svipmót Bubba frænda. Æskuminningar, mörg gamlárskvöld í Víðihvamminum þegar brugðið var á leik með eftirminnilegum hætti. Þúsundkallinn í tyggjóbréfinu til þess að létta dapra stund í lífi unglingsins og dýrmætar samverustundir á seinni árum með svipuðum hætti og hér hefur verið lýst.

Við þökkum honum fyrir allt og biðjum Guð að blessa hann og veita Helgu og frændsystkinum, Jensínu ömmu, systkinum hans og fjölskyldunni allri styrk til þess að horfa ótrauð fram á veginn. Blessuð sé minning hans.

Mbl. Miðvikudaginn 23. nóvember, 1994 - Minning


Sveinn Hjörtur Hjartarson.

föstudagur, 7. október 2011

Ferð til Frakklands og Svíþjóðar

Auxerre
Síðustu viku höfum við Sirrý verið á ferð í Frakklandi og Svíþjóð. Í Frakklandi gistum við nokkrar nætur hjá vinum okkar, Helga og Ingunni í Commessey í Búrgundí. Þetta litla þorp er rétt hjá bænum Tonnerre og ekki langt frá Chablis, sem er þekkt fyrir hvítvínsframleiðslu. Miðvikudaginn 5. október fórum við til Kristianstad í Svíþjóð og höfum átt hér góða daga. Tíðin hefur verið afar góð bæði í Frakklandi og Svíþjóð. En í Frakklandi fór hitinn upp í 30°C á daginn og var heiðskírt alla dagana. Veðrið hér í Svíþjóð hefur verið sæmilegt, enda komið fram í október og ekki við örðu að búast. Í gær fórum við til Hässlehólm og vorum aðeins að ganga frá í íbúðinni og gera hana klára. Þetta er snotur íbúð, gömul en það er búið að taka hana mikið í gegn. Íbúðin er steinsnar frá brautarstöðinni og í rólegu hverfi og snyrtilegu. Það ætti að vera hægt að skrifa lærðar ritgerðir á þessum stað, ef vel tekst til. Meira um það síðar... Kveðja.