sunnudagur, 29. nóvember 2015

Lífssýn Línu

Á fimmtudaginn eftir vinnu fór ég á fyrirlestur hjá Bengt Starrin sænskum prófessor í félagsráðgjöf í Norræna húsinu. Boðskapur fyrirlesara var m.a. að maður getur komið á framfæri alvarlegum skilaboðum, þótt glettni sé notuð til að koma þeim áleiðis. Þá kom einnig fram í máli hans að fyrir nokkrum áratugum voru 3,3 milljónir Svía, sem nefndu dans sitt aðaláhugamál. Nú telur þessi hópur um 1,1 milljón manna. Dansáhuga þeirra hafði ég reyndar kynnst áður t.d. í Liseberg í Gautaborg, en gerði mér ekki grein fyrir hvað þetta væri jafn almennur áhugi. Astrid var dansáhugamaður og dansaði mikið. Það hjálpaði henni á erfiðum stundum. Fram kom í máli fyrirlesara að eigi englarnir að finna þig skalt þú dansa. Maður hefur víst ekkert að gera í himaríki ef maður dansar ekki. Svona stund minnir mann á hvað það er mikilvægt að rífa sig reglulega upp úr dagsrútínunni og huga að einhverju allt öðru en dægurþrasi líðandi stundar

sunnudagur, 18. október 2015

Moon Country,further reports from Iceland.

Árið 1996 kom út bók í Bretlandi sem heitir Moon Country, further reports from Iceland eftir Simon Armitage og Glyn Maxwell. Útgáfa  þessarar bókar var að minnast ferðar W.H. Auden og Louis Mac Neice til Íslands árið 1936. Þessir tveir menn, Armitage og Maxwell, sem komu hingað 1996 voru sagðir meðal efnilegustu ungra ljóðskálda Breta á tíunda áratug síðustu aldar. Það var BBC útvarpið í Bristol, sem stóð fyrir þessu verkefni og komu þeirra hingað til lands vegna þáttagerðar fyrir BBC útvarpið. Aðkoma mín að þessu máli var sú að til Landssambands íslenskra útvegsmanna leituðu bresku þáttagerðamennirnir til þess að koma þessum mönnum um borð í fiskiskip. Vegna þessa hluta verkefnisins átti ég nokkur samskipti við aðstoðarkonu stjórnandans við að koma þeim til Eyja og um borð í fiskiskip. Ég fékk síðar bréf frá þessum starfsmanni BBC fyrir veitta aðstoð. Í bréfinu segir hún að einmitt þessi ferð með fiskiskipinu hafi verið einn af hápunktum ferðasögunnar. Hún sendi mér þennan þátt sem þakklætisvott á spólu svo að ég gæti hlustað á hann. Árið 1996 var ég staddur í London þegar umrædd bók kom út, - merkileg tilviljun. Ég keypti eintök af bókinni og auk þess á ég blaðaumsagnir um bókina m.a. í The Daily Telegraph og var látið mikið með bókina í blaðinu. Á eina fundinum með listrænum stjórnanda þáttarins og aðstoðarkonu í Reykjavík lýstu þær verkefninu og óskuðu eftir aðstoð eins og áður segir. 
Það skal viðurkennt að ég hafði ekki hugmynd um á þeim tíma hver W.H.Auden var, hvað þá að hann hefði nokkurntíma komið til Íslands. Fyrir fundinn vissi ég aðeins að BBC hefði áhuga á að komast um borð í fiskiskip þannig að ekki gafst tími til að kynna sér hver W.H .Auden var. Ég minnist enn með nokkrum hryllingi svipnum á stjórnanda þáttarins þegar þessi fáfræði mín varð henni ljós. Nú til að gera langa sögu stutta þá ákvað ég að bæta úr þessari fáfræði minni. Las ævisögu hans og keypti helstu ljóðabækur m.a. á ég frumútgáfu Letters from Iceland sem ég keypti fyrir nokkrum árum. Þessi kynni mín af W.H.Auden hafa verið mjög gefandi undanfarin ár og sannfært mig um að mikið skortir á það að uppfræða okkur Íslendinga um þá sameiginlegu menningararfleið sem við eigum með Bretum í verkum og lífi Audens. Ég minnist þess ekki að hafa frétt af umfjöllun um þessa ferð Armitage og Maxwell til Íslands í íslenskum fjölmiðlum. Á næsta ári eru 20 ár frá útgáfu þessarar bókar.Þið sem enn eigið eftir að kynna ykkur Auden þá er hann ef til vill þekktastur fyrir að eiga jarðarfaraljóðið í myndinni Four weddings and a funeral.

fimmtudagur, 15. október 2015

Áfengisbölið

Líklega hefur mér stafað hvað mest hætta af að leiðast út í  „áfengissollinn“ þegar ég fór fimmtán ára út í Hlíð, þar sem nú er Digraneskirkja, með vinum mínum og þeir grófu þar upp áfengisflösku. Þeir fengu sér gúlsopa þarna í rjóðrinu og urðu hreifir og kátir, en ég lét það eiga sig enda oftast kátur að eðlisfari. Ferðirnar voru nokkrar þetta sumar.

Datt þetta í hug í ljósi þeirrar umræðu sem nú á sér stað varðandi aðgengi unglinga að áfengi. Hvort selja eigi áfram áfengi í ÁTVR eða heimila eigi að selja það í Bónus, Hagkaupum eða Krónunni. Hlustaði á umræðu um þetta á fundi í vikunni þar sem að bindindisfrömuður fór mikinn í ræðustól um nauðsyn þess að vernda æskuna. Þessvegna væri nauðsynlegt að selja áfengi áfram í ÁTVR.

Það var ekkert vandamál að ná í áfengi á þessum árum. Það var hægt að stelast í áfengi foreldranna þar sem því var til að dreifa og fela rýrnunina með vatni. Svo voru auðvitað sprúttsalar á ferð. Þá keyptu sumir foreldrar áfengi fyrir börnin sín. Sögðust ekki getað hugsað þá hugsun til enda ef þau væru einhversstaðar hímandi undir vegg drekkandi ólöglegan landa eða eitthvað enn verra.

Punkturinn er þessi að mínu mati: Það skiptir mestu að foreldrar séu á vaktinni og fylgist með börnum sínum. Það gera það ekki aðrir. Það ræður ekki úrslitum hvort ÁTVR hefur einkasöluna á hendi eða hvort matvöruverslanir fá heimild til að selja áfengi.    

sunnudagur, 11. október 2015

Eitt lítið "halló" í stað fyrirgefningar

Í gærkvöldi hlustaði ég á samtal tveggja bræðra, 8 ára og 2 ára. Eldri bróðirinn var ósáttur við þann yngri sem hafði komist í liti og krassað í bók sem hann átti. Það gékk á ýmsu og sá yngri skyldi ekki það tilfinnanlega tjón, sem hann hafði valdið bróður sínum. Eftri nokkrar umræður og örvæntingu á báða bóga segir sá eldri: Þú skemmdir bókina, segðu fyrirgefðu. Sá yngri horfði á stóra bróðir og sagði, Nei! Ekkil líkaði eldri bróðurnum svarið og endurtók ásökun og afsökunarkröfu. Þá kom NEI/JÁ! Ekki líkaði svarið og aftur reyndi sá yngri og sagði, JÁ en nú á vitlausum stað. Nú voru góð ráð dýr fyrir þann litla og hann greip til þess orðs sem hafði hjálpað honum að bræða fólk áður og sagði hátt og snjallt, HALLÓ. Það var látið duga þar til hann verður kominn á þann stað í lífinu að vita í hverju fyrirgefningin fellst

fimmtudagur, 24. september 2015

..að gera garðinn frægan

Fjölskylda okkar hefur átt fleiri afreksmenn í knattspyrnu en Jón Hjört Finnbjarnarson afa sbr. mynd hér að neðan af honum með Vestfjarðameistaraliðinu Vestra árið 1932. Ég fann þessa mynd af meistaraflokki Vals 1961, en þar má finna föðurbróðir minn Matthías Hjartarson sem spilaði lengi með Val. Þær eru eftirminnilegar stundirnar sem maður fór á Melavöllinn eða Laugardagsvöllinn til að sjá Matta frænda spila. Nú eða þegar ég fór með pabba upp á Akranes til að horfa á Val spila við ÍA. Það varð inngreipt í barnsminnið tuddaskapurinn í Skagamönnum. Matthías var afburðamaður í knattspyrnu. Bjó yfir mikilli boltatækni. Lék sér fyrstur íslenskra knattspyrnumanna að því skora mark beint úr horni í leik og gerði það oftar en einu sinni. Hann spilaði aldrei með íslenska landsliðinu, þótt hann væri einn flinkasti knattspyrnumaður okkar á sínum tíma. Það var einhver snúður í samskiptum þar á milli. Matthías var góður frændi í æsku en veikindi hans síðar í lífinu urðu til þess að hann fjarlægðist margt fólkið sitt og vini, þar á meðal mig. Um hann má segja að það er sitt hvað gæfa eða gjörvileiki. Skapferli hans var erfitt og á einhverju stigi fór hann yfir á annað svið. Hann varð meira og minna einfari í lífinu og umgengni hans við annað fólk var takmörkuð. Nú þegar talað er mikið um einelti minnist ég þess að hann sagði mér að hann hefði verið lagður í einelti í Verzlunarskóla Íslands af skólasystur sem bjó við betri efni. Hún lét dreifibréf ganga um bekkinn þar sem hún bauð bekknum í partý heim til sín, öllum nema honum. Hann sá þetta bréf og það fékk mikið á hann. Síðar í lífinu var honum sérstaklega illa við þá sem stóðu fyrir borgaralegum gildum. Þessi saga hefur verið mér ákveðið veganesti í lífinu og sýnir manni hvernig einelti getur haft ólíkustu birtingarmyndir. (Matthías Hjartarson 5.8.1939 - 23.12.2012)

sunnudagur, 23. ágúst 2015

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Sumarið 1979 vann ég í afleysingum við heimilshjálp í Mölndal. Eitt af verkefnum mínum var að snúa manni kvölds og morgna í rúminu. Hann var lamaður og hafði fengið slæm legusár. Hann var rúmlega 60 ára gamall þegar eitthvað óskilgreint varð þess valdandi að hann lamaðist allur fyrirvaralaust heima fyrir framan sjónvarpið. Hann átti hauk í horni sem var eiginkona hans sem var vakin og sofin yfir velferð mannsins. Í ljósi þess að ég var að hætta hafði hún rætt við félagsþjónustuna um hvaða þjónustu hún fengi í framhaldi. Eitthvað varð henni sundurorða við fulltrúann sem klykkti út með að það væri erfitt að útvega þeim aðstoð vegna þess að hún væri svo erfið. Svo sagði fulltrúinn að meira að segja Sveinn vildi ekki vera lengur hjá þeim. Auðvitað hringdi konan strax í mig á eftir og spurði beint hvort þetta væri satt. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér þótti þetta miður því við vorum í ágætis tengslum. Hvers vegna fulltrúinn bar mig fyrir þessu er mér enn í dag hulin ráðgáta og þótti þetta ekki fagmannlegt hvorki þá né nú. Því rifja ég þetta upp til minna okkur á hvað maður getur fyrirvaralaust orðið með öllu ósjálfbjarga í þessu lífi og upp á aðra kominn með astoð.Jafnframt að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

þriðjudagur, 18. ágúst 2015

Taka notað í „fóstur.“



Við lifum á tímum stórmarkaðsvæðingar í húsgögnum og húsbúnaði eða eigum við að kalla það frekar IKEA væðingu heimilishaldsins? Í öllu falli hefur þessi þróun leitt til þess að fólk getur keypt ALLT til heimilishalds nú á dögum á sama stað, í sama stíl og líka á mjög hagstæðu verði. 
Þessi þróun leiðir til mikillar einsleitni og stöðlunar á heimilum. Breytingin virðist leiða til þess að fjöldi fólks hendir gömlum húsgögnum í stórum stíl. Um þetta vitnar m.a. Góði hirðirinn, Bland og svo Facebook síður. Hætt er við að mikil menningarverðmæti í gömlum húsgögnum og munum fari forgörðum.
Í ljósi framansagðs hefur það vakið vaxandi athygli sú vaxandi viðleitni fólks að gefa heimilinu karakter með því að kaupa gömul notuð húsgögn til þess að blanda saman við fjöldaframleiðsluna eða taka í „fóstur“ gamalt af þessum síðum.
Svipað fordæmi er þekkt úr öðrum greinum t.d. þegar plastbátavæðingin hófst og gömlu eikarbátarnir voru að detta úr rekstri. Þá fóru margir eikarbátar á brennu eða voru seldir til útlanda þar sem var fólk sem vildi varðveita þessa báta. Sem betur fer náðist að bjarga nokkrum eikarbátum frá því að vera eytt. Við njótum nú þessa björgunarstarfs með því að njóta þeirra í nýjum hlutverkum eins og hvalaskoðun. Nú við getum tekið gömlu Torfuna í Reykjavík og hvernig tókst fyrir árvekni fólks að standa vörð um þessa gömlu götumynd í borginni.
Sama vakning virðist vera varðandi eldri húsgögn, sem mörg hver eru smíðuð hér á landi. Vaxandi áhugi virðist vera fyrir því að taka í „fóstur“ gömul húsgögn sem fólk vill losna við. Nýleg stílista- og heimilissíða,http://stellavestmann.wix.com/stellar er til marks um þennan vaxandi áhuga. Þar er sagt frá því hvernig gömul húsgögn fá nýtt hlutverk við nýjar aðstæður á skemmtilegan hátt eftir að búið er að fara um þau mjúkum höndum og fríska upp á þær. Gömlu húsgögnin fá nýtt hlutverk og gefa í leiðinni heimilinu að hluta til a.m.k. íslenskan karakter. Auk þess sem þetta er oft á tíðum verndun á menningarverðmætum.

föstudagur, 7. ágúst 2015

No sir to you...

Gísli Jón Hermannsson útgerðarmaður Ögurvíkur hf var þekktur fyrir góðan raddstyrk og gott orðfæri.  Þegar honum var mikið niðri fyrir var í raun óþarfi að ræða saman í síma. Nóg hefði verið að opna gluggana á skrifstofunni í Tryggvagötunni til að fá skilboð hans frá Týrsgötunni. Enginn hafði hinsvegar áhuga á því að allur miðbærinn hlustaði á samtalið.

Jantzen framkvæmdastóri fiskmarkaðarins í Bremerhaven sagði mér fyrir margt löngu þessa sögu af samskiptum við sínum Gísla Jón vegna sölu á fiskmarkaðnum þar, eftir að afar lágt verð fékkst eftir uppboð.

Jantzen markaðsstjóri vissi að hann fengi símtal og orð í eyra frá Gísla Jóni og beið spenntur og hugleiddi hvernig hann ætti að bregðast við skömmum hans. Hann ákvað að vera eins kurteis og formlegur og honum var frekast unnt.

Þegar Gísli Jón hringir er honum heitt í hamsi og fer mikinn. Jantzen nær að koma inn orði og orði til þess að útskýra stöðuna á markaðnum og byrjar hverja setningu á því að ávarpa Gísla Jón með „sir“. Þegar hann er búinn að segja þetta tvisvar þrisvar sinnum þagnar Gísli Jón skyndilega og segir svo: „I am no „sir“ to you. I wan´t my money back!!“ Þar með lauk samtalinu jafn skyndilega og það hafði byrjað. 

föstudagur, 31. júlí 2015

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum



Þetta er helgin sem hugurinn dvelur við útihátíðir sem maður sótti hér áður fyrr. Einu sinni fór ég á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þetta hefur verið árið 1969. Ég var 16 ára þetta sumar. Fór með flugi til Eyja með nýtt tjald sem ég hafði keypt fyrir sumarhýruna. Þetta var einu orði sagt skelfileg reynsla, hávaða rok og grenjandi rigning. Ég fékk inni í heimahúsi síðari nóttina hjá henni Stínu frænku hans Árna Árnasonar en við erum systrasynir og jafn gamlir. Annars var fólki smalað í verbúðir niður í bæ sem ekki hafði svona aðstöðu. Ég man að nýja tjaldið mitt var mjög illa farið eftir þessa ferð, nánast ónýtt. Þjóðhátíðarlagið þetta ár heitir Draumablóm Þjóðhátíðar og byrjar svona:
"Ég bíð þér að ganga í drauminn minn
og dansa með mér í nótt
um undraheima í hamrasal
og hamingjan vaggar þér ótt."
Texti Árni Johnsen
Ekkert var nú dansað mikið í þessu óveðri og einhverjar skvísur sá maður sem sýndu gestinum lítinn sem engan áhuga. Eitthvað þvældist maður milli hústjalda og hlustaði á tjaldbúa skemmta sér. Ég lenti hinsvegar í sjómanni við einhvern dela þarna sem ætlaði aldrei að sleppa mér. Átti ekki roð í hann enda hann nokkrum árum eldri. Ég vissi ekki þá sem betur fer að ég ætti eftir að vinna við það í 30 ár að vera í stöðugum átökum við sjómenn um fiskverð og kjaramál. Þetta er líklega í fyrsta skipti af mjög mörgum sem ég flaug með Fokker út í Eyjar en það var líklega gömul DC 3 sem ég flug með heim. Aldrei hefur mig langað aftur á útihátíð í Eyjum, þótt síðar ætti ég eftir að kynnast fjölmörgum frá Vestmannaeyjum, meira að segja sjálfum textahöfundinum Árna Johnsen. Þeir Eyjamenn sem ég hef kynnst eru upp til hópa mikið sómafólk. Léttir og skemmtilegir en samt býr alvaran alltaf á bakvið, þéttir á velli og þéttir í lund mundi einhver segja. Góða skemmtun þið sem farið.

sunnudagur, 26. júlí 2015

Sæból í Aðalvík.

Þetta er Sæból í Aðalvík, mynd sem systir mín færði mér í dag. Þarna liggja rætur okkar að hluta. Forfeður mínir áttu þessa jörð. Langafi minn Finnbjörn Hermannsson erfði hluta af jörðinni en seldi bróður sínum Guðmundi Hermannssyni sinn hluta árið 1943 fyrir 200 kr. Faðir minn hafði upplýst mig um þetta á árum áður, en fyrir forvitnissakir fórum við Valdimar Gunnar og skoðuðum gögn málsins hjá Sýslumanni á Ísafirði í síðustu viku þegar við áttum þar nokkra góða daga. Það er skemmtileg tilviljun að í sömu viku eftir heimsóknina til sýslumanns hringir Þórunn systir mín í mig og segist hafa fundið mynd af gamla Sæbóli á markaði og keypt hana handa mér. Hún hafði ekki hugmynd um að ég hafði verið í þessu grúski. Allavega á ég nú mitt Sæból, þótt það sé í formi þessarar fallegu ljósmyndar. Undir myndinni stendur 1981 og nafn langafabróður míns Jóns Hermannssonar og svo að sjálfsögðu nafnið á bænum. Jón Hermannsson var síðasti ábúandi á jörðinni. Langafi minn var elstur 10 systkina og bjó hann ásamt langömmu Elísabetu Guðný Jóelsdóttur á Skipagötu 7 Ísafirði. Hann vann lengi hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði og um tíma sem verslunarstjóri á Hesteyri hjá hinu Sameinaða íslenska verslunarfélagi.

laugardagur, 11. júlí 2015

Bolzano

Þá erum við kominn heim eftir nær þriggja vikna frí í útlöndum frá 22.6. til 10. 7. Tíminn hefur liðið hratt sem er auðvitað til marks um það hve gaman hefur verið. Við vorum í þremur löndum í þetta skipti: Svíþjóð, Danmörku og Ítalíu. Hæst ber að sjálfsögðu ferðin til Ítalíu eða öllu heldur til Bolzano og Suður Týról. Ferðin þangað opnaði okkur nýja áður óþekkta veröld með einhverri nýrri upplifun á hverjum degi. Það eru auðvitað mikil forréttindi að geta búið í 101 (miðbæ) Bolzano, á besta stað og haft einkaleiðsögumann með góða þekkingu á svæðinu. Við þökkum Baldri Braga enn og aftur fyrir móttökurnar. Eftirminnilegast frá Ítalíu er heimsókn í Ötzi safnið til að skoða Ísmanninn, 5000 ára gamlar vel varðveittar líkamsleifar, sem segja heilmikið um mannlíf á þessum tíma. Skoðunarferð upp í fjöllin til að sjá Dólómítana.  Við áttum líka mjög góða daga í Svíþjóð. Fengum góða gesti og fórum víða um m.a. til Kaupmannahafnar og heimsóttum Elísabetu föðursystur mína. Síðast en ekki síst er alltaf gott að koma heim aftur.

sunnudagur, 21. júní 2015

Meðallandsganga 2015

Í gær laugardaginn 20. júní 2015 gékk ég frá Botnum í Meðallandi í átt að Flótum í sömu sveit ásamt göngufélögum í gönguhópnum Skálm.. Leiðin liggur meðfram hraunjaðri Skaftáreldahrauns og um ægifagurt vatnasvæði Mávavatna og svo Eldvatns. Þetta er ganga á jafnsléttu alls um 16 km löng og tók okkur um fimm tíma að ljúka göngunni. Víðátta er gríðarleg í Meðallandi og í góðri birtu er mikil fjallasýn. Tigarlegast í góðri veðri er tveggja jökla sýni, þegar sér til Mýrdaljökuls í vestri og Öræfajökuls í austri. Gróður er mikill á svæðinu en þarna var áður mikið sandfok.

föstudagur, 19. júní 2015

19. júní dagur kvennréttinda

Sigrún Huld ver mastersritgerð sína í lýðheilsufræðum við Lundarháskóla
Til hamingju með daginn konur!

Ég man vel eftir þeirri miklu breytingu þegar konur fóru í stór auknum mæli út á vinnumarkaðinn á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt heimildum HÍ ríflega tvöfaldaðist atvinnuþátttakan á þessu tímabili. Fór úr 30 til 35% í 75 til 80%. OECD segir að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi sé nú 79,6% og er hæst meðal aðildarríkjanna. Þetta má lesa í Viðskiptablaðinu í dag.

Persónulega minnist ég umræðunnar á heimili foreldra minna. Móðir mín var húsmóðir frá því foreldrar mínir hófu sambúð og þar til við systkinin vorum vaxinn úr grasi. Umræðan snérist m.a. um stolt "fyrirvinnunar," eins og karlmenn voru stundum kallaðir og í að að finna starf við hæfi. Mamma hóf svo fulla atvinnuþátttöku á vinnumarkaði árið 1979 og átti eftir að sinna ábyrgðarmiklu starfi í félagsmálaráðuneytinu og á Vinnumálastofnun. Faðir minn, sem áður hafði starfað á karlavinnustöðum, átti eftir að upplifa það að vera einn fjögurra karlmanna á vinnustað, þar sem tugir kvenna störfuðu og margar í yfirmannastöðum.

Tengdamóðir mín  var á vinnumarkaði alla sína tíð eftir að menntaskóla lauk. Hún vann  við erlend viðskipti í banka, þar sem krafist var mikillar málakunnáttu og færni. Auk þess lóðsaði hún Þjóðverja um Ísland í mörg sumur. Hún var óvenju hæfileikarík kona, en þurfti að búa við það að karlarnir í bankanum kepptust við að skreyta sig með fínum titlum og hækka við sig kaupið. Hún fékk fáa titla og mun lægra kaup fyrir sömu eða sambærilega vinnu.

Á menntaskólaárum mínum Menntaskólanum í Reykjavík er eftirminnileg umræða um kvennréttindi. Þá kom rauðsokkuhreyfingin fyrst fram. Við strákarnir fórum ekkert varhluta af þessari umræðu og tókum virkan þátt í henni. Ég hef alltaf verið stoltur af því að hafa kosið fyrstu konuna í embætti Inspector scholae í MR, Sigrúnu Pálsdóttur.

Á háskólaárunum í Gautaborg þótti það í anda jafnréttis ekkert tiltöku mál að konur og karlar væru á sama tíma í gufubaðstofunni á stúdentagarðinum. Nema í þetta eina skipti sem tugur íslenskra kvenna ætlaði í gufubað á sama tíma og ég var þar staddur og sáu buxurnar mínar úr Karnabæ hangandi. Þær hættu allar við hið snarasta.

Þegar amma mín, þá 74 ára, sagðist ætla að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur forseta mátti öllum í fjölskyldunni vera ljóst að tímarnir voru breyttir. Hún blés á þann áróður að þarna væri kona og þar að auki einstæð kona að bjóða sig fram.  Ég kaus að vísu Guðlaug Þorvaldsson en það er önnur saga.

Þetta eru svona nokkur minningarbrot um stöðu kvenna á liðnum árum. Það er augljóst að við þurfum að vera meðvituð um jafnréttisbaráttuna og við þurfum líka að útvíkka þessa umræðu í samfélaginu, því öll erum við menn. Aukin tækifæri og jafnrétti skapa aukinn verðmæti í mannauði sem er ónýttur.

Þrátt fyrir að á Íslandi sé töluverður efna munur á þeim sem hafa og hafa ekki getum við þó glaðst yfir því að munurinn hér á landi er minni í samanburði við nálæg lönd. Þessu þarf að viðhalda eftir því sem tök eru á í okkar samfélagi.

Enn og aftur til hamingju með daginn.



sunnudagur, 14. júní 2015

Rafstöðvarvandræði

Við Valdimar að eiga við rafstöðina
Við fórum austur í Skaftártungu um helgina með rafstöðina sem við keyptum og ætluðum að nota til að knýja áfram sög og fleiri verkfæri til að gera við sumarhúsið. Það var sama hvað við reyndum, rafstöðin neitaði að fara í gang. Við töldum auðvitað fyrst að við hefðum keypt köttinn í sekknum, þótt hún væri aðeins ársgömul.

Fyrir hádegi á laugardaginn fórum við Valdimar austur á Klaustur í leit að kunnáttumönnum. Fyrst fórum við á bensínsöluna. Þeir höfðu engin ráð en bentu okkur á bifreiðaverkstæðið væri opið. Við fórum þangað en verkstæðisformaðurinn vildi lítið við okkur tala og sagði okkur þó að skipta um bensín það væri örugglega ónýtt. Aftur var farið á bensínsöluna og nú var okkur hjálpað við að skipta um bensín. Við settum á nýtt bensín en ekki fór gripurinn í gang. Á bensínstöðinni hittum við Pál á Fossi á Síðu, sem við áttum skemmtilegt samtal við og ráðlagði hann okkur að tala við Jón á Fossi á Síðu. Hann vissi allt um rafstöðvar. Við fórum þangað en Jón sagðist hættur svona stússi en hjálpaði okkur að athuga kertisbúnaðinn sem reyndist vera í góðu lagi.

Næst var farið á Klaustur og snudduðum við aðeins í kringum verkstæðið í von um góð ráð, en fengum flóknar leiðbeiningar sem ég sagðist ekki getað lesið öðruvísi en að við ættu að hipja okkur með gripinn í bæinn. Verkstæðisformaðurinn kom aftur á staðinn en hann hafði brugðið sér frá. Nú vildi hann enn minna við okkur tala. Nánast skellti á okkur hurðinni. Við náðum þó að segja honum að ráð hans hefði ekki dugað. Þá spurði hann okkur hvort við hefðum hreinsað blöndunginn um leið og hann lokaði á okkur dyrunum.

Nú voru góð ráð dýr. Við snérum við og vorum svolítið daufir í dálkinn. Þegar við keyrðum framhjá Ásum sáum við kvikan mann á ferð og reyndist þetta vera Ármann Daði yngsti sonur Dóra í Ásum. Við ákváðum að taka hann tali. Þar kom að við sögðum honum frá vandræðum okkar. Hann bauðst til að kíkja á vélina en jafnframt bauð hann okkur að láni rafstöð til þess að nota í millitíðinni. Það lifnaði heldur betur yfir okkur feðgum. Ármann Daði kom með okkur í bústaðinn með rafstöð og við gátum klárað verkið og vorum hinir ánægðustu.

Í morgun sunnudag kemur svo Ármann Daði til okkur með okkar rafstöð og var búinn að finna út úr því hvað var þess valdandi að hún hafði ekki startað. Sagði að það hefði tekið sig tíu mínútur! Nú getum við horft til framtíðar með rafstöðina okkar til staðar í sumarhúsinu sem hefur alla tíð verið án rafmagns. Við sáum fyrir okkur bíslagið, rafljósin, helluborðið og rafmagnsofninn sem við ætlum að tengja við þessa rafstöð í framtíðinni.

miðvikudagur, 10. júní 2015

Fjármagnshöftum aflétt í kjölfar herðingar

Það var mikill léttir í því að hlusta á sérstakan fund Alþingis um helgina, sem var saman komið á sérstökum fundi til þess að herða lög um fjármagnsflutninga. Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir flótta fjármagns í aðdraganda þess að fyrir liggur að stjórnvöld hafa komist að niðurstöðu um hvernig fjármagnshöftum verður aflétt.

Náðst hefur samkomulag við kröfuhafa um hvernig skuli fara með það fé föllnu bankanna og "snjóhengjuna svokölluðu," sem bundin hefur verið í hagkerfinu. Leiðin sem farin er byggist á að stöðugleika sé viðhaldið og stöðugleikaskattur lagður á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja nema til komið samkomulag um annað.

"Þegar fjár­magns­höft hafa verið við lýði í svo lang­an tíma, og þegar á bak við höft­in hef­ur safn­ast upp fjár­hæð sem nem­ur 70% af vergri lands­fram­leiðslu lands­ins, hlýt­ur los­un hafta að vera erfitt og vanda­samt verk,“ segir ráðgjafi stjórnvalda, Buchheit í viðtali við Mbl í dag og bend­ir á að fram­kvæmda­hóp­ur um af­nám hafta og Seðlabanki Íslands hafi borið hit­ann og þung­ann af grein­ing­ar­vinnu sem var notuð við samn­ings­gerðina.

Það er ástæða til þess að óska ríkisstjórn og Alþingi og öllum þeim sem hafa komið að þessu máli til hamingju með þessa niðurstöðu. Það vekur manni vonir um að við Íslendingar getum staðið saman sem einn maður þegar mikilvægir hagsmunir okkar eru í húfi. Eins og málinu hefur verið lýst þá munu vaxtagreiðslur ríkissjóðs minnka um tugi milljarða króna á ári, nefnt hefur verið 30 milljarðar króna.

Samkvæmt yfirliti forsætisráðuneytisins er heildarumfang þeirrar fjárhæðar sem tekið er á í aðgerðaráætlun stjórnvalda um 1.200 milljörðum króna. Eignirnar felast í krónueignum slitabúa fallinna fjármálastofnana að fjárhæð 500 milljarða króna, kröfum slitabúanna í erlendri mynt gagnvart innlendum aðilum að fjárhæð 400 milljarða króna og aflandskrónum í eigu erlendra aðila að fjárhæð 300 milljarðar króna.

Með afnámsáætlun stjórnvalda er komið í veg fyrir að þessar eignir flæði inn á gjaldeyrismarkað og hafi þannig neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins.
Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti geti orðið 682 milljarðar króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar, en skattupphæð án frádráttar nemur tæpum 850 milljörðum króna.

Stöðugleikaskilyrðin leysa vandann með áþekku umfangi og stöðugleikaskattur en samkvæmt annarri aðferðafræði og nálgun segir í yfirliti ráðuneytisins.

sunnudagur, 7. júní 2015

Á sjómannadaginn 2015

Til hamingju með daginn allir sjómenn þessa lands. Við eigum afkomu okkar að stórum hluta undir sjósókn og því verðmæti sem fæst fyrir aflann á erlendum fiskmörkuðum. Það er vel við hæfi að gera sér dagamun í tilefni þessa. Mikið hefur áunnist í sjávarútvegi undanfarna áratugi. Þess sér stað í þeirri miklu grósku sem hefur verið í greininni. Löngu tímabær endurnýjun í fiskiskipaflotanum stendur nú yfir. Á þessum tímapunkti er ánægjulegt að minnast þess að samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hefur enginn sjómaður farist við skyldustörf síðastliðinn þrjú ár. Þetta er áfangi sem vert er að minnast og gleðjast yfir. Í Sjóminnjasafninu við Grandagarð má sjá lista milli fyrstu og annarrar hæðar yfir sjómenn sem farist hafa við skyldustörf. Hann er langur og lætur engan ósnortinn.

föstudagur, 15. maí 2015

Hvað er list?

Hvað er list? Einn leiðinda vetrardag fyrir rúmum 40 árum tóku nokkrir skólapiltar sig til og settu snjókúlu ofan á flúrosentlampa til þess að sjá viðbrögð kennarans þegar snjórinn byrjaði að bráðna. Það stóð ekki á þeim. Hann kipptist við í hvert skipti sem dropi datt á höfuð hans. Þetta endaði svo á því að nokkrir bættu um betur og hentu litlum sígarettu púðurkerlingum að honum. Aumingjans maðurinn sem var að auki spastískur "dansaði" fyrir framan töfluna þar til hann áttaði sig og rauk á dyr. Var þetta listagjörningur? Varla, en við þjónuðum lund okkar. Hann kom ekki meira þann veturinn. Í næsta tíma kom Guðni Guðmundsson rektor MR í heimsókn. Hann heilsaði okkur skólapiltum með eftirfarandi ávarpi: "Ég hef lengi ætlað að koma hingað til þess að sjá öll þau fífl sem hér eru saman komin."
Síðan hófst lesturinn og hann var langur og strangur. Eftir situr að við brutum á kennaranum og höfum líklega flestir borið þessa skömm síðan. Ég er viss um að við hefðum líklega allir verið reknir úr skóla ef ekki hefði verið fyrir umsjónakennarann okkar. Þessi minning kom upp í hugann þegar ég heyrði mann sem nefnist Goddur lýsa því yfir að mosku framlag Íslendinga í Feneyjum væri verðugt framlag okkar á þessari listasýningu. Nú leikur mér forvitni á að vita hver ber ábyrgð á þessu Feneyjarmáli?

fimmtudagur, 14. maí 2015

Andi lífsins

Þykkvabæjarklausturskirkja. Langt nafn á lítilli kirkju. Fyrir 25 árum í dag uppstigningardag fórum við Sirrý með pabba og mömmu að skoða kirkjurnar þrjár í Ásasókn. Hinar voru Gröf í Skaftártungu og Langholt í Meðallandi.Pabbi hafði sótt um stöðu sóknarprests. Þetta var fyrsta kirkjan sem við komum að. Þegar við gengum inn í kirkjuna var það fyrsta sem mætti okkur eitt blað á orgelinu með sálmi eftir afa Sirrýjar, Valdimar Jónsson skólastjóra í Vík í Mýrdal og bónda á Hemru. Sálmurinn heitir "Andi lífsins." Þetta hafði mikil áhrif á okkur fjögur. Fyrir einskæra tilviljun vorum við Sirrý stödd við kirkjuna í dag. Veður var að vísu ekki jafn fallegt og daginn góða fyrir 25 árum. En almættið var heldur ekki að munstra nýjan liðsmann í sveitina eins og þá. Hér á eftir má lesa ljóð Valdimars. Lag við þetta ljóð hefur gert Sigurjón Hannesson.

miðvikudagur, 13. maí 2015

Eins og mynd í sandi

Hugleikin er sandmyndin sem búddamunkarnir frá Tibet teikna af mikilli natni í öllum regnbogans litum. Þegar verkinu er lokið sópa þeir sandinum saman og á næstu hátíð er teiknuð ný mynd og hún hlýtur sömu örlög. Man þegar ég sá þetta í fyrsta sinn og þótti þetta miður að eyðileggja svona fallegt verk. Auðvitað hefur þessi mynd og svo eyðing hennar ákveðinn tilgang. Ekkert mannanna verk varir að eilífu. Allt er í heiminum hverfult og svo framvegis.
Þessi minnig rifjaðist upp eftir frábæra tónleika Söngfélags Skaftfellinga um síðustu helgi. Við söngfélagarnir æfðum fjölda laga í allan vetur til þess að syngja á vortónleikum okkar. Þar með er lokamarkmiðinu náð. Eftir tónleikana lifir minningin ein og við bíðum þess að geta hafið æfingu á nýju lagavali næsta haust til þess að flytja á enn nýjum tónleikum. Tilgangurinn er að geta sungið fallegt ljóð og nært fegurðina eitt augnablik og veitt hana öðrum. 
Við eigum stundina, er viðkvæði sem við erum reglulega minnt á. Við höldum áfram okkar daglega lífi og á vegferð okkar verður fólk sem við eigum samleið með um lengri eða skemmri veg. Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu. Svo aftur sé leitað í skjóðu Dalai Lama er hann einfaldlega að vera hamingjusamur. 
Hamingjan er hugarástand sem hver og einn verður að skilgreina fyrir sig. Hún er ekki ákveðin formúla eða skyndibiti. Hver og einn verður að öðlast hana eftir eigin forskrift og vinna að því að öðlast hana. Þetta eru nú sérdeilis hreinskiptin skilaboð og ekki víst að öllum líki. Samt erum við öll hugsandi verur að feta okkur fram í lífinu og spyrjandi þessara grundvallar spurninga um lífið og tilveruna, eins og þessarar.
 Sumir segja að lífið sé frá upphafi til enda háð eintómum tilviljunum. Aðrir telja að lífshlaupinu sé meira og minna stýrt. Hvað er rétt í þessum efnum? Ég veit það ekki, en við eigum væntnlega öll sameiginlegan þennan  efa um tilgang lífsins og tilveruna. Sagði ekki Kristur sjálfur á krossinum:  "Elí, Elí, lama sabaktaní!" Það þýðir: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?" Þess vegna verðum við að trúa því okkur er ekki gefin vissan. Þetta átti nú aðeins að vera örstutt hugvekja um gildi söngsins en varð óvart hugvekja um tilgang lífsins enda uppstigningardagur á morgun. Það er gott að vita til þess að vakað er yfir okkur á himnum. Góða helgi.

þriðjudagur, 12. maí 2015

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga

Þetta voru frábærir vortónleikar hjá okkur í Söngfélagi Skaftfellinga um síðustu helgi. Allt gékk upp söngur, undirleikur, stjórn og aðsókn. Þetta er búin að vera viðburðarríkur vetur. Ísafjarðarförin og tónleikar á Ísafirði. Söngur í Breiðholtskirkju í tilefni Skaftfellingadagsins. Sungið á sjúkrastofnunum á aðventunni og aðventuhátíð Skaftfellingafélagsins og fleira. Virkir félagar i vetur hafa verið 44 og að jafnaði hafa verið 30 manns á æfingum, sem eru á þriðjudagskvöldum í Skaftfellingabúð kl. 20.00. Nýir félagar eru að sjálfsögðu velkomnir. Stjórnandi kórsins er Friðrik Vignir Stefánsson kantor.

miðvikudagur, 6. maí 2015

Söngfélag Skaftfellinga til Ísafjarðar.

Helgina 1. til 3. maí fór Söngfélag Skaftfellinga í vorferð til Ísafjarðar. Haldnir voru tónleikar í Ísafjarðakirkju 2. maí. Undirleikari var Pálmi Sigurhjartarson og stjórnandi var Friðrik Vignir Stefánsson. Gist var að Hótel Núpi í Dýrafirði. Farið var í heimsókn í Hraðfrystihús Gunnvör hf í Hnífsdal. Þar tók á móti okkur forstjóri fyrirtækisins, Einar Valur Kristjánsson og fræddi okkur um sjávarútveginn, fyrirtækið og nýtt skip Pál Pálsson ÍS sem kemur í rekstur á næsta ári. Keyrt var um Súðavík, Ísafjörð, Bolungarvík og Flateyri.  

föstudagur, 24. apríl 2015

Sunnukórinn á Ísafirði - Reykjavíkurför



Fyrir 70 árum eða árið 1945 kom Sunnukórinn á Ísafirði í söngferð til Reykjavíkur. Í minni fjölskyldu hefur þessi atburður verið í minnum hafður vegna þess að í þessari söngför tóku þátt bæði afi minn Jón Hjörtur Finnbjörnsson og systir hans Magrét Finnbjörnsdóttir. Þetta þótti hin mesta frægðarför á Ísafirði. Í Reykjavík var tekið á móti þeim við skipshlið af Dómkórnum og sungust kórarnir á þegar komið var til hafnar. Þrír tónleikar voru haldnir í Reykjavík í Gamla bíó við góðar undirtektir. Síðan var sungið í Hafnarfirði, Vífilsstöðum og á Selfossi. Þá var sungið inn á plötu fyrir Ríkisútvarpið. Nú er komið að því að endurgjalda þessa heimsókn með för Söngfélags Skaftfellinga til Ísafjarðar um mánaðarmótin. Allavega verður í hópnum afkomandi Jóns Hjartar sem er með þessa minningu í fartaskinu og hefur það að leiðarljósi að heiðra minningu afa síns með því að taka þátt í þessari söngferð. Margrét er önnur til vinstri í fremstu röð og afi annar frá vinstri í öftustu röð.

Vorferð Söngfélags Skaftfellinga til Ísafjarðar 1.til 3. maí 2015



Plakatið skýrir sig sjálft en ef einhverjir sem koma inn á þessa síðu verða á Ísafirði 2. maí eruð þið velkomin á þessa vortónleika Söngfélagsins í Ísafjarðarkirkju.

föstudagur, 17. apríl 2015

"Markaðir fylgjast með ykkur"

Göran Persson fyrrverrandi forsætisráðherra Svía og núna fyrirlesari og bóndi var gestur á aðalfundi SA í dag. Hann hældi okkur fyrir það sem áunnist hefur frá bankahruni en hvatti okkur til þess að fara varlega og vera á verði. Hættan væri sú að "markaðir," væntanlega fjármálamarkaðir mundu fylgjast náið með okkur og nýta sér það ef við erum ekki á verði. Hann sagði að við værum rík, ung þjóð með miklar auðlindir og með framtíðaráform sem fylgir ungu fólki. Hann varaði okkur við og sagði að erfiðleikarnir væru ekki yfirstignir. Við ættum eftir að vinna úr erfiðum málum í uppgjöri hrunsins og við ættum eftir að gera breytingar sem koma í veg fyrir að þetta geti gerst aftur. Vitnaði í því sambandi í reynslu Svía frá 10. áratug síðustu aldar. Sænskir stjórnmálamenn ákváðu að hætta að lofa fólki úrræðum án þess að segja hvaðan tekjurnar kæmu. Hann var ekkert að selja okkur evruna eða ESB aðild en nefndi að Þjóðverjar, Frakkar og fleiri Evrópuríki sem hann kallaði "gráhærðu" ríkin vegna þess hve aldursamsetning þjóðanna er óhagstæð ættu í miklum vandræðum. Þetta má túlka þannig að við eigum ekki samleið með þessum þjóðum sem ráða í ESB. Þá gerði hann að umtalsefni deilur þar sem ríki Evrópu væru að deila um óuppgerð mál eftir síðustu heimstyrjöld en Grikkir telja að Þjóðverjar skuldi þeim miklar fjárhæðir vegna síðari heimstyrjaldarinnar. Samandregið má segja að þetta hafi vel einnar messu virði hjá karli.



fimmtudagur, 9. apríl 2015

Saga af sjóveiki

 Það var um borð í Herjólfi til Vestmannaeyja fyrir nokkrum árum að ég fékk síðast sjóveiki. Við ætluðum að skjótast með ferjunni frá Landeyjarhöfn en Herjólfur gat ekki athafnað sig þar, þannig að við urðum að fara til Þorlákshafnar. Veður fór ört versnandi og ferðafélagi minn vissi af sjóveiki minni og af hreinni umhyggju keypti hann kojupláss fyrir mig. En það dugði ekki til. Þegar skipið er komið út fyrir hafnarkjaftinn varð ég veikur. Til að gera langa sögu stutta þá ældi ég eins og múkki alla leiðina til Eyja. Þegar komið var í land fór ég að lagast en ég var grár á litinn og með glóðaraugu á báðum augum eftir að kúgast við uppköstin. Mönnum leist satt best að segja ekkert á mig í Eyjum. Þegar ég hitti formann Útvegsbændafélagsins sagðist hann aldrei hafa séð nokkurn mann svona útlítandi eftir sjóferð með Herjólfi og spurði hvort það gæti verið að ég hefði fengið fyrir hjartað. Hann trúði ekki eigin augum. Nú ég lagðist fyrir og var tiltölulega fljótur að ná mér þótt ég væri með glóðaraugu og ælubrennd raddbönd. Næst þegar ég hitti formanninn á fundi í Reykjavík sagði hann mér að þeir hefðu rætt þessa sjóveiki mína í Útvegsbændafélaginu og væru helst á því að kalla þessa veiki mína "Hjartar-veiki" í ljósi þess að þeir hefðu aldrei kynnst öðru eins afbriðgi af sjóveiki.Þá voru þeir að hugsa til þess að sjúkdómar eru kenndir við lækna sem fyrstir greina sjúkdóma. En þeir voru á því að nefna sjúkdóminn eftir sjúklingnum í þetta skipti. Það er ekki laust við að þeim hafi þótt þetta svolítið skondið..... ekki mér þá. En ég get brosað núna.

laugardagur, 7. mars 2015

Árni Jóhannsson minning

Var í fallegri jarðarför í dag þar sem kirkjan ómaði öll af söng. Jarðsunginn var Árni Jóhannsson verktaki og söngvari. Árni og pabbi voru góðir vinir og samferðarmenn í lífinu. Söngurinn sameinaði þá og sem ungir menn gerðust þeir félagar í Karlakórnum Fóstbræðrum og voru í honum alla sína tíð. Báðir voru þeir fyrstu tenórar í kórnum. Árni hafði ægifallega rödd og bjarta og fór ekkert milli mála hver var á ferð þegar hann tjáði sig í söng eða tali á mannamótum. Í raun ótrúlega björt rödd í manni sem hafði svo sannarlega vaxtarlag eins og dýpsti bassi. Ég var svo heppinn að fá vinnu tvö sumur í röð hjá Árna sem handlangari við brúarsmíði í Kópavogi sem strákur. Vafalaust fyrir vinskap pabba og Árna.
Sú hugsun sló mig undir þessum mikla söng að nú færi heldur betur að færast fjör í sönginn í himnaríki. Þeir hafa verið að hverfa margir gömlu félagarnir hans pabba í Fóstbræðrum undanfarin misseri og eins víst að þeir munu taka lagið saman við endurfundi. Kórinn er nánast orðinn fullskipaður í himnaríki þeim félögum sem lyftu kórnum í hæstu hæðir á síðari hluta tuttugustu aldar. Við jarðarförina gat presturinn þess að það væri barnabarn Árna sem söng einsöng í Ave María eftir Kaldalóns. Það var líka ánægjulegt að upplifa það að barnabarn pabba söng með Karlakórnum Fóstbræðrum við athöfnina. Þannig heldur lífið áfram kynslóðir fara og kynslóðir koma. Blessuð sé minning Árna Jóhannssonar.

miðvikudagur, 4. mars 2015

Ertu með penna?

Í gær vantaði mig penna á rótarýfundi og spurði sessunaut minn hvort hann gæti lánað mér slíkan. Hann hafði engan penna heldur. Nokkru síðar rekur sessunautur minn upp þennan rokna hlátur og segir að sér hafi dottið í hug skemmtileg minning í tengslum við þetta pennaleysi mitt. Þannig var að hann var ungur maður í vegavinnu norður í landi staddur við fermingarathöfn í kirkjunni á Svalbarði í Þistilfirði. Rétt áður en athöfnin hefst tekur hann eftir því að það er maður sem gengur um kirkjuna með vínflösku í hendinni og hvíslar einhverju að fólki. Þegar nær dregur heyrir hann að maðurinn er að hvísla hvort það sé mögulega með tappatogara á sér. Það hafði sem sé gleymst að hafa með tappatogarann í athöfnina og nú voru góð ráð dýr svo hægt yrði að veita messuvínið í altarisgöngunni. Hver er svo lærdómurinn af þessari sögu? Jú maður gleymir ekki nauðsynlegum verkfærum þegar mikið leggur við. Ég ætlaði að nota pennann til þess að skrá mig í rótarýferð í haust.



 

mánudagur, 16. febrúar 2015

Ungverskur flóttamaður

Heilinn er furðulegt fyrirbæri. Í dag og í gær hefur hugurinn dvalið við minningu um ungverskan flóttamann sem ég vann með fyrir nær 40 árum eitt sumar í Gautaborg.Við unnum við það að hlaða í járnbrautarvagna timburvörum, gluggum og hurðum. Ég var með varan á mér gagnvart honum í fyrstu áður en ég kynntist honum. Líklegast vegna þess að hinir karlarnir í Timber traiding höfðu horn í síðu hans og höfðu varað mig við honum. Hann reyndist við nánari kynni hinn viðkunnarlegasti maður og ég lærði margt af honum þetta sumar. Ástæðan fyrir því að sænsku karlarnir voru að hnýta í hann grunaði mig að hafi verið vegna þess að hann var ekki eins og þeir, slarkarar með margbrotið líf að baki. Í spjalli okkar í hleðslustarfinu uppfræddi hann mig um að maður getur átt gott og viðburðarríkt líf, jafnvel þótt maður vinni einhæf störf. Þá var hann að vísa til margra sænsku karlanna sem unnu þarna og lifðu margir slarksömu lífi. Hann var alltaf snyrtilegur og átti sér fjölmörg áhugamál sem hann trúði mér fyrir: brugg, garðrækt, ferðalög og skak á litlum báti. Hann uppfræddi mig um að bruggáhuginn snéri ekki að því að brugga til þess að drekka. Markmiðið var að ná eins tæru víni og mögulegt er. Gegnsætt kristaltært og bragðgott vín væri það sem væri lokatakmarkið. Ég veit ekkert af hverju ég er að deila þessu með ykkur en á næsta ári eru 60 ár frá uppreisninni í Ungverjalandi. Líf okkar helgast oft af aðstæðum sem við fáum engu ráðið um. Við verðum að fóta okkur við breytilegar aðstæður og gera það besta úr stöðunni hverju sinni.