sunnudagur, 29. ágúst 2010

Út í Eyjum.

Stafkirkjan
Okkur Sirrý var boðið í heimsókn út í Eyjar á föstudaginn. Eftir vinnu keyrðum við austur í Landeyjarhöfn og fengum okkur far með Herjólfi kl. hálf tíu um kvöldið og vorum kominn til Eyja um fjörtíu mínútum síðar. Áttum yndislega stund í Eyjum. Borðuðum góðan mat og fórum í göngutúr og bíltúr víða um Heimaey og fórum svo aftur heim í gærkvöldi. Ferðin upp á land með Herjólfi tók um hálftíma og eftir góða tvo tíma vorum við í kominn í Kópavog. Þetta er gríðarleg samgöngubót við Vestmannaeyjar og lítið mál að skella sér í heimsókn þangað. Við skildum bílinn eftir við Landeyjarhöfn. Farið yfir kostar 1000. kr á mann aðra leið.

sunnudagur, 8. ágúst 2010

Strandarkirkjuganga

Gönguhópurinn 2010 Í gær var gengið á Strandar kirkju með afkomendum Helga Ingvarssonar yfirlæknis á Vífilsstöðum. Hluti hópsins hóf gönguna við Vífilsstaðavatn og gékk því samtals um 36km að Hlíðarvatni. Stærsti hluti hópsins byrjaði gönguna við Bláfjallaveginn en sá áfangi er samtals um 18 km. Gönguveður var gott þrátt fyrir einstaka skúri og tók alls um sjö tíma lengri hlutinn en fjóra til fimm tíma styttri vegalengdin. Að göngunni lokinni var keyrt síðasta spölin að Strandarkirkju þar sem gönguforinginn Helgi Sigurðsson fór yfir annál göngunnar. Afi hans Helgi Ingvarsson stofnaði til þessarar gönguhefðar fyrir um 70 árum. Eftir gönguna var komið saman hér í Brekkutúninu. Kveðja.

sunnudagur, 1. ágúst 2010

Heimsókn að Hnausum

Halla og Sirrý hlýða á Vilhjálm á Hausum Við vorum í Skaftártungu þessa Verslunarmannahelgi eins og svo oft áður. Gestur okkar í gær var Halla Valdimarsdóttir móðursystir Sirrýjar. Við erum örugglega búin að dvelja þarna þessa helgi síðan Z var skrifuð í orðinu verslun. Allavega mun lengur en hætt var að nota þennan staf sem auðkennisstaf fyrir bifreiðar í sýslunni. Að þessu sinni heimsóttum við hann Vilhjálm Eyjólfsson á Hnausum, fjölfróðan um sögu sveitarinnar og þá sérstaklega Meðallandið. Okkur langaði að hitta þennan nafntogaða höfðinga og sjálfsmenntaða fræðimann og koma að Hnausum en þar er að finna fjörgamalt bæjarstæði. Vilhjálmur er ef til vill flestum miðaldra og eldri lesendum Mbl kunnur sem fréttarritari blaðsins í sveitinni um árabil. Á myndinni hér að ofan má sjá þær frænkur í betri stofu eldri bæjarins á Hnausum hlýða á Vilhjálm segja frá sögu staðarins. Þarna dvaldi m.a. málfræðingurinn Rasmus Christian Rask er hann ferðaðist um Meðalland. Eitt af því sem við ræddum var af hverju svo mörg býli í Meðallandi bera nöfn með fleirtöluendingunni "ar" t.d. Botnar, Feðgar, Hnausar og Lyngar. Annað sem okkur þótti merkilegt í frásögn Vilhjálms var að Meðallandið hafi verið byggt fyrir a.m.k. 2400 árum og ýmsar menjar styrki þá skoðun hans. Þá var greiðfært til Íslands og góð lending í Skaftárósi og Meðalland í alfaraleið af hafi, þótt síðar yrði þetta eitt einangraðasta svæðið á landinu. Hann tilgreindi Heklugos sem nánast eyddi Skotlandi fyrir 2400 árum og það hefði vafalaust breytt aðstæðum í sveitinni.
Elsta sjúkrastofa á landinu? Yfir fjósinu á Hnausum er baðstofuloft og sagði Vilhjálmur okkur sögu þess. Þar dvöldu oft sjúklingar og deyjandi fólk af svæðinu. Stundum var skilið að með dulu sá hluti baðstofuloftsins þar sem fólk lá banaleguna. Sá síðasti sem lést á baðstofuloftinu var gamall maður sem hét Ólafur og var það árið 1943. Í köldum veðrum flutti heimilisfólk á Hnausum sig yfir á þetta baðstofuloft vegna þess hve þar var hlýrra. Þá sagði hann okkur af reimleikum í einu horni baðstofuloftsins en þar dvelur einhver sem á erfitt með að hverfa á braut.
Skipstjóraborðið Víða getur að líta muni úr skipum sem strönduðu í Meðallandsfjöru. Þetta borð sem Vilhjálmur kallaði skipstjóraborðið er úr skipi sem endaði upp í fjöru. Borðið er rúnnað á borðbrúnum til þess að varna skaða í veltingi. Ýmsa forvitnilega muni úr skipum sýndi Vilhjálmur okkur. Eftir 1935 fækkaði til muna skipum sem strönduðu í Meðallandsfjöru, líklega vegna þess að þá voru komnir til sögunnar dýptarmælar. Skipsströnd reyndust oft mikil búbót fyrir fólk á þessu svæði, svo sem þekkt er úr frásögnum.
Gamla stofan Að lokum er hér mynd af gömlu stofunni að Hnausum en hún var gerð upp í upprunalegt horf fyrir nokkrum árum síðan.