laugardagur, 30. apríl 2005

Á söngferðalagi um Norðurland.

Þá er stóra stundin runnin upp. Við erum hér í höfuðstað Norðurlands á söngferðalagi með Skaftfellingakórnum í Reykjavík. Lögðum af stað úr Mjóddinni í gær á hádegi. Keyrðum sem leið lág norður með viðkomu í Varmahlíð í Skagafirði. Þar var snæddur kvöldvörður. Komun til Akureyrar upp úr kl.18.00. Þá var brunað til Dalvíkur og æft fyrir tónleika sem hófust kl. 21.00. Þeir tókust með ágætum en það hefði verið gaman að sjá fleiri. Komum aftur til Akureyrar kl. 24.00. Í dag laugardag höfum við verið hjá Ingibjörgu, Hirti og litla drengnum. Síðan fórum við að dvalarheimilinu Hlíð með viðkomu hjá Hjörleifi og Bibbu gömlum kórfélaga og samstúdentum úr MR. Tónleikarnir í Hlíð tókust sérlega vel og var okkur boðið í kaffi á eftir. Í kvöld er matur á KEA en svo er haldið suður á morgun með viðkomu á Blönduósi. Ég spurði eiginkonuna, sérfræðinginn í öldrunarmálum hvaða augum hún liti samfélagsþjónustu af þessu tagi. Hún hafði það til málanna að leggja að hér væru hinir yngri eldri að skemmta hinum eldri eldri!!!! Ég verð að segja það mér varð nú hálf hverft við. Hafði ekki skoðað þetta tónleikahald í því ljósi. Annað eftirminnilegt er það að þegar við keyrðum norður tóku að sér leiðsögn kórfélagar sem áttu ættir að rekja til þeirra héraða sem keyrt var um. Það eiga ekki allir ættir að rekja til Skaftafellssýslanna þótt þeir séu í kórnum. Allir eiga það þó sameiginlegt að vilja þjóna sönggyðjunni. Kveðja.

miðvikudagur, 27. apríl 2005

Nytjastefnan

Þessi bílavandræði mín og ákvörðun um viðgerð á gamla bílnum er rökrétt ákvörðun miðað við þá stefnu sem við höfum tekið upp á undanförnum misserum. Maður á ekki að henda öllum hlutum þótt þeir séu komnir til ára sinna. Heldur leitast við að fullnýta hlutina og forðast þetta neysluæði sem er allsstaðar í kring. Við höfum látið gera upp fullt af gömlum húsgögnum undanfarin misseri og haft ómælda ánægju af því. Maður þarf ekki alltaf að vera eins og allir hinir. Það er meira en að segja það að taka milljóna lán til þess að keyra á nýjum bíl. Það er ekkert að því að nota gamla bílinn sinn meðan það er hægt að verja það. Sumir halda að þeir verði meiri karlar fyrir bragðið. Það er alger misskilningur að mínu mati. Þegar maður er með mörg járn í eldinum og langar að fá fleira út úr lífinu en að keyra nýjan bíl þá reynir maður að komast af með sem minnstan pening í bíl. Það er ótrúlegt hvað það er dýrt að reka bíl. Það kostar okkur á ári að reka tvo bíla sem lítið hafa bilað svona 500 þúsund krónur í beinar greiðslur vegna rekstursins. Ekkert er vegna afskrifta af þeim kostnaði vegna þess að ég lít svo á að þeir séu að fullu afskrifaðir. Það er auðveldlega hægt að tvöfalda þessa upphæð með því að yngja upp bílana. Ég er líka búinn að læra það að þótt maður leggji sig allan fram um að gera góð kaup á bílum þá eru það alltaf bílasalarnir sem hafa betur. Jæja nóg um bílapælingar í bili. Kveðja.

þriðjudagur, 26. apríl 2005

Bílablús....

Bíllinn minn er lasinn. Hann þarf að fara í vélaviðgerð greyið 10 ára gamall. Þetta kostar að sjálfsögðu mikla peninga. Þannig að ég fór í gegnum mikla skoðun á bílamálunum okkar. Satt best að segja varð ég hálf ruglaður á þessu öllu. Úrvalið af bílum er ótrúrlegt. Vandinn er bara sá að ákveða hvað maður vill. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég var bara ekki nógu ákveðinn í því hvað ég vildi. Niðurstaðan úr þessum pælingum er sú að hvað svo sem maður gerir í framtíðinni í bílamálum ætla ég að láta gera við gamla bílinn minn og athuga hvort hann verður ekki hress einhvern tíma á eftir. Fór á verkstæðið í morgun og tilkynnti þeim ákvörðun mína. Þeir tóku mér fagnandi. En verkstæðisformaðurinn hafði sagt mér að taka mér sólarhring í umhugsunar-tíma. Hann fagnaði mér í morgun og kvaddi mig með því að slugsarnir reyndu að losa sig út úr svona málum með því að koma vandanum yfir á aðra. En svo væru við hinir sem tækjum á málinu og lögðum bílana okkar. Ég er búinn að heyra allar versjónir á þessu máli með og á móti. Reynslusögu margra og svo framvegis. Eigi að síðu er ég sáttur við mína ákvörðun, svo er bara að sjá hvernig þessi ákvörðun reynist. Sjáumst.

sunnudagur, 24. apríl 2005

Síðdegis á sunnudegi.

Við fórum í messu hjá sr. Hirti. Kirkjuvörður taldi 60 gesti fyrir utan kórinn. Það verður að teljast nokkuð góð mæting. Prestinum tókst vel til í tóni og predikun. Boðaskapur hans fjallaði um fjárhirðinn og þá fyrirmynd sem við höfum í honum að halda utan um hjörðina og verja hana fyrir úlfinum. Með því að fylgja í fótspor hans getum við öðlast innri auð sem verður ekki frá okkur tekinn. Veraldlegur auður hefur hinsvegar tilhneigingu til þess að vera hverfull og verða möli og ryði að bráð. Í lok messu söng söfnuðurinn sálm nr. 523 þ.e. faðir andanna. Eftir messu fórum við í heimsókn í Grænuhlíðina til Sigurðar og Vélaugar. Þegar heim var komið var hafist handa við gluggaþvott og svo vorum við í léttum leik við hundinn Sunnu. Kveðja.

Sunnudagsblíða og boðskapur.

Þá fer að nálgast tími til að fara upp í kirkju. Búinn að sitja hér í morgun og hlusta á nýja páfann hann Benedict sextánda. Það voru 500 þúsund manns sem mætt voru við vígsluna. Hann ítrekaði skilaboð Jóhannesar Páls annars heitins sem sagði: Verið ekki hrædd. Hann bætti svo við að sá sem gengur á guðsvegum sé aldrei einn. Til unga fólksins sagði hann: Trúin á Krist tekur ekkert frá ykkur hún gefur ykkur allt. Annars er það eftirtektarvert hversu mikið rúm trúin, heimspeki og siðfræði fá þessa dagana, þar sem lögð er áhersla á megingildi eins og kærleikann, hið fagra, góða og mildilega í lífinu. Það er ekki vanþörf á að hafa eitthvert haldreipi í allri þeirri brjálsemi sem við er að glíma í heiminum. Meira um það síðar. Kveðja.

laugardagur, 23. apríl 2005

Í messu hjá sr. Hirti

Eins og vinir þessarar bloggsíðu hafa getað lesið í síðasta "bloggi" þá er séra Hjörtur með messu í Kópavogskirkju á morgun. Líklega er hún kl. 11.00. Allir er hvattir til þess að mæta í kirkju svo presturinn þurfi ekki að tala fyrir hálftómu húsi. Annars er allt við það sama hjá okkur. Sigrún hélt grillpartí í gær föstudag fyrir bekkjarfélaga sína og tókst það vel og fór prúðmannlega fram. Hundurinn Sunna sem er hér í pössun lætur sér vel líka vistin enda fær hún gott atlæti. Það er mikil ábyrgð að hafa hund á heimili og meira en að segja það. Þeir ónefndir fjölskyldumeðlimir sem hafa verið með hugmyndir um að eignast hund hafa lagt þær á hilluna. Við hófum garðstörf í dag en varð þó lítið úr verki af ýmsum ástæðum. Það vorar hratt þessa dagana og gott að vera úti við. Hér komu Valdimar og Stella í kvöld og áttum við ánægjulega stund með þeim. Mikið að gera hjá unga fólkinu. Kveðja til allra og muniði nú messuna.

fimmtudagur, 21. apríl 2005

Gleðilegt sumar!

Annállinn óskar lesendum sínum gleðilegs sumars. Það er eins og annríkið vaxi með hækkandi sól. Þessvegna verið lítll tími til þess að skrifa. Valdimar hélt upp á afmæli sitt þann 15. apríl með tertum og límonaði. Það er helst af honum að frétta að nú er hann orðinn liðsmaður í lögreglunni og Stella komin á fullt í öryggisgæsluna. Hjörtur og Ingibjörg eru á fullu í barnauppeldinu og Sigrún að hefja próflestur. Ég er að leggja í upp í söngferðalag um Norðurland með kórnum um næstu helgi ásamt Sirrý. Lektorinn er á fullu í lestri prófritgerða. Hef verið að dútla í píanónámi og hef haft mjög gott af því. Það er nauðsynlegt að sinna svona verkefnum sem manni finnst að maður eigi ólokið. Nú við vorum í ferminguveislu Sólrúnar Dísar Kolbeinsdóttur um síðustu helgi í Skíðaskálanum í Hveradölum. Þórunn og Júlíus héldu upp á afmæli sín þessa helgi. Svo heimsóttum við Gunnar Örn Sigurðsson á nýju arkitektastofuna í gær. Við höfum verið að skoða möguleikan á nýjum bílum eins og allir aðrir. En erum ekki í stuði til þess að skuldsetja okkur fyrir nýjum bíl meðan gömlu bílarnir rúlla. Þeir eru nú komnir á sitt 11. ár. Vorverkin bíða í garðinum og verður maður að fara sinna því. Hér er nú ung 3. ára dama í heimsókn í nokkra daga sem heitir Sunna Björnsdóttir. Hún lætur vel af dvöl sinni enda fær hún allt það sem hún á að fá í mat og göngutúrum. En hún geltir ógurlega ef einhver kemur að útidyrahurðinni, enda er hún alin upp sem varðhundur í svörtustu Afríku. Ég er bara ekki frá því að maður sofi rólegri á næturnar. Þá er þess að geta að sr. Hjörtur er með tímabundin lyklavöld í Kópavogskirkju og verður með messu næsta sunnudag. Það eru vinsamlegt tilmæli til allra velunnarra þessarar síðu að mæta nú í messu á sunnudaginn og taka þátt í guðþjónustu hjá sr. Hirti. Allir velkomnir.

sunnudagur, 17. apríl 2005

Helgarpistill

Það er langt síðan maður hefur skrifað. Allt í góðu hérna í Brekkutúninu. Valdimar Gunnar átti afmæli í gær þann 15. apríl. Óskum við honum til hamingju með daginn. Höfum verið í þessu venjulega helgarstússi í dag. Leiðindaveður úti rok og rigning. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Biðjum að heilsa. Kveðja.

sunnudagur, 10. apríl 2005

Ball.

Fórum á árshátið Háskóla Íslands í gærkvöldi á Nordica hotel. Þetta var hin besta skemmtan með mat og dansi. Hittum marga og áttum ánægjulega stund. Fórum kl. 6.00 suður á Keflavíkurvöll og sóttum Hjört. Hér komu Björn og Sunna kl. 11.00. Fórum svo með Hjört upp í Borgarnes og fengum þennan fína hádegismat hjá foreldrum Ingibjargar. Komum aftur í bæinn um kl. 15.00. Nóg í bili. Kveðja

laugardagur, 9. apríl 2005

Á laugardagsmorgni.

Það er lítið skrifað þessa dagana enda frá litlu að segja. Það hefur hlýnað aftur svolítið með suðvestan roki og rigningu. Þau eru hálf þreytandi þessi umskipti í veðrinu. Annars gerir maður ekkert annað en að hlaupa úr og í vinnu þessa dagana. Hjörtur kemur frá Ameríku á morgun.
Kveðja.

miðvikudagur, 6. apríl 2005

Vetrarbál.

Þetta eru ótrúleg umskipti á veðri. Það er kallt úti vindur og 4°frost. Á Vesturlandi er sagt ófært undir Hafnarfjalli svo og upp á Kjalarnesi. Það er kallt í bænum en versta veðrið er allt um kring. Það sér ekki í Esjuna fyrir skilum norðanbálsins. Annars lítið í fréttum héðan í bili. Kveðja.

þriðjudagur, 5. apríl 2005

Dagur lengist.

Dagarnir lengjast. Það birtir fyrr á morgnana og það dimmir síðar á kvöldin. Það er vor í lofti, en svo kemur norðan eða austan átt og það fer að snjóa. Stórar snjóflygsur svífa eins og laufblöð niður úr himninum en þær ná ekki að viðhalda sér niðri að jörðinni. Það er ekki lengur frost í jörðinni. Maður er í þessu vanalega. Söngæfing í gærkvöldi, Rotarý í dag. Hjörtur er í Ameríku og hefur það væntanlega gott á ráðstefnu.

sunnudagur, 3. apríl 2005

Ýmislegt "daunsnast".

Við fórum nokkrar ferðir í Sorpu með trjáplönturnar okkar. Á laugardaginn fórum við einn snúning í Kringlunni og síðar um daginn fórum við í Borgarnes að hitta litla drenginn og móður hans. Í dag tókum við daginn snemma og fórum í fermingarmessu í Háteigskirkju og síðar um daginn í fermingarveislu Bergsteins Gunnarssonar. Þetta eru nú helstu afrek helgarinnar. Kveðja.

laugardagur, 2. apríl 2005

Eftir páska.

Þá eru páskarnir búnir. Þetta er búinn að vara töluvert annasamur tími hjá okkur í Brekkutúni. Mikið stúss í kringum páskana, sannkölluð fjölskylduhátíð með tilheyrandi heimsóknum og samverustundum. Hjörtur er farinn til USA á ráðstefnu og Ingibjörg fór með litla drenginn upp í Borgarnes. Síðasta vinnuvika var stutt. Ég náði loksins í hafa mig í það að klára skattframtalið. Þetta er ekkert mál þegar maður er búinn að klára það en einhverra hluta vegna dregur maður þetta alltaf fram á síðustu stundu. Við erum búin að klippa allan fína gljávíðirinn sem hefur umleikið lóðarmörkin neðan við húsið undanfarin ár. Hann óx ekkert í fyrra og var að drepast. Það var því ekki annað að gera en að klippa hann niður. Ég hélt í gær að það væri komið vor en það breyttist og í dag hefur snjóað þótt nú hafi aðeins orðið uppstytta. Kveðja.