laugardagur, 29. ágúst 2009

Laxá í Refasveit

Veiðifélagar. Ég skellti mér eftir vinnu í gær norður í Laxá í Refasveit. Áin er rétt norðan við Blönduós og er hún og umhverfi hennar einstök náttúruperla. Ég stoppaði stutt við að þessu sinni og var kominn aftur heim seinni partinn í dag. Annars hefur þetta verið viðburðarrík vika. Hér komu á fimmtudagskvöldið í heimsókn til okkar þrjátíu manna hópur norrænna NordMaG nemanda og kennara í öldrunarfræðum. NordMaG Á fimmtudag og föstudag var ég á ráðstefnu um fiskveiðistjórnun á vegum HÍ. Mjög fróðleg ráðstefna með fjölmörgum áhugaverðum erindum um stjórn fiskveiða. Þarna kom fram að um 20% af fiskveiðum á heimsvísu er nú stjórnað með framseljanlegum veiðikvótum. Farið var ég gegnum fiskveiðistjórnun í ESB og helstu nágrannalöndum okkar.


miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Vinafundur

Sveinn og Ilkka. Upplýsingabyltingin tengir fólk saman frá fjarlægum heimsálfum. Ég kynntist bloggara frá Seattle fyrir nokkrum árum. Eftir að hafa lesið pistla hans um nokkurn tíma sendi ég honum línu og þakkaði honum skrifin sem ég hafði mikla ánægju að lesa. Í framhaldi fórum við að skrifast á og bera saman bækur okkar um ýmislegt m.ö.o. við urðum ágætis kunningjar á netinu. Þessi vinur minn er fiðluleikari og fiðlukennari og er það sýn tónlistarmannsins á lífið og tilveruna sem mér hefur fundist fróðleg. Hvorugur okkar hafði gert ráð fyrir því að við ættum eftir að hittast. Enda hefur Ísland ekki verið í þjóðbraut frá Seattle. Allt er þó breytingum háð. Fyrir nokkrum vikum skrifaði hann mér að hann væri á leiðinni til Finlands. Þar er hann fæddur og uppalinn en er búsettur til margra ára í Seattle. Hann sagði mér að hagkvæmasti ferðamátinn og stytta leiðin til Finlands væri nú með Icelandair með viðkomu á Íslandi. Við mæltum okkur að sjálfsögðu mót og áttum saman ánægjulega kvöldstund þar sem við gátum rætt augliti til auglitis í fyrsta skipti eftir nokkurra ára kynni á netinu. Með honum í ferðinni var yngsta dóttir hans Sarah. Þessi fundur okkar var hinn ánægjulegasti og umræður svo líflegar að við gleymdum að taka myndir í tilefni þessara tímamóta. Við bættum þó úr því daginn eftir rétt áður en hann hélt af landi brott með því að mæla okkur mót við sundlaugarnar í Laugardal til þess að festa fund okkar á mynd. Þetta er enn ein dæmisagan um það hvernig netvæðingin tengir okkur í óvæntar og skemmtilegar áttir. Kveðja.

laugardagur, 22. ágúst 2009

Menningarnótt

Hljómskálagarðurinn. Við fórum í bæinn í kvöld til þess að njóta menningarnætur ásamt tugþúsundum annarra. Fórum víða um og skoðuðum margt. Vorum á Óðinsstorgi og hlustuðum á rímnasöng og drukkum kakó til styrktar Grensásdeild. Fórum á stórtónleikana í Hljómskálagarðinum um kvöldið. Hlustuðum á óperusöng í Dómkirkjunni, hlýddum á stórband í Ráðhúsinu undir stjórn Vignis Þórs Stefánssonar svona til að nefna eitthvað. Þetta mun vera í fjórtánda sinn sem menningarnótt í Reykjavík er haldin eða menningardagur eins og sumir vilja kalla þennan viðburð. Augljóslega hefur margt breyst í ásýnd menningarnætur þessi ár. Í fyrsta skipti sem við tókum þátt í þessari hátið var upplifunin sterkari. Í minningunni er mynd þar sem við vorum á rölti um Þingholtin til þess að skoða gamlan steinbæ og vinnustofu listamanna. Það var þó nokkuð fólk á ferðinni en ekki í jafnmiklu mæli og í gær. Þetta var ekki jafn yfirþyrmandi eins og hátíðin er orðin núna. Þetta er orðinn stórviðburður, massahátíð með breiðsenu og útþvældum slögurum eins og í Hljómskálagarðinum í gær. Eitt "giggið" enn eins og tónlistarmenn mundi segja. Þar sem vel slípaður og greiddur Páll Óskar skemmtir fjöldanum - tugþúsundum ásamt minni spámönnum (undanskil að sjálfsögðu Egil Ólafsson), sem hita upp fyrir hann. Mikill fjöldi fólks gengur um með bjórdósir og er kenndur, sem mér finnst draga úr herlegheitunum. Ef til vill er kominn tími til þess að brjóta þennan dag upp. Jafnvel dreifa atburðum um höfuðborgarsvæðið og leggja minna upp úr breiðsenu tónleikum en draga fram hið sérstaka, smáa og einstaka. Þessir síbylju slagarar er nú meira í ætt við iðnaðar- og fjöldaframleiðslu en menningu eins og ég legg upp úr því hugtaki. Kveðja.

miðvikudagur, 19. ágúst 2009

Dagens blomma - blóm dagsins.

Kveðja til Hjartar. Hjörtur okkar fékk þessa kveðju senda í lesendadálki í sænsku blaði í dag sem ber yfirskriftina "blóm dagsins". Fyrir þá sem ekki skilja sænsku segir í þessari stuttu kveðju: Dr. Hjartarson. Þúsund þakkir fyrir að þú gafst mér dálítið af lífsviljanum aftur. Ingrid með hnéð. Það er ótrúlegt hvað svona kveðja getur glatt (að ég tali nú ekki um foreldrana). Þetta er eitthvað sem við ættum að taka upp í fjölmiðlum hér til mótvægis öllum þeim bölmóði sem helt er yfir okkur daglega. Það þarf ekki rándýrar orður til þess að hvetja og gleða. Örlítil óvænt kveðja gleður jafnvel enn meira. Við eigum að leitast við að vera góð hvort við annað. Kveðja.

laugardagur, 15. ágúst 2009

"Ég er eins og annar krakki"

Ford T módel. Í dag fórum við á "aldamótadaga" á Eyrarbakka. Við vorum sein fyrir og vorum á Bakkanum um hálf sex. Áttum allt eins von á því að dagskráin þennan dag væri tæmd. Það fyrsta sem við rákumst á fyrir austan var þessi fallegi uppgerði Ford T módel. Ég kannaðist strax við þennan bíl. Þetta var gamli Fordinn hans afabróður míns, Guðmundar Gunnarssonar. Ég á yfir fimmtíu ára gamla barnæsku minningu þar sem ég, pabbi og Gunnar afabróðir og bróðir Guðmundar erum að skoða þennan bíl. Það var árið 1958 eða árið sem Þórunn systir fæddist. Bifreiðin var þá ansi lúinn en ég þykist muna að Gunnar hafi sagt við þetta tækifæri að hann væri enn gangfær. Einhver hefur orðið svo fyrirhyggjusamur að gera bifreiðina upp til minningar um liðinn tíma. Eitt virðulegasta verkefni hennar var að keyra fólk á Alþingishátíðina á Þingvöllum 1930. Bifreiðin stóð einmitt fyrir framan Gunnarshús þegar ég sá hana á Bakkanum í dag. En það hús átti langafi minn og langamma. Satt best að segja varð ég eins og annar krakki við að sjá þennan gamla "ættingja" minn. Eins og segir í Eyrarbakkaljóðinu.
Vignir Stefánsson og Guðlaug Ólafsdóttir. Næst lá leiðin í Gónhól en þar er kaffistofa og listagallerí. Þar var boðið upp á gott kaffi og vöflur. Meðan við sátum við á Gónhól mætti Vignir Stefánsson pínaóleikari og góðvinur Söngfélags Skaftfellinga og spilaði á hljómborð og píanó nokkur lög sem Guðlaug Ólafsdóttir söng undurljúft. Þar á meðal voru nokkur lög eftir Sigfús Einarsson tónskáld og fleiri. Sigfús var fæddur á Eyrarbakka árið 1887. Að loknum tónleikunum skoðuðum við safn fornbíla sem voru til sýnis á öðrum stað í þessu húsi. Við enduðum heimsókn okkar á Bakkan með því að fara á veitingastaðinn Rauða húsið áður en við héldum heim á leið. Þetta var óvænt og ánægjuleg síðdegisskemmtun. Takk fyrir okkur. Siðasta lagið sem söngkonan söng á tónleikunum var þetta ljóð:

Elskulegi Eyrarbakki
aftur kem ég heim til þín.
Ég er eins og annar krakki
alltaf þegar sólin skín
(Höf.: Garðar Sigurðsson Eyrarbakka)

þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Axel Garðar fimmtugur.

Við fórum í afmæli til Axels Garðars bróður í dag. Hann er fimmtíu ára og óskar annállinn honum til hamingju með þennan áfanga. Annars lítið að frétta af okkur. Kveðja.

mánudagur, 10. ágúst 2009

Gengið á Strandarkirkju

Gönguhópurinn. Í gær fóru afkomendur Helga Ingvarssonar fyrrum yfirlæknis á Vífilsstöðum í árlega Strandarkirkjugöngu sína ásamt vensla- og vinafólki. Ég og Sirrý vorum trússarar í þetta skipti. Ferðin gékk í alla staði vel og var endað á því að heimsækja Strandakirkju en þangað var keyrt frá Hlíðarvatni þegar göngumenn gengu niður af Reykjanessléttunni. Í kirkjunni voru fluttar stuttar hugvekjur en gangan var helguð minningu Grétars Más Sigurðssonar sem lést í síðustu viku.
Helga Adla fyrsta barnabarn Helga og Ingunnar fór í fyrsta skipti þessa leið í bakburðarstól sem pabbi hennar gékk með.

sunnudagur, 9. ágúst 2009

Í minningu Grétars.

Grétar Már Sigurðsson Hvað getur maður sagt þegar góður vinur fellur frá? Í gær lést Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri og sendiherra langt um aldur fram aðeins fimmtíu ára gamll úr krabbameini. Barátta hans við þennan illvíga sjúkdóm stóð stutt eða í eitt ár. Ég þekkti Grétar allt frá barnæsku. Ég hef fylgst með honum í gegnum öll aldurskeiðin. Þegar hann var lítill drengur, yngsti bróðir vinar míns Helga Sigurðssonar. Dúfnabóndi við Kópavogslæk sem stráklingur, unglingur í menntaskóla, lögfræðingur, diplómat, sendiherra, ráðuneytisstjóri. Við höfum átt fjölda samverustunda við veiðar, í gönguferðum á Strandakirkju, í Comessey í Frakklandi og ýmis önnur tækifæri. Grétar var hlýr og góður drengur. Við Sirrý sendum Dóru eiginkonu hans og dætrum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

fimmtudagur, 6. ágúst 2009

Frændur á fjarlægum slóðum.

Það eru nú fimm ár síðan við tókum þátt í hátíðarhöldum Vestur - Íslendinga árið 2004 í litla bæjarsamfélaginu í Mountain i N - Dakóta í Bandaríkjunum og Gimli í Manitoba í Kanada. Þessir hátíðardagar, Íslendingadagurinn, eins og þeir eru kallaðir beggja megin landamæranna eru haldnir ár hvert um mánaðarmótin júlí, ágúst og eru afar fjölsóttir. Í Mountain í N - Dakóta er talið að um 5000 gestir heimsæki bæjarsamfélagið sem telur um 100 manns. Í Gimli í Manitoba lætur nærri að 30 000 manns sæki þessa hátíðardaga heim. Þetta eru fjölmennustu hátíðir sem fólk af íslensku bergi sækir heim á hverju ári. Ef ég á þess einhverntíma kost mun ég reyna að komast aftur á þessar hátíðir meðal frænda okkar. Þetta var heimsókn sem skilur eftir varanleg áhrif á hvern þann sem kemur á þessa staði og rifjar upp þá miklu landaflutninga sem áttu sér stað upp úr miðri 19. öld og fram á 20.öldina. Vesturfaraferðirnar er þáttur í sögu okkar sem nauðsynlegt er hverjum Íslendingi að kynna sér til þess að skilja hvað þjóðin gékk í gegnum á þessu erfiða tímabili fyrir rúmlega 100 árum. Það er hægt að gera með því að lesa töluvert úrval af bókum um þetta efni og með heimsókn í Vesturfarasafnið á Hofsósi. Einnig eru í boði skipulagðar ferðir til helstu heimkynna Vestur - Íslendinga. Þrátt fyrir mikinn samdrátt í efnahagslífinu var stór hópur sem fór vestur að þessu sinni og hingað koma í vaxandi mæli fólk frá Vesturheimi til að leita að rótum sínum að sögn fjölmiðla. Í stuttu máli má segja að það sem er merkilegt við þessar heimsóknir vestur er að okkur er mætt af velvild og frændsemi öðlast nýja þýðingu á þessum slóðum. Við höfum fulla ástæðu til þess að vera stolt af því að vera Íslendingar. Hér býr gott fólk með stórt hjarta og hér er gott að búa. Við eigum okkur merkilega tungu, menningu og sögu - þetta er fjöreggið sem lyftir okkur upp úr fjöldanum og gerir okkur kleift að segja með stolti: Við erum Íslendingar og erum stolt af því. Vona að þetta sé ekki of hástemmt en nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að halda í það sem skiptir máli í raun. Þannig að eftirmæli okkar kynslóðar verði ekki þau að þegar mest á reið brast okkur kjarkurinn. Það má ALDREI henda. Kveðja.

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Borga, borga ekki, borga, borga ekki.

Þetta er hrikalegt þetta Icesave mál, miklu verra en maður hafði ímyndað sér. Minnist þess þegar DÓ seðlabankastjóri sagði fyrr á þessu ári í Kastljósþætti að við ættum ekki að greiða óreiðuskuldir einstaklinga erlendis. Það virðist ekki halda. Minnist þess þegar fyrrum stjórnarformaður og eigandi LÍ sagði á sama vettvangi fyrir nokkrum mánuðum að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þessum reikningum, því að það væru nægar eignir á móti. Það virðist ekki halda heldur. Minnist þess þegar talað var um að þessar ábyrgðir Íslendinga vegna Icesave gætu numið allt að einhverjum tugum milljarða. Það hefur ekki staðist heldur. Þá var farið að tala um hundrað til tvö hundruð og fimmtíu milljarða króna. Það hefur ekki staðist. Nú er talað um þrjúhundruð sjötíu og fimm milljarða króna. Skyldi það standast? Seðlabankinn telur að við fáum staðið undir þessum kröfum. Hagfræðistofnun telur vafa á því. Hvað fær staðist í þessu máli? Ýmis gögn málsins eru trúnaðarmál gagnvart okkur almenningi en við eigum að borga. Eitt er víst ég tel það hafi verið af yfirlögðu ráði að Landsbankinn safnaði þessum innlánum í útibúum í stað dótturfyrirtækja. Þeir vildu hafa frjálsar hendur til þess að flytja þetta fjármagn innan bankans og þá milli landa. Ég tel einnig að bresku hryðjuverkalögin hafi verið sett á Íslendinga og Landsbankann til þess að koma í veg fyrir að lánasafn bankans og annað laust fé í Bretlandi yrði flutt úr landi. Er þetta ekki einhvernveginn svona? Hvað ætli hryðjuverkalögin ein og sér hafi valdið okkur miklu tjóni. Nokkra tugi milljarða króna? Hundruðir milljarða króna? Hver talar um slíkt á tímum sem þessum.

mánudagur, 3. ágúst 2009

Umhyggja bræðra.

Hjörtur og Valdimar. Umhyggja bræðra fyrir hvor öðrum getur tekið á sig margvíslega myndir. Í gær þegar við vorum að skröltast Fjallabakið og Valdimar fylgdi fast á eftir okkur á Ford Focus fjölskyldu bifreiðinni sinni segir Hjörtur: "Aumingja Valdi bróðir á dýra myntkörfubílnum sínum á þessum vegi. Evrurnar hljóta að hrynja af bílnum." Þessum orðum fylgdi síðan flaumur krókudílstára. Valdimar var lengi tvístígandi yfir því hvort hann ætti að hætta á að fara þessa leið. Hann varð mikið glaður þegar ferðin var afstaðin og lýsti því yfir að fjölskyldubifreið sem ekki kæmist þessa leið klakklaust stæði ekki undir nafni. Ford Focus óx í áliti hjá okkur öllum. Fordinn hann stendur alltaf undir nafni enda var það Ford T sem 1933 fór fyrstur yfir Sprengisand las ég einhversstaðar. Svona er Ísland í dag. Kveðja.

sunnudagur, 2. ágúst 2009

Hringnum lokað

Við fórum með Hirti og Sveini Hirti, Valda, Stellu og Lilju í Skaftártunguna í gær. Þannig má segja að við Sirrý höfum lokið hringferðinni miðað við að við hófum hana á þriðjudaginn úr Tungunni. Veðrið í gær og í dag var magnað. Tuttugu stiga hiti, heiðskír himinn og logn - svona eins og best verður á kosið. Grilluðum í gærkvöldi og fórum svo yfir um í Höllu bústað og heilsuðum upp á Hringbrautarfólkið, Þór, Marybeth og börn frá Ameríku. Við ákváðum að fara Fjallabak nyrðra heim í dag. Valdimar ákvað að fara með okkur á Ford Focus fólksbíl sínum. Ferðin gékk mjög vel og við lentum ekki í neinum vandræðum. Valdimar kvartaði hinsvegar undan augnaráði útlendinganna á voldugu jeppunum sínum þegar hann mætti þeim. Minnti mann á gamla tíma þegar maður fór þetta sjálfur á fólksbíl. Það er engin hætta á ferðum miðað við það vatn sem er í þessum sprænum við svona aðstæður. Við vorum komin í bæinn um átta í kvöld. Það var virkilega gaman að vera þarna með börnum og barnabörnum. Kveðja.