þriðjudagur, 10. ágúst 2004

Komin heim frá Kanada og USA.


Kirkjan í Mountain í N-Dakóta
Jæja þá er þessi mikla ferð okkar til USA og Kanada afstaðin. Í einu orði sagt stórkostleg ferð. Allt gékk upp og var það merkileg upplifun að eiga þess kost að fara um þessar slóðir. Ferðin hófst Minneapolis í USA þann 31. júlí og endaði í Keflavík sunnudaginn 8. ágúst. Við fórum til Mountain í North Dakota, Winnipeg, Gimli í Manitoba og fleiri staða sem ekki er rúm til þess að nefna. Hápunktar ferðarinnar voru Íslendingadagarnir í Mountain og Gimli og hitta fólkið sem talaði reiprennandi íslensku og hafði sumt aldrei til Íslands komið. Við óðum yfir Missisippi við upptök hennar. Borðuðum góðan og ríflegan mat. Ég held ég hafi borðað nautakjöt hvern einasta dag ferðarinnar. Hvarvetna mættum við velvild og áhuga fólks fyrir heimsókn okkar hvort heldur var í USA eða Kanada. Alls lögðum við um 2800 kilómetra að baki og fundum lítt fyrir því. Rútan var með loftkælingu og veðrið var vel þolanlegt fyrir okkur. Það var hinsvegar sérstakt að horfa út yfir endalausa rennislétta sléttuna, eins langt og augað eygði, dag eftir dag. Það hlýtur að hafa verið sérstakt að ferðast þarna um fótgangandi eða í uxakerrum fyrir 100 árum eða svo eins og landar okkar gerðu. Yfirleitt var sól, gola og hiti + 20°C. Verðlag á mat og í þeim verslunum sem við komum í var mjög hagstætt.

Engin ummæli: