sunnudagur, 30. október 2016

Efnahagserfiðleikar á Spáni

Ég átti áhugavert samtal í dag við Katalóníumenn um stjórnmál og efnahagsmál. Þau vissu augljóslega úr fréttum hvernig úrslit kosninganna á Íslandi fóru. Það kom þeim ekki á óvart að Píratar fengu ekki meira fylgi. Þeir flokkuðu þá með öðrum "fráviksflokkum," líðandi stundar í Evrópu, en ekki sem langtímaafli í samfélaginu. Nú hefur tekist loks að mynda hægri minnihlutastjórn á Spáni, allavega tímabundið. Katalóníumennirnir horfði mjög til þess árangurs sem við höfum náð í efnahagsmálum og vonuðu að Katalóníu mundi takast að vinna sig úr sínum erfiðleikum. Það er mikið atvinnuleysi og áhyggjur af næstu framtíð. Ég reyndi að vera hvetjandi og sagði að við hefðum getað framleitt vörur til að selja og svo hefði ferðamannaþjónusta vaxið mikið. Auk þess sem vel hefði gengið að greiða úr skuldamálum okkar. Í nýlegum spænskum hagtölum væri aukning ferðamanna og minnkandi atvinnuleysi. Þeir játtu því og sögðu að þeir kynnu ferðamannaþjónustu. En höfðui áhyggjur því að þeir væru háðir gengi evrunnar og vísuðu til þess hvernig þeim hefði tekist áður að lækka pesetann til þess að gera Spán aðlaðandi áningarstað ferðamanna. Þessar umræður fóru fram á útiveitingastað í 25 stiga hita það hljálpar

mánudagur, 24. október 2016

Aðskilnaðarkvíði

Hér á Spáni hefur stjórnarmyndunarkreppu verið afstýrt með því að félagshyggjuöflin hafa ákveðið gera hægrimönnum kleift að mynda minnihluta ríkisstjórn. Ef eitthvað er að marka þessar skoðanakannanir sem birtar eru á Íslandi, sýnist stefna í svipað ástand eftir nokkra daga.
Stjórnarandstöðuflokkarnir eru hættir að tala til kjósenda, en eyða tíma sínum þess í stað á kaffihúsum að ræða um skiptingu kjötkatlanna eftir kosningar. Engin skýr stefna, engir valkostir aðeins glundroði virðist í spilunum.
Píratar eða sjóræningar á íslensku er stærsta stjórnmálaaflið! Samfylkingin í molum í forystukrísu, hvað vannst við reka Árna Pál? Kommarnir tvíefldir í Vinstri grænum með Steingrím í felum. Þeir þjappa sér alltaf saman á óvissutímum. Ætlar fólk aftur að veita honum brautargengi? Björt framtíð án framtíðar, en þó einn ljós punktur að mínu mati. Formaður þeirra talar oft af skynsemi. Ef til vill teknókratísk sýn, en gengur þetta ekki út á að finna nothæfa einstaklinga til að stjórna landinu?
Nýtt afl, sem kennir sig við Viðreisn bíður fram krafta sína. Auðvitað er hér um einsmálsflokk að ræða sem vill inn í ESB, sama hvað. Þeir hafa heitið stuðningi við vinstri. Vita sem er að Steingrímur er til í hvað sem er, bara ef hann verður ráðherra.
Ég þjáist af "aðskilnaðarkvíða" gagnvart Viðreisn. Þarna eru á ferð margir kunningjar, fyrrum samherjar og skólabræður, sem maður hefur deilt geði við á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Einstaklingar sem mér er vel við en er einlæglega ósammála um að ganga á hönd ESB.
Aftur til upphafsins. Erum við ekki á sama róli og stjórnmál almennt í Evrópu, sem einkennast af því að "hefðbundnir" flokkar eru í erfiðleikum og fólk er leitandi? Eitt er víst, við göngum óvissutíma á hönd í stjórnmálum.

laugardagur, 22. október 2016

.. og ég vissi ekki af því.

Ég á 11 ára afastrák, sem er að auki alnafni minn. Honum finnst gaman í tölvum og vill helst hvergi annars staðar vera. Nú nýlega spurði hann mig undrandi: Afi, hvernig stendur á því að þú ert með heimasíðu og ég vissi ekki af því? Það varð nú eiginlega fátt um svör. Ég er búinn að halda þessari síðu gangandi síðan 2004. Það byrjaði þannig að börnin mín sem öll hafa verið mikið í tölvunum byrjuðu að blogga og ég var forvitinn og langaði að prófa líka. Þau aðstoðuðu mig við að opna síðu og ég man þegar ég byrjaði á þessu var ég svo spéhræddur og feiminn að ég þorði varla fyrir mitt litla líf að skrifa á bloggsíðuna mína. Svo vandist þetta og næstu árin var ég nokkuð duglegur. Síðan kom facebook og bloggið mitt datt niður og ég var næstum því hættur að blogga. En skelti inn einu og einu þess í milli. Þau eru öll löngu hætt aða blogga og líklegast búin að loka sínum bloggsíðum. Ég held mínu áfram meðan ég get og nenni. Hvað gerir maður ekki fyrir barnabörnin. Ég velti því stundum fyrir mér hversu lengi þessi síða muni verða til. Hef kynnst því að vefsíður og myndasíður hafa horfið sporlaust á netinu.  Þetta pár er þá bara eins og að skrifa í sandinn. Næsta alda kemur og skolar þessu pári í burtu. Hinsvegar finnst mér gaman að pára stundum svona á bloggið. Það festir betur í minni og mótar afstöðu um menn og málefni með markvissari hætti. En til hvers er maður þá að þessu. Jú líklegast til þess að deila skoðun sinni og hafa áhrif á þig, helst til góðs.

laugardagur, 8. október 2016

Þetta er Jakinn

"Farðu úr sætinu mínu strákur!" Með þessum orðum kynntist ég Guðmundi J(aka) á fundi í Aflamiðlun, nefnd sem skipulagði útflutning á ísfiski á tíunda áratug síðustu aldar. Það kom mér á óvart hvað hann var mikið ljúfmenni við nánari kynni. Annað, sem heillaði mig var að hann vissi hver afi minn var, Axel Gunnarsson sem vann hjá Reykjavíkurhöfn. Já, Dagsbrúnarforinginn þekkti sitt fólk. Aðra sögu kann ég af honum. Ég var staddur á fundi í Sjálfstæðisfélagi Kópavogs, þar sem framsögumenn voru Einar Oddur og Guðmundur Jaki. Jakinn sagði í ræðu sinni sögu af Kristjáni Ragnarssyni formanni LÍÚ, sem líka er Flateyringur eins og Einar Oddur. Sagan er í stuttu máli þannig að Kristján kemur inn í frystihúsið á Flateyri með öðrum manni til þess að heilsa sveitungunum. Hann gengur að borðunum í kaffistofunni en þekkir ekki nokkurn mann. Þetta eru allt erlent fólk og Kristján hrökklast út úr frystihúsinu. Maðurinn sem er með Kristjáni í þessari heimsókn er sögumaðurinn og kryddar lýsinguna eftir atvikum. Jakinn var þarna að lýsa þeirri breytingu sem orðin væri í fiskvinnslunni og vestfirsku þorpunum. Sagan þótti fyndin og fólk hló, en mér þótti fyndnast að vera sögumaðurinn nafnlausi í frásögn Jakans og hann hafði ekki hugmynd um það, þar sem ég sat á fundinum. Fyrir ykkur yngri lesendur var Guðmundur Jaki þingmaður og einn frægasti verkalýðsforingi sinnar tíðar. Einar Oddur Kristjánsson var líka alþingismaður, formaður Vinnuveitendasambandsins og útgerðarmaður. Hvers vegna er ég að hugsa um Jakann?. Ég var með móður minni í Hallgrímskirkju í dag og er hún sá Kristlíkneski í kirkjunni, þá segir hún upp úr eins mann hljóði. Þetta er Jakinn.