mánudagur, 24. október 2016

Aðskilnaðarkvíði

Hér á Spáni hefur stjórnarmyndunarkreppu verið afstýrt með því að félagshyggjuöflin hafa ákveðið gera hægrimönnum kleift að mynda minnihluta ríkisstjórn. Ef eitthvað er að marka þessar skoðanakannanir sem birtar eru á Íslandi, sýnist stefna í svipað ástand eftir nokkra daga.
Stjórnarandstöðuflokkarnir eru hættir að tala til kjósenda, en eyða tíma sínum þess í stað á kaffihúsum að ræða um skiptingu kjötkatlanna eftir kosningar. Engin skýr stefna, engir valkostir aðeins glundroði virðist í spilunum.
Píratar eða sjóræningar á íslensku er stærsta stjórnmálaaflið! Samfylkingin í molum í forystukrísu, hvað vannst við reka Árna Pál? Kommarnir tvíefldir í Vinstri grænum með Steingrím í felum. Þeir þjappa sér alltaf saman á óvissutímum. Ætlar fólk aftur að veita honum brautargengi? Björt framtíð án framtíðar, en þó einn ljós punktur að mínu mati. Formaður þeirra talar oft af skynsemi. Ef til vill teknókratísk sýn, en gengur þetta ekki út á að finna nothæfa einstaklinga til að stjórna landinu?
Nýtt afl, sem kennir sig við Viðreisn bíður fram krafta sína. Auðvitað er hér um einsmálsflokk að ræða sem vill inn í ESB, sama hvað. Þeir hafa heitið stuðningi við vinstri. Vita sem er að Steingrímur er til í hvað sem er, bara ef hann verður ráðherra.
Ég þjáist af "aðskilnaðarkvíða" gagnvart Viðreisn. Þarna eru á ferð margir kunningjar, fyrrum samherjar og skólabræður, sem maður hefur deilt geði við á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Einstaklingar sem mér er vel við en er einlæglega ósammála um að ganga á hönd ESB.
Aftur til upphafsins. Erum við ekki á sama róli og stjórnmál almennt í Evrópu, sem einkennast af því að "hefðbundnir" flokkar eru í erfiðleikum og fólk er leitandi? Eitt er víst, við göngum óvissutíma á hönd í stjórnmálum.

Engin ummæli: