laugardagur, 8. október 2016

Þetta er Jakinn

"Farðu úr sætinu mínu strákur!" Með þessum orðum kynntist ég Guðmundi J(aka) á fundi í Aflamiðlun, nefnd sem skipulagði útflutning á ísfiski á tíunda áratug síðustu aldar. Það kom mér á óvart hvað hann var mikið ljúfmenni við nánari kynni. Annað, sem heillaði mig var að hann vissi hver afi minn var, Axel Gunnarsson sem vann hjá Reykjavíkurhöfn. Já, Dagsbrúnarforinginn þekkti sitt fólk. Aðra sögu kann ég af honum. Ég var staddur á fundi í Sjálfstæðisfélagi Kópavogs, þar sem framsögumenn voru Einar Oddur og Guðmundur Jaki. Jakinn sagði í ræðu sinni sögu af Kristjáni Ragnarssyni formanni LÍÚ, sem líka er Flateyringur eins og Einar Oddur. Sagan er í stuttu máli þannig að Kristján kemur inn í frystihúsið á Flateyri með öðrum manni til þess að heilsa sveitungunum. Hann gengur að borðunum í kaffistofunni en þekkir ekki nokkurn mann. Þetta eru allt erlent fólk og Kristján hrökklast út úr frystihúsinu. Maðurinn sem er með Kristjáni í þessari heimsókn er sögumaðurinn og kryddar lýsinguna eftir atvikum. Jakinn var þarna að lýsa þeirri breytingu sem orðin væri í fiskvinnslunni og vestfirsku þorpunum. Sagan þótti fyndin og fólk hló, en mér þótti fyndnast að vera sögumaðurinn nafnlausi í frásögn Jakans og hann hafði ekki hugmynd um það, þar sem ég sat á fundinum. Fyrir ykkur yngri lesendur var Guðmundur Jaki þingmaður og einn frægasti verkalýðsforingi sinnar tíðar. Einar Oddur Kristjánsson var líka alþingismaður, formaður Vinnuveitendasambandsins og útgerðarmaður. Hvers vegna er ég að hugsa um Jakann?. Ég var með móður minni í Hallgrímskirkju í dag og er hún sá Kristlíkneski í kirkjunni, þá segir hún upp úr eins mann hljóði. Þetta er Jakinn.

Engin ummæli: