föstudagur, 15. maí 2015

Hvað er list?

Hvað er list? Einn leiðinda vetrardag fyrir rúmum 40 árum tóku nokkrir skólapiltar sig til og settu snjókúlu ofan á flúrosentlampa til þess að sjá viðbrögð kennarans þegar snjórinn byrjaði að bráðna. Það stóð ekki á þeim. Hann kipptist við í hvert skipti sem dropi datt á höfuð hans. Þetta endaði svo á því að nokkrir bættu um betur og hentu litlum sígarettu púðurkerlingum að honum. Aumingjans maðurinn sem var að auki spastískur "dansaði" fyrir framan töfluna þar til hann áttaði sig og rauk á dyr. Var þetta listagjörningur? Varla, en við þjónuðum lund okkar. Hann kom ekki meira þann veturinn. Í næsta tíma kom Guðni Guðmundsson rektor MR í heimsókn. Hann heilsaði okkur skólapiltum með eftirfarandi ávarpi: "Ég hef lengi ætlað að koma hingað til þess að sjá öll þau fífl sem hér eru saman komin."
Síðan hófst lesturinn og hann var langur og strangur. Eftir situr að við brutum á kennaranum og höfum líklega flestir borið þessa skömm síðan. Ég er viss um að við hefðum líklega allir verið reknir úr skóla ef ekki hefði verið fyrir umsjónakennarann okkar. Þessi minning kom upp í hugann þegar ég heyrði mann sem nefnist Goddur lýsa því yfir að mosku framlag Íslendinga í Feneyjum væri verðugt framlag okkar á þessari listasýningu. Nú leikur mér forvitni á að vita hver ber ábyrgð á þessu Feneyjarmáli?

fimmtudagur, 14. maí 2015

Andi lífsins

Þykkvabæjarklausturskirkja. Langt nafn á lítilli kirkju. Fyrir 25 árum í dag uppstigningardag fórum við Sirrý með pabba og mömmu að skoða kirkjurnar þrjár í Ásasókn. Hinar voru Gröf í Skaftártungu og Langholt í Meðallandi.Pabbi hafði sótt um stöðu sóknarprests. Þetta var fyrsta kirkjan sem við komum að. Þegar við gengum inn í kirkjuna var það fyrsta sem mætti okkur eitt blað á orgelinu með sálmi eftir afa Sirrýjar, Valdimar Jónsson skólastjóra í Vík í Mýrdal og bónda á Hemru. Sálmurinn heitir "Andi lífsins." Þetta hafði mikil áhrif á okkur fjögur. Fyrir einskæra tilviljun vorum við Sirrý stödd við kirkjuna í dag. Veður var að vísu ekki jafn fallegt og daginn góða fyrir 25 árum. En almættið var heldur ekki að munstra nýjan liðsmann í sveitina eins og þá. Hér á eftir má lesa ljóð Valdimars. Lag við þetta ljóð hefur gert Sigurjón Hannesson.

miðvikudagur, 13. maí 2015

Eins og mynd í sandi

Hugleikin er sandmyndin sem búddamunkarnir frá Tibet teikna af mikilli natni í öllum regnbogans litum. Þegar verkinu er lokið sópa þeir sandinum saman og á næstu hátíð er teiknuð ný mynd og hún hlýtur sömu örlög. Man þegar ég sá þetta í fyrsta sinn og þótti þetta miður að eyðileggja svona fallegt verk. Auðvitað hefur þessi mynd og svo eyðing hennar ákveðinn tilgang. Ekkert mannanna verk varir að eilífu. Allt er í heiminum hverfult og svo framvegis.
Þessi minnig rifjaðist upp eftir frábæra tónleika Söngfélags Skaftfellinga um síðustu helgi. Við söngfélagarnir æfðum fjölda laga í allan vetur til þess að syngja á vortónleikum okkar. Þar með er lokamarkmiðinu náð. Eftir tónleikana lifir minningin ein og við bíðum þess að geta hafið æfingu á nýju lagavali næsta haust til þess að flytja á enn nýjum tónleikum. Tilgangurinn er að geta sungið fallegt ljóð og nært fegurðina eitt augnablik og veitt hana öðrum. 
Við eigum stundina, er viðkvæði sem við erum reglulega minnt á. Við höldum áfram okkar daglega lífi og á vegferð okkar verður fólk sem við eigum samleið með um lengri eða skemmri veg. Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu. Svo aftur sé leitað í skjóðu Dalai Lama er hann einfaldlega að vera hamingjusamur. 
Hamingjan er hugarástand sem hver og einn verður að skilgreina fyrir sig. Hún er ekki ákveðin formúla eða skyndibiti. Hver og einn verður að öðlast hana eftir eigin forskrift og vinna að því að öðlast hana. Þetta eru nú sérdeilis hreinskiptin skilaboð og ekki víst að öllum líki. Samt erum við öll hugsandi verur að feta okkur fram í lífinu og spyrjandi þessara grundvallar spurninga um lífið og tilveruna, eins og þessarar.
 Sumir segja að lífið sé frá upphafi til enda háð eintómum tilviljunum. Aðrir telja að lífshlaupinu sé meira og minna stýrt. Hvað er rétt í þessum efnum? Ég veit það ekki, en við eigum væntnlega öll sameiginlegan þennan  efa um tilgang lífsins og tilveruna. Sagði ekki Kristur sjálfur á krossinum:  "Elí, Elí, lama sabaktaní!" Það þýðir: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?" Þess vegna verðum við að trúa því okkur er ekki gefin vissan. Þetta átti nú aðeins að vera örstutt hugvekja um gildi söngsins en varð óvart hugvekja um tilgang lífsins enda uppstigningardagur á morgun. Það er gott að vita til þess að vakað er yfir okkur á himnum. Góða helgi.

þriðjudagur, 12. maí 2015

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga

Þetta voru frábærir vortónleikar hjá okkur í Söngfélagi Skaftfellinga um síðustu helgi. Allt gékk upp söngur, undirleikur, stjórn og aðsókn. Þetta er búin að vera viðburðarríkur vetur. Ísafjarðarförin og tónleikar á Ísafirði. Söngur í Breiðholtskirkju í tilefni Skaftfellingadagsins. Sungið á sjúkrastofnunum á aðventunni og aðventuhátíð Skaftfellingafélagsins og fleira. Virkir félagar i vetur hafa verið 44 og að jafnaði hafa verið 30 manns á æfingum, sem eru á þriðjudagskvöldum í Skaftfellingabúð kl. 20.00. Nýir félagar eru að sjálfsögðu velkomnir. Stjórnandi kórsins er Friðrik Vignir Stefánsson kantor.

miðvikudagur, 6. maí 2015

Söngfélag Skaftfellinga til Ísafjarðar.

Helgina 1. til 3. maí fór Söngfélag Skaftfellinga í vorferð til Ísafjarðar. Haldnir voru tónleikar í Ísafjarðakirkju 2. maí. Undirleikari var Pálmi Sigurhjartarson og stjórnandi var Friðrik Vignir Stefánsson. Gist var að Hótel Núpi í Dýrafirði. Farið var í heimsókn í Hraðfrystihús Gunnvör hf í Hnífsdal. Þar tók á móti okkur forstjóri fyrirtækisins, Einar Valur Kristjánsson og fræddi okkur um sjávarútveginn, fyrirtækið og nýtt skip Pál Pálsson ÍS sem kemur í rekstur á næsta ári. Keyrt var um Súðavík, Ísafjörð, Bolungarvík og Flateyri.