laugardagur, 30. júní 2007

No air flow.

Á tveimur stöðum verð ég að loka fyrir ferskt loftflæði inn í bílinn minn á keyrslu. Annar staðurinn er Hvalfjarðargöngin. Spölur tímir ekki að blása út mengunina í göngunum og því verður maður að vera fljótur að loka fyrir "air flow" áður en keyrt er niður í göngin. Hinn staðurinn sem ég verð að grípa til sömu ráðstafana er þegar við rúntum niður Laugaveginn. Eftir að reykingabannið tók gildi á skemmtistöðunum hafa gestir þeirra raðað sér út á gangstéttina meðfram veginum til þess að reykja. Mengunin er svo mikil að það er ekki um annað að ræða en að loka fyrir loftsstreymið. Svona er Laugavegurinn í dag. Ég þori að veðja við ykkur að fyrr verður bannað að reykja á gangstéttum við Laugaveginn en að settur verði upp mengunarbúnaðar í göngin. Umhugsunarefni fyrir reykingamenn sem eru að hugsa um að hætta að reykja. Kveðja.

föstudagur, 29. júní 2007

Dagar í sól og sumaryl.

Þetta eru ljúfir dagar í sól og sumaryl. Höfum getað notað grillið og pallinn til að gera okkur dagamun. Það rignir á Englendinga og ekkert sérstakt veður í nágrannalöndunum. Heppnin er nú stundum okkur í hag. Annars lítið í fréttum héðan maður er í vinnu og horfir á sumarið út um gluggan. Það er helst í fréttum að öfgamenn hafa orðið uppvísir að því að koma fyrir bílum með sprengiefni í Lundúnum. Það er lítið hægt að segja annað um þetta en að þessi veröld sem við lifum í er vitfyrrt. Þrátt fyrir allar framfarir er mannskeppnan en að myrða og drepa fólk um allan heim. Við höfum ekkert lært af hildarleikjum mannkynssögunnar. Annars bar það helst til tíðinda í vikunni að Sveinn mágur átti 55 ára afmæli. Prestshjónin fóru í góða ferð vestur á firði. Hjörtur er farinn að vinna. Valdimar er á fullu í vinnu og Sigrún er líka að vinna á elliheimilinu. Hún fer fljótlega til Lundúna með Hildu frænku sinni. Kveðja.

mánudagur, 25. júní 2007

Lilja Vestmann Valdimarsdóttir skírð.

Foreldrar ásamt öfum og ömmum og langafa.
Í gær var efnt til veislu í tilefni þess að litla yngismærin okkar hún Lilja Vestmann Valdimarsdóttir var skírð í Kópavogskirkju. Prestur var séra Hjörtur Hjartarson langafi. Undirleikari við athöfnina var Sveinn föðurafinn og kirkjugestir sungu með. Rakel móðuramma hélt á barni undir skírn. Bjarni móðurafi las ritningarlestur, Hjörtur föðurbróðir og Andrea móðursystir voru skírnarvottar. Agnes móðursystir var sérstakur aðstoðarmaður prestsins. Athöfnin var öll hin ljúfasta og síðan var barninu haldin veisla. Þetta var bjartur og skemmtilegur sumardagur sem lengi verður hafður í minnum. Kveðja.

Foreldrar og Rakel amma með Lilju. Stoltir foreldrar og amma með Lilju við altarið í Kópavogskirkju að athöfn liðinni.











Amma Sirrý og Lilja. Jæja, það er loksins að maður fær svona nærmynd af manni í fanginu á ömmu Sirrý. Það er eins og karlinn hann afi sé eitthvað feiminn við mann.











Afi Sveinn við píanóið. Svei mér þá ef afi minnir ekki aðeins á Elton í prófíl þarna við píanóið. Spilaði nokkur lög fyrir athöfn og svo skírnarsálminn.

fimmtudagur, 21. júní 2007

Á ferð til Mallorka.

Á Pilary de Plaja.Ég held þetta sé skrifað svona þetta er allavega við ströndina á Mallorka þar sem við bjuggum í "þýska" hverfinu. Þetta er tekið þegar við hittum Sigrúnu á ströndinni. Við vorum þarna töluvert á röltinu ásamt þúsundum annarra. Hafgolan dregur úr hitasvækjunni og gerir dvölina léttari. Hiti var svona að jafnaði um 26°C, nema síðasta daginn þá rauk hann upp í 34°C vegna hitabylgju sem kom frá Sahara. Við vorum á Mallorka í viku fórum 11. júní og komum til baka 18. júní.





Stytta Frédéric Chopin. Einn af hápunktum ferðarinnar til Mallorka var heimsókn í safn Chopins í Valdimossa. Fórum á tónleika þar sem lögin hans voru leikin á píanó. Nutum útiverunnar í frábæru veðri og umhverfi. Skoðuðum klaustrið sem hann bjó í ásamt franska rithöfundinum George Sand (kona). Þaðan lá leiðin til Soller sem er yndislegur hafnarbær við austurströndina. Horfðum á fiskibáta koma til hafnar með afla sinn og keyrðum um fjallahlíðar hlustandi á lög Chopin. Hann bjó að vísu aðeins þrjá mánuði á Mallorka. En samdi þar nokkur lög og þeir hafa gert minningu hans verðug skil, en hann var Pólverji. Hann var lungnaveikur þegar hann kom og læknar töldu að dvölin gæti gert heilsu hans gott. Mallorkabúar tók honum og Sands og börnum hennar tveimur frekar illa en það er önnur saga. Chopin fæddur 1810 og lést 1849.

Á ferðinni. Þetta er við götuna fyrir framan hótelið sem pabbi og mamma bjuggu. Með þeim á hóteli voru Þórunn systir og Svenni mágur með Júlíusi. Sigrún, Unnur frænka og Helga vinkona hennar. Didda vinkona Þórunnar með Ými og Yrsu. Svo var í daglegu kompaní með hópnum hann Helgi með ömmu sína, en þau hafa verið síðastliðin þrjú ár í slagtogi með þessu gengi þar sem þau hafa alltaf verið á ferðinni á sama tíma. Þetta var samstilltur hópur sem brallaði ýmislegt saman. Mikil uppbygging túrisma og samgöngukerfis hefur átt sér stað á Mallorka á undanförnum árum. Það leynir sér ekki. Lítið virðist við að vera inn í landi í þorpunum fjarri ströndinni. Þarna má finna margt áhugavert að skoða fyrir þá sem ekki eru mikið fyrir það að liggja mikið á ströndinni.




Í Porto Cristo. Við fórum að sjálfsögðu í Drekahellana sem eru rétt hjá bænum Porto Cristo. Hér má sá Sirrý með unga fólkinu í ferðahópnum sem öll fóru í Drekahellana. Sagt er að enginn hafi komið til Mallorka nema hafa heimsótt þá. Borðuðum hádegisverð í Porto Cristo. Þarna má sjá Helgu, Unni, Guðfinnu, Sirrý, Júlíus og Sigrúnu. á leiðinni komum í Majorica perlugerðina og glerverksmiðju. Majorica perlur eru heimsþekktar, en þær eru ekki ekta perlur heldur góðar eftirlíkingar. Svo virðist sem töluverð gróska sé í perluframleiðslu á eyjunni.







St. Magdalenu kirkja. Keyrðum hátt upp á fjallstopp til að líta augum kirkju St. Magdalenu. Hér má sá sr. Hjört fyrir framan kirkjuna. Þetta er önnur kirkjan sem ég kem í sem helguð er Maríu Magdalenu. Hin kirkjan er eins og dyggir lesendur vita í Véseley í Frakklandi. Við heimsóttum líka Basilicu Ave Maríu eða heilagrar guðsmóður í Lluc og er það mjög glæsileg kirkja. Mun tilkomu meiri en kirkja Magdalenu. En minnir okkur á að hlutverk hennar í kristindómnum er stærra (sjá vangaveltur um styttu hennar í Vézeley) en margir hafa viljað vera láta. Keypti aðra styttu af M. M. á Mallorka þar sem hún heldur á kaleik eða öllu heldur vasa. Tár renna niður kinnar hennar og eru augljóslega að renna niður í vasann. Þetta snýr að sorg hennar yfir missi hans og því að hann dó á krossinum. Eftirminnilegt að hafa prestinn með í þessari ferð til að útskýra það sem fyrir augu bar í kirkjunum. Það gefur svona pælingum að sjálfsögðu margfallt vægi að hafa kennimann með í för sem getur útskýrt margt af því sem kemur í upp í huga leikmannsins.

sunnudagur, 10. júní 2007

Vikan sem leið.

Það hefur verið í mörgu að snúast undanfarna daga og lítill tími gefist til að blogga. Á föstudaginn var ég á formóti Rótarý í Reykjanesbæ og svo var umdæmisþingið í gær. Vorum í gærkvöldi á lokahófinu sem haldið var í Svartshengi hjá orkuveri þeirra Suðurnesjamanna. Á föstudagskvöldið sat ég rótarýfund í Reykjanesbæ. Minnisstæðasta heilræðið kom frá Texsasbúa sem mættur var til þess að ávarpa fundinn fyrir hönd alþjóðaforsetans. Heilræði hans voru þessi: If it´s going to be, it is up to me. Þetta er nú svona það helsta. Hjörtur og Ingibjörg fóru með drengina norður á Akureyri. Þau eru þar í íbúð sem þau fengu leigða. Við fórum í dag og heimsóttum Valda og Stellu og litlu stúlkuna og Vélaugu og Sigurð. Meira síðar. Kveðja.

mánudagur, 4. júní 2007

Fædd er lítil yngismær.

Stella og Valdimar eignuðust litla dóttur í morgun kl. 7.00. Stúlkan er 15 merkur og er 52 cm og kraftmikið barn. Þetta er hin laglegasta snót með dökkt hár eins og hún á kyn til. Sigrún fór með myndavélina mína til Mallorka í dag, þannig að ég get ekki sýnt ykkur mynd af henni. Kveðja.

sunnudagur, 3. júní 2007

Í sumarbústað fyrir austan fjall.

Sápukúlublástur.
Við sendum sjómönnum kveðjur á sjómannadaginn. Það er nú ekki beint veður til útihátíðarhalda í dag. En enginn er verri þótt hann vökni aðeins. Nú í gær fórum við austur fyrir fjall og heimsóttum Hjört, Ingibjörgu og strákana þeirra. Þau eru þar í sumarbústað næstu daga rétt hjá Hveragerði. Áttum með þeim góðan dagpart. Það er erfitt að filma unga menn sem stoppa aldrei og eru þess utan ekkert fyrir það að láta taka af sér myndir. Hér er verið að eltast við sápukúlur sem Sigrún frænka býr til.


Í heitum potti.
Nú svo var það að busla í heita pottinum. Það er gaman að hafa heila sundlaug við húsið þegar maður er tveggja ára og ekkert vatnshræddur. Aðstaða í Ölfusbúðum er mjög góð og örugglega gott að hvílast frá amstsri dagsins á þessu svæði. Margt að skoða og sjá í nærliggandi bæjum.








Jóhannes með m og p. Hér er mynd af Hirti og Ingibjörgu með Jóhannes Erni. Sá litli er alltaf glaður og hress. Við fórum í bæinn um kl. 22.00. Þá var komin svarta þoka á Hellisheiðinni og náði þokan alla leið niður í byggðir.

















Ingibjörg og foreldrar. Hér má sjá forelda Ingibjargar sem einnig komu í heimsókn.














Sirrý, Jóhannes Ernir og Hjörtur. Mynd af þremur ættliðum. Svipmótið leynir sér ekki.














Nafnarnir. Góð mynd af þeim Jóhannesunum tveimur í sveitinni.

föstudagur, 1. júní 2007

Erla Hlín stúdent.

Annállinn óskar Erlu Hlín Henrýsdóttur til hamingju með stúdentsprófið frá MR í dag. Þar er á ferð ung og glæsileg efnisstúlka sem ýmislegt er til lista lagt. Vorum boðin í mikla veislu heima hjá henni í dag. Sirrý fór svo í afmæli til vinnufélaga. Fréttir hafa borist af Axel bróður hann fer til Gautaborgar 3. júní og verður þar í þrjá daga með Axel jr. Hann gistir á þessu glæsihóteli rétt hjá leiktækjagarðinum Liseberg. Að ferðast með stíl það kann Axel. Nú síðar í mánuðinum mun hann fara til Spánar í frí með Rannveigu og Axel jr. Þar mun hann gista á Hótel Deloix Habitat sem er nýtt frábært 4 stjörnu hótel í Benidorm. Nú hefur tekið gildi reykingabann á veitingahúsum. Þeir sem vilja reyna að hætta að reykja bendi ég á eldra blogg mitt þar um sem má finna hér: Hætta að reykja. Annars lítið annað að frétta í bili. Kveðja.

Fréttir fyrir Mallorka fara.

Hjörtur og Ingibjörg eru í sumarbústað fyrir austan fjall. Stefanía kom í heimsókn í gær hress og kát frá Kanarí. Engar fréttir af Axel. Veit ekki hvort hann er kominn frá Gautaborg. Það er hvasst og skýjað í Kópavogi. Umræður á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra og nýrrar ríkisstjórnar. Annað var nú ekki í fréttum. Kveðja.