fimmtudagur, 10. apríl 2014

Vonlaus leit


Ég hef eytt töluverðum tíma í að fylgjast með leitinni að malasísku flugvélinni MH 370. Lítið um það annað að segja en að vonandi finnast svörtu kassarnir fljótt þannig að svör fáist um afdrif vélarinnar. Þessi fréttaflutningur um hvarfið hefur minnt mig á ameríska bíómynd sem ég sá í Kópavogsbíó sem drengur. Hún heitir ESCAPADE IN JAPAN og var framleidd 1957. Myndin gæti hafa verið sýnd hér svona tveimur árum síðar. Hún fjallaði um flugvél sem fer í hafið nálægt Japan. Allir bjargast en drengur sem er í flugvélinni verður viðskila og er bjargað af japönskum fiskimanni. Sonur fiskimannsins og ameríski drengurinn verða vinir. Lögreglan kemur að leita drengsins í þorpinu en strákarnir verða hræddir og flýja. Þeir fara um Japan á flótta með lögregluna á hælunum. Auðvitað endar þetta allt vel að hætti ameríska mynda. Allir hlæja, gráta, fallast í faðma og já, "happy ending." Heilabúið er furðulegasta verkfæri. Líklega hefur mér dottið þetta í hug þegar maður með heimsbyggðinni vonaði að einhver myndi lifa af. Á netinu fann ég þennan "poster" um myndina. Ameríska strákinn lék Jon Provost sem síðar varð þekkt barnastjarna í kvikmyndum um hundinn Lassy. 

föstudagur, 4. apríl 2014

Vinir Skúla - sextett


Eitt af því skemmtilegra sem ég hef tekið þátt í undanfarna mánuði er sextettinn Vinir Skúla, sem stofnaður var í fyrra til þess að koma fram á þorrablóti Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Við höfum haldið áfram að syngja saman og komið fram við ýmis tækifæri. Á skemmtunum Skaftfellingafélagsins, Söngfélags Skaftfellinga, afmælisveislum, nú síðast í kirkjukaffi Skaftfellingafélagsins í Breiðholtskirkju 23. mars sl og þar áður í Borgarskjalasafni Reykjavíkur á Safnanótt í febrúar. Félagarnir eru: Skúli Oddsson, Hákon Jón Kristmundsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Stefán Bjarnason, Helgi Gunnarsson og Gísli Þórörn Júlíusson.