fimmtudagur, 28. júlí 2011

Í aðdraganda Verslunarmannahelgar.

Og svo kom Verslunarmannahelgin. Fjölmiðlar, bæði blöð og útvarp æsa upp útilegugenin í fólki. Hvert skal haldið? Maður finnur spennuna vaxa. Hva, á ekki að fara neitt spurningum rignir yfir mann úr öllum áttum. Á vegunum er ekki keyrandi fyrir fólki sem er með fellihýsi, hjólhýsi, tjaldvagna nú eða bara kerrur á leiðinni í sumarbústaðinn. Þetta er síðasta sumarhelgin sem fjöldinn hefur til að njóta sumarsins og leika sér. Sitja í tjaldstól úr Rúmfatalagernum á tjaldsvæðinu með bjórkippu, sitja upp í brekku og kyrja söng, rorra í sumarhúsinu með rauðvínsglas og velta því fyrir sér hvað nágrannarnir eru að gera akkúrat þá stundina. Grilla á kolum lambakjöt nú eða SS grillpulsur ef verið er að spara. Spara! Ætli olían á bílinn kosti ekki fjörtíu þúsund krónur ef farinn er hringurinn. Hafið þið farið inn á Okurvefinn og séð hvað kaffipakkinn kostar í Freysnesi? Nei líklega er skynsamlegast að vera heima og halda fast utan um budduna sína og láta grannanum eftir fjörið um Verslunarmannahelgina. Góða ferð - sjáumst!

miðvikudagur, 6. júlí 2011

Aðalvík og Hesteyri

Gönguhópurinn fyrir framan Hjálmfríðarból Í gær lauk fimm daga ferð í frábærum hópi Skálmara um Hornstrandir. Dugnaður og æðruleysi þessa samstillta hóps verður lengi í minnum hafður. Ferðin hófst á föstudaginn sl. með því að siglt var frá Bolungavík til Aðalvíkur. Við gistum á Hjálmfríðarbóli í landi Sæbóls. Þaðan var svo farið í gönguferðir og til veiða í Staðarvatni. Auk þess tók hópurinn til hendinni með húsráðendum við ýmis útiverk. Síðasta daginn var gengið frá Aðalvík til Hesteyrar í mjög góðu veðri. Þaðan var svo siglt aftur til Bolungavíkur. Þetta hafa verið frábærir dagar í eins góðu veðri og hugsast getur til útiveru. Náttúra þessa svæðis er stórkostleg. Maður getur átt von á hverju sem er. Hvítabjörnum? Nei við sáum bara álftir. Meira síðar.....