laugardagur, 31. desember 2005

Við áramót.


Allt á sinn tíma, upphaf og endi. Nú árið er að líða í aldanna skaut. Þetta hefur verið viðburðarríkt ár, gott og gjöfult fyrir okkur hér í Brekkutúni. Fyrst er að nefna að við fengum okkar fyrsta barnabarn, Svein Hjört, um miðjan febrúar. Við höfum haft góða heilsu og gert víðreist á árinu. Ferðin til Utah, California, Arisona og Nevada veður lengi minnisstæð. Dvöl í London og heimsókn til Kristianstad í Svíþjóð á nýtt heimili Hjartar, Ingibjargar og Sveins Hjartar. Allt eru þetta mikilvægar perlur í perlufesti minninganna. Við höfum haft í mörgu að snúast bæði í vinnu og frítíma. Stundum svo að manni hefur stundum jafnvel fundist nóg um. Það er þó yfir engu að kvarta sem betur fer. Jæja, ég ætla ekki að fara að tíunda allt annað sem á dagana hefur drifið. Annálsritunin verður að duga hvað það varðar. Myndin sem fylgir þessum pistli er af flugeldasýningu sem var yfir Perlunni í vikunni. Ég vona að þið eigið öll ánægjulegt kvöld. Hugur okkar hér í Brekkutúni er hjá ykkur og með ykkur hvar svo sem þið dvelið á þessum tímamótum. Við vonum að nýtt ár færi ykkur ný og góð tækifæri. Þökkum heimsóknir hingað í Brekkutúnið og vel á minnst heimsóknir á þessa heimasíðu. Fariði varlega með flugelda og blys. Gleðilegt ár gott og farsælt komandi ár.


Flugeldar yfir Perlunni.

þriðjudagur, 27. desember 2005

Á þriðja í jólum.


Jólin eru hjá mörgum hin stóra fjölskylduhátíð. Þannig er það hjá okkur við höfum umgengist börn, tengdabörn, barnabarn, foreldra, systkini, mágfólk og börn þeirra. Samveran styrkir fjölskylduböndin og viðheldur mikilvægum tengslum stórfjölskyldunnar. Ykkur finnst þetta ef til vill svolítið uppskrúfað en svona er þetta eigi að síður. Það eru ekki allir svo vel settir að eiga stóra fjölskyldu. Í fjölmiðlum segir í dag frá konu sem fannst látin í íbúð sinni án þess að nokkur hafi vitjað hennar vikum saman. Á jóladagskvöldið kom mitt fólk í heimsókn. Áttum við ánægjulega stund með þeim. Júlíus Geir tók lög á flygilinn og mamma og pabbi spiluðu og sungu nokkur sálmalög. Við vorum öll sjö í gærkvöldi í Grænuhlíðinni hjá Sigurði og Vélaugu ásamt öðrum börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Kvöldið endaði á hinum árlega spilaleik sem ávallt er mikil skemmtan. Annars lítið að frétta. Veðrið hefur lægt eftir suðaustan rok og rigningu í nótt. Nú er gott skyggni úti og sést vel til helstu kennileita. Bið að heilsa ykkur.

sunnudagur, 25. desember 2005

Jóladagspistill.

Það hafa orðið umskipti í veðrinu. Búið að vera hífandi rok og rigning lengi fram eftir morgni. Það er dimmt í dalnum og byggðin kúrir í myrkrinu. Eins og venjulega var mikið um að vera í gærdag. Ég keyrði Hjört Friðrik í Borgarnesrútuna um hádegið. Vel á minnst þau eru hér heima í jólafríi Ingibjörg, hann og Sveinn Hjörtur. Með okkur hér í gærkvöldi voru Hilda og Magnús, Björn og Sunna og síðar um kvöldið komu Valdimar og Stella auk okkar þriggja sem erum heimilisföst. Við borðuðum gæs að hætti Björns, velling og jólaísinn sem er eftir uppskrift Jensínu ömmu. Eftir opnun pakka og kaffi fór fólk að tygja sig til síns heima, en við skelltum okkur í síðbúna kvöldheimsókn til Þórunnar systur og Svenna mágs. Þar hittum við prestshjónin og frændur og frænkur. Þetta er nú svona það helsta á þessum jóladagsmorgni. Boðskapur jólanna seitlar inn í sálartetrið og nærir hug og hjarta. Enn á ný er jólahátíð og svo flýgur tíminn áfram. Áður en við vitum komin áramót. Á myndinni má sjá þreytt jólabarnið okkar með pabba sínum. Kveðja.

laugardagur, 24. desember 2005

Á aðfangadagskvöldi.


Gamla kirkjan.

Lesendur þessar síðu vita að kirkjubyggingar er eitt af hugðarefnum annálsins. Það er við hæfi á þessu aðfangadagskvöldi að birta hér mynd af kirkjunni sem Sigurveig amma hennar Sirrýjar átti. Fátt er jólalegra en þessi gamla kirkja. Hún minnir um margt á kirkjurnar fyrir austan, sérstaklega Grafarkirkju sem nú lýsir upp næturmyrkrið í Skaftártungu. Nú fer að hefjast hin mikla hátið frelsarans er við fögnum fæðingu hans og við minnumst með kærleika og þökk þess sem var og þess sem við höfum. Það húmar að kvöldi hér í Fossvogsdal. Það er friðsælt yfir dalnum og við fáum "rauð" jól að þessu sinni. Fossvogskapellan, Borgarspítalinn og Útvarpshúsið eru uppljómuð en aðeins eitt rautt ljós á Perlunni að þessu sinni. Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og vonum að þið eigið góðar stundir. Kveðja.

Jólatréð og flygillinn.

Já, hann tekur sig vel út nýji flygillinn minn hjá jólatrénu. Nú er búið að stilla hann og ævintýrið fullkomnað. Hann hljómar yndislega og er hrein unun að fá að sitja og spila á hann. Jólalögin hljóma undursamlegar en nokkru sinni fyrr.

Jólasveinar Sveins.

Þessir jólasveinar eru órjúfanlegur þáttur í jólahaldinu. Þeir koma frá Gautaborg fyrir hátt í þremur áratugum til þess að lífga upp á jólin. Þeir þjóna vel þessu hlutverki sínu enn í dag. Hugsið ykkur svo eru til lærðir menn sem segja að jólasveinar séu ekki til. Mikið hlýtur að vera leiðilegt hjá þeim ef þeir sjá ekki jólasveinana all um kring á þessum árstíma.

mánudagur, 19. desember 2005

19. desember 2005

Það var helst í fréttum á þessum mánudegi að ömmubróðir minn Sveinn Sveinsson var jarðsunginn frá Kópavogskirkju. Blessuð sé minning hans. Prestur var sr. Hjörtur Hjartarson. Sveinn var 97 ára gamall. Eftir athöfnina í kirkjunni var erfidrykkja í félagsheimili safnaðarins. Við kynntumst Sveini þegar við bjuggum í Gautaborg á árunum 1975 til 1979. Heimsóttum hann oft á Bullegummansgatan og vorum í sjötugsafmælinu hans þar. Hann flutti 70 heim til Íslands og starfaði mörg ár eftir það hér heima við verslunarrekstur á Vesturgötunni. Hann stóð fyrir ættarmóti Gillastaðafólksins árið 1987. Þegar hann stóð fyrir því að heiðra minningu Sveins og Valgerðar á Gillastöðum. Við vorum í níræðsafmælinu hans árið 1998 sem hann hélt af miklum höfðingsskap. Annars var það pabbi sem var í miklum samskiptum við hann eftir að hann flutti að nýju til Íslands. Kveðja.

sunnudagur, 18. desember 2005

Stella á afmæli í dag.

Það bar helst til tíðinda í dag að við fórum í afmæli til hennar Stellu í Drápuhlíðina. Þar var hún Brynhildur líka í heimsókn. Okkar beið þetta fína veisluborð sem við gerðum góð skil. Næst lá leiðin í Smáralind til þess að kaupa fleiri jólagjafir. Við höfum verið dugleg í matgargerð í dag. Bökuðum loftkökur, hnoðuðum í piparkökudeig og bjuggum til hátíðarís. Ég verð nú aðeins að grobba mig á nýja flyglinum. Nú er búið að stilla hann og er hann hreint út sagt mjög góður. Píanóstillarinn óskaði mér til hamingju með þetta frábæra hljóðfæri. Nú get ég sagt að þessu flygil verkefni sé lokið með fullkomnum árangri.

laugardagur, 17. desember 2005

Laugardagspistill á aðventu.

Það er mest lítið í fréttum héðan . Við tókum daginn snemma og vorum komin út kl. 7.30 í göngutúr með Sunnu sem er hér í heimsókn. Björn er í London fór á fótboltaleik þar með Manchester United. Nú við fórum í Hafnarfjörð á jólamarkað svo fórum við í Ikea og fengum okkur hangikjöt og þaðan í Bónus í innkaupin. Við bökuðum lagkökuna sem við bökum fyrir hver jól. Ég fór seinnipartinn í leikfimi í nýju sundlaugina hér í Kópavogi. Hitti þar Helga vin minn. Í morgun var sannkallað vetrarríki kallt og vindur. Síðan hlýnaði þegar leið á daginn og snjófölin hvarf. Ég las í morgun viðtal við afkomanda Gunnars Gunnarssonar í Mbl. Þar segir frá því hvernig komið var í veg fyrir að hann fengi nóbelinn á sínum tíma. Þetta vekur mann til umhugsunar um það hvað menn geta verið óvægnir og grimmir. Jafnvel með listamanna og heimspekinga þar sem mannsandinn er sagður ná hæstu hæðum. Þetta sýnir manni líka hversu mikill óþveri getur verið að baki veraldlegum vegtillum mannanna. Að ég tali nú ekki um vegtillur sem veittar eru af "rentum" af framleiðslu sprengiefnis sem reyndist skilvirkara til að drepa menn en áður hafði þekkst. Kveðja.

fimmtudagur, 15. desember 2005

Tunglið á hádegi.


Tunglið yfir Akrafjalli kl. 12.30

Þessa sjón gat að sjá í dag um hádegisbilið. Fullt tungl yfir Akrafjalli kl. 12.30. Þetta var svo sérstök sýn að ég varð að birta hana hér á vefsíðunni. Vinnufélagi minn tók myndina á símamyndavélina sína. Annars lítið í fréttum. Ég fór í leikfimi í Nautulus í morgun. Er að reyna að byrja aftur á morgunleikfiminni sem ég stundaði af sem mestu kappi hér fyrir nokkrum árum. Maður er svolítið farinn að finna fyrir jólastressinu. Óleystu verkefnin hrannast upp.
Kveðja.

mánudagur, 12. desember 2005

Jólalögin flutt.

Í kvöld sungu Skaftarnir á LHS á endurhæfingardeild og geðdeild. Vel var mætt og sungin voru sömu lögin og í gærdag. Þá er kórinn kominn í jóla- og áramótafrí fram í janúar. Þetta er búin að vera ágætis "törn". Eftir áramót hefst nýjársstarfið sem endar væntanlega með tónleikaferðalagi í maí. Ég var einnig í síðasta píanótímanum fyrir áramót á föstudaginn. Nú er það heimanámið sem gildir. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Hingað litu við Ia vinkona og Sólrún dóttir hennar. Sigrún er á fullu í próflestri og situr vel við sýnist mér. Valdimar og Stella eru bæði í prófum en maður verður minna var við það enda býr fólkið nú fjarri Brekkutúninu. Veðrið undanfarna daga hefur verið gott. Snjólaust, plúsgráður 2 til 4 °C svolítill vindur. Núna þegar þetta er skrifað um kl. 22.30 er ágætis skyggni til Perlunnar. Flugljósið á fullu lýsir upp himininn hvítu og grænu kastljósi. Tíminn æðir áfram og tíminn til jóla styttist óðum. Það er dimmt úti og dagur styttist til 21. desember. Þá er stystur dagur en svo fer daginn að lengja að nýju. Þannig að þetta horfir allt til bóta.

laugardagur, 10. desember 2005

Sunnudagskaffi hjá Skaftfellingafélaginu.


Jólalög á aðventu.(mynd af ruv vef)
Komið þig nú öll blessuð og sæl. Á morgun kl. 4.00 verður sunnudagskaffi hjá Skaftfellingafélaginu í Bolholti. Kór Skaftanna mun syngja nokkur velvalin jólalög af því tilefni. Allir velunnarar eru hvattir til að mæta. Annars höfum við aðallega verið á búðarrápi í dag. Höfum varla stoppað. Þetta hefur gengið vonum framar og einhverju höfum við áorkað. Þetta er nú það helsta. Von er á Valda og Stellu hingað í hús síðar í kvöld. Kveðja.

fimmtudagur, 8. desember 2005

Hann á stórafmæli í dag.

Sr. Hjörtur á afmæli í dag 8. desember. Við óskum honum til hamingju með þennan merka áfanga í lífinu, árin 75. Það eitt og sér er góður áfangi. Afrekaskráin er löng og fáu lík. Það er óþarfi að vera tíunda hana núna á þessum vettvangi. Við vonum að sjálfsögðu að við fáum að njóta hans meðal okkar um mörg ókomin ár og hans ágætu konu. Við fórum í dag í afmælisveislu á Hlíðarveginn hittum Stebbu og Unni Jónsd., Axel og Rannveigu, Hjört og Unni Sveins börn og Kollu frænku. Annars hefur dagurinn liðið á sinn venjubundna hátt. Það er dimmt þessa dagana á Ísalandi. Ég fór í leikfimi í morgun kl. 7.15 og síðan fór ég í Blóðbankann og gaf blóð í dag eftir að hafa fengið neyðarkall vegna blóðskorts þar á bæ. Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag. Þetta er það helsta. Kveðja.

mánudagur, 5. desember 2005

Jólalögin fullkomnuð.


Altinn og bassinn.

Ég var á söngæfingu í kvöld. Við héldum áfram að æfa jólalögin. Það gékk mjög vel enda kunnum við þau flest ágætlega. Það verða tónleikar í Skaftfellingabúð næstkomandi sunnudag kl. 14.00. Allir velkomnir í köku og að hlusta á sönginn.

Kórinn á söngæfingu í kvöld.
Hér má sjá sópran söngvarana og tenórana þ.e. þá sem mættu það vantaði nokkra.

sunnudagur, 4. desember 2005

Á annan sunnudag í aðventu.


Hér komu Björn og Sunna í morgun. Hann var m.a. að hjálpa Sigrúnu í þýsku. Við fórum í kaffi til Valdimars og Stellu og komum við í ELKÓ á heimleiðinnni. Keyptum okkur "Web" myndavél. Sr. Hjörtur er með aðventuhugvekju í Grindavík í kvöld. Hér til hliðar má sjá kirkjuna. Mörg undangengin sunnudagskvöld annan í aðventu höfum við verið í kirkju á þessu kvöldi að hlíða á Sigrúnu syngja en nú er hún í engum kór. Þannig að við höfum ekki farið núna. Það er náttúrlega engin afsökun fyrir því að fara ekki og eiga góða stund í kirkju. Við vorum að leika okkur að því að tala við Hjört í gegnum MSNið og SKYPE. Annars lítið í fréttum héðan úr Brekkutúninu. Kveðja.

laugardagur, 3. desember 2005

Ferð til Vestfjarða.

Ég fór í gærdag vestur til Ísafjarðar. Myndin hér er af Silfurtorginu í vetrarbúningi. En sama sjónarhorn má finna á bloggi frá því í júlí er ég tók aðra mynd þar. Flugið vestur var bókað kl. 13.30 en við komumst ekki í loftið vegna þess að vélin var biluð. Skipt var um vél og haldið í loftið að verða 14.30. Flugið vestur gékk vel en það var svolítill hristingur yfir Djúpinu eins og verða vill. Fyrir óvana er þetta óþægilegt, vont en það venst. Hríðarmugga var en hún náði ekki inn í Skutulsfjörð. Erindið var fimmtugsafmæli sjávarútvegsráðherra haldið í Bolungarvík. Þetta var fínasta veisla og skemmtilegt að taka þátt í henni. Eftir ræður og mat var slegið upp balli og stóð það langt fram á nótt. Við vorum komnir heim á hótel um 4.00. Við vorum vaknaðir um 8.00 í morgun og drifum okkur þrír ég, Kristján Loftsson og Hjörtur Gíslason í gönguferð um bæinn. Enduðum inn í Gamla bakaríinu og fengum okkur kaffi og með því. Virkilega notaleg stund og frúin gaf okkur þetta fína "stollen". Átti flug kl. 14.20 en gátum fengið því flýtt til 11.20.Flugum í fylgd forsetans, formanns Sjálfstæðisflokksins og fleiri fyrirmanna. Það munaði um það við vorum komnir í bæinn kl. 12.00. Í dag hefur maður verið að jafna sig eftir ferðina. Sirrý og Sigrún fóru í þrítugsafmæli til Kristínar Guðmundsdóttur, dóttur Sveingerðar. Við hringdum í Hjört og Ingibjörgu og sáum nafna í beinni. Honum fer mikið fram. Jæja bið að heilsa.

miðvikudagur, 30. nóvember 2005

Nýtt samskiptaform.


Ég talaði í fyrsta skipti í dag í gegnum tölvuna mína með aðstoð SKYPE forritsins. Talaði klukkutíma við Hjört Friðrik í Svíþjóð. Þessar nýju samskiptaleiðir eru ótrúlegar. Fyrst var það MSN, Hotmail, Blogg og núna SKYPE. MSNið hefur það fram yfir SKYPE að þú getur talað í gegnum það og þú getur horft á viðmælandann í vídeó. Það er mikilvægt þegar hægt er að sjá litla barnabarnið þitt í beinni. Er ekki framtíðin sú að þetta fer allt í gegnum sjónavarpsrás áður en yfir líkur? Það kæmi mér ekki á óvart. Þetta er mikil breyting frá því þegar við bjuggum út í Svíþjóð fyrir þrjátíu árum og samskiptin heim voru í gegnum póstinn með bréfum sem tóku um viku að berast í milli. Það er bara ekki lengra síðan. Einstaka sinnum var hringt frá Íslandi. Þá urðum við svo hrædd að hjartað tók kipp. Það var nefnilega ekki hringt nema verið væri að tilkynna manni alvarlegar fréttir. Þessar tækninýjungar eru lykilatriði í alþjóðavæðingunni vegna þess að þær tengja fólk með auðveldum og ódýrum hætti og skapa nýjar forsendur til samstarfs. Enn eru samt hamlandi þættir sem þarf að leysa svo sem á fjarlægari stöðum eins og á hafi úti er dýrt að hafa samband í gegnum gervihnattarsíma, en það á eftir að verða ódýrara. Bloggið er sérstakt form samskipta. Það er opið og í formi dagbókar á opnu torgi sem gefur lesendum ákveðin prófíl af bloggaranum þ.e. ef maður vill leyfa það. Ég veit svo sem ekki hvað ég nenni þessu bloggi mikið lengur. Ég verð þó að viðurkenna það að þetta er svolítið gaman að halda svona dagbók. Gagnsemin er sú að fjölskyldan, vinir og forvitnir sem eru ekki í daglegu sambandi hefur tækifæri til þess að fylgjast með manni. Það sést á "kommentum" og viðbrögðum þegar við hittumst. Maður þarf ekki að rifja upp það helsta sem á daga manns hefur drifið. Við sjáum til. Kveðja.

þriðjudagur, 29. nóvember 2005

Jólalögin æfð.

Það var söngæfing í gærkvöldi. Við vorum að syngja jólalögin og það gékk mjög vel. Við kunnum nokkurn veginn þessi 10 lög sem við æfum á hverju ári. Þetta er ágætis afþreying á aðventunni að syngja sig í gegnum skammdegið. Hér komu þau Valdimar og Stella í gærkvöldi. Sunna er hér í stuttri heimsókn í fjarveru "hussa" síns og gætir útidyranna. Við fórum í heimsókn til mömmu og pabba á sunnudagskvöldið eftir ritun sunnudagspistilsins. Þau hafa í nógu að snúast sýnist mér. Jæja ég set punktinn hérna. Kveðja.

sunnudagur, 27. nóvember 2005

Fyrsti í aðventu.

Heliga Trefaldighets kyrka í Kristianstad. Myndin er af kirkjunni í Kristianstad í Svíþjóð. Við birtum hana hér í tilefni dagsins.
Við erum búin að setja jólaljós út í glugga hér í Brekkutúni. Margir nágrannar okkar eru búnir að skreyta hús sín með jólaperum. Undurbúningur jólanna er hafinn að fullu. Ég byrjaði að æfa jólalögin í dag á flygilinn minn. Yngsta barnið okkar er í próflestri á fullu og má ekki við truflun vegna lestursins. Með öðrum orðum þetta er allt í sínum föstu skorðum. Sirrý fór með Höllu frænku á tónleika í dag. Í gær fórum við á bíó með Helga og Ingunni og fengum okkur að borða á tælenska staðnum í Tryggvagötu. Þar er hægt að fá góðan mat fyrir hóflegt verð. Myndin sem við sáum var frönsk og fjallaði um keisaramörgæsir á suðurskautinu. Þetta var áhugaverð og skemmtileg mynd. Fjallaði hún um hvað þessi dýrategund þarf að leggja á sig til þess að geta eignast afkvæmi við þær aðstæður sem þar ríkja. Hvet alla til þess að sjá hana. Í dag fórum við í göngutúr kringum Tjörnina. Komum við í bakarí og er við komum heim hringdi Hilda þannig að við skutumst til hennar. Sú er nú aldeilis orðin myndarleg um sig. Þetta er nú það helsta í fréttum á þessum fyrsta sunnudegi í aðventu. Kveðja.

fimmtudagur, 24. nóvember 2005

Gullkorn.

Stundum rekst maður á gullkorn. Slíkt gullkorn birtist í Mbl. þann 19. nóvember sl. Þetta er grein eftir rithöfundinn Elísabetu Jökulsdóttur sem segist hafa þurft að takast á við ýmis vandamál í lífinu. Eitt af hennar vandamálum hefur verið af geðrænum toga. Vandamál sem hefur almennt verið litið á sem algert "tabú" í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir viðleitni til þess að bæta þar um. Hún hefur opið rætt þennan vanda sinn í Mbl. Greinarkornið hennar heitir: Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup. Í því felst að það að gefast upp geti verið liður í því að gefast ekki upp. Lífið sé víxlverkun, hreyfing fram og til baka, ekki beint áfram. Hluti af því að ganga vel sé að ganga illa. Það geti verið sérstök tækni í því að bíða í rólegheitum eftir velgengninni. Maður eigi ekki alltaf að gefast upp því hlutirnir taki stundum tíma. Maður eigi að taka eitt skref í einu. Í niðurlagsorðum sínum segir hún: Svo þetta er um að gefast upp og gefast ekki upp. Og gleymdu langhlaupinu. Lífið sést betur á röltinu. Það er ekki oft sem þessi annáll vitnar í greinarskrif. En þetta er í annað skiptið sem vitnað er í þennan rithöfund og þá djúpu speki sem lesa má úr pistlum hennar enda er hún ein af hvundagshetjum hans. Annars bar það til tíðinda í dag að ég var með fyrirlestur um gengismál á þingi FFSÍ. Kveðja.

miðvikudagur, 23. nóvember 2005

Á bíó.

Við fórum á bíó í gærkvöldi, The War Lord, með Nicolas Cage í aðalhlutverki. Myndin segir frá vopnasala og starfi hans og einkalífi. Myndin fjallar um lygi, mútur, svik, blóðbað, illsku, villimennsku þarf ég að segja fleira? Þetta var athyglisverð mynd og gagnrýnin á vopnasölu í þjáðum heimi. Samfélagsgagnrýni frá Holliwood sem vert er að sjá. Fær fjórar stjörnur. Við höfum dregið mjög úr bíóferðum. Hér áður fyrr fórum við einu sinni í viku eða jafnvel oftar. Það er lönguliðin tíð. Sama var með vídeóspólur. Við leigðum allt að tvær til þrjár á viku. Við erum svo til hætt að leigja þær. Við erum aftur á móti með tugi sjónvarpsstöðva. Nú segir Sirrý rétt í þessu: Svenni á ég að bjóða þér á bíó á morgun. Ég spurði spenntur hvaða mynd. Hvað haldið þið að hún segi: Lífið á Hrafnistu. Kveðja.

mánudagur, 21. nóvember 2005

Söngæfing

Maður er að reyna að herða taktinn í söngæfingunum. Hef ekki mætt tvö síðustu skipti vegna utanferðar og veikinda. Svo er maður líka farinn að stunda sund aftur að meiri krafti. Maður verður að reyna að halda sér í formi. Björn og Sunna komu hér í heimsókn í kvöld. Annars ekkert í fréttum. Kveðja.

sunnudagur, 20. nóvember 2005

Í dag.

Valdimar og Stella komu hér um hádegisbilið í heimsókn. Við höfum verið að mestu heimavið í dag við tiltekt. Skruppum aðeins í bókabúð fyrir Sigrúnu og fórum í heimsókn til mömmu og pabba. Þetta er nú það helsta í fréttum. Kveðja.

laugardagur, 19. nóvember 2005

Einn helgarpósturinn enn.

Hérna má sjá "turtildúfurnar tvær" Valdimar og Stellu. Bloggvinir óska þeim til hamingju með nýja Peougot bílinn. Þau heimsóttu okkur í vikunni þegar afi kom frá Svíþjóð. Þau eru alltaf til í þjóðmálaumræðuna. Sirrý kom frá Kaupmannahöfn og Kristianstad í gær, þannig að við eigum kannski von á þeim aftur í heimsókn við tækifæri. Annars er lítið að frétta héðan úr Brekkutúni. Ég fór í nýju sundlaugina upp í Leirvöllum í dag. Verst hvað það er langt í sund fyrir okkur sem búum miðsvæðis, austurbænum í Kópavogi. Þetta er mikið og glæsilegt mannvirki og bæjarfélaginu til sóma.Hér komu í dag Magnús, Hilda og Halla frænka. Hilda er orðin mjög myndarleg. Við skruppum niður Laugarveginn í dag til þess að sjá jólaljósin sem búið er að setja upp. Jólin nálgast en mér finnst verslunin alltaf vera að hefja verslunarþátt jólanna lengra og lengra frá jólunum. Nú í nóvember er allt komið í fullan gang. Þetta dregur úr þeirri spennu og tilhlökkun sem fylgdi jólunum hér áður. Bið að heilsa ykkur öllum nær og fjær.

fimmtudagur, 17. nóvember 2005

Gott skyggni.

Horfi hérna út um gluggan í Brekkutúni. Það er dimmt úti en gott skyggni. Sé flugvél taka sig til lofts upp yfir Öskjuhlíðina til austurs, þetta er Fokker. Lengra í burtu sé ég flugvél koma inn til lendingar úr vestri. Það er sem sé gott skyggni í myrkrinu, - heiðskírt í myrkrinu. Er hægt að segja svo? Að venju sendir Perluvitinn ljósgeisla sína út í myrkrið hvíta og græna svo kemur rautt ljós á milli. Fossvogskapellan er uppljómuð og flott. Borgarspítalinn og útvarpshúsið uppljómuð. Það hefur hlýnað og vonandi að það haldi eitthvað áfram. Fór á Hlíðarveginn í gær og heilsaði upp á foreldrana. Þar hitti ég Þórunni, Sveinn, Hjört, Árna og Júlíus. Sirrý er væntanleg til landsins á morgun frá Svíþjóð. Læt þetta duga í dag. Kveðja.

miðvikudagur, 16. nóvember 2005

Pælingar á miðvikudegi

Það hefur hlýnað aftur eftir brunakuldann í gær - 6°C. Ég hugsa að það sé a.m.k. + 2°C núna um kl. 18.00. Það er ekkert í fréttum. Var að koma heim úr vinnunni. Það er allt frekar tíðinda lítið af þessum slóðum. Sigrún alltaf að læra og ég var að æfa mig á flygilinn. Ég hef verið að lesa á blogg síðum ýmislegt sem yngra fólk skrifar þetta + 20 ára. Margt er ágætt og gaman að lesa. Það sem mér finnst einna skemmtilegast í skrifum unga fólksins er hipsursleysi og beinskeytni þess. Þetta er ferskleiki sem því miður oft tapast hjá okkur sem eldri erum. Við ritskoðum sjálf textann okkar óþarflega mikið, sem gerir það að verkum að hann verður flatari. Viljum ekki vísvitandi stíga á tær fólks eða valda óþægindum. Ætli þetta sé ekki flokkað undir reynslu okkar sem eldri erum. Þessar hlugleiðingar eru væntanlega tilkomnar vegna þess að í dag er dagur tungunnar.

þriðjudagur, 15. nóvember 2005

Kominn frá Svearíki.

Lagði af stað frá Kristianstad í morgun kl. 8.18 með lest áleiðis til Kastrup. Þurfti að skipta um lest í Malmö. Ferðin tók tæpa tvo tíma og var hin þægilegasta. Flaug með Iceland Express til Íslands. Það var 45 mínúta seinkun á fluginu. Ég var kominn hingað í Btún upp úr 16.00. Þetta var í alla staði ánægjuleg ferð og tókst í mjög vel. Kristianstad er yndislegur bær. Stutt og þægilegt í alla þjónustu. Hingað komu í kvöld Valdi og Stella og áttum hér góða stund saman. Kveðja til ykkar allra.

sunnudagur, 13. nóvember 2005

Á ferð um Skåne




Fórum til Kivikur í dag og upp á Stenhuvud sem er hæð sem veitir gott útsýni út á Eystasalt. Þetta er friðland og fallegt útivistarsvæði. Síðan fórum við á kaffihús í Simrishamn. Myndin hér við hliðina er tekin í Simrishamn. Ætli þetta sé ekki skjaldarmerki bæjarins á húsinu. Þess næst lá leiðin í IKEA í Malmö. Hvað er sænskara en það? Fengum okkur að sjálfsögðu sænskar kjöttbullar með lingonbär. Nokkrar myndir frá deginum kveðja.

laugardagur, 12. nóvember 2005

Fleiri myndir frá Svíþjóð.

Hér eru Sirrý amma, nafni og mamma hans á kaffihúsi i Kristianstad. Maður verður nú að fá pela á búðarrápinu.

Hér eru Sirrý og Ingibjörg á skranmarkaði í Kristianstd.


Þetta er við Stora torget i Kristianstad.

Hjörtur við Eystrasalt.

Fréttir frá Svíþjóð.



Komiði sæl og blessuð. Við Sirrý erum stödd hér í Kristianstad hjá Hirti, Ingibjörgu og nafna. Dveljum hér í góðu yfirlæti í þessari rosa fínu íbúð. Þetta er miklu flottari íbúð en ég bjóst við. Í gær vorum við í bænum og skoðuðum í verslanir. Hér er flottur miðbær með mörgum fínum verslunum. Við fórum á þetta líka fína kaffihús. Við erum búin að fá okkur bílaleigubíl og ætlum aðeins að skoða næsta umhverfi. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

miðvikudagur, 9. nóvember 2005

Yfir Pollinn.

Ég ætla að skreppa yfir Pollinn á morgun og taka langa helgi og gista hjá Hirti, Ingibjörgu og nafna. Það er nú vart við hæfi að kalla hið mikla Norður - Atlantshaf poll. Þegar maður er búinn að sitja í flugvél frá Lissabon í Portugal til Mapútó í 11 tíma þá finnst manni 3 tímar í flugi ekki mikið mál. Eins og við gerðum hér um árið. Nú eða síðasta sumar frá Keflavík til San Francisco í álíka tíma. Það er annars ekkert sérstakt í fréttum. Tíminn æðir áfram og maður hefur vart undan að snúast í kringum sjálfan sig. Nú lenti ég í því í kvöld að þegar ég ætlaði að fara út með ruslið þá var ruslatunnan horfin!!! Ruslið var tekið í morgun eða gær og karlarnir hafa ekki skilað tunnunni. Sigrún reynir að finna út úr því á morgun. Bið að heilsa öllum. Kveðja.

þriðjudagur, 8. nóvember 2005

Hann á afmæli í dag.

Til hamingju með daginn Hjörtur minn. Sendum þér og þinni fjölskyldu bestu kveðjur héðan í tilefni dagsins. Það er fínt veður hérna í dalnum nokkrar plúsgráður og stillt veður. Annars er mest lítið í fréttum. Jú annars hér komu Valdimar og Stella heldur betur vel akandi í kvöld á nýjum bíl. Þetta er Peugot ´99, hvítur 405 típan. Við Sigrún fórum með þeim einn rúnt í bæinn til þess að prófa gripinn. Kvefið er heldur í rénun, en ég er búinn að vera askoti slappur undanfarið. Hlítur að vera einhver flensuskítur. Sigurður pabbi Sirrýjar er búinn að vera á sjúkrahúsi. Hann er á batavegi og gert ráð fyrir að hann útskrifist á morgun. Kveðja.

mánudagur, 7. nóvember 2005

Á mánudagskvöldi.

Það er ekkert spennandi að byrja vikuna þrælkvefaður. Ég vona samt að þetta líði hjá fljótlega. Treysti mér þess vegna ekki á söngæfingu í kvöld. Það er stillt veður hérna í dalnum og það hefur heldur hlýnað aftur sem betur fer. Var á ráðstefnu í dag sem fjallaði um framtíðarhorfur þorskstofnsins. Sumir segja að hagfræðin sé hin döpru vísindi. Ég hef nú ekki verið sammála þessari nafngift og raunar ekki skilið hana. Hef reyndar grun um að þetta sé komið frá stjórnmálafræðingum. (Lesist Stella) En hvað má þá segja um blessaða fiskifræðina. Allar kúrfurnar þeirra lúta niður á við - hver einasta. Grínlaust þá var ráðstefnan alvarleg áminning um hættulegt ástand þorskstofna í Norður - Atlantshafi. Mikilvægt er að bregast við minnkandi stofnum með auknum verndaraðgerðum. Spurningin er bara hvaða aðferðir duga best. Hugsið ykkur þrátt fyrir engar veiðar í nær tvo áratugi hefur þorskstofninn við Nýfundnaland ekki náð sér aftur eftir ofveiði. Nú er það stóru gömlu hrygnurnar sem þarf að vernda, því þær geta af sér stóru hrognin sem eiga betri lífslíkur. Þetta gengur nú erfiðlega í suma sjómenn. Þeir eru svo uppteknir af því að það séu ungu konurnar sem séu frjósamastar og best fallnar til undaneldis. Það hljóti að vera eins hjá þorskinum. Það er mikilvægt fyrir okkur að ganga þannig um fiskimiðin að við getum skilað fiskistofnunum í betra ástandi en við tókum við þeim. Þetta hlýtur að vera okkar leiðarljós í nýtingu þeirra. Jæja nóg um fiskifræði í bili. Kveðja til ykkar allra.

sunnudagur, 6. nóvember 2005

Mynd af sr. Hirti Hjartarsyni.

Ég rakst nýlega á þessa mynd á vefsetri Grindavíkurbæjar. Vona að þeir amist ekki við því þótt ég birti þessa mynd hér á heimasiðunni okkar. Hér má sjá sr. Hjört flytja Grindvíkingum fagnaðarerindið á Sjómannadaginn. Veit ekki hvaða ár þetta hefur verið. Annars allt með kyrrum kjörum hér í Brekkutúni. Við Sigrún sitjum hér við skriftir. Hún að skrifa ritgerð um fjölmiðlun og ég að blogga. Hjörtur hringdi frá Svíþjóð og ég talaði við Sirrý. Hún fer til Kaupmannahafnar í dag. Valdimar kom heim í gær frá Svíþjóð. Hann hefur verið að aðstoða Hjört við flutninginn eins og áður hefur verið getið. Hjörtur sagði að það væri búin að vera töluverð umfjöllun um Ísland og Íslendinga í sænskum fjölmiðlum. Það stendur til að ég skjótist yfir Pollinn næstu daga í helgarheimsókn. Þetta er nú svolítið í stíl við fréttir af skipakomum og brottförum úr Sundahöfn. Úr annari dagbók sem við þekkjum sum. Nú ég get ekki kvartað yfir heimsóknum á vefslóðina því að hún hefur fjórfaldast frá því í maí slíðastliðinn. Ég á örugglega stóran hlut í því vegna þess að hver innkoma telur. Líka skrif og leiðréttingar.
Maður fer að slaga hátt upp í stóru blöðin.

Á sunnudegi.

Var að enda við að horfa á mynd á NK 2. Þetta er mikill munur að vera kominn með nokkrar stöðvar til að velja úr. Var að horfa á mynd um tékkneska flugmenn sem flugi í RAF í seinni heimsstyrjöldinni. Hugsið ykkur þeir voru settir í fangelsi eftir stríð í Tékkóslóvakíu og fengu ekki viðurkenningu fyrir þátttöku sína í seinni heimstyrjöldinni fyrr en 1991. Þá hafa ugglaust margir þeirra verið látnir.Það er ótrúlegt hvernig lífið getur leikið menn grátt. Það er svo sem ekkert í fréttum. Ég er búinn að vera slappur undanfarna daga af kvefpest. Þær eru orðnar nokkrar á þessu ári. Líklega er þriðja skiptið á árinu sem ég fæ svona flensu. Úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins við val á borgarstjórnarlistann liggur nú fyrir. Þau eru í samræmi við skoðanakannanir. Vilhjálmur er í 1. sæti. Ég var nú líka búinn að spá því. Hanna er í 2. sæti og Gísli Marteinn í því þriðja. Nú er að sjá hversu langt þetta framboð dregur. Athyglisvert er hversu vel konum hefur gengið í þessu prófkjöri. Það er vel að mínu mati að þær skuli sækja fram með þessum hætti. Horfði á þátt um hugsanleg áhrif af fuglaflensunni á CNN í gær. Þetta er ógvænleg staða en vonandi að takast megi að koma i veg fyrir að þetta verði að heimsfaraldri. Mikið er fjallað um hörmungarnar í Pakistan eftir jarðskjálftana og það hversu illa gengur að safna til hjálparstarfsins. Vonandi að úr því rætist. Jæja þið sjáið að ég er kominn í alþjóðamálin þannig að það er best að fara ljúka þessu. Bið að heilsa.

laugardagur, 5. nóvember 2005

Sitt lítið af hverju.

Ég fór á Hlíðarveginn í gær og heimsótti mömmu og pabba. Þau upplýstu mig um að Hjörtur Sveinsson sonur Þórunnar væri kominn í framboð fyrir Framsókn. Það voru svo sem engar fréttir. Margir búnir að spyrja mig hvort kappinn sé sonur minn. Annars er lítið í fréttum héðan. Fór í píanótíma í gærkvöldi. Það var leiðindaveður í nótt var alltaf að vakna. Það hefur hlýnað aftur og snjórinn er farinn aftur í bili. Hef verið í sambandi við Sirrý í Svíþjóð. Það er allt í góðum gír þar. Valdimar kemur heim í dag. Fékk þær fréttir í gær að Þórunn systir og Sveinn Larsson séu í Glaskow í fríi. Unnur og Júlíus eru á Úlfljótsvatni með skátunum. Fór í Björnsbakarí við Skúlagötuna í dag og keypti mér möndluköku og birkibrauð. Þetta bakarí er með bestu möndlukökurnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ekki sama bakarí og ber sama nafn og er á Hringbrautinni. Hitti þar kunningja og við ræddum aðeins um vesturfara og þá skoðun Páls Skúlassonar fyrrum háskólarektors að meðalhófið skapi "mestu" hamingjuna í lífinu. Ég mynti á að það að "gera" aldrei neitt gæti nú líka leitt til vanlíðan. Þannig að það er með þetta eins og annað. Allt orkar tvímælis þá sagt(gert) er. Heyrði í Helga Sig. í dag. Þau eru komin frá Frakklandi. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

föstudagur, 4. nóvember 2005

Til Kristianstad.

Ég keyrði Sirrý, Ingibjörgu og Svein Hjört á flugvöllinn áðan. Þegar þetta er skrifað er hann á leiðinni ásamt fylgdarliði til nýrra heimkynna í Kristianstad. Við vöknuðum kl. 4.00 í nótt til þess að vera komin í tíma suður eftir. Annars lítið að frétta héðan. Það er stillt veður og kallt - 5°C. Heyrði í þeim um hádegisbilið þegar þau voru komin til Kaupmannahafnar og búin að hitta Hjört og Valda. Flugið gékk vel og Sveinn var góður á leiðinni eins og við var að búast.
Kveðja.

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Svíþjóðarfréttir og annað smálegt.

Þeir bræður Hjörtur og Valdimar eru búnir að standa í ströngu í dag. Búslóð Hjartar kom til Kristianstad og þeir fóru tveir í það bræður að taka dótið úr gámnum og bera upp á þriðju hæð í blokk. Þeir kláruðu dæmið á fimm tímum. Það er nú vel af sér vikið af tveimur köppum. Að vísu voru þeir búnir að útbúa sig með trillum á hjólum og það er sem betur fer lifta í húsinu. Hvernig getur fólk sem til þess nýbyrjað að búa sankað að sér fullum 20 feta gámi af búslóð! Ja hérna ég býð ekki í það ef ég þyrfti að flytja. Það yrðu örugglega tveir 40 feta gámar miðað við þetta. Best að hugsa sem minnst um það. Annars er nú lítið í fréttum Sigrún er að fara á skólaball á morgun. Í Mbl. í dag var vitnað í Sirrý varðandi gamalt fólk og gæludýr. Hún hefur komist að því að gamla fólkið vilji margt eiga húsdýr en það er bannað víðast hvar í blokkum og sambýlum. Nú styttist í að hún fari aftur yfir pollinn og verði samferða Ingibjörgu og nafna sem eru að fara til nýrra heimkynna í Svearíki. Hér komu í gær þær frænkur Halla og Elín og gerðu stutt stopp. Ég var á söngæfingu í gær. Það er verið að æfa nýtt prógram á fullu með gömlum lögum í bland. Þetta er þriðji veturinn sem ég tek þátt í kórstarfinu. Nú þetta er svona það helsta sem ég man eftir. Kveðja.

sunnudagur, 30. október 2005

Þetta gerðum við.

Við höfum mest verið heimavið í dag við tiltekt enda veitir víst ekki af. Höfum heyrt í strákunum í Svíþjóð. Allt gott af þeim að frétta. Gámurinn með búslóðinni er að sögn kominn til Varberg þannig að það eru góðar líkur á að hann skili sér á réttum tíma. Fórum í göngutúr um Smáralind í dag og enduðum í helgarinnkaupum í Hagkaup. Komum við í OgVodafone og gáfum upp vinarnúmer sem hringja má frítt í. Nú svo fékk ég upplýsingar um að rétt væri að endurhlaða erlendu stöðunum í Digital Ísland. Viti menn ég fékk 31 stöð til viðbótar og stór aukið rými til að hlaða niður af netinu. Í kvöld hittum við nafna og mömmu hans í heimsókn hjá Guðmundi bróður hennar og Gerðu. Foreldrar þeirra voru líka í heimsókn því að kappinn á afmæli í dag. Annállinn óskar honum til hamingju með daginn. Nú annars höfum við ekki gert mikið í dag. Höfum verið að skrolla á milli sjónvarpsstöðva. Á morgun hefst ný vinnuvika og víst er að nóg er að gera við að ganga frá eftir aðalfund. Kveðja.

laugardagur, 29. október 2005

Vikulok.

Jæja kæru vinir. Nú er heldur betur komið vetrarríki í Fossvogsdal. Kunnugir segja að óveðrið í gær hafi verið leifarnar af fellibylnum Wilmu sem fór yfir austurströnd USA í vikunni. Það er kalt og snjór í dalnum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það er helst í fréttum að Sirrý er komin heim frá London eftir þriggja vikna dvöl þar. Valdimar Gunnar er í Svíþjóð í heimssókn hjá Hirti Friðrik. Hann ætlar að vera þar fram í næstu viku og hjálpa honum að flytja dótið inn í nýju íbúðina. Þeir sendu okkur SMS frá Khöfn í dag. Voru í Nyhöfn og á Strikinu. Sögðust hafa fengið sér þar bjór. Ég segi nú bara: Bröder ackta er för spriten.... Annars er þetta búin að vera annasöm vika. Undirbúningur undir og vera á aðalfundi L.Í.Ú. og svo hóf í gærkvöldi. Við voru að sjálfsögðu á hófinu að venju og skemmtum okkur vel. Það var boðið upp á fjölbreytilega skemmtun í og söngi og tónum. Var upp í útvarpi í þættinum Í vikulok í morgun. Þetta er svona það helsta í fréttum. Hér komu í stutta heimsókn í dag Sigurður og Véllaug. Annars höfum við verið heimavið og lítið í annað í fréttum. Kveðja.

sunnudagur, 23. október 2005

Í fýl með Skaftfellingum.


Ég fór í fýlaveislu hjá Skaftfellingafélaginu í gærkvöldi. Þarna voru samankomin um 150 manns til þessarar veislu. Fyrir þá sem ekki vita það þá er fýllinn sjófugl og verpir hann hér við suðurströndina. Þegar ungarnir eru fullvaxnir eru þeir veiddir til matar. Þá eru þeir oft svo feitir, og svifaseinir og geta ekki flogið. Það er löng hefð fyrir fýlsáti meðal Skaftfellinga. Fýlinn í gær var saltaður og borinn fram með rófum og kartöflum. Þetta er ágætis matur en svolítið sérstakur minnir á vel saltað kindakjöt. Það verður seint settur upp skyndibitastaður sem býður fýl. Lyktin er mjög sérstök, svona lýsiskeimur. Fólkið sem þarna var saman komið var flest af eldri kynslóðinni, þó var þarna eitthvað af yngra fólki. Nokkrir kórfélagar voru mættir og var þetta hin besta skemmtun. Skúli Oddsson formaður félagsins var ánægður með mætinguna og gat þess að ýmsir formenn átthagafélaga teldu að tími þeirra væri að líða undir lok. Það gæti ekki átt við um þetta félag í ljósi þátttökunnar. Ég þekkti nokkra þarna fyrir utan kórfélaga, svo sem Hjört og Vigdísi frá Herjólfsstöðum, Einar Finnbogason og Deddí konu hans sem leigðu hjá okkur í Víðihvamminum á sínum tíma. Pálma Magnússon bróður Guðlaugar Magnúsdóttur kórfélaga og Gautaborgara. Ég gleymdi að geta þess að ég hitti annan Gautaborgara í gær á Rússa ráðstefnunni. Það var hún Ester Magnúsdóttir. Þá hitti ég líka gamlan leikfélaga á Hansadögum úr Hvömmunum, Björgvin Vilhjálmsson son Villa múrara. Við fengum okkur kaffibolla saman og áttum létt spjall um æskudagana. Hann er sögugrúsakari eins og ég. Jæja nú er ég að fara til Laugu og Sigga í heimsókn.

laugardagur, 22. október 2005

Rússnesk mennngarvika og Hansadagar.

Þetta er búinn að vera dagur hinna mörgu fróðleiksmola svo ekki sé meira sagt. Ég byrjaði daginn á því að fara í Salinn í Kópavogi á ráðstefnu sem bar yfirskriftina Rússland og ég. Þar voru mættir fræðimenn íslenskir til þess að fjalla um Rússland frá ýmsum sjónarhornum. Fyrst talaði guðfræðingur um rússneska íkona. Þá fjallaði bókmenntafræðingur um rússneskar bókmenntir, þýðandi um þýðingar úr rússneskum verkum á íslenska tungu, hagfræðingur, Guðmundur Ólafsson, um rússneska sögu og ferðaskrifstofueigandi um ferðir til Rússlands. Allt voru þetta þakkarverð erindi. Það sló mig að hagfræðingurinn sagðist hafa verið búinn eða langt kominn með erindi um rússnesk efnahagsmál, en svo hafi honum þótt það svo leiðinlegt að hann hafi hent því. Í staðinn skautaði hann á nokkrum stórmennum og skálkum rússneskrar sögu allt frá Pétri mikla (myndin hér til hliðar er af honum) til vorra daga og gat þess að það væri ekkert gaman að fjalla um Rússland nema það væru 300 ár undir. Það kom strax í ljós þegar panelumræður hófust að fólk vildi fræðast um stöðu mála og ekki hvað síst stöðu efnahagsmála í Rússlandi í dag. Hvert landið stefndi undir stjórn Pútins, hvort landið væri að ná tökum á sínum málum eftir sovétáratugina skelfilegu, hvort takast mætti að laga þann félagslega og efnahagaslega mismun sem væri í landinu. Af hverju væri svona erfitt að ferðast til Rússlands. Þarna var af hinum almenna þátttakenda á ráðstefnunni komið inn á þá mynd sem blasir við almenningi hér á landi og væntanlega víðar. Í raun var frekar fátt um svör. Vandræði Rússa eru skelfileg og segir það kannski mest um þau að þeim fækkar um 1 milljón manns á ári um 300 þúsund manns deyja árlega af voveiflegum ástæðum þar af 150 þúsund manns af eitrun alkóhóls og vímuefna. Spurning hvort að það standist söguskoðun að umskiptin frá kommunismanum hafi verið án blóðsúthellinga í ljósi þessa. Hagfræðingurinn reyndi að hughreysta áheyrendur með því að vitna í Bismark sem forðum sagði að Rússar væru jafnan seinir til en þegar þeir loks mættu til leiks stoppaði þá ekkert af. Saga Rússlands er að mínu mati dæmi um hvernig þjóðir, já alþýða manna getur verið ofurseld ribböldum sem fara sýnu fram án þess að skeyta nokkru um samferðamenn sína. Þetta á ekkert bara við Rússa. Þetta er því miður saga mannkynsins allt of oft í stóru og smáu í gegnum aldirnar. Þegar ég var búinn að velta þessu fyrir mér fram að hádegi heyrði ég í útvarpinu að kl. 14.00 yrði flutt erindi í Minjasafni Hafnafjarðar um Hansa kaupmenn og Hafnarfjörð. Ég skelti mér þangað og hlustaði á það erindi sem flutt var af mínum gamla sögukennara í gaggó Aust, Gísla Gunnarssyni. Það var fróðlegt erindi um íslenska sögu og tengingu hennar við Hamborg og þýska fiskkaupmenn í gegnum aldirnar. Í þessu erindi fékk maður m.a. nasasjón af því hvernig verslunarveldi verða til og hvernig endalok þeirra verða. Það gildir hið sama um bæði Sóvétríkin og Hansaveldið að þau féllu að lokum innanfrá. Í lok erindis síns kom Gísli inn á það að stríð og viðskipti færu illa saman. Mér finnst það svolítil þversögn í ljósi sögunnar. Já, en ætli það sé ekki eitthvað til í þessu ef grannt er skoðað. Ef einhver vill vera "nastí" þá gæti hann sagt sem svo að Sveinn hafi verið í tímum hjá gömlum allaböllum í dag. Læt hér staðar numið í bili. Kveðja.

fimmtudagur, 20. október 2005

Þetta var helst í fréttum.

Sigrún Huld er farin til helgardvalar í London með Sirrý. Þær mæðgur ætla að strauja kortin á Oxfordstreet ef ég þekki þær rétt. Hún flaug út í dag með Iceland Express og lenti á Standsted flugvelli um kl. 19.00. Sirrý hélt fyrirlestur í London í gær um íslensk öldrunarmál. Fyrirlesturinn gékk mjög vel enda var búið að vanda vel til hans. Það kólnar hratt þessa stundina og verður örugglega frost í nótt. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja til ykkar allra.

þriðjudagur, 18. október 2005

Sungið með Sköftunum.

Fór á söngæfingu með Sköftunum í gær. Erum að æfa bæði ný og gömul lög. Það er fýlakvöld á laugardaginn kemur. Ég er að hugsa um að skjótast og fá mér saltaðan fýl svona einu sinni. Það er mikið um fýl núna og hann er víðar en oft áður segja Skaftfellingar. Nú svo fór ég í heimsókn til Árna Sveinssonar og Sunnevu í nýju íbúðina þeirra. Þetta er mjög glæsileg íbúð. Það er ekki nema ár síðan ég var í íbúðinni þeirra í Hafnarfirði, þá nýuppgerðri en þau seldu hana. Tíminn líður fljótt. Ég er líka byrjaður í píanótímum að nýju. Bauð kennaranum heim til þess að skoða nýja flygilinn. Honum leyst vel á hann og við spiluðum fjórhent. Ég á píanóið og hann undir á flygilinn. Nú svo er maður á fullu í leikfiminni og reyni að mæta eins og maður á Rótarýfundi. Annars er það helst af veðri að frétta það hefur hlýnað mikið síðustu daga og er hitinn allt að 10°c það léttir sannarlega þennan tíma ársins þegar skammdegið er að hellast yfir. Það þýðir nú ekkert að láta það á sig fá. Hef heyrt bæði frá Sirrý og Hirti. Þau eru bara í góðum gír í útlandinu. Sirrý heldur erindi á morgun fyrir Bretana. Jæja hef þetta ekki lengra að sinni. Kveðja til ykkar allra.

sunnudagur, 16. október 2005

Borgarnes heimsókn.


Frænkurnar tvær.

Við fórum í Borgarnes í dag að heimsækja Svein Hjört jr. sem við höfðum ekki séð í tvær vikur. Það urðu að sjálfsögðu fangaðarfundir og hann var svo glaður að sjá okkur Sigrúnu. Hann hefur aldeilis þroskast á tveimur vikum. Hann er farinn að vínka fólki og svo er hann farinn að skríða áfram. Ýtir sér með öðrum fætinum. Áður var hann farinn að klappa saman höndunum og láta smella í góm. Hann er svo glaðsinna og líkur pabba sínum að þessu leyti. Ingibjörg og Guðmundur bróðir hennar fóru norður og gengu frá dótinu og íbúðinni.

Sigrún frænka og nafni.

Alltaf gaman að láta taka af sér mynd til að senda pabba.

Nafni að skríða.

Nafni fór að skríða í vikunni og gerir það með að spyrna hægri fæti í gólfið. Þegar mamma hans fór norður eina nótt að ganga frá þá flytti minn sér að læra að vinka bless.

Sveinn Hjörtur og mamma hans.

Maður er flottur í fína stólnum hennar Katrínar frænku, sem stór apinn vermir oftast. Maður er orðinn miklu styrkari og það eru bara vikur í það að maður fari að ganga.

Nafni með Margréti ömmu.

Það væsir ekki um unga menn með allan þennan kvennafans í kringum sig.

laugardagur, 15. október 2005

Þann 15. október 2005.


Foreldrarnir.

Já ritstjóri annálsins á afmæli í dag. Honum hafa borist heillaóskir víða að frá Englandsströndum (Sirrý), Svíaríki (Hjörtur), Borgarnesi (Ingibjörg og nafni), Hlíðunum (Lauga), utanríkisráðuneytinu(Valdimar), landsfundi Sjálfstæðisflokksins(Björn) og svo heiðruðu foreldrar og systkini afmælisbarnið með því að koma í þrjú kaffi hér í dag, sem Sigrún sá um. Annars hefur deginum verið skipt milli fundarstarfa á landsfundinum og því að taka á móti heillaóskum. Í Brekkutúninu kom Júlíus Geir ásamt móður sinni og lék á hljóðfæri hússins. Júlíus ber þann tiltil að vera "skærasta von" stjórfjölskyldunnar sem hljómborðsleikari. Hinsvegar var yngsti gesturinn Axel Garðar jr. ekki eins ánægður með sinn hlut við hljómborðið og lýsti því yfir í samkvæminu að þetta væri "leiðinlegt afmæli". Hann hafði að vísu í millitíðinni farið út á götu og boðið þar gangandi vegfaranda sem honum leist vel á að koma inn og lífga upp á samkvæmið. En allir fengu að prófa sig við píanó og flygilinn. Þegar þetta er ritað eru Valdimar og Stellu í kvöldheimsókn.

Hann á afmæli í dag.....

Þórunn Ingibjörg stóð fyrir því að afmælissöngurinn var sunginn afmælisbarninu til heiðurs. Söngurinn endaði sem einsöngur hennar því að þetta sérstaka lag hefur aldrei hlotið hylli innan fjölskyldunnar, þótt oft hafi hann verið raulaður meira í gríni en alvöru. Hún sjálf kemst í ákveðið "mood" við að heyra lagið. Axel Garðar sr. tók nokkur lög á flygilinn og píanóið sem ég flokka sem Kungälvsrokk vegna þess að hann fullnemaði þessa flutningstækni á þeim árum. Fyrir þá sem ekki þekkja til má benda á að hér má líta systkinin frá vinstri til hægri: Axel Garðar, Rannveigu mágkonu, Stefaníu og Þórunni Ingibjörgu. Þess ber einnig að geta að Unnur Jónsdóttir hringdi í frænda sinn og óskaði honum sérstaklega til hamingju með daginn. Hún gat ekki mætt vegna anna við æfingar á söngsviðinu. Af politíska sviðinu er það helst að frétta að umræðan í sjávarútvegsnefnd einkenndist nú meira af málefnalegri yfirvegun en áður. Menn ræddu það að nýr sjávarútvegsráðherra hefði af röggsemi og yfirvegun tekið skilvirkan þátt í störfum nefndarinnar. Hann leggur upp með ályktun sem vonandi mun reynast farsælt veganesti á næstu misserum.

fimmtudagur, 13. október 2005

Nýi flygillinn prófaður.


Pabbi hlustar.

Hér komu í kvöld mamma og pabbi til þess að skoða nýja flygilinn í Brekkutúni. Hann er búinn að vera 8 vikur á leiðinni til landsins frá USA. Loksins er hann kominn og ég verð að segja það að mér líst bara mjög vel á gripinn. Stenst allar mínar kröfur. Ég þarf væntanlega að láta endurstilla hann fjótlega.

Mamma vígir flygilinn.

Það mátti nú ekki minna vera en að hún tæki nokkur Fúsalög. Hann sagði það sjálfur að enginn spilaði lögin sín betur en hún og ég er sammála því.

Nýi flygillinn.
Svo er hér mynd af gripnum fyrir þá sem vilja dást að þessu volduga hljóðfæri.

þriðjudagur, 11. október 2005

Löng helgi í London.


Á "food market" við London Bridge.

Jæja, ég er kominn frá London. Við fórum á fimmtudaginn 6. október og ég kom í gær þann 10.október. Sirrý varð eftir í London en hún mun dvelja þar nokkurn tíma við fræði- og rannsóknarstörf við King´s College sem er rétt hjá Waterloo Bridge. Ferðin gékk í alla staði vel og við áttum mjög góða daga í stórborginni. Það er alltaf gaman að koma til Lundúna og anda að sér stórborgarmenningunni. Fara á kaffihús, bókabúðir, markaði og bara vera til.

Á Portobello Road í Notting Hill.

Við gengum Portobello Road á sunnudaginn. Það var óvenjurólegt og lítið um að vera. Laugardagurinn hlýtur að vera aðaldagurinn. Þetta er ekta túristastaður enda vel þekktur úr myndinni Notting Hill. með Hugh Grant og Julíu Roberts.
f
Covent Garden á sunnudegi.

Það er afskaplega gaman að rölta um Covent Garden um helgar. Horfa á grínistana, töframennina og tónlistarmennina spila. Covent Garden er einn af þessum stöðum sem við heimsækjum jafnan þegar til London er komið.

The London Eye, þinghúsið og Big Ben.

Þessi mynd er tekin af Waterloo Bridge til suðvesturs að ég held. Þarna má sjá útsýnishjólið, þinghúsið og Big Ben. Hjólið er nú ekki enn orðið jafn frægt og Big Ben en hver veit. Við fórum nú ekki hring í hjólinu. En við gengum að venju helling.

Útsýni til St.Pouls kirkju og City.

Þetta er útsýni af Waterloo Bridge til austurs í áttina að City og þarna má greina ýmsar kunnar byggingar ef vel er gáð. Mæli með Waterloo Bridge sem útsýnisstað. Myndirnar tala sýnu máli.
Ef einhver skyldi vera svo ókunnur í London að vita ekki hvaða á þetta er þá er þetta Thames áin nafntogaða. Veðrið lék við okkur og á mánudeginum var 2o stiga hiti. Við ferðuðumst mikið í neðanjarðarlestum. Þóttumst finna fyrir undirliggjandi spennu meðal farþega vegna sprengjutilræðisins sl. sumar. En það þýðir ekkert að láta það á sig fá, vonar bara hið besta.

Sirrý fyrir framan King´s Collige.

Við röltum þarna við á sunnudaginn var. Það er ótrúlegt hvað við göngum mikið á strætum borgarinnar. Enda er margt að skoða og margt að sjá.

sunnudagur, 2. október 2005

Í bröns hjá Gunnari Erni.


Íbúðareigandinn.

Við fórum í þennan fína bröns hjá Gunnari í dag. Fyrst komum við við á Lokastígnum og tókum nokkra poka og pinkla og fórum með í Drápuhlíðina fyrir Hildu. Þetta er alveg að koma hjá henni og Magnúsi. Nýja íbúðin er rúmgóð og flott. Búið að mála allt í hólf og gólf og nú er bara að raða dótinu. Nú við fórum að heimsækja Gunnar Örn í nýja íbúð sem hann var að kaupa í Hlíðunum. Hún er á fjórðu hæð í blokk og er björt og rúmgóð, en það er svolítið plamp upp stigana. Hittum Sigurð, Laugu, Baldur Braga, Maríu Glóð og Bryndísi og svo leit Birna við.

Úr sama stofuglugga.

Hér er horft til suðvesturs í átt til Öskjuhlíðarinnar og Perlunnar.

Úr stofunni hjá Gunnari.


Útsýni úr stofuglugga.

Þetta er útsýnismynd úr stofunni í norðvestur átt í nýju íbúðinni hans Gunnars. Þarna blasir við kirkja Óháða safnaðarins. Fer vel að birta hana á þessari vefslóð með öllum hinum kirkjubyggingunum sem hér má skoða.

Eldhúsumræður.


Í eldhúsinu hjá Gunnari.

Við áttum góða stund í eldhúsinu. Þetta er lítið eldhús og þessvegna kjörinn vettvangur til að taka eina þjóðmálaumræðu í bland við fjölskylduspjallið. Nú ég náði upp svolítilli stemmingu um hugsanlegan Lönguskerjaflugvöll út í særokinu sem sást vel úr stofunni.

laugardagur, 1. október 2005

Á laugardegi.


Í hvíld eftir erfiði dagsins.

Mikið búið að vera að gera hjá Sirrý í dag. Hilda systir að flytja í nýja íbúð með honum Magnúsi sínum. Valdi og Stella hjálparhellurnar ómentanlegu lögðu að vanda vænan skerf að málum og Sigrún var til staðar líka. Sjálfur sat ég heimavið og því miður gat ég ekki orðið að liði. Hjörtur hringdi frá Svíþjóð. Gunnar Örn er líka að flytja í nýja í búð í Hlíðunum og er okkur boðið í "bröns" hjá honum á morgun. Hef verið hér heima við og horfði á myndina Aviator, sem er um líf Howard Hughes þess merka framkvæmdamans. Leonardo de Caprio fer með alaðhlutverkið. Ég var búinn að lesa ævisögu karlsins og hef oft séð myndskeið af lífi hans þannig að það kom mér fátt á óvart í myndinni. Maður fær það mjög á tilfinninguna að hann hafi fengið svona "Holliwoodslikju" yfir lífshlaup sitt miðað við það sem maður var búinn að lesa áður. Við hverju var svo sem að búast frá glamor verksmiðjunni. Engu að síður var þetta hin þekkilegasta afþreying. Þráhyggja HH hefur verið svakaleg og valdið honum miklu hugarvíli. Það var merkilegt að fá innsýn í þann sjúkdóm. Nú skilur maður betur þessa kóngulóafóbíu sumra. Síðan var áhugavert að sjá sérstaka umfjöllun um "special effects" mennina og hvernig ýmsar glæfrasenur í myndinni eru til komnar með þeirra þátttöku. Nú í umfjöllun um HH sem fylgdi myndinni var stöðugt verið að minna á mikilvægi HH í því að fleyta fluginu fram á við og gera almenningsflugið að því sem það er í dag. Það má allt vera satt og rétt. En karlinn fór nú oft fram úr sjálfum sér og komst upp með það. Jæja hef þetta ekki lengra.