mánudagur, 7. nóvember 2005

Á mánudagskvöldi.

Það er ekkert spennandi að byrja vikuna þrælkvefaður. Ég vona samt að þetta líði hjá fljótlega. Treysti mér þess vegna ekki á söngæfingu í kvöld. Það er stillt veður hérna í dalnum og það hefur heldur hlýnað aftur sem betur fer. Var á ráðstefnu í dag sem fjallaði um framtíðarhorfur þorskstofnsins. Sumir segja að hagfræðin sé hin döpru vísindi. Ég hef nú ekki verið sammála þessari nafngift og raunar ekki skilið hana. Hef reyndar grun um að þetta sé komið frá stjórnmálafræðingum. (Lesist Stella) En hvað má þá segja um blessaða fiskifræðina. Allar kúrfurnar þeirra lúta niður á við - hver einasta. Grínlaust þá var ráðstefnan alvarleg áminning um hættulegt ástand þorskstofna í Norður - Atlantshafi. Mikilvægt er að bregast við minnkandi stofnum með auknum verndaraðgerðum. Spurningin er bara hvaða aðferðir duga best. Hugsið ykkur þrátt fyrir engar veiðar í nær tvo áratugi hefur þorskstofninn við Nýfundnaland ekki náð sér aftur eftir ofveiði. Nú er það stóru gömlu hrygnurnar sem þarf að vernda, því þær geta af sér stóru hrognin sem eiga betri lífslíkur. Þetta gengur nú erfiðlega í suma sjómenn. Þeir eru svo uppteknir af því að það séu ungu konurnar sem séu frjósamastar og best fallnar til undaneldis. Það hljóti að vera eins hjá þorskinum. Það er mikilvægt fyrir okkur að ganga þannig um fiskimiðin að við getum skilað fiskistofnunum í betra ástandi en við tókum við þeim. Þetta hlýtur að vera okkar leiðarljós í nýtingu þeirra. Jæja nóg um fiskifræði í bili. Kveðja til ykkar allra.

Engin ummæli: