þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Svíþjóðarfréttir og annað smálegt.

Þeir bræður Hjörtur og Valdimar eru búnir að standa í ströngu í dag. Búslóð Hjartar kom til Kristianstad og þeir fóru tveir í það bræður að taka dótið úr gámnum og bera upp á þriðju hæð í blokk. Þeir kláruðu dæmið á fimm tímum. Það er nú vel af sér vikið af tveimur köppum. Að vísu voru þeir búnir að útbúa sig með trillum á hjólum og það er sem betur fer lifta í húsinu. Hvernig getur fólk sem til þess nýbyrjað að búa sankað að sér fullum 20 feta gámi af búslóð! Ja hérna ég býð ekki í það ef ég þyrfti að flytja. Það yrðu örugglega tveir 40 feta gámar miðað við þetta. Best að hugsa sem minnst um það. Annars er nú lítið í fréttum Sigrún er að fara á skólaball á morgun. Í Mbl. í dag var vitnað í Sirrý varðandi gamalt fólk og gæludýr. Hún hefur komist að því að gamla fólkið vilji margt eiga húsdýr en það er bannað víðast hvar í blokkum og sambýlum. Nú styttist í að hún fari aftur yfir pollinn og verði samferða Ingibjörgu og nafna sem eru að fara til nýrra heimkynna í Svearíki. Hér komu í gær þær frænkur Halla og Elín og gerðu stutt stopp. Ég var á söngæfingu í gær. Það er verið að æfa nýtt prógram á fullu með gömlum lögum í bland. Þetta er þriðji veturinn sem ég tek þátt í kórstarfinu. Nú þetta er svona það helsta sem ég man eftir. Kveðja.

Engin ummæli: