fimmtudagur, 24. nóvember 2005

Gullkorn.

Stundum rekst maður á gullkorn. Slíkt gullkorn birtist í Mbl. þann 19. nóvember sl. Þetta er grein eftir rithöfundinn Elísabetu Jökulsdóttur sem segist hafa þurft að takast á við ýmis vandamál í lífinu. Eitt af hennar vandamálum hefur verið af geðrænum toga. Vandamál sem hefur almennt verið litið á sem algert "tabú" í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir viðleitni til þess að bæta þar um. Hún hefur opið rætt þennan vanda sinn í Mbl. Greinarkornið hennar heitir: Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup. Í því felst að það að gefast upp geti verið liður í því að gefast ekki upp. Lífið sé víxlverkun, hreyfing fram og til baka, ekki beint áfram. Hluti af því að ganga vel sé að ganga illa. Það geti verið sérstök tækni í því að bíða í rólegheitum eftir velgengninni. Maður eigi ekki alltaf að gefast upp því hlutirnir taki stundum tíma. Maður eigi að taka eitt skref í einu. Í niðurlagsorðum sínum segir hún: Svo þetta er um að gefast upp og gefast ekki upp. Og gleymdu langhlaupinu. Lífið sést betur á röltinu. Það er ekki oft sem þessi annáll vitnar í greinarskrif. En þetta er í annað skiptið sem vitnað er í þennan rithöfund og þá djúpu speki sem lesa má úr pistlum hennar enda er hún ein af hvundagshetjum hans. Annars bar það til tíðinda í dag að ég var með fyrirlestur um gengismál á þingi FFSÍ. Kveðja.

Engin ummæli: