sunnudagur, 31. janúar 2010

Góður dagur og svo bronsdagur

Við fórum í Perluna í gærkvöldi með góðum vinum. Þetta er frábært veitingahús með frábæran mat- og vínseðil. Það verður enginn svikinn af kvöldverði í Perlunni svo mikið er víst. Nú svo er maður búinn að sitja límdur við sjónvarpið á sannkallaðri handboltaveislu --- og Ísland fékk bronsið.

fimmtudagur, 28. janúar 2010

Enn sætari sigur á Norðmönnum

Jæja þá erum við komin í undanúrslitin með sigri á frændum okkar í Noregi. Þetta lið er magnað og hefur sýnt okkur hvernig maður brýst áfram til sigurs. Þetta var spennandi leikur í dag sem endaði með sigri okkar. Áfram Ísland.

þriðjudagur, 26. janúar 2010

Sætur sigur á rússneska birninum.

Hann var sætur sigurinn á rússneska birninum í dag með átta marka mun 38/30. Skrítið að horfa á leik gegn þessu stórveldi og finna vart til nokkurrar spennu. Þetta var leikur Davíðs að Golíat. Rússarnir voru svifaseinir og áttu í engu við íslenska liðið. Óska landsliðinu til hamingju með sigurinn. Þetta er mikil upplyfting hér í skammdeginu að fylgjast með þessari keppni.

mánudagur, 25. janúar 2010

Líf og dauði - tilvistarspeki Sigurðar Nordals

Ég las fyrir nokkrum árum bók Sigurðar Nordals, Líf og dauði. Hún fjallar um tilveru okkar í lífsins ólgusjó. Efni bókarinnar er í grunninn fyrirlestar um tilvist mannsins, sem hann hélt í útvarpið á stríðsárunum. Þetta voru viðsjárverðir tímar og hann speglaði lífshlaup okkar á þeim óvissutímum og tiltók ýmis gildi sem hann taldi skipta máli í daglegu lífi. Bókin byggir á kristilegum gildum og heimspeki exsistentialista/tilvistarspekinga. Það skyldi ég síðar þegar ég fór að kynna mér þá heimspekistefnu aðeins nánar. Sigurður segir einhvers staðar í bókinni að enginn hoppi hærra en hann hugsi. Hann tiltekur að meðfram og við hliðana á daglegum störfum geti fólk skapað sér athvarf þar sem það getur aflað sér þekkingar og þroskað ýmsa hæfileika sína. Þessi bók hefur verið mér hugstæð í nokkur ár og ég hef oft hugleitt þessi heilræði Sigurðar. Margir eru reiðir þessa dagana yfir því hvernig er komið fyrir okkur í efnahagsmálum. Þetta eru aðstæður sem við ráðum litlu eða engu um hvernig fram vindur. Það skiptir okkur því miklu máli að ná því stigi að geta lifað í góðri sátt við umhverfi okkar. Umrædd bók er góð lesning til þess að takast á við lífsins ólgusjó og finna farveg fyrir líf okkar. Mæli hiklaust með henni. Kveðja.

sunnudagur, 24. janúar 2010

Ógleymanlegur dagur.

Dagurinn í gær verður ógleymanlegur í minningunni. Þetta var sannkallaður sigurdagur - dagurinn okkar. Fimm marka munur í leikslok Íslands og Danmerkur í handbolta. Ég var búinn að spá því í leikfimihópnum að við mundum vinna með einu marki en að þau yrðu fimm. Ég hafði ekki ímyndunarafl til þess að láta mér detta það í hug þótt ég hefði það á tilfinningunni að til tíðinda mundi draga. Annars hefur helgin liðið á ljúfu nótunum og verið varið m.a. til útiveru og göngu. Kveðja

laugardagur, 23. janúar 2010

Í minningu Hafez

Hafez
Ég var að lesa bók sem heitir Blood and Oil eftir Manucher og Roxanne Farmanfarmaian. Þetta er ævisaga íransks embættismanns í utanríkisþjónustu landsins og olíusérfræðings á tímum Íranskeisara. Hann endaði sem landflótta maður þegar klerkarnir komu til valda og þeir hófu ofsóknir á hendur þeim sem máttu sín einhvers fyrir valdatöku þeirra. Ég varð þess áþreifanlega var við lestur þessarar bókar hversu lítið maður veit um íranska sögu og menningu. Þarna býr þjóð sem hefur verið í heljargreipum ýmissa valdaafla, keisara og klerka nú síðstu áratugi vegna olíuauðæfanna. Það eina sem maður veit um dægurmál í Íran úr heimspressunni er að þar ræður öfgafull klerkastjórn og þeir séu að búa til kjarnorkusprengur sem geti orðið til þess að tortíma mannkyni. Lestur umræddar bókar var fróðlegur en sérstaklega stöðvaði ég við eina tilvitnun sem hefur setið í mér og er svona: Don´t be struck by the revolution of time. For the wheel of the world remembers a thousand thousand of these turns. Í lauslegri þýðingu: Láttu ekki byltingu tímans koma þér úr jafnvægi. Heimshjólið man þúsund þúsunda slíkra beygja. Sá sem sagði þetta hét Hafez og er elskað skáld Írana sem var uppi á fjórtándu öld og er vitnað til í umræddri bók. Í bókinni var einnig sagt frá því hversu öflug utanríkisþjónusta Breta er og hvernig þeir nota BBC til þess að koma áróðri sínum á framfæri til þess að vinna að framgangi stefnu sinnar í að deila og drottna víða um heim. Vinur minn og gamall vinnufélagi var nýlega á ferðalagi í Íran. Honum var efst í huga að alls staðar mætti hann vingarnlegheitum og forvitni þar sem hann kom. Það er einu sinni svo að víðast um heim býr velviljað og gott fólk þótt tímabundið geti það búið við ofríki öfgamanna sem með einum eða öðrum hætti þarf að ná tökum á. Þetta er mikilvægt að muna þegar dægurmál heimsmálanna eru rædd.

þriðjudagur, 19. janúar 2010

Kórstarfið á fullu

Mætti á kóræfingu í kvöld. Mikið framundan hjá kórnum og eins gott að reyna að mæta ætli maður að vera með í vetur. Nokkrir nýir félagar hafa bæst í hópinn og kórstarfið lofar góðu. Í maí fáum við í heimsókn sænskan kór sem við ætlum með austur á Klaustur í söngferðalag. Hef einnig verið duglegur í gönguhópnum síðustu vikur. Það er mikilvægt að halda sér virkum þessa dimmu vetrardaga. Þannig forðast maður best svarta hunda. Erum að syngja mjög fallegt lag í kórnum núna sem heitir Vorlauf eftir Hildigunni Rúnarsdóttur auk fjölda annarra skemmtilegra laga. Kveðja.

föstudagur, 15. janúar 2010

Réttlæting flugeldakaupanna.

Alþjóðabjörgunarsveitin. Ég gleymdi að óska ykkur gleðilegs árs. Það var svo mikið í gangi fyrstu daga ársins að ég bara mundi ekki eftir því. Enn og aftur gleðilegt ár með þökk fyrir það gamla. Nú er það frá svo við getum snúið okkur að öðru. Mikið óskaplega er ég glaður að hafa stutt björgunarsveitirnar ríflega um áramótin með flugeldakaupum. Ég er svo stoltur af sveitinni okkar, sem var í fremstu röð á slysavettvang á Haiti. CNN og SKY fréttastöðvarnar hafa gert þessi framtaki góð skil, landi og þjóð til mikils sóma. Ég er einn af þessum sem laumast á gamlársdag og kaupi svolítið af flugeldum til að kveðja gamla árið og fagna því nýja. Ég hef alltaf gert þetta með glöðum hug vegna þess að bæði hef ég gaman af þessu og er að styrkja mikilvægt málefni, sem ég vona samt að ég þurfi aldrei á að halda. Kveðja.

laugardagur, 9. janúar 2010

Víkingur Heiðar og Ran Dank - Tveir flyglar.

Við fórum í Salinn í dag með Helga og Ingunni að hlusta á ungu píanósnillingana þá Víking Heiðar og Ran Dank spila tvíhent á flygil eða á tvo flygla eftir atvikum. Hvílíkir listamenn, ég á varla orð. Ég held ég hafi sjaldan eða aldrei upplifað það að tónlistin hrifi mig svona alfarið á vald sitt. Hún átti hug minn allan þessa tvo tíma. Það fékk ekkert annað truflað mig á meðan á flutningi verkanna stóð. Hver perlan, hvert meistarastykkið rak annað. Það byrjaði rólega með innhverfum kontrapunkti eftir Bach. Það hýrnaði yfir með sónötu eftir Mozart, sem hann samdi sextán ára til að hrífa ungar stúlkur. Síðan kom verk eftir Claude Debussy með spænsku ívafi og að lokum yfirhlaðinn vals eftirt Ravel. Eftir hlé komu Paganíní tilbrigði efitr Lutoslawski og fallegu þjóðlagastefin eftir Snorra Sigfús Birgisson. Við lágum flöt eftir flutning á Libertangó eftir Piazzollo og að lokum kom forleikurinn úr Leðurblökunnni eftir Strauss. Strákarnir fóru á kostum á flyglunum, voru eins og heil hljómsveit. Hvernig er þetta hægt? Tveir strákar á þrítugsaldri tóku okkur í ferðalag um marga unaðsreiti tónlistarinnar og kennslustund í leiðinni. Takk,takk, takk.

föstudagur, 8. janúar 2010

Agent Fresco

Agent Fresco Ég hef lofað sjálfum mér að fylgjast betur með þessari hljómsveit sem spilar polyrythmískt oddtime-rokk með djass- og fönk-ívafi. Hlustaði á tónlist hennar í kvöld í Kastljósi. Mjög frumlegur og ferskur blær sem fylgir flutningi þessar hljómsveitar. Sérstaklega mun ég fylgjast með trommuleikaranum Hrafnkatli Erni Guðjónssyni sem við eigum örugglega eftir að heyra meira af. Aðrir hljómsveitarmeðlimir eru: Borgþór Jónsson, rafmagnskontrabassi, Þórarinn Guðnason, gítar og Arnór Dan Arnarson, söngur Það fer ekki milli mála að hér eru á ferðinni hæfir og frumlegir tónlistarmenn. Hrafnkell Örn á nú ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana. Móðir hans er Ragnheiður Elfa Arnardóttir leikkona og söngvari sem hefur gert garðinn frægan í fjölmörgum hlutverkum um langt árabil og faðir hans er Guðjón Ketilsson listamaður. Móðurbróðir hans er Snorri Björn Arnarson sológítarleikari hljómsveitarinnar The Lame Dudes sem þessi síða hefur fjallað nokkuð um. Sonur Snorra er enginn annar en Exos eða Arnviður Snorrason hinn víðfrægi "tecknó" tónlistarmaður, sem einnig er liðtækur trommuleikari. Þjóð sem á að skipa öðru eins mannvali í tónlistinni og það úr einni og sömu fjölskyldu er ekki á vonarvöl. Kveðja.

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Forsetinn vill þjóðaratkvæði

Ólafur Ragnar Grímsson. Þessi afstaða forsetans kom ekki á óvart í ljósi þess sem á undan hefur gengið. Helstu lögskýrendur segja nú í ljósi reynslunnar af fjölmiðlafrumvarpinu að hann hafi ótvírætt vald til að fyrirskipa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Um sextíu þúsund manns skráðu sig á lista Indefence hópsins. Ég gerði það eftir að hafa horft á afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu. Eins og tugþúsundir annarra var ég ekki sannfærður um að okkur beri að greiða þessa skuld á þeim kjörum sem gerð er krafa um. Nú verða stjórnvöld að kynna okkur málið og afstöðu sína þannig að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun í framhaldinu. Nóg í bili. Kveðja.

laugardagur, 2. janúar 2010

Mamma Gó Gó


Við fórum á nýju myndina hans Friðriks Þórs Friðrikssonar í kvöld, Mömmu GóGó. Myndin er einu orði sagt frábær. Hvet alla til að sjá hana. Nú fær Holliwood annað tækifæri til þess að veita Friðriki Óskarinn, ef þá hann vill þiggja hann. Ég ætla ekki að ræna ánægjunni af ykkur með því að fara segja frá efni hennar. En þessi mynd er vissulega þess virði að horfa á hana í góðum bíósal. Hér er engin amerísk "hamborgara framleiðsla" ala Holliwood á ferðinni. Friðrik heldur athygli áhorfandans allan tímann og kveður hann með margar spurningar og vangaveltur þegar upp er staðið. Leikur allur var fyrsta flokks. Kristbjörg Kjeld og Hilmir Snær Guðnason fara á kostum. Maður verður svo stoltur af því að vera Íslendingur þegar maður upplifir svona meistarverk. Til hamingju með þessa mynd Friðrik. Kveðja.

Nýársganga


Í dag gékk ég góðan hring um Furulund í Heiðmörk með skaftfellskum Skálmfélögum. Meðfylgjandi mynd er af göngufélögum við jólatré sem er skreytt í tilefni jólanna í þessum lundi. Þetta var fyrsta gangan á nýju ári og vonandi eiga þær eftir að verða margar á árinu. Miðað við bifreiðafjöldann í Heiðmörk í dag virðist fjöldi fólks nýta sér þessa aðstöðu, en lítið verður maður var við þetta fólk, enda trágróður víða þéttur og svæðið stórt. Ég efast um að margt sé betra til heilsubótar en að ganga rösklega í svona skógarrjóðri. Súrefnið, angan trjánna að ég tali nú ekki um félagskapur göngufélaganna. Veðrið til útiveru var mjög gott. Stillt veður, frost og heiðskírt. Eitt af markmiðum mínum þetta árið er að komast í góða göngu um óbyggðir Íslands á komandi sumri. (Mynd: Kristinn Kjartansson)