fimmtudagur, 30. júlí 2009

Skaft - Nesk - Ak - Kóp.

Við skruppum austur á Neskaupstað. Gistum þar á gistiheimili sem heitir Capitano. Neskaupstaður er vinalegur bær en er ekki í þjóðbraut. Áttum þar yndislegan dag í góðu veðri. Keyrðum austur um Suðurland. Gistum fyrstu nóttina í Skaftártungu í góðu veðri. Grilluð og áttum þar góða stund í bústaðnum. Héldum svo áfram austur. Stoppuðum á mörgum áhugaverðum stöðum. Smökkuðum heimatilbúinn rjómaís beint frá býli á Mýrum og sitt lítið af hverju. Fórum frá Neskaupstað með viðkomu í Sænautaseli á Jökuldalsheiði. Athyglisverð ferðaþjónusta stunduð þar í eftirlíkingum af gömlum torfbæjum. Komum við á Mývatni og keyptum reyktan Mývatnssilung. Það er ekki það sama og venjulegur reyktur silingur. Vorum á Akureyri í gær og í dag með Hirti og Ingibjörgu, Sveini Hirti og Jóhannesi Erni. Fór í fjallgöngu með nafna upp í fjall í dag. Í gær hljóp ég með honum upp allar kirkjutröppurnar fyrir framan Akureyrarkirkju til að kveikja á kerti í kirkjunni. Borðað mikið góðan mat og almennt haft það mjög gott. Kveðja.

laugardagur, 25. júlí 2009

Brúðkaup Valdimars og Stellu.


Við höfum verið við brúðkaup Valdimars Gunnars og Stellu í dag. Athöfnin byrjaði með því að sr. Hjörtur Hjartarson afi Valdimars gaf þau saman í Dómkirkjunni í Reykjavík. Brynhildur Björnsdóttir móðursystir hans söng við athöfnina sálminn eftir sr. Hjálmar Jónsson, Nú leikur blær við lífsins vor við lag Marteins Hunger. Að lokinni athöfninni söng hún lögin Ég hef elskað þig frá okkar fyrstu kynnum og Dagnýju. Organistinn við athöfnina var Bjarni Jónatansson. Að lokinni athöfn í kirkjunni var haldið að Félagsheimilinu Dreng í Hvalfirði þar sem veislan var haldin. Veislustjórar voru Brynhildur Björnsdóttir og Hjörtur Friðrik bróðir brúðgumans. Allt gékk upp eins og best verður á kosið. Veðrið lék við brúðhjónin og dagurinn var hinn ánægjulegasti. Kveðja.

miðvikudagur, 22. júlí 2009

Samningur eða sjálfdæmis gjörningur.

Mikið er talað um svokallaðan Icesave samning þessa dagana. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort rétt sé að kalla þetta samning eða sjálfdæmis gjörning. Miðað við það sem maður les og heyrir fjallað um þetta mál í fjölmiðlum hallast ég æ meira að síðari skýringunni. Var íslenska ríkið í einhverri samningsstöðu við Breta og Hollendinga? Bretar settu okkur undir hryðjuverkalög sín 6. október 2008. Það hefur aldrei verið gefin skýring á því. Hollendingar hóta okkur útskúfun í væntanlegum ESB aðildarviðræðum, ef ekki verði staðið við samkomulagið. Það hlýtur að valda ESB sinnum í ríkisstjórninni miklum áhyggjum miðað við ákafa þeirra í að koma okkur inn í sambandið. Þeir sem fóru fyrir samninganefndinni hafa enga eða litla reynslu af samningum sem þessum. Þótt ugglaust séu þetta allt prúðir diplómatar og embættismenn. Enda hefur komið á daginn að þeir hafi ekki einu sinni ýmis hugtök samningstextans á hreinu.

Sumarveður

Ég bara man ekki eftir öðru eins veðri og í sumar. Vorum að byrja í sumarfríi. Mikið stendur til um næstu helgi þannig að við höldum okkur við Reykjavíkursvæðið. Hjörtur og Ingibjörg komu til landsins á mánudagskvöldið með Svein Hjört og Jóhannes Erni. Hér komu einnig í gær Valdimar og Stella með Lilju. Sigrún Huld vinnur og vinnur og vinnur.... Kveðja.

mánudagur, 20. júlí 2009

Horft til himins

Kvöldroði. Norðvesturhimininn skartar rauðbleiku í kvöld á miðnætti, sjálfri Þorláksmessu að sumri. Einn mesti helgidagur ársins fyrir siðaskipti. Höfum verið hér heimavið í frábæru veðri. Hitt nokkra góða vini á förnum vegi í orðsins fyllstu merkingu. Kveðja.

laugardagur, 18. júlí 2009

Tónleikar í Hljómskálagarðinum.

The Lame Dudes Við fórum á hljómleika The Lame Dudes bandsins í Hljómskálagarðinum í dag. Virkilega notaleg stund með áheyrilegri blues tónlist. Hljómsveitin er mjög góð. Hún er orðin meira en "bara efnileg" eins og henni var einhverntíma lýst á þessari síðu. Hún er bara virkilega góð. Hvet alla tónlistarunnendur að kynna sér þetta band. Tónaflóðið og lagaflutningurinn er flottur. Þeir voru með bongótrommu í dag í stað hefðbundins trommusetts. Þessi útfærsla féll mjög vel að lagavali og flutningi og gaf nýja vídd í flutninginn. Sólógítarleikarinn Snorri Björn Arnarson var í stuði og tók nokkur gítarsóló, svona til að minna á snilli sína. Söngvarinn Hannes Birgir Hjálmarsson verður bara betri. Hann hefur hljómþýða baritón rödd sem fellur vel að tónlistinni og nær að skapa þessa "melló" bluestilfinningu líka þegar textinn er á íslensku.

Sólógítaristinn. Læt þessa mynd fylgja af sólógitarleikaranum Snorra Birni Arnarsyni á fína mótorhjólinu sínu fyljga með. Myndin er tekin þegar hann kvaddi eftir tónleikana í Hljómskálagarðinum. Svona ferðast ekki nema alvöru menn og það með 2000 kúbik milli fótanna. Kveðja.

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Dapurlegt.

Það fór þá svo að Alþingi vort ákvað að farið yrði á fjórum fótum í aðildarviðræður til Brussel eins og sænska konan hafði spurt mig forviða í síðustu viku hvort við ætluðum að gera. Ég fylgdist með atkvæðagreiðslunni í þinginu í dag. Það var dapurlegt að hlusta á fyrirvara sumra þingmanna VG. Þeir segjast ætla að berjast með öllum tiltækum ráðum gegn ESB aðild, en samt vilja þeir leggja upp í viðræðurnar án nokkurra fyrirvara. Næst munu þessir aðilar væntanlega samþykkja að við alþýða þessa lands tökum að okkur að greiða Icesave "gripdeild" Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

sunnudagur, 12. júlí 2009

Fundurinn var flopp!

Ég fékk að vita það í dag að topp ESB fundurinn hér í Jönköping var víst algert "flopp" frá sjónarhóli Jönköpingbúa. Heimamenn höfðu gert sér vonir um að hingað kæmi fjöldi erlendra blaðamanna og nú ætluðu þeir að sýna umheiminum í hvað þeim bjó. En hingað mættu víst aðeins fimmtíu blaðamenn og þeir höfðu engan áhuga á Jönköping og nenntu ekki einu sinni á helstu ferðamannastaði í nágrenninu. Sveitarfélagið hafði lagt peninga í fjölmiðlakynningu og meira segja ESB setti einhverja aura í þetta líka. Þannig að Jönköping varð ekki sá viðkomustaður Evrópu sem vonast var til með umfangsmikilli fjölmiðlakynningu. Það gladdi Svíann sem sagði mér þetta ósegjanlega og bjargaði deginum þegar þessi bloggari klikkti út til áréttingar upp úr eins manns hljóði. Fimmtíu blaðamenn og einn bloggari frá Íslandi sem bloggar fyrir fjölskyldu sína og vini. Svona er þetta með okkur þessa jaðarbúa við keppumst með öllum tiltækum ráðum að máta okkur í miðju atburða í stað þess að njóta þess og þakka fyrir að búa á þessum svæðum, hvort heldur er í uppsveitum Smålands eða á Íslandi. Kveðja.

laugardagur, 11. júlí 2009

Nammi namm

Prinsessan Einu sinni var ég svangur í Oxford á Englandi og ákvað að fylgja straumi unga fólksins inn á ósjálega knæpu þar sem hægt var að fá sér í svanginn. Þarna fékk ég ágætis skyndibita fyrir lítinn pening. Síðan hefur viðkvæði mitt verið. Ef þú vilt góðan og ódýran mat skaltu fylgjast með því hvert unga fólkið fer. Í Mölndal keypti ég rauðvínsflösku í síðustu viku. Framboðið var mikið og ég vissi ekki hvað kaupa skildi. Inn í búðina kemur þá öldruð kona og gengur rakleitt að ákveðnum rekka og tekur þar rauðvínsflösku. Ég hugsaði með mér að svona gangi enginn til verks nema sá einn sem veit hvað hann vill. Ég ákvað að fylgja dæmi konunnar og keypti sömu tegund og hún. Viti menn þetta var afbragðs ítalskt rauðvín og eitt af því allra ódýrasta í búðinni. Ný kenning hefur nú litið dagsins ljós. Ef þú veist ekki hvernig rauðvín þú átt að kaupa, fylgstu þá með því hvað rosknu konurnar í búðinni gera. Eitt af því allra besta sem ég fæ í Svíþjóð eru svokallaðar Prinsessu tertur. Já, þessar fylltu með gómsætu rjóma vanaillu fyllingunni hjúpuð grænu marsipani. Þær fást um alla Svíþjóð. Ef til vill hefur einhver sem fylgst hefur með mér kaupa þessa tertur búið til kenningu. Ef þú veist ekki hvaða kökusneið þú átt að fá þér skaltu fylgjast með því hvað miðaldra karlar gera. Keyptu þér Prinsessu kökur þær bregðast ekki. Annars höfum við í dag eytt deginum í að rápa með Svíunum á laugardagsmörkuðum hér um kring, með ferskvöru, fötum, dóti og ýmsu öðru. Þetta virðist vera mjög vinsæl laugardagsiðja.

föstudagur, 10. júlí 2009

Í Jönköping

Deginum höfum við varið hér í Jönköping. Hér er margt áhugavert að sjá. Mikill ferðamannastraumur er til Svíþjóðar þessa daga frá Danmörku og Þýskalandi og víðar. Það gerir að gengi sænsku krónunnar er afar hagstætt gagnvart dönsku krónunni og evrunni. Svíþjóð hefur allt það að bjóða sem gott ferðaland þarf að geta boðið. Í dag var hér evrópsk matarkynning í miðbænum. Boðið upp þýska, franska, hollenska, spænska rétti og ýmislegt annað frá öðrum löndum. Sirrý segir að þessi sama kynning hefði verið í Kaupmannahöfn í nóvember og hún og Halla hefðu sótt hana saman þar. Bið að heilsa.

fimmtudagur, 9. júlí 2009

Nú er hún Snorrabúð stekkur

Endalokin. Glergerð hefur alltaf heillað mig. Bæði glerlist og gleriðnaður. Eitt fyrsta verkefnið sem ég fékk í hagfræðinámi mínu fyrir þrjátíu og fimm árum var að kanna út frá ýmsum þáttum áhrif þess að sænski glerframleiðandinn PLM lagði niður glerverksmiðju í litlu samfélagi nálægt Gautaborg þar sem framleidddar voru flöskur. Ég hef farið í nokkur skipti í glerverksmiður í Svíþjóð og víðar: Boda, Costa, Örrefoss, Arabía o.s.fr. Glerblásturinn heillar mig líka og ég hef alltaf jafn mikla ánægju að sjá deigan glerklumpinn á enda blásturspípunnar taka á sig mynd. Hvort heldur er rauðvínsglas, glerfugl eða eitthvað annað. Í dag fórum við í heimsókn í glerverksmiðjuna Rörstrand í Lidköping. Þangað höfðum við ekki komið í þrjátíu ár. Það vakti hjá okkur svolítinn trega þegar okkur var sagt að búið er að slökkva á síðsta ofninum. Það var gert árið 2005 og nú er öll framleiðsla undir Rörstrand merkinu í Asíu. Þetta aldagamla sænska fyrirtæki, sem reyndar var komið í eigu Finna komst í þrot. Eftir stendur Rörstrand "design", sem var hönnunardeild fyrirtækisins. Nú hvað er að því að fyrirtæki fari á hausinn, kann einhver að spyrja. Merkileg atvinnusaga er að baki. Breytt viðhorf neyslusamfélagsins kalla á nýjar framleiðslulausnir, þar sem áherslan er lögð á ódýrari framleiðslu, sem síðan er seld í massavís í lágvörukeðjum á borð við IKEA. Auðvitað er þetta á kostnað gæðanna.Matarstellin eru ekki lengur framleidd til þess að endast mannsaldur eins og gamla Annikan eða Elísabet. Niðurstaða dagasins er að þið sem eigið norræn bollastell skulið halda í þau. Innan tíðar verða þetta verðmætir safngripir. Nóg í bili. Kveðja.

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Jkg - Gbg - Jkg.

Gunnebogarðurinn Auðvitað fórum við til Gautaborgar í dag. Veðrið var hið besta til ferða rúmlega 20°C hiti og sólbjartur dagur. Við lögðum bílnum við Heden sem er rétt hjá Avenyn. Fórum á Avenyn og borðuðum þar í hádeginu á ágætis Brarrseríu. Síðan ráfuðum við um miðbæinn í mannþrönginni. Næst lá leiðin um í Johanneberg á fornar slóðir þar sem við bjuggum og svo inn í Möndal þar sem við stoppuðum í miðbænum. Fundum þar ýmislegt frá gömlum tíma sem við höfðum gaman af. Enduðum á því að keyra upp að Gunnebohöll og skoða okkur þar um. Þetta er falleg sveitahöll frá 18. öld sem nú er friðuð ásamt nánasta umhverfi. Reist af ríkum Gautaborgara John Hall. Saga Gautaborgar er samofin ýmsum skoskum kaupahéðnum og ævintýramönnum. Við höllina er bæði listigarður og svo er mikill eikarskógur ásamt ýmsum öðrum gróðurreitum. Lögðum að stað til Jönköping um klukkan sex og vorum komin hingað fyrir átta. Þetta er svona það helsta af afrekum dagsins. Af ESB fundinum hef ég bara ekkert frétt í dag. Lögreglan er hér út um allt og við öllu búin. Helst að félagsmálaráðherrann sænski er frá Jönköping og er borið á hann lof í héraðsfréttablöðum fyrir að hafa "reddað" fundinum í heimabyggð. Stjórnmál breytast ekki. Annars er undirliggjandi óri í Svíþjóð yfir efnahagsmálum og svínaflensku. Fréttir af erfiðleikum fyrirtækja og niðurskurði í heilbrigðisþjónustu er aðalþema fréttanna. En kjaftablöðin velja að velta sér upp úr andláti M. Jackssonar. Svíar eru yndisleg þjóð og þeir bara batna með árunum. Í ár eru þrjátíu ár nákvæmlega síðan við lukum námi og héldum heim eftir fjögurra ára dvöl í Gautaborg. Upp á það var haldið í dag. Verum glöð. Kveðja.

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Af "topp fundinum" í Jönköping og fleiru smálegu.

Klaustrið í Vadstena.
Þeir koma sér ekki saman Svíar og Spánverjar hvernig skuli fara með sjúkrakostnað ESB borgara. Svíar vilja að allir ESB borgarar eigi rétt á sjúkraþjónustu í því ESB landi sem þeir dvelja. Spánverjar eru nú ekki tilbúnir að skrifa upp á það. Þeir vita sem er af öllum norrænu ellismellunum sem dvelja á Spáni langtímum saman og ætla ekki að bera af þeim kostnað af hugsanlegri sjúkraþjónustu. Þeir vilja að sjálfsögðu geta sent reikningana til ríku þjóðanna í norðri. Á meðan heilbrigðisráðherrar ESB voru að rífast um þetta í dag í víggirtum háskólanum keyrðum við Sirrý til Motala með viðkomu á ýmsum merkum stöðum á leiðinni meðfram austurströnd Vättern. Sirrý er sérstakur vinur Motala í gegnum árin. Þar sat hún áður við fótskör Barbro Bäck Fris lærimóður sinnar í öldrunarfræðum. Eftirminnilegust er þó altarisgangan með Birgitta nunnunum eftir góðan ferðadag um fallegt hérað og merkar söguminjar í Vadstena. Nú ég gæti talið margt fleira en daginn enduðum við á yndislegum kvöldverði hjá Brahe rústunum með útsýni yfir rústirnar og vatnið stóra. Þegar heim var komið var horft á brot af minningarhátið M. Jacksson. Þar fór mikill poppari og skemmtikraftur. Karlinn aðeins fimmtíu ára gamall. Ég hef löngum haft gaman af tónlist hans. Ætli BAD sé ekki uppáhladsplatan mín með honum. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja.

mánudagur, 6. júlí 2009

Jönköping - EU topp möte.

Jönköping er staðurinn í dag, ef þú hefur áhuga á málefnum ESB. Hér fer fram ráðherrafundur bandalagsins í tilefni þess að Svíar eru að taka við kyndli sambandsins næstu sex mánuði. Búið er að loka af ákveðin svæði í bænum og snyrta og fegra miðbæinn í tilefni þessa atburðar. Hér eru samankomnir allir helstu ráðamenn Evrópu til skrafs og ráðagerða. Væntanlega hljóta viðbrögð við aðsteðjandi efnahagsvanda að vera helsta umræðuefnið, en efnahagslægðin hefur lagst af fullum þunga á meginland Evrópu með vaxandi atvinnuleysi og minnkandi umsvifum. Annars hófum við daginn á því að fara að leika með Svenna og Jóa. Síðan tókum við lestina til Malmö og sóttum bílinn. Komum við í Lundi og reikuðum þar aðeins um og héldum svo til Jönköping. Það voru ansi miklar öfgar í veðrinu á leiðinni hingað. Við keyrðum í gegnum regnskúrabelti en þess á milli var uppstytta og sást jafnvel til sólar. Það er mikill hiti jafnvel þótt víða sé skýjað. Kveðja.

sunnudagur, 5. júlí 2009

Kef - Kaup - Kstad.

Það er ekki oft sem maður nær að sofa megnið af leiðinni til Kaupmannahafnar. Tíminn líður hraðar en þetta er ekkert sérstsaklega þægilegur svefn svona sitjandi. Það var hitabylgja hér í gær. Hitinn var í kringum 30°C. Í Kristianstad eru hátíðardagar kenndir við bæinn. Minnti mig á það að við vorum hér á sama tíma í fyrra. Í miðbænum eru sölutjöld, ferðatívolí og hljómsveitir spilandi tónlist. Við fórum með strákana í tívolí. Þeir skemmtu sér konunglega og hefðu örugglega geta farið í fleiri tæki. Í dag er aðeins svalara 21°C og bærilegra að vera útivið. Kveðja.