miðvikudagur, 21. október 2009

Melvyn King um bresku fjármálakrísuna.

Melvyn King "Never has so much money been owed by so few to so many. And, one might add, so far with little real reform." Í íslenskri þýðingu: Aldrei áður hafa svo fáir skuldað jafn mörgum mikið fé og án áþreifanlegrar endurbóta til þessa. Hér var breski seðlabankastjórinn að umorða og vísa í fleyg ummæli Winstons Churchills í seinni heimstyrjöldinni, þegar hann bar lof á framgöngu breskra flugmanna í orustunni um Bretland. Frekar ósmekkleg samlíking, en væntanlega dæmi um breskan húmor. Stuðningur breskra skattgreiðenda í formi beinna og óbeinna styrkja og hlutabréfakaupa í bönkum nemur 1.000 milljörðum punda (Ein billjón punda). Þetta er stór tala og í íslenskum krónum er þetta 200 000 000 000 000.- (um 3,3 milljónir króna á hvert mannsbarn í Bretlandi en þeir eru um 61 milljón talsins núna.) Þessi staða segir okkur að það er víðar en hér á landi sem bankar lentu í erfiðleikum og þroti. Í raun þolir enginn banki áhlaup og þess vegna eru Seðlabankar til þess að útvega lausafé við slíkar aðstæður. Vandamál okkar er að bankakerfið óx okkur yfir höfuð. Seðlabankinn hafði enga burði til þess að styðja við bankakerfið eins og til er ætlast. Það skiptir engu máli hvort vinstri eða hægri menn eru við völd þegar bankakrísur verða. Í Bretlandi voru/eru vinstri menn við völd. Hér var samsteypustjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Nú eru vinstri menn við völd og það er enginn trygging fyrir því að ný bankakrísa skelli ekki á aftur. Þvert á móti verðum við að átta okkur á því að viðspyrna okkar við þessar aðstæður felst í getu okkar til þess að efla íslenskt efnahagslíf. Við þurfum að efla atvinnustarfsemi okkar með ráð og dáð til þess að geta greitt skuldir okkar í framtíðinni. Melvyn King telur að það muni taka eina kynslóð í Bretlandi að komast í gegnum þessa erfiðleika. Vafalaust mun taka okkur langan tíma að laga okkar stöðu. Hvort það verða tíu eða tuttugu ár veltur á því hvernig okkur tekst að efla íslenskt efnahagslíf. Bjartsýni, áræðni, skynsemi eru lykilhugtök á þeirri vegferð. Nóg í bili...

þriðjudagur, 13. október 2009

Umfjöllun annálsins.

Ritstjórn annálsins hefur fengið fleiri en eina athugasemd frá dyggum lesendum um að síðan hafi verið of upptekin af pólitískum vangaveltum. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið hlé á þeirri umfjöllun. Annállinn hefur ekki efni á því að tapa lesendum. Helstu fréttir af fjölskyldunni eru þær að prestshjónin eru komin frá Tyrklandi en þar hafa þau dvalið í þrjár vikur. Sigrún og Halla frænka skruppu til Jönköping að heimsækja Sirrý. Þetta eru nú helstu fréttir héðan. Kveðja.

fimmtudagur, 8. október 2009

Í eldhúsinu með Rick Stein á BBC Food.

Rick Stein Næstur Nigellu Lawson fallegasta og flottasta matreiðslumeistaranum á BBC Food er matreiðslumeistarinn Rick Stein í miklu uppáhaldi hjá mér. Nú undanfarnar vikur er hann búinn að fjalla um matreiðslu á fiski í nokkrum þáttum. Það sem gleður í þessari umfjöllun Rick Steins er að hann hefur í þremur þáttum fjallað um ágæti þorsksins og matreiðslu hans. Hann minnist jafan á Ísland þegar hann talar um gæða þorsk. Hann er búinn að m.a. matreiða ferskan þorsk í Breltandi og saltaðan þorsk í Katalóníu á Spáni og útskýra af hverju Suður-Evrópubúar vilja saltaðan þorsk en Bretar frekar ferskan. Þá hefur hann útnefnt þorskrétti í fremstu röð meðal uppáhaldsrétta sinna. Þetta er gríðarlega mikilvæg umfjöllun fyrir okkur vegna þess að hún eykur orðspor okkar sem fiskveiðiþjóðar og hjálpar okkur að selja fiskinn. Það veit sá sem allt veit að við þurfum að selja fisk og fá fyrir hann gott verð. Þessi umfjöllun um íslenska fiskinn í BBC Food hjálpar okkur mikið í þeirri viðleitni. Um fjörtíu prósent af útflutningsverðmæti fiskafurða er fyrir þorsk.
Jóhanna Sigurðardóttir. Svo birtist þessi kona líka í kvöld á BBC News og var að útskýra stöðu mála fyrir Bretum. Satt best að segja situr lítið eftir af þeirri umfjöllun. Eitthvað var talað um ESB, mikið af skuldum og atvinnuleysi. Rick Stein dró upp í umfjöllun sinni um íslenska þorskinn mun jákvæðari og áhrifaríkari mynd af okkur Íslendingum: Fólk sem enn getur boðið upp á úrvals þorsk af bestu gæðum. Áform ríkisstjórnar Jóhönnu í sjávarútvegsmálum eru að rústa efnahag greinarinnar og því stjórnkerfi sem hér hefur verið byggt upp við erfiðar aðstæður undanfarna áratugi til að koma á sjálfbærum veiðum úr fiskistofnunum. Eins gott að Rick Stein frétti það ekki. Það er ekki víst að hann mæri íslenska fiskinn í framhaldinu því hann hefur miklar áhyggjur af ofveiði fisks víða um höf. En Jóhanna hefur ekki áhyggjur af því þótt sú lífæð hrynji, allvega ef eitthvað er að marka stefnuskrá hennar.

mánudagur, 5. október 2009

Umræða kennd við eldhús.

Ríkistjórnin ætlar að... og stjórnarandstaðan vill og gagnrýnir. Skuldakreppa. Hækka skatta, lækka skatta, skera niður, byggja upp, taka lán, borga lán, hækka vexti, lækka vexti, hækka gengi, lækka gengi æ maður hefur heyrt þetta allt svo oft áður. Um þetta fjalla stjórnmálamennirnir á meðan þessar línur eru skrifaðar. Huggar þetta þjóðina, sem er döpur, sár, reið og svikin? Það held ég varla því ástandið er illt og margir eiga um sárt að binda. Fjármálin í rúst, húsnæðið yfirskuldsett, bílinn með myntkörfulán sem tvöfaldaðist, hlutabréfasparnaðurinn tapaður og atvinnuleysi framundan. Sárreiðust erum við mörg yfir því að hafa talið að íslenska útrásin væri byggð á traustum grunni. Þetta væri alvöru uppbygging með íslensku hugviti og fjármagni. Blekkingin er sárust - hún lék á skynsemina, gerði það að verkum að tálsýnin varð staðreyndum yfirsterkari. Engin leið er að sjá til lands því skuldahraukurinn byrgir sýn og enginn veit hversu hár hann er. Mestu skiptir þó að standa vörð um fólkið það þarf að byggja og styrkja þjóðarsálina að nýju þannig að hún sé tilbúin að takast á við þennan gríðarlega vanda - byggja upp að nýju. Hver ætlar að leiða okkur af stað, telja í okkur kjarkinn - trúnna og vonina um nýtt og betra Ísland.

fimmtudagur, 1. október 2009

Vestur á firði

Ísafjarðarbær. Var á fundi með vestfirskum útvegsmönnum á Ísafirði í dag. Fórum með morgunvélinni og tókum síðdegisvélina til baka. Fengum gott flugveður báðar leiðir. Mikill mótvindur á leiðinni vestur og vélin haggaðist ekki. Við fengum nokkrar sveiflur þegar vélin lækkaði sig til lendingar á Ísafirði en það tilheyrir nú bara. Annars hið þægilegasta flug í alla staði. Veðrið var svalt fyrir vestan og hvít snjóföl niður í miðjar hlíðar. Það er víst kominn vetur því verður ekki mótmælt. Það er viss hvíld í því að komast út úr bænum og hitta fólk sem er í aðeins meiri fjarlægð frá atinu hér fyrir sunnan. Það er ekki laust við að maður fái aðra sýn á vandræðaganginn við það að skipta um umhverfi. Best að huga að því um helgina.