sunnudagur, 28. ágúst 2011

Gengið á Strandarkirkju

Við gengum fjórtán á Strandarkirkju í gær. Gangan hófst upp úr níu úr Bláfjöllum. Þaðan gengum við í stefnu á göngugötuna sem liggur úr Grindarskörðum. Veður til göngu var gott þótt hitastigið væri aðeins 4°C þegar við hófum gönguna. Fremur svalt var alla leiðina, þar sem lengst af var fremur skýað. Við vorum komin niður að Hlíðarvatni upp úr klukkan tvö en þar beið okkar rúta sem skutlaði okkur aftur í Bláfjöll með viðkomu í Strandarkirkju. Þar var stutt minningarstund afkomenda Sigurðar Helgasonar hrl. og sýslumanns en hann hefði orðið áttatíu ára gamall þennan dag. Blessuð sé minning hans. Um kvöldið var okkur svo boðið í veislu í tilefni dagsins. Ég hef ekki tölu á þeim fjölda ganga sem ég hef gengið undanfarna áratugi á Strandarkirkju. Þær telja örugglega á annan tuginn jafnvel fleiri.

sunnudagur, 21. ágúst 2011

Menningarnótt 2011

Borgarstjórinn og índíanarnir. Menningarnótt 2011 eða menningardagurinn 2011 tókst með ágætum. Tugir þúsunda röltu um miðborgina frá morgni til kvölds í leit að menningu. Veðrið var aldeilis til þess fallið. Brakandi sólskin allan liðlangan daginn. Reykjavíkurmarathonið setti svip sinn á borgina fyrri part dagsins. Um kvöldið voru það útitónleikar og ljósasýning Hörpunnar sem flestir fylgdust með. Þessi síðsumardagur er orðin n.k. þjóðhátíðardagur þar sem fjöldinn röltir um og sýnir sig og skoðar aðra. Maður er manns gaman ætli það lýsi ekki best þessum degi. Við kíktum aðeins á Latabæjarhlaupið og svo litum við inn í Ráðhúsið og horfðum á úlfadans indíanahóps frá Seattle í USA. Um kvöldið hittum við vini okkar Helga, Ingunni og Ingibjörgu og röltum með þeim um bæinn fram undir miðnætti. Eftir flotta flugeldasýningu var svo haldi heim á leið.

sunnudagur, 14. ágúst 2011

Góð helgi að baki.

Við Sirrý fórum austur í Skaftártungu um helgina ásamt Lilju, dóttur Valdimars, Valdimar og Sigrúnu Huld. Við keyrðum austur um Þjórsárdal og fórum inn á Landmannaafrétt hjá Hrauneyjarfossvirkjun. Þangað er olíuborinn vegur og aðeins 26 km í Landmannalaugar á malarslóða. Í Landmannalaugum heimsóttum við Geimskutluna og Olgeir eiganda hennar. Keyptum okkur kaffi og klatta og nutum stundarinnar. Mikið var þarna af erlendum gestum eins og oftast áður á þessum tíma. Mikið moldryk var á afréttinum sem náði niður í byggðir. Síðan lá leiðin í Skaftártungu en þangað eru 56 km á malarslóða. Komin í Tunguna var grillað og Halla móðursystir Sirrýjar og Örn maður hennar komu í heimsókn. Í dag heimsóttu vinir okkar Ella og Júlli okkur ásamt Kristjáni syni þeirra og barnabörnunum Elinóru og Reginu sem eru lifandi eftirmyndir mæðra sinna. Síðdegis var haldið af stað í bæinn eftir frábæra helgarferð.