þriðjudagur, 10. júlí 2012

Hólmsá frá Flögulóni að Strútslaug.

Við gengum fjóra daga með fram Hólmsá í Vestur – Skaftafellssýslu í ár, félagar í gönguhópnum Skálm. Ýmist var gengið um áfrétti Álftvers eða Skaftártungu. Ásamt okkur Skálmurum var fríður hópur helstu náttúrufræðinga landsins með í för. Hann kunni skil á flestu sem fyrir augun bar.  Ónefndur er enn sá er fyrstan skyldi telja sjálfur farastjórinn Vigfús Gíslason frá Flögu í Skaftártungu. Það fór ekki milli mála að þar fór maður sem þekkti leiðina eins og lófann á sér. Jafnt fjalla- og dalasýn, árgil, fossa og dýralíf. Víða mátti sjá helsingja- og grágæsahópa í sárum.

Þetta er fjórða skiptið sem ég fer í óbyggðagöngur með Skálmurum. Mitt helsta vandamál fram til þessa hefur verið að bitmýsvargurinn. Hann hefur lagst á mig og dregið úr mér kraft vegna sterkra ofnæmisviðbragða við þessum kvikindum sem kalla á slævandi ónæmislyf. Nú brá svo við að ég slapp alveg við bit.

Það var gengið um 10 til 18 km á dag og gist í tjöldum þrjár nætur. Björgunarsveit Skaftártungu trússaði í ferðinni og tókst það með ágætum. Veðrið lék við okkur allan tímann og ekki kom dropi úr lofti.   

Fyrsta daginn var gengið þaðan sem Öldufellsleið byrjar. Farið var meðfram Hrífunesheiði á Atlaeyjarmelum norður fyrir Atley og þar farið á gúmmíbáti austur yfir Hólmsá og áð fyrstu nóttina í Villingaskógum. Næsta dag var gengið að Hólmsárfossi áfram upp með ánni að Tjaldgili þar sem við gistum alls rúmlega 17 km. Þriðja daginn var gengið framhjá Axlarfossi. Brytalækir voru skoðaðir og gengið að Svartafellstanga. Fjórða daginn var svo gengið í Rauðbotn meðfram Hómsárlóni og stoppað í Strútslaug þar sem hægt var að skola af sér ferðarykið. Þá var gengið vestur fyrir fjallið Strút. Þangað sóttu björgunarsveitarmenn í Skaftártungu og Álftaveri okkur og skiluðu okkur aftur til byggða. Ferðalaginu lauk svo með sameiginlegri máltíð í Tunguseli á sunnudagskvöldinu. Þetta var í einu orði frábær ferð.

mánudagur, 2. júlí 2012

Laxá í Refasveit opnuð.

Refasveit

Fór norður í Laxá í Refasveit um helgina síðustu. Þetta var opnunarhelgi sumarsins og fengust tveir laxar. Við gengum niður með ánni neðan þjóðvegar og hirtum rusl sem var á vegi okkar á laugardeginum. Grilluðum um kvöldið og fögnuðum sumri. Sunnudaginn renndum við svo fyrir lax. Veðrið var einstaklega gott þessa helgi og fór hitinn í allt að 17°C yfir daginn. Varla sást skýhnoðri á lofti þessa tvo daga. Brunað var í bæinn á sunnudagskvöldið. Þarna var maður í einangrun frá skarkala heimsins og forsetakosningunum. Það fór eins og kannanir höfðu spáð að forsetinn fékk meirihluta atkvæða. Nóg í bili....