sunnudagur, 25. júlí 2010

Guðrún Finnbjarnardóttir fimmtug

Guðrún og Finnbjörn Annállinn óskar Guðrúnu Finnbjarnardóttur til hamingju með fimmtugsafmælið. Hún bauð til mikillar veislu fyrir vini sína, frændur og fjölskyldu. Félagar úr Módettukórnum og Schola Cantorum sungu í tilefni dagsins og hún ásamt félögum sínum sungu nokkur valinkunn lög. Guðrún er sú af afabörnum Jóns Hjartar Finnbjörnssonar söngvara sem sinnt hefur mest og best sönggyðjunni og haldið uppi nafni ættarinnar á þeim vettvangi. Hún er fjölmenntuð i söng og hefur verið virkur þátttakandi í sönglífi borgarinnar um árabil. Hún hefur verið einn af máttarstólpum í þeim kórum sem Hörður Áskelsson kantor hefur stjórnað eins og í Módettukórnum og Schola Cantorum kórnum eins og hann orðaði það sjálfur í ræðu henni til heiðurs.

fimmtudagur, 22. júlí 2010

Í sumarfríi á Snæfellsnesi


Síðustu helgi vorum við Sirrý á Hellnum á Snæfellsnesi í einmuna blíðu. Vorum fyrstu tvo dagana með Valdimari, Stellu og Lilju. Borðuðum úti á túni mikla veislumáltíð. Vind hreyfði ekki allt kvöldið. Við fórum í Vatnshelli í Purkhólahrauni, skemmtilegt nafn á hrauni það og hellaferðin vel þess virði. Spölurinn milli Arnarstapa og Hellna er kjörin gönguleið og ægifögur klettótt ströndin er eitthvað sem allir verða að sjá. Fjörukráin á Hellnum er orðin vel þekkt og hana sækja margir ferðamenn heim. Síðari dagana var Hjörtur Friðrik með okkur ásamt Sveini Hirti og Jóhannesi Erni. Við Hjörtur heimsóttum þessa hverfiskrá á Hellnum og sátum á pallinum við hana í sömu bongóblíðunni. Kveðja.

þriðjudagur, 13. júlí 2010

Gengið um Elliðaárdal


Við Sirrý gengum um Elliðaárdal í fylgd Ólafs Jóhannssonar á vegum Orkuveitunnar þar sem við vorum frædd um dalinn, virkjunina og laxveiðar í þessari mögnuðu á. Virkjunin var reist á þriðja áratug síðustu aldar og er því um 90 ára gömul um þessar mundir. Laxateljarinn sagði að 1452 laxar hefðu gengið í árnar í dag og búið er að veiða um 520 laxa frá opnun 20. júní. Um sjötíu manns tóku þátt í gönguferðinni um þessa náttúruperlu okkar höfuðborgarbúanna.

sunnudagur, 11. júlí 2010

Spánn heimsmeistari 2010 á HM


Spánn vann Holland 1:0 í Suður - Afríku. Leikurinn var ekki tilþrifamikill og mikið um gul spjöld. En betra liðið vann - ja liðið sem ég hélt með að þessu sinni. Góður fílingur að vera í sigurliðinu.

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Líf á Læk

Sirrý amma með barnbörnin.
Það er líf og fjör á Læk. Á föstudagskvöldið komu Stjánastaðabræður með foreldrum sínum frá Svíþjóð. Þeir skruppu upp í Borgarnes á sunnudaginn og voru mættir aftur í til leiks í Brekkutúnið í gær ásamt föður sínum. Lilja frænka þeirra hefur verið dugleg að heimsækja þá og nýtur augljóslega félagsskaparins út í ystu æsar. Það fer ekki mínúta til spillis hjá þeim bræðrum, sannkallaðir fjörkálfar og engin lognmolla í kringum þá. Senn líður að sumarleyfi og ýmislegt á döfinni eins og vera ber. Kveðja.

sunnudagur, 4. júlí 2010

Ég fór að hjóla með......

Hjólaði í austurátt upp Elliðaárdal áfram upp í Vatnsenda með fram vatninu og áður en ég vissi var ég kominn upp í Heiðmörk. Kynntist nýrri hlið á þessu fágæta útvistarsvæði í hjarta borgarinnar. Leiðin er sérstaklega falleg meðfram ánni. Veiðimenn voru að renna fyrir lax og/eða landa fiski. Fólk á gangi eða á hjóli eftir atvikum. Ég var svolítið óöruggur á "réttu" leiðina og veit núna að ofan Vatnsveitubrúarinnar á maður að vera norðan við Elliðaár. Þar er betri hjólastígur sem leiðir mann hraðar upp eftir. Satt best að segja hélt ég að hjólreiðakaflanum í lífi mínu væri lokið en það var ekki. Lét gera við gamalt hjól sem var inn í bílskúr. Ætlaði fara að henda því en kom við hjá viðgerðarmanni áður en ég fór með það á haugana. Ja, mér þykir þú auðugur maður ef þú ætlar að henda þessu hjóli sagði viðgerðarmaðurnn og bætti við að svona hjól leggi sig ekki undir 150 þúsund krónur nýtt. Síðan hafði hann einhver fagmannleg orð um að gírarnir væru með því besta sem þekktist. Þetta var nóg fyrir mig til þess að samþykkja 15 þúsund króna viðgerð á hjólinu. Nú hef ég þetta ágæta þriggja gíra hjól til reiðu. Eitt er víst ævintýraferðir mínar hér í nágrenninu eiga eftir að verða fleiri á næstunni.

föstudagur, 2. júlí 2010

Um gengisbundin lán.

Nú er Hæstiréttur Íslands búinn að kveða upp úr um að þessi gengisbundnu lán greidd í íslenskum krónum eru ólögleg. Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem hefur lesið lög nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu. Axel Kristjánsson lögfræðingur og sérfróður á sviði bankamála skrifaði grein í Mbl. 1. október 2009 um ólögmæti gengistryggingar. Niðurlag hennar er svona: "Á grundvelli ólöglegra lánaskilmála eru bankarnir því að sölsa undir sig milljónir og í sumum tilfellum tugi milljóna af einstaklingum og fyrirtækjum sem ráðgjafar bankanna ráðlögðu á sínum tíma að taka lán með gengistryggingu, án lagaheimildar. Nú ber ríkisstjórninni að leiðrétta þetta og láta bankana innheimta þessi lán í íslenskum krónum án gengistryggingar og gera lántakendum þannig mögulegt að greiða þau. Það á einnig að láta bankana endurgreiða lántakendum slíkra lána þann gengishagnað sem hefur þegar verið ólöglega tekinn af þeim.
Tap bankanna verður ekkert við slíka leiðréttingu annað en „tap“ ólöglegs gengishagnaðar vegna þess að bankarnir afgreiddu lánin í íslenskum krónum en ekki í erlendum gjaldmiðlum. Getur það verið að sérfræðingar hafi ekki bent ráðherrum hinnar hreinu vinstristjórnar á þessa staðreynd? Af hverju vill „hin hreina“ ríkisstjórn vinstriflokkanna ekki fara þessa leið?" Eftir lestur þessarar greinar var jafnvel ólöglærðum málið ljóst. Það er því óskiljanlegt af hverju stjórnvöld hafa ekki verið með viðbragðsáætlun við niðurstöðu Hæstaréttar. Svona er hvert málið látið rekast áfram en ómældum tíma varið í það að draga þrótt og dug úr hjólum atvinnulífsins og gera þá sem þar starfa tortryggilega. Ég segi nú bara sér grefur gröf þótt grafi.