miðvikudagur, 30. nóvember 2005

Nýtt samskiptaform.


Ég talaði í fyrsta skipti í dag í gegnum tölvuna mína með aðstoð SKYPE forritsins. Talaði klukkutíma við Hjört Friðrik í Svíþjóð. Þessar nýju samskiptaleiðir eru ótrúlegar. Fyrst var það MSN, Hotmail, Blogg og núna SKYPE. MSNið hefur það fram yfir SKYPE að þú getur talað í gegnum það og þú getur horft á viðmælandann í vídeó. Það er mikilvægt þegar hægt er að sjá litla barnabarnið þitt í beinni. Er ekki framtíðin sú að þetta fer allt í gegnum sjónavarpsrás áður en yfir líkur? Það kæmi mér ekki á óvart. Þetta er mikil breyting frá því þegar við bjuggum út í Svíþjóð fyrir þrjátíu árum og samskiptin heim voru í gegnum póstinn með bréfum sem tóku um viku að berast í milli. Það er bara ekki lengra síðan. Einstaka sinnum var hringt frá Íslandi. Þá urðum við svo hrædd að hjartað tók kipp. Það var nefnilega ekki hringt nema verið væri að tilkynna manni alvarlegar fréttir. Þessar tækninýjungar eru lykilatriði í alþjóðavæðingunni vegna þess að þær tengja fólk með auðveldum og ódýrum hætti og skapa nýjar forsendur til samstarfs. Enn eru samt hamlandi þættir sem þarf að leysa svo sem á fjarlægari stöðum eins og á hafi úti er dýrt að hafa samband í gegnum gervihnattarsíma, en það á eftir að verða ódýrara. Bloggið er sérstakt form samskipta. Það er opið og í formi dagbókar á opnu torgi sem gefur lesendum ákveðin prófíl af bloggaranum þ.e. ef maður vill leyfa það. Ég veit svo sem ekki hvað ég nenni þessu bloggi mikið lengur. Ég verð þó að viðurkenna það að þetta er svolítið gaman að halda svona dagbók. Gagnsemin er sú að fjölskyldan, vinir og forvitnir sem eru ekki í daglegu sambandi hefur tækifæri til þess að fylgjast með manni. Það sést á "kommentum" og viðbrögðum þegar við hittumst. Maður þarf ekki að rifja upp það helsta sem á daga manns hefur drifið. Við sjáum til. Kveðja.

þriðjudagur, 29. nóvember 2005

Jólalögin æfð.

Það var söngæfing í gærkvöldi. Við vorum að syngja jólalögin og það gékk mjög vel. Við kunnum nokkurn veginn þessi 10 lög sem við æfum á hverju ári. Þetta er ágætis afþreying á aðventunni að syngja sig í gegnum skammdegið. Hér komu þau Valdimar og Stella í gærkvöldi. Sunna er hér í stuttri heimsókn í fjarveru "hussa" síns og gætir útidyranna. Við fórum í heimsókn til mömmu og pabba á sunnudagskvöldið eftir ritun sunnudagspistilsins. Þau hafa í nógu að snúast sýnist mér. Jæja ég set punktinn hérna. Kveðja.

sunnudagur, 27. nóvember 2005

Fyrsti í aðventu.

Heliga Trefaldighets kyrka í Kristianstad. Myndin er af kirkjunni í Kristianstad í Svíþjóð. Við birtum hana hér í tilefni dagsins.
Við erum búin að setja jólaljós út í glugga hér í Brekkutúni. Margir nágrannar okkar eru búnir að skreyta hús sín með jólaperum. Undurbúningur jólanna er hafinn að fullu. Ég byrjaði að æfa jólalögin í dag á flygilinn minn. Yngsta barnið okkar er í próflestri á fullu og má ekki við truflun vegna lestursins. Með öðrum orðum þetta er allt í sínum föstu skorðum. Sirrý fór með Höllu frænku á tónleika í dag. Í gær fórum við á bíó með Helga og Ingunni og fengum okkur að borða á tælenska staðnum í Tryggvagötu. Þar er hægt að fá góðan mat fyrir hóflegt verð. Myndin sem við sáum var frönsk og fjallaði um keisaramörgæsir á suðurskautinu. Þetta var áhugaverð og skemmtileg mynd. Fjallaði hún um hvað þessi dýrategund þarf að leggja á sig til þess að geta eignast afkvæmi við þær aðstæður sem þar ríkja. Hvet alla til þess að sjá hana. Í dag fórum við í göngutúr kringum Tjörnina. Komum við í bakarí og er við komum heim hringdi Hilda þannig að við skutumst til hennar. Sú er nú aldeilis orðin myndarleg um sig. Þetta er nú það helsta í fréttum á þessum fyrsta sunnudegi í aðventu. Kveðja.

fimmtudagur, 24. nóvember 2005

Gullkorn.

Stundum rekst maður á gullkorn. Slíkt gullkorn birtist í Mbl. þann 19. nóvember sl. Þetta er grein eftir rithöfundinn Elísabetu Jökulsdóttur sem segist hafa þurft að takast á við ýmis vandamál í lífinu. Eitt af hennar vandamálum hefur verið af geðrænum toga. Vandamál sem hefur almennt verið litið á sem algert "tabú" í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir viðleitni til þess að bæta þar um. Hún hefur opið rætt þennan vanda sinn í Mbl. Greinarkornið hennar heitir: Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup. Í því felst að það að gefast upp geti verið liður í því að gefast ekki upp. Lífið sé víxlverkun, hreyfing fram og til baka, ekki beint áfram. Hluti af því að ganga vel sé að ganga illa. Það geti verið sérstök tækni í því að bíða í rólegheitum eftir velgengninni. Maður eigi ekki alltaf að gefast upp því hlutirnir taki stundum tíma. Maður eigi að taka eitt skref í einu. Í niðurlagsorðum sínum segir hún: Svo þetta er um að gefast upp og gefast ekki upp. Og gleymdu langhlaupinu. Lífið sést betur á röltinu. Það er ekki oft sem þessi annáll vitnar í greinarskrif. En þetta er í annað skiptið sem vitnað er í þennan rithöfund og þá djúpu speki sem lesa má úr pistlum hennar enda er hún ein af hvundagshetjum hans. Annars bar það til tíðinda í dag að ég var með fyrirlestur um gengismál á þingi FFSÍ. Kveðja.

miðvikudagur, 23. nóvember 2005

Á bíó.

Við fórum á bíó í gærkvöldi, The War Lord, með Nicolas Cage í aðalhlutverki. Myndin segir frá vopnasala og starfi hans og einkalífi. Myndin fjallar um lygi, mútur, svik, blóðbað, illsku, villimennsku þarf ég að segja fleira? Þetta var athyglisverð mynd og gagnrýnin á vopnasölu í þjáðum heimi. Samfélagsgagnrýni frá Holliwood sem vert er að sjá. Fær fjórar stjörnur. Við höfum dregið mjög úr bíóferðum. Hér áður fyrr fórum við einu sinni í viku eða jafnvel oftar. Það er lönguliðin tíð. Sama var með vídeóspólur. Við leigðum allt að tvær til þrjár á viku. Við erum svo til hætt að leigja þær. Við erum aftur á móti með tugi sjónvarpsstöðva. Nú segir Sirrý rétt í þessu: Svenni á ég að bjóða þér á bíó á morgun. Ég spurði spenntur hvaða mynd. Hvað haldið þið að hún segi: Lífið á Hrafnistu. Kveðja.

mánudagur, 21. nóvember 2005

Söngæfing

Maður er að reyna að herða taktinn í söngæfingunum. Hef ekki mætt tvö síðustu skipti vegna utanferðar og veikinda. Svo er maður líka farinn að stunda sund aftur að meiri krafti. Maður verður að reyna að halda sér í formi. Björn og Sunna komu hér í heimsókn í kvöld. Annars ekkert í fréttum. Kveðja.

sunnudagur, 20. nóvember 2005

Í dag.

Valdimar og Stella komu hér um hádegisbilið í heimsókn. Við höfum verið að mestu heimavið í dag við tiltekt. Skruppum aðeins í bókabúð fyrir Sigrúnu og fórum í heimsókn til mömmu og pabba. Þetta er nú það helsta í fréttum. Kveðja.

laugardagur, 19. nóvember 2005

Einn helgarpósturinn enn.

Hérna má sjá "turtildúfurnar tvær" Valdimar og Stellu. Bloggvinir óska þeim til hamingju með nýja Peougot bílinn. Þau heimsóttu okkur í vikunni þegar afi kom frá Svíþjóð. Þau eru alltaf til í þjóðmálaumræðuna. Sirrý kom frá Kaupmannahöfn og Kristianstad í gær, þannig að við eigum kannski von á þeim aftur í heimsókn við tækifæri. Annars er lítið að frétta héðan úr Brekkutúni. Ég fór í nýju sundlaugina upp í Leirvöllum í dag. Verst hvað það er langt í sund fyrir okkur sem búum miðsvæðis, austurbænum í Kópavogi. Þetta er mikið og glæsilegt mannvirki og bæjarfélaginu til sóma.Hér komu í dag Magnús, Hilda og Halla frænka. Hilda er orðin mjög myndarleg. Við skruppum niður Laugarveginn í dag til þess að sjá jólaljósin sem búið er að setja upp. Jólin nálgast en mér finnst verslunin alltaf vera að hefja verslunarþátt jólanna lengra og lengra frá jólunum. Nú í nóvember er allt komið í fullan gang. Þetta dregur úr þeirri spennu og tilhlökkun sem fylgdi jólunum hér áður. Bið að heilsa ykkur öllum nær og fjær.

fimmtudagur, 17. nóvember 2005

Gott skyggni.

Horfi hérna út um gluggan í Brekkutúni. Það er dimmt úti en gott skyggni. Sé flugvél taka sig til lofts upp yfir Öskjuhlíðina til austurs, þetta er Fokker. Lengra í burtu sé ég flugvél koma inn til lendingar úr vestri. Það er sem sé gott skyggni í myrkrinu, - heiðskírt í myrkrinu. Er hægt að segja svo? Að venju sendir Perluvitinn ljósgeisla sína út í myrkrið hvíta og græna svo kemur rautt ljós á milli. Fossvogskapellan er uppljómuð og flott. Borgarspítalinn og útvarpshúsið uppljómuð. Það hefur hlýnað og vonandi að það haldi eitthvað áfram. Fór á Hlíðarveginn í gær og heilsaði upp á foreldrana. Þar hitti ég Þórunni, Sveinn, Hjört, Árna og Júlíus. Sirrý er væntanleg til landsins á morgun frá Svíþjóð. Læt þetta duga í dag. Kveðja.

miðvikudagur, 16. nóvember 2005

Pælingar á miðvikudegi

Það hefur hlýnað aftur eftir brunakuldann í gær - 6°C. Ég hugsa að það sé a.m.k. + 2°C núna um kl. 18.00. Það er ekkert í fréttum. Var að koma heim úr vinnunni. Það er allt frekar tíðinda lítið af þessum slóðum. Sigrún alltaf að læra og ég var að æfa mig á flygilinn. Ég hef verið að lesa á blogg síðum ýmislegt sem yngra fólk skrifar þetta + 20 ára. Margt er ágætt og gaman að lesa. Það sem mér finnst einna skemmtilegast í skrifum unga fólksins er hipsursleysi og beinskeytni þess. Þetta er ferskleiki sem því miður oft tapast hjá okkur sem eldri erum. Við ritskoðum sjálf textann okkar óþarflega mikið, sem gerir það að verkum að hann verður flatari. Viljum ekki vísvitandi stíga á tær fólks eða valda óþægindum. Ætli þetta sé ekki flokkað undir reynslu okkar sem eldri erum. Þessar hlugleiðingar eru væntanlega tilkomnar vegna þess að í dag er dagur tungunnar.

þriðjudagur, 15. nóvember 2005

Kominn frá Svearíki.

Lagði af stað frá Kristianstad í morgun kl. 8.18 með lest áleiðis til Kastrup. Þurfti að skipta um lest í Malmö. Ferðin tók tæpa tvo tíma og var hin þægilegasta. Flaug með Iceland Express til Íslands. Það var 45 mínúta seinkun á fluginu. Ég var kominn hingað í Btún upp úr 16.00. Þetta var í alla staði ánægjuleg ferð og tókst í mjög vel. Kristianstad er yndislegur bær. Stutt og þægilegt í alla þjónustu. Hingað komu í kvöld Valdi og Stella og áttum hér góða stund saman. Kveðja til ykkar allra.

sunnudagur, 13. nóvember 2005

Á ferð um Skåne




Fórum til Kivikur í dag og upp á Stenhuvud sem er hæð sem veitir gott útsýni út á Eystasalt. Þetta er friðland og fallegt útivistarsvæði. Síðan fórum við á kaffihús í Simrishamn. Myndin hér við hliðina er tekin í Simrishamn. Ætli þetta sé ekki skjaldarmerki bæjarins á húsinu. Þess næst lá leiðin í IKEA í Malmö. Hvað er sænskara en það? Fengum okkur að sjálfsögðu sænskar kjöttbullar með lingonbär. Nokkrar myndir frá deginum kveðja.

laugardagur, 12. nóvember 2005

Fleiri myndir frá Svíþjóð.

Hér eru Sirrý amma, nafni og mamma hans á kaffihúsi i Kristianstad. Maður verður nú að fá pela á búðarrápinu.

Hér eru Sirrý og Ingibjörg á skranmarkaði í Kristianstd.


Þetta er við Stora torget i Kristianstad.

Hjörtur við Eystrasalt.

Fréttir frá Svíþjóð.



Komiði sæl og blessuð. Við Sirrý erum stödd hér í Kristianstad hjá Hirti, Ingibjörgu og nafna. Dveljum hér í góðu yfirlæti í þessari rosa fínu íbúð. Þetta er miklu flottari íbúð en ég bjóst við. Í gær vorum við í bænum og skoðuðum í verslanir. Hér er flottur miðbær með mörgum fínum verslunum. Við fórum á þetta líka fína kaffihús. Við erum búin að fá okkur bílaleigubíl og ætlum aðeins að skoða næsta umhverfi. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

miðvikudagur, 9. nóvember 2005

Yfir Pollinn.

Ég ætla að skreppa yfir Pollinn á morgun og taka langa helgi og gista hjá Hirti, Ingibjörgu og nafna. Það er nú vart við hæfi að kalla hið mikla Norður - Atlantshaf poll. Þegar maður er búinn að sitja í flugvél frá Lissabon í Portugal til Mapútó í 11 tíma þá finnst manni 3 tímar í flugi ekki mikið mál. Eins og við gerðum hér um árið. Nú eða síðasta sumar frá Keflavík til San Francisco í álíka tíma. Það er annars ekkert sérstakt í fréttum. Tíminn æðir áfram og maður hefur vart undan að snúast í kringum sjálfan sig. Nú lenti ég í því í kvöld að þegar ég ætlaði að fara út með ruslið þá var ruslatunnan horfin!!! Ruslið var tekið í morgun eða gær og karlarnir hafa ekki skilað tunnunni. Sigrún reynir að finna út úr því á morgun. Bið að heilsa öllum. Kveðja.

þriðjudagur, 8. nóvember 2005

Hann á afmæli í dag.

Til hamingju með daginn Hjörtur minn. Sendum þér og þinni fjölskyldu bestu kveðjur héðan í tilefni dagsins. Það er fínt veður hérna í dalnum nokkrar plúsgráður og stillt veður. Annars er mest lítið í fréttum. Jú annars hér komu Valdimar og Stella heldur betur vel akandi í kvöld á nýjum bíl. Þetta er Peugot ´99, hvítur 405 típan. Við Sigrún fórum með þeim einn rúnt í bæinn til þess að prófa gripinn. Kvefið er heldur í rénun, en ég er búinn að vera askoti slappur undanfarið. Hlítur að vera einhver flensuskítur. Sigurður pabbi Sirrýjar er búinn að vera á sjúkrahúsi. Hann er á batavegi og gert ráð fyrir að hann útskrifist á morgun. Kveðja.

mánudagur, 7. nóvember 2005

Á mánudagskvöldi.

Það er ekkert spennandi að byrja vikuna þrælkvefaður. Ég vona samt að þetta líði hjá fljótlega. Treysti mér þess vegna ekki á söngæfingu í kvöld. Það er stillt veður hérna í dalnum og það hefur heldur hlýnað aftur sem betur fer. Var á ráðstefnu í dag sem fjallaði um framtíðarhorfur þorskstofnsins. Sumir segja að hagfræðin sé hin döpru vísindi. Ég hef nú ekki verið sammála þessari nafngift og raunar ekki skilið hana. Hef reyndar grun um að þetta sé komið frá stjórnmálafræðingum. (Lesist Stella) En hvað má þá segja um blessaða fiskifræðina. Allar kúrfurnar þeirra lúta niður á við - hver einasta. Grínlaust þá var ráðstefnan alvarleg áminning um hættulegt ástand þorskstofna í Norður - Atlantshafi. Mikilvægt er að bregast við minnkandi stofnum með auknum verndaraðgerðum. Spurningin er bara hvaða aðferðir duga best. Hugsið ykkur þrátt fyrir engar veiðar í nær tvo áratugi hefur þorskstofninn við Nýfundnaland ekki náð sér aftur eftir ofveiði. Nú er það stóru gömlu hrygnurnar sem þarf að vernda, því þær geta af sér stóru hrognin sem eiga betri lífslíkur. Þetta gengur nú erfiðlega í suma sjómenn. Þeir eru svo uppteknir af því að það séu ungu konurnar sem séu frjósamastar og best fallnar til undaneldis. Það hljóti að vera eins hjá þorskinum. Það er mikilvægt fyrir okkur að ganga þannig um fiskimiðin að við getum skilað fiskistofnunum í betra ástandi en við tókum við þeim. Þetta hlýtur að vera okkar leiðarljós í nýtingu þeirra. Jæja nóg um fiskifræði í bili. Kveðja til ykkar allra.

sunnudagur, 6. nóvember 2005

Mynd af sr. Hirti Hjartarsyni.

Ég rakst nýlega á þessa mynd á vefsetri Grindavíkurbæjar. Vona að þeir amist ekki við því þótt ég birti þessa mynd hér á heimasiðunni okkar. Hér má sjá sr. Hjört flytja Grindvíkingum fagnaðarerindið á Sjómannadaginn. Veit ekki hvaða ár þetta hefur verið. Annars allt með kyrrum kjörum hér í Brekkutúni. Við Sigrún sitjum hér við skriftir. Hún að skrifa ritgerð um fjölmiðlun og ég að blogga. Hjörtur hringdi frá Svíþjóð og ég talaði við Sirrý. Hún fer til Kaupmannahafnar í dag. Valdimar kom heim í gær frá Svíþjóð. Hann hefur verið að aðstoða Hjört við flutninginn eins og áður hefur verið getið. Hjörtur sagði að það væri búin að vera töluverð umfjöllun um Ísland og Íslendinga í sænskum fjölmiðlum. Það stendur til að ég skjótist yfir Pollinn næstu daga í helgarheimsókn. Þetta er nú svolítið í stíl við fréttir af skipakomum og brottförum úr Sundahöfn. Úr annari dagbók sem við þekkjum sum. Nú ég get ekki kvartað yfir heimsóknum á vefslóðina því að hún hefur fjórfaldast frá því í maí slíðastliðinn. Ég á örugglega stóran hlut í því vegna þess að hver innkoma telur. Líka skrif og leiðréttingar.
Maður fer að slaga hátt upp í stóru blöðin.

Á sunnudegi.

Var að enda við að horfa á mynd á NK 2. Þetta er mikill munur að vera kominn með nokkrar stöðvar til að velja úr. Var að horfa á mynd um tékkneska flugmenn sem flugi í RAF í seinni heimsstyrjöldinni. Hugsið ykkur þeir voru settir í fangelsi eftir stríð í Tékkóslóvakíu og fengu ekki viðurkenningu fyrir þátttöku sína í seinni heimstyrjöldinni fyrr en 1991. Þá hafa ugglaust margir þeirra verið látnir.Það er ótrúlegt hvernig lífið getur leikið menn grátt. Það er svo sem ekkert í fréttum. Ég er búinn að vera slappur undanfarna daga af kvefpest. Þær eru orðnar nokkrar á þessu ári. Líklega er þriðja skiptið á árinu sem ég fæ svona flensu. Úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins við val á borgarstjórnarlistann liggur nú fyrir. Þau eru í samræmi við skoðanakannanir. Vilhjálmur er í 1. sæti. Ég var nú líka búinn að spá því. Hanna er í 2. sæti og Gísli Marteinn í því þriðja. Nú er að sjá hversu langt þetta framboð dregur. Athyglisvert er hversu vel konum hefur gengið í þessu prófkjöri. Það er vel að mínu mati að þær skuli sækja fram með þessum hætti. Horfði á þátt um hugsanleg áhrif af fuglaflensunni á CNN í gær. Þetta er ógvænleg staða en vonandi að takast megi að koma i veg fyrir að þetta verði að heimsfaraldri. Mikið er fjallað um hörmungarnar í Pakistan eftir jarðskjálftana og það hversu illa gengur að safna til hjálparstarfsins. Vonandi að úr því rætist. Jæja þið sjáið að ég er kominn í alþjóðamálin þannig að það er best að fara ljúka þessu. Bið að heilsa.

laugardagur, 5. nóvember 2005

Sitt lítið af hverju.

Ég fór á Hlíðarveginn í gær og heimsótti mömmu og pabba. Þau upplýstu mig um að Hjörtur Sveinsson sonur Þórunnar væri kominn í framboð fyrir Framsókn. Það voru svo sem engar fréttir. Margir búnir að spyrja mig hvort kappinn sé sonur minn. Annars er lítið í fréttum héðan. Fór í píanótíma í gærkvöldi. Það var leiðindaveður í nótt var alltaf að vakna. Það hefur hlýnað aftur og snjórinn er farinn aftur í bili. Hef verið í sambandi við Sirrý í Svíþjóð. Það er allt í góðum gír þar. Valdimar kemur heim í dag. Fékk þær fréttir í gær að Þórunn systir og Sveinn Larsson séu í Glaskow í fríi. Unnur og Júlíus eru á Úlfljótsvatni með skátunum. Fór í Björnsbakarí við Skúlagötuna í dag og keypti mér möndluköku og birkibrauð. Þetta bakarí er með bestu möndlukökurnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ekki sama bakarí og ber sama nafn og er á Hringbrautinni. Hitti þar kunningja og við ræddum aðeins um vesturfara og þá skoðun Páls Skúlassonar fyrrum háskólarektors að meðalhófið skapi "mestu" hamingjuna í lífinu. Ég mynti á að það að "gera" aldrei neitt gæti nú líka leitt til vanlíðan. Þannig að það er með þetta eins og annað. Allt orkar tvímælis þá sagt(gert) er. Heyrði í Helga Sig. í dag. Þau eru komin frá Frakklandi. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

föstudagur, 4. nóvember 2005

Til Kristianstad.

Ég keyrði Sirrý, Ingibjörgu og Svein Hjört á flugvöllinn áðan. Þegar þetta er skrifað er hann á leiðinni ásamt fylgdarliði til nýrra heimkynna í Kristianstad. Við vöknuðum kl. 4.00 í nótt til þess að vera komin í tíma suður eftir. Annars lítið að frétta héðan. Það er stillt veður og kallt - 5°C. Heyrði í þeim um hádegisbilið þegar þau voru komin til Kaupmannahafnar og búin að hitta Hjört og Valda. Flugið gékk vel og Sveinn var góður á leiðinni eins og við var að búast.
Kveðja.

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Svíþjóðarfréttir og annað smálegt.

Þeir bræður Hjörtur og Valdimar eru búnir að standa í ströngu í dag. Búslóð Hjartar kom til Kristianstad og þeir fóru tveir í það bræður að taka dótið úr gámnum og bera upp á þriðju hæð í blokk. Þeir kláruðu dæmið á fimm tímum. Það er nú vel af sér vikið af tveimur köppum. Að vísu voru þeir búnir að útbúa sig með trillum á hjólum og það er sem betur fer lifta í húsinu. Hvernig getur fólk sem til þess nýbyrjað að búa sankað að sér fullum 20 feta gámi af búslóð! Ja hérna ég býð ekki í það ef ég þyrfti að flytja. Það yrðu örugglega tveir 40 feta gámar miðað við þetta. Best að hugsa sem minnst um það. Annars er nú lítið í fréttum Sigrún er að fara á skólaball á morgun. Í Mbl. í dag var vitnað í Sirrý varðandi gamalt fólk og gæludýr. Hún hefur komist að því að gamla fólkið vilji margt eiga húsdýr en það er bannað víðast hvar í blokkum og sambýlum. Nú styttist í að hún fari aftur yfir pollinn og verði samferða Ingibjörgu og nafna sem eru að fara til nýrra heimkynna í Svearíki. Hér komu í gær þær frænkur Halla og Elín og gerðu stutt stopp. Ég var á söngæfingu í gær. Það er verið að æfa nýtt prógram á fullu með gömlum lögum í bland. Þetta er þriðji veturinn sem ég tek þátt í kórstarfinu. Nú þetta er svona það helsta sem ég man eftir. Kveðja.