föstudagur, 30. september 2005

Föstudagspistill.


Út á Fossvoginn.

Sendi mynd til þess að ylja fjarstöddum "Brekkutúnurum" og skoða, ef ske kynni að þeir færu á Internetkaffi um helgina. Ég er nú allur að skríða saman. Verð orðinn góður um helgina. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Við tókum okkur spólu í gærkvöldi um Che Cuevara þegar hann ungur maður ferðaðist um Suður Ameríku. Hann kom m.a. til Perú og kannaðist ég við ýmislegt þaðan. Ég var í Lima og Gallio en kom ekki til Chuzco og Machu Picchu. Hvað maður var nú vitlaus að nota ekki tækifærið og ferðast til Machu Picchu hinnar týndu borgar Inkanna. En það voru óróleikatímar, skæruliðasamtökin Skínandi stígur og Guzmann vaðandi uppi og maður þorði bara ekki að ferðast mikið um. Maður mátti ekki fara út af hótelinu nema með lífverði. Robert Redford er framleiðandi myndarinnar. Það hefði nú einhverntíma þótt saga til næsta bæjar að Ameríkani gerði svona flotta myndu um Che. En allt á sinn tíma. Maður man vel eftir því þegar fréttir bárust af falli hans. Það var svona ævintýralegur blær yfir þessum manni. Nú hann var í dýrlingatölu hjá mörgum á vinstri væng stjórnmálanna. Manni stóð náttúrlega ógn af nafni hans Mogginn hefur séð til þess. Þetta var jú byltingarmaður, útsendari frá Castró. En auðvitað tók hann afstöðu gegn fátæktinni og ömurleikanum sem víða má finna í Suður Ameríku. Jæja þetta er nú ágætis pistill fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálafræði eða hvað Stella? Kveðja.

fimmtudagur, 29. september 2005

Flensa.

Já, ég er kominn með flensu skratta. Vona að þetta líði hjá hið fyrsta. Lýsir sér með höfuðverk, aumur í hálsi og "out of tune". Sigríður var jarðsungin í Dómkirkjunni í gær. Þetta var falleg og látlaus athöfn. Nú aðrar fréttir eru að Hilda og Magnús eru í óðaönn að gera klárt fyrir innflutning í nýju íbúðina. Stella og Valdi eru á fullu í sínu og Sigrún. Ingibjörg kom í bæinn í gær til að fylgja Sigríði. Við komum við hjá Valda og Stellu í gærkvöldi eftir að hafa skilað Sunnu heim til sín. Nú annars er svona heldur að draga úr þessum "Baugsmálum" allavega í bili. Þú veist nú svona undan og ofan af þeim, hvað svo sem verður í framhaldinu. Davíð er hættur sem ráðherra og á hraðleið út úr pólitíkinni. Mikið hlýtur hann að vera feginn. Hann hefur skilað verki sínu með sóma og skipar sér í fremstu röð meðal leiðtoga þessarar þjóðar. Þetta eru nú svona helstu fréttirnar héðan. Kveðja til Svíþjóðar. Farinn í rúmið.

þriðjudagur, 27. september 2005

Tónlistariðkun á vetri komanda.


Kórstarfið.

Ég fór á fyrstu kóræfinguna í gærkvöldi. Mættir voru 28 kórfélagar og mikill hugur í fólki varðandi vetrarstarfið. Violeta mun stjórna Sköftunum í vetur eins og undanfarna áratugi. Lagavalið lítur ljómandi vel út. Nú ég er líka að byrja í píanónáminu, þannig það ætti að vera nóg að gera á tónlistarsviðinu næstu mánuði. Annars lítið að frétta héðan. Það haustar snemma og kólnar. Við erum bara í okkar rútínu hérna í Brekkutúninu. Það þýðir ekkert annað en að halda sínu striki eins og sagt er.

sunnudagur, 25. september 2005

Myndir handa pabba í Kristjanstad.


Ég var svooo þyrstur.
Maður verður nú að fá í svanginn milli þess sem maður hamast. Ingibjörg og Sveinn Hjörtur komu í heimsókn hingað í dag. Hér voru einnig næturgestir Brynhildur og Magnús. Björn og Sunna litu inn í morgun, þannig að hér hefur verið gestkvæmt og gaman í dag. Annars höfum við verið heimavið í dag. Það er kólnandi úti ekta "stofuveður" þ.e. fallegt veður en kallt.

Heimsókn til afa og ömmu í Brekkutúni.


Gaman hjá ömmu.

Maður brosir nú aðeins í fanginu á ömmu fyrir hann pabba sinn í Svíþjóð. Skárra væri það nú.

Hæ pabbi.

Maður er nú "smekk" maður það er nú ekki hægt að segja annað jafn flottur og maður er í dressinu.

Putti í munn.

Halló pabbi. Sérðu nokkuð tennurnar mínar tvær.

Sveinn Hjörtur

Nafnarnir.

laugardagur, 24. september 2005

Á Vestfjörðum


Súgandafjörður.

Ég var á Vestfjörðum í gær á fundi með vestfirskum útvegsmönnum. Flugið vestur gékk vel þrátt fyrir vetrarríki vestra en fluginu til baka var frestað vegna slæmra veðurskilyrða á Ísafirði. Það var snjómugga og lélegt skyggni sem var þess valdandi. Heldur var nú kuldalegt um að lítast í þessum forna frægðarbæ. Eftir fundinn á Ísafirði fórum við á Suðureyri að heimsækja þorskhausaþurrkun. Tók þessa mynd á Suðureyri við Súgandafjörð til þess að sýna snjófölina í vestfirskum fjöllum. Þetta var annars ágætis fundur og dagur en við áttum tveggja kosta völ í lok dags. Annað hvort að gista og bíða betra veðurs eða keyra í bæinn. Við völdum síðari kostinn. Af þeirri ferð segir hér að neðan.

Einmanna tungl.

Við lögðum af stað frá Ísafirði kl. 19.30 í gærkvöldi. Það var ofankoma meira og minna alla leiðina í Norðurárdal í Borgarbyggð. Við héldum að þetta yrði verst í Djúpinu en það reyndist nú ekki eiga við rök að styðjast. Skyggnið versnaði eftir að komið var á Strandirnar eftir Hólmavík. Á köflum var 20 metra skyggni. Þetta minnir okkur á hversu hættulegt það er að ferðast á íslenskum vetrarvegum í lélegri færð. Ég tók þessa mynd af tunglinu þegar við vorum að koma ofan af Steingrímsfjarðarheiði. Hálf einmannalegur "fílingur" finnst ykkur ekki. Hvítu punktarnir á neðri hluta myndarinnar eru ekki ljós af byggðu bóli. Þetta er endurskyn frá vegastikum myndað af flassi myndavélarinnar. Nú eftir að við komum að Bifröst var ágætis færð og skyggni og ferðin gékk vel í bæinn. Ég var kominn heim kl. 02.30 í nótt. Annars er ekkert sérstakt í fréttum svona af okkur hér í Brekkutúni. Sá sorglegi atburður gerðist í vikubyrjun að Sigrður kona Björns lést og verður hún jarðsungin í næstu viku. Blessuð sé minning hennar og aðdánunarvert var hugrekki hennar í hennar alvarlegu veikindum. Bið að heilsa trúum lesanda í Svíþjóð. Kveðja.

sunnudagur, 18. september 2005

Haustlitir við Brekkutún.


Brekkutún.

Þeir hafa alltaf sinn sjarma haustlitirnir á gróðrinum. Reynitréið okkar er farið að roðna töluvert, eftir nokkra daga missir það svo laufið. Gróður og mannfólk er í óðaönn við að undirbúa sig fyrir veturinn. Hjörtur Friðrik kom óvænt í heimsókn frá Svíþjóð þessa helgi. Ingibjörg og nafni hafa verið hér í heimsókn nokkra daga. Við vorum í afmæli í gær hjá Ingibergi (Gigga frænda), hann var sextugur. Hér komu í heimsókn í gærkvöldi Stella og Valdimar. Einnig komu hér sr. Hjörtur, Unnur, Edda frænka, Kolbrún og Svenni mágur og Þórunn.

Í afmæli Gigga.


Svenni, Sirý og Rannveig.

Hér eru þau saman á mynd Svenni, Sirrý og Rannveig í veislunni hjá Gigga frænda.

Frændur í afmæli.


Frændur.

Hér eru þeir saman á mynd frændurnir Zophonías Kristjánsson og sr. Hjörtur Hjartarson. Ættarsvipurinn leynir sér ekki þ.e. Gillastaðagengin úr Reykhólasveitinni.

Systurnar.


Unnur og Edda.

Óvenju góð mynd af þeim systrum Unni og Ingibjörgu Axelsdætrum í afmæli Gigga frænda.

þriðjudagur, 13. september 2005

Félagsstörf.


Rotaryfundur.

Nóg að gera þessa dagana. Var á Rótarýfundi í dag. Gunnar Birgisson fór yfir fjármál Kópavogskaupstaðar. Það var ekki annað að sjá en við værum í mjög góðum málum hvað fjármálin varðar. Læt þessa mynd af meðstjórnendum mínum í klúbbnum og bæjarstjóranum fljóta með. Ég hef verið í þessum félagsskap frá árinu 1992. Þetta er góður og mannbætandi félagsskapur. Það er við hæfi að uppáhalds tónskáldið mitt er á málverkinu á bak við okkur, heiðurtónskáld bæjarins Sigfús Halldórsson. Hann er einn af þessum stóru áhrifavöldum á lífsleiðinni, sem hefur haft mikil mótunaráhrif á mann í gegnum lögin sín, málverkin og svo að sjálfsögðu í gegnum áratuga ánægjuleg kynni. Hann heilsaði manni alltaf svo hlýlega: "Komdu sæll og blessaður Svenni minn." Hann var nágranni og góður vinur okkar og sérstaklega foreldranna á Víðihvammsárunum. Minnisstætt er þegar ég ca. 16 ára gamall málaði gluggana á húsinu hans og hann gaf mér mynd í staðinn. Með því að læra að spila lagið: "Við eigum samleið" á píanó sem unglingur gat ég notað lagíð sem "geymslustað" fyrir þann lærdóm sem ég aflaði mér á æskuárunum á píanó. Ég hef sérstaka ánægju á að spila lögin hans og þreystist aldrei á því.

sunnudagur, 11. september 2005

Sólarlag séð úr Fossvogi.


Sólarlag.

Ég var búinn að sýna ykkur myndina af sólarlaginu við Grand Canyon. Nú er að byrja sá tími þegar sólarlagið getur verið hvað stórfenglagast út við sjóndeildarhringinn í vestri. Tók þessa mynd til þess að sýna ykkur hvað ég á við. Annars er þetta búin að vera lífleg helgi. Ball á föstudaginn endapunktur á sjávarútvegssýningunni í Smáranum. Heimsókn Ingibjargar, Margrétar, Jóhannesar og Sveins Hjartar jr. Í tilefni þess að nafni kom litu hér við sr. Hjörtur og frú Unnur og Þórhalla langömmusystir. Afmæli Emils Draupnis var haldið í dag, en hann er orðinn 7 ára. Þar hittum við Snorra og Hilju, Gunnar Örn með Bergstein, Kára og Bryndísi og fólkið hennar Fjólu. Heimsókn til Axels og Rannveigar í nýju íbúðina í Galtarlind þar voru Alexander og Axel jr. í tölvuleik. Við fórum í heimsókn til Íu og Kolla í tilefni þess að hún átti afmæli í vikunni. Hilda er á fullu við að flytja inn í nýju íbúðina sína og ætti það að gera sig fljótlega. Jæja ég man ekki fleiri fréttir í bili. Kveðja.

laugardagur, 10. september 2005

Myndir fyrir pabba í "Fífó"


Með mömmu sinni.

Alltaf er stutt í brosið hjá nafna. Alltaf gaman að sjá Sigrúnu frænku leika látbragðskúnstir.

Sirrý amma og Sveinn Hjörtur.

O það er svo gaman að láta ömmu knúsa sig svolítið.

Sveinn og Sigrún frænka.

Afi alltaf að taka myndir.

Hér má sjá nýju tönnina vinstra megin í neðri góm. Maður stækkar ört þessa dagana.

Sveinn og Sigrún frænka.

Jæja er ekki komið nóg af myndatökum og knúsi í bili.

Á Breiðstræti.












(Mynd af vef icefish.is)
Við vorum á Broadway í gærkvöldi. Þetta var "gala" í tilefni Sjávarútvegssýningarinnar í Smáranum. Maturinn var fínn, fiskisúpa, lamb og ávaxtadesert með ís. Á meðfylgjandi mynd má sjá okkur lengst og efst til vinstri á myndinni. Sirrý er í rauðum jakka. Þetta er mynd sem var tekin fyrir þremur árum á ballinu sem var haldið í tilefni Sjávarútvegssýningarinnar 2002. Í gærkvöldi voru sex krakkar sem héldu uppi fjörinu með sögn og glensi. Þau kalla sig Lu singers.
Ágætis söngur og skemmtan. Við vorum þarna með gestgjöfum okkar á Fiskifréttum. Þetta er að venju glæsileg sýning og öllum til sóma sem að henni standa. Annars er lítið að frétta. Dagarnir þjóta áfram einn af öðrum og nóg að gera. Það er aðeins farið að hausta og kólna núna.

miðvikudagur, 7. september 2005

Á Sjávarútvegssýningunni.


Sigurður tengdapabbi á sýningunni.

Tók þessa mynd af Sigga afa þar sem hann var á sýningarbás Securitas. Hann sýndi mér nokkrar slökkvikúnstir meðan ég stoppaði við hjá honum á básnum. Ný umhverfisvæn slökkviefni það var kjörorðið á þessum bás.

sunnudagur, 4. september 2005

Heimsókn í Borgarnes.


Nafni með mömmu sinni.

Við fórum og heimsóttum nafna og mömmu hans í Borgarnesi og tókum nokkrar myndir ef vera kynni að pabbi sem er í Svíþjóð mundi rekast inn á þessa vefslóð. Það var að vanda tekið á móti okkur af miklum höfðingsskap. Eins og sjá má heilsast nafna og mömmu hans vel.

Er maður ekki flottur.

Það voru teknir nokkrir snúningar í nýju rólunni til þess að sýna afa og ömmu úr Kópavogi hvað maður er duglegur.

Við nafnarnir.

Tveir flottir saman.

Margrét,Jóhannes,Ingibjörg og Sirrý.

Þegar nafni var sofnaður áttum við smá stund saman með gestgjöfum okkar. Tók þessa mynd á pallinum á Þórðargötu. Það var hlýtt og alger stilla þetta kvöld.

Snæfellsjökull í myrkrinu.

Ef vel er gáð má sjá Snæfellsjökul í ljósaskiptunum út við sjóndeildarhringinn. Þetta er ótrúlega fögur sjón og ganga svo út í lognværa kvöldkyrrðina og njóta þessarar sýnar fullkomnar daginn.
Kveðja.

laugardagur, 3. september 2005

Þetta gerðum við.


Hundaþúfan og hafið.

"Hundanþúfan og ég erum vinir." Sagði Páll Ísólfsson organisti og tónskáld í viðtalsbókinni Hundaþúfan og hafið sem Matthías Johannessen skrifaði. Við fórum og leituðum að Hundþúfunni hans Páls og viti menn við fundum hana fyrir framan sumarbústað hans á Stokkseyri. Þarna er ótrúlega fallegt á góðum degi og hvet ég alla til þess að skoða þessa merku þúfu, sem þeir gerðu ódauðlega í umræddri bók.

Úlfljótsvatnskirkja.

Já, já þið megið segja að þetta sé kirkjubyggingavefur. Það er bara eitthvað við kirkjur sem gerir að ég hef svo gaman af að taka myndir af þeim. Hún er falleg skátakirkjan þarna sem hún stendur á bakka Úlfljótsvatns. Sannarlega er hún eitt af fegurstu helgitáknum þessa lands.

Nesjavellir.

Litið heim að Nesjavallarvirkjun.

Mæðgur í berjamó.

Þetta var nú aðaltilgangur bíltúrsins að kíkja eftir berjum. Við týndum um einn líter af bláberjum í ferðinni. Það var nú ekki mikið af berjum og þó svona ling og ling. Ég var nú aðallega í því að safna því saman sem þær týndu. Þetta er í Grafningi. Í baksýn má sjá Skjaldbreið í bláma.

Móskarðshnúkar.

Keyrðum framhjá líparíthnúkunum fallegu, Móskarðshnúkum. Þetta er ein fallegasta fjallasýn á Íslandi að mínu áliti. Tók þessa mynd á leiðinni inn Mosfellsdalinn.

Mosfellskirkja.

Ein tígurleg í safnið góða.

Grænmetismarkaður í Mosfellsbæ.

Þetta er hinn vinsæli grænmetismarkaður í Mosfellsbæ. Hann er fjölsóttur og ágætis afþreying að koma þar við um helgar. Keyrt er áleiðis inn Mosfellsdalinn og afleggjarinn inn á markaðssvæðið er síðasti afleggjari til hægri áður en keyrt er upp brekkuna að Laxness húsunum.

Meira um markaðinn hér: Grænmetismarkaðurinn

Grænlenski fáninn og grænmetið.

Smellti mynd af Sirrý með grænlenska fánann í baksýn. Hún heldur á græmetinu sem við keyptum á grænmetismarkaðnum í Mosfellsdal. Ekki veit ég nú af hverju grænlenski fáninn er þarna við hún. Það á örugglega sýna skýringu. Þegar við komum við á Selfossi spurði ég bæjarstarfsmann af hverju væri svona víða flaggað íslenska fánanum á Selfossi í dag. Hann sagði að það væri vegna svokallaðs Brúarhlaups, fólk væri búið að vera að leggja á sig og mæðast í þessu árlega hlaup í dag.

föstudagur, 2. september 2005

Enn á föstudagskvöldi.


Föstudagskvöldin eru ágæt til heimsækja þessa bloggsíðu. Vikan hefur að venju liðið sem örskotsstund. Það er fallegt haustkvöld úti, stillt veður og ekki komið myrkur. Maður ætti að vera úti en nenni því ekki. Hjörtur hafði samband frá Svíþjóð. Hann er á fullu að koma sér fyrir í nýrri vinnu. Annars er ekkert sérstakt í fréttum núna. Brynhildur og Magnús eru að koma sér fyrir í nýrri íbúð sem þau hafa keypt. Hér voru í gærkvöldi Stella og Valdi og Magnús og Hilda og við heimilsfólkið og tóku stöðu í dægurmálunum. Það er mjög gefandi að hlusta á unga fólkið og heyra viðhorf þess til helstu dægurmála. Ef þetta eru almennt viðhorf unga fólksins, sem mun stýra Íslandi í framtíðinni þurfum við eldri ekki að óttast ævikvöldið. Þetta unga fólk er með vel ígrundaðar skoðanir á flestum málum og hefur heilbrigð viðhorf til mála, þótt ég sé að sjálfsögðu ekki sammála því í einu og öllu. En það gerir bara samræðurnar skemmtilegri. Ég ætla að enda þennan pistil með því að minnast aðeins á meðfylgjandi mynd. Ég var búinn að lofa að sýna ykkur hana. Þetta er kvöldsólin að setjast yfir Grand Canyon í júnílok um kl. 21.00. Ein af þessum ógleymanlegu stundum að vera viðstaddur þarna á þeirri stundu. Kveðja.

fimmtudagur, 1. september 2005

Í dag er 1.september.

1.september er merkisdagur. Þetta er einn af útfærsludögum landhelginnar á sínum tíma ásamt 15.október. Sirrý og Unnur Sveinsdóttir eiga afmæli í dag. Hjörtur Friðrik byrjaði í nýrri vinnu í dag svo nokkuð sé nefnt. Annars er það helst í fréttum að hörmungarnar i USA eru að koma betur í ljós. Þetta eru hryllilegar hörmungar sem fólkið við Mexicoflóa og í New Orleans á við að glíma. Við biðjum fyrir þeim sem þar eiga um sárt að binda og sendum þeim hlýjar kveðjur. Sömuleiðis eru þetta hryllilegar fréttir frá Írak um 1000 manns tróðust undir þar á trúarhátíð. Vonandi hefjast betri tímar fljótlega í Írak eftir allar þær hörmungar sem fólkið þar hefur mátt þola. Þegar maður er búinn að ferðast til USA eins og við höfum gert sl. tvö ár hefur maður meiri sterkari tilfinningar gagnvart því fólki sem þar býr. Fjarlægðirnar sem áður skyldu eru ekki lengur fyrir hendi.