þriðjudagur, 26. maí 2020

Kristinn Kjartansson minning

Í dag þann 25. maí 2020 var ég við jarðarför Kristins Kjartanssonar, góðs félaga í Söngfélagi Skaftfellinga og göngufélaga til margra ára. Kynni okkar hófust árið 2003 þegar ég byrjaði í kórnum, en hann hafði verið þar í mörg ár. Hann var mikill söngmaður og góður félagi. Nikkan hans var aldrei langt undan á samkomum og ferðalögum. Ljúfmennska hans, prúðmennska og glettni var eins skaftfellsk og hugsast getur, þar sem hæverskan var í fyrirrúmi. Hann var Mýrdælingur, frá Þórisholti. Margs er að minnast frá liðnum árum. Tónleikar og tónleikaferðir um landið, oftast þó um Skaftafellssýslurnar tvær. Söngatriði með þeim bræðrum Kristni og Kjartani á aðalfundi útvegsmanna á Suðurnesjum. Fjölmargar gönguferðir okkar oftast um Elliðaárdal og Heiðmörk ásamt göngufélögum í Skálmurum. Gengið var allan ársins hring þegar við vorum duglegust. Einn af hátindum í ferðum okkar Skálmara var þegar við opnuðum formlega svokallaða Hellismannaleið frá Rjúpnavöllum, í Áfangagil þaðan í Landmannahelli og að lokum endað í Landmannalaugum. Á lífsleiðinni kynnist maður nýju fólki og þótt kynnin hefjist eftir miðjan aldur er eins og viðkomandi hafi alltaf þekkst. Þannig vil ég lýsa kynnum mínum af Kristni. Ég þakka honum samfylgdina og votta Guðrúnu og fjölskyldu hans samúð mína. Blessuð sé minning Kristins.

Líkar þetta
Skrifa ummæli
Deila