fimmtudagur, 3. desember 2020

Sterkara gengi, samdráttur á vinnumarkaði og ferðaþjónustan

Nú segi ég eins og karlinn forðum, “sko til ég var búinn að segja ykkur þetta.” Sbr þennan póst frá 7. október sl. Gengi evru og DKK var of hátt. Enda hefur krónan styrkst og sérstaklega í dag. Við eigum nóg af gjaldeyri og þeir sem veðjuðu á veikara gengi krónunnar sleikja nú sárin. Við skulum vona að verslunin snúi niður verðlag í samræmi við þetta. Annað, nú er víða þröngt hjá þeim sem vinna í einkageiranum. Það er ekkert launaskrið hjá þeim sem þurfa að afla sinna tekna á frjálsum markaði. Hið sama á ekki við hjá þeim sem eru hjá hinu opinbera. Nú eiga alvöru stjórnmálamenn að gefa sig upp og viðurkenna að ríkislaun eru komin úr hófi fram. Stöðvið þessa óheillaþróun, ef þið vilið að tekið sé mark á ykkur. Það sama á væntanlega víðar við þar sem sjálftaka á sér stað. Sjávarútvegur okkar er það sterkur að hann getur brauðfætt okkur. Tala nú ekki um ef fiskeldið er að koma sterkt inn líka. Ferðaþjónusta verður að bíða enn um sinn. Endurskipuleggja og huga að sjálfbærum rekstri til framtíðar. Góðar stundir.

 
Deilt með Vinir 


föstudagur, 6. nóvember 2020

Joe Biden 46. forseti USA?

 Ég segi eins og sonur minn. Kosningar eru mínir knattleikir. Nú sýnist mér halla undan fæti hjá Trump. Fjöldi lögsókna bera vott um það. Ef Biden vinnur Nevada og Arizona. Þá er hann búinn að vinna. Fox er m.a.s. búin að lýsa hann sigurvegara í Arizona. Trump þarf “homerun” í þeim ríkjum sem eftir eru til þessar vinna Biden. Gerast ævintýrin enn? Eða verður Trump að finna sér nýjan vettvang. Það er stóra spurningin. Það má bæta því við að í dag 6. nóvember hefur Biden náð naumum meirihluta í Pensilvania og Georgia. Þannig að líklega er hann að verða 46. forseti USA.

Var það Rumsfeld sem lokaði eða?

 Var að hlusta á viðtal við, Ólaf Ragnar Grímssonar í þættinum Víglínan sem sýndur var á Stöð 2 þann 25. október sl. Hann var þar til að segja frá nýrri bók sinni, Sögur fyrir Kára. Hann sagði frá ýmsum sögum á ferli sínum. Ein af þessum sögum var af fundi Ólafs og bandarísks þingmanns, sem er skíðavinur Dorrit og var formaður hermálanefndar þingsins. Þingmaðurinn sagði Ólafi frá því að aldrei hefði íslenskur ráðamaður haft samband vegna varnarmála landanna við þingið eða hermálanefndina. Hann lagði áherslu á það að hvorki Halldór né Davíð hefðu ræktað þessi samskipti þjóðanna. Þetta kemur leikmanni sem hefur gluggað í ævisögu Donalds Romsfeld fyrrum varnarmálaráðherra spánskt fyrir sjónir og sérstasklega sérstökum þætti hans varðandi brotthvarf herstöðvarinnar. Í ævisögu hans er því lýst hvernig hann náði fram þeirri málamiðlun í ágreiningi við utanríkisráðuneyti USA að herstöðinni á Íslandi yrði lokað. Hann vildi loka mun fleiri herstöðum en niðurstaðan var þessi. Að mati hans skipti Ísland ekki lengur máli hernaðarlega og því væri í lagi að loka stöðinni. Rumsfeld hældi sér af þessum árangri vegna þess að það sparaði bandarískum skattgreiðendum 246 milljónir dala á ári. Þá var það að mati Rumsfeld óþarft að haldið yrði úti þyrlusveit á Íslandi til þess að bjarga íslenskum sjómönnum úr sjávarháska. Íslendingar gætu bara gert það sjálfir. Nú virðist hafa orðið áherslubreyting í USA og þeir horfa aftur til vaxandi mikilvægis okkar til þess að fylgjast með skipaferðum Rússa á N - Atlantshafi. Ég spyr nú bara hvort þessi þingmaður hafi ekki lesið ævisögu varnarmálaráðherrans og hvernig eftirfylgni í þeirri nefnd er með slíkum breytingum sem brottför hersins var.

þriðjudagur, 20. október 2020

Bókin hans Bolton og forsetakosningarnar 2020

 Ég las bók John Bolton þjóðaröryggisráðgjafa Trumps forseta. Hann starfaði 18 mánuði í þessu starfi og dreif sig í að segja starfi sínu lausu þegar hann taldi að Trump ætlaði að losa sig við hann. Hann á það allt skriflegt, en þá greinir á um hvort hann hafi sagt upp eða hvort hann hafi verið rekinn. Bolton var varaður við að hann mætti alls ekki skyggja á forsetann. Það væri ávísun á brottrekstur. Bókin fjallar á hlutlægan hátt um Trump og ljóst að Bolton rekur mörg mál sem hafa verið í fjölmiðlum á hlutlægan hátt. Eigi að síður liggur alltaf undir þessi undirtón að menn eru reknir hægri og vinstri. Nú styttist í forsetakosningarnar og ljóst að Trump virðist forðast beinar rökræður við Joe Biden. Hann fer þó víða  um með uppslætti sína og fjölmiðlar endursegja það sem hann segir. Í rauninni er aðeins það eftir að bíða þess að talið verði upp úr kjörkössum í nóvember. Það virðist með öllu óljóst hvort hann hafi vinninginn eða ekki. Viðbót í febrúar 2021.Við vitum núna hvernig forsetakosningarnar í USA fóru. Joe Biden vann Trump. Trump stóð fyrir árás á þinghúsið sem kostaði 6 mannslíf. Hvarf á braut frá Wasington og sagðist koma aftur að 4 árum liðnum. Þannig fór sú saga. Nú er það spurningin hvort hann sé kominn í varanlegt skjól eða áfram verði sótt að honum í gegnum dómstóla.

sunnudagur, 6. september 2020

Sælgætisverksmiður í Hvömmunum í Kópavogi

 Það sem margir ekki vita um Hvammana í Kópavogi, þetta jaðarsvæði á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, er að þar voru starfandi amk þrjár sælgætisverksmiðjur. Á góðum degi gat maður farið og keypt sér afganga til að gæða sér á.  Ég var minntur á þetta í dag þegar ég kom við í einni af þessum verksmiðjum sem enn er starfandi, að vísu núna í Reyjavík. Elsta verksmiðjan var inn við sandgrifjur í Víbró húsinu, þar sem nú er Dalvegur. Hét hún Drift lakkrísgerð. Þá var það lakkrísgerðin á Hlíðarvegi, Kólus, sem nú er staðsett í Reykjavík. Þriðja verksmiðjan var í Reynihvammi og hét Alladín og framleiddi konfekt. Það var hann Þorvarður Áki Eiríksson sem var konfektgerðarmaðurinn. Það best ég veit er starfandi ein sælgætisverksmiðja í bænum í dag, sjálf Freyja. Ég er búinn að vera í nostalgíu stuði undanfarna daga og fór því í Kólus í dag og spurði um afganga. Þar var mér sagt í spjalli að Þorvarður Áki hefði aðstoðað Kólus við að þróa leiðir til þess að bræða saman súkklaði og lakkrís þegar slíkar vörur komu á markað. Þannig að sælgætisgerðamennirnir í Hvömmunum hafa haft með sér ákveðið samstarf. Annað er að sumir þessara framleiðenda voru menntaðir í Kaupmannahöfn í "konfekturgerð." Er ekki ráð fyrir okkur Kópavogsbúa að stuðla að því að sælgætisframleiðsla verði að nýju hafin til vegs og virðingar í bænum og Kópavogur verði að nýju sælgætisbær Íslands með stóru S - i. Eftir samningu þessa pistils var höfundi bent á að auki hafi verið brjóstsykurgerð í Víðihvammi. Alls fjórar verksmiðjur.

föstudagur, 28. ágúst 2020

Mister, mister,

 Mister! mister! mister! Stop! sagði flugfreyjan í júgóslavnesku flugvélinni þegar Þorgeir stóð upp og ætlaði að æða út úr flugvélinni á Kastrup um opna afturhurðina. Vélin var biluð og beðið eftir varahlut frá Hamborg. Við nokkir Íslendingar höfðum setið hálfan daginn í vélinni, án nokkurra skýringa eða hressingar. Þorgeir var búinn að fá nóg og ætlaði að taka til sinna ráða. Þessi minning kom upp í hugann í dag þegar ég var að velta þessu COVID ástandi fyrir mér. Auðvitað langar okkur öll að taka til okkar ráða. Við höfum því miður bara engar útgöngudyr í bili eins og Þorgeir forðum daga er hann hreytti út úr sér: Ég tek ekki þátt í svona vitleysu lengur.

sunnudagur, 14. júní 2020

Á sveitaball

Ég var minntur á þennan atburð fyrir fimmtíu árum í morgun. Við Beggi fórum á sveitaball í Kjósinni á druslunni, sem hann var búinn að gera upp. Fórum fyrst niður á höfn og keyptum vín og vindlabox áður en við lögðum af stað. Ákveðið að ég mundi keyra í bæinn því Beggi ætlaði að drekka vínið. Á ballinu voru slegin af mér gleraugun og án þeirra sé ég mjög illa. Eftir ballið leggjum við af stað í bæinn og ég undir stýri. Við vorum ekki komnir langt þegar Beggi byrjar að æpa í tíma og ótíma, hann hélt ég væri að fara út af veginum. Að lokum heimtaði hann að taka við akstrinum og lét ég honum það eftir. Dró ekki frekar til tíðinda fyrr en við nálgumst Rvík. Þar stoppar lögreglan okkur. Hjartað stoppaði líka en við sluppum. Beggi var sannfærður um að það hefði runnið af sér meðan ég keyrði. Ég var viss um að þetta Spánarglundur hafi verið óáfengt. En sem sagt eftir einn aki ei neinn. Það er óhætt að segja frá þessari minningu nú enda málið fyrnt og Beggi fyrir löngu farinn á annan stað.

þriðjudagur, 26. maí 2020

Kristinn Kjartansson minning

Í dag þann 25. maí 2020 var ég við jarðarför Kristins Kjartanssonar, góðs félaga í Söngfélagi Skaftfellinga og göngufélaga til margra ára. Kynni okkar hófust árið 2003 þegar ég byrjaði í kórnum, en hann hafði verið þar í mörg ár. Hann var mikill söngmaður og góður félagi. Nikkan hans var aldrei langt undan á samkomum og ferðalögum. Ljúfmennska hans, prúðmennska og glettni var eins skaftfellsk og hugsast getur, þar sem hæverskan var í fyrirrúmi. Hann var Mýrdælingur, frá Þórisholti. Margs er að minnast frá liðnum árum. Tónleikar og tónleikaferðir um landið, oftast þó um Skaftafellssýslurnar tvær. Söngatriði með þeim bræðrum Kristni og Kjartani á aðalfundi útvegsmanna á Suðurnesjum. Fjölmargar gönguferðir okkar oftast um Elliðaárdal og Heiðmörk ásamt göngufélögum í Skálmurum. Gengið var allan ársins hring þegar við vorum duglegust. Einn af hátindum í ferðum okkar Skálmara var þegar við opnuðum formlega svokallaða Hellismannaleið frá Rjúpnavöllum, í Áfangagil þaðan í Landmannahelli og að lokum endað í Landmannalaugum. Á lífsleiðinni kynnist maður nýju fólki og þótt kynnin hefjist eftir miðjan aldur er eins og viðkomandi hafi alltaf þekkst. Þannig vil ég lýsa kynnum mínum af Kristni. Ég þakka honum samfylgdina og votta Guðrúnu og fjölskyldu hans samúð mína. Blessuð sé minning Kristins.

Líkar þetta
Skrifa ummæli
Deila

sunnudagur, 12. apríl 2020

Síðasta kvöldmáltíðin

Síðasta kvöldmáltíðin búin (kjöt í karrý) og ekkert eftir nema stundin um kvöl frelsarans framundan. Á æskuárum var þessi tími ungum eirðarlausum pilti mikil áraun. Maður mátti bókstaflega EKKERT gera heima fyrir. Þegar maður komst á unglingsár var það helsta dægrarstytting okkar vinanna að bíða í röð við nætursöluna, sem opnaði á miðnætti föstudagins langa. Það var eins og þungu fargi væri létt af okkur þegar lúgan opnaði og hægt var að kaupa kók og prins - hvílíkt frelsi. Svo liðu árin og kröfur um heilagleika á þessum degi slökknuðu. Ég man þegar maður gat farið á skíði í Bláfjöllum. Jafnvel búðir eru nú í einhverju mæli opnar. Við höfum mörg undanfarn ár ýmist verið í Svíþjóð á þessum tíma eða skroppið austur í Skaftártungu. Það er löngu búið að fella niður flugið okkar til Köben. Þá var Tungan ein í boði þar til maðurinn í svörtu fötunum, hann Víðir skipaði okkur að halda okkur heima. Hver vill ekki hlíða Víði. Er ekki eins með ykkur?

föstudagur, 3. apríl 2020

Dánartíðni, samanburður á Íslandi og Svíþjóð

Dánartíðni í dag þann 1. apríl m.v. 100 þúsund íbúa er 1,11 hér á landi. Sambærileg tala í Svíþjóð á þessum degi er 2,77 Greindir sýktir hér á landi eru 1.319 en í Svíþjóð einungis 5.466 Greindir sýktir á Íslandi m.v. 100 þúsund íbúa eru því 366 en í Svíþjóð einungis 54 á sama mælikvarða. Hvað segir þetta okkur? Er það vegna þess að við höfum verið duglegri að skima fólk fyrir veirunni? Líklega skiptir það sköpum vegna þess að sambærileg skimun hefur ekki átt sér stað þar. Ef útbreiðslan er með sambærilegum hætti í Svíþjóð og hér á landi hljóta að vera töluvert fleiri þar sem enn eru ekki greindir en eru smitaðir. Þannig má ætla miðað við þessar tölur að 30 þúsund manns séu ógreindir í Svíþjóð smitaðir og þá smitberar.da

sunnudagur, 29. mars 2020

Uppáhalds sálmurinn

Leyfi mér hér að birta uppáhalds sálminn hans föður míns Sr Hjartar Hjartarsonar sem er nr. 350 í sálmabókinni. Hann kom þessum sálmi oft að og organistar sem hann vann með vissu það. Skemmtilegt að segja frá því að einn organisti tók sig einu sinni til og spilaði hann sem útgöngspil, vegna þess að hann sá pabba meðal kirkjugesta. Óhætt er að segja um pabba að hann var æðrulaus maður, þótt ekki væri hann skaplaus. Hann þurfti oft á lífsleiðinni að takast á við ýmis áföll. Hann fékk barna- og lömunarveiki sem ungur drengur, missti bróður sinn úr sömu veiki. Þá tókst hann á við krabbamein síðustu 15 ár ævi sinnar af miklu æðruleysi. Vonandi finnið þið styrk og huggun í þessum ljóðlínum líka:
Ó, ást, sem faðmar allt! Í þér
minn andi þreyttur hvílir sig,
þér fús ég offra öllu hér,
í undradjúp þitt varpa mér.
Þín miskunn lífgar mig.
Ó, fagra lífsins ljós, er skín
og lýsir mér í gleði og þraut,
mitt veika skar það deyr og dvín,
ó, Drottinn minn, ég flý til þín,
í dagsins skæra skaut.
Ó, gleði', er skín á götu manns
í gegnum lífsins sorgarský.
Hinn skúradimmi skýjafans
er skreyttur litum regnbogans
og sólin sést á ný.
Ó, ég vil elska Kristi kross,
er kraft og sigur veitir mér.
Að engu met ég heimsins hnoss,
því Herrann Jesús gefur oss
það líf, sem eilíft er.

föstudagur, 27. mars 2020

Spænska flensan uppfærð

Í ársyrjun 1918 voru Íslendingar rúmlega 92 þúsund talsins. Alls er talið að 484 hafi látist hér á landi úr spönsku veikinni. Miðað við sama hlutfall í dag mundi það þýða að um 1888 manns hefðu dáið en við erum um 360 þúsund núna. Við getum því lifað í þeirri von að staðan núna sé töluvert betri miðað við þær spár sem kynntar hafa verið opinberlega frá okkar færustu lýðheilsufræðingum varðandi covid. Ljóstýra í myrkrinu?

miðvikudagur, 25. mars 2020

Covid 19 - heimsfaraldur

Allt í heiminum snýst um þennan heimsfaraldur Covid 19 og er faraldurinn þegar farinn að hafa mikil áhrif á líf okkar. Frá 14. mars erum við búin að vera aðallega heimavið, í sjálfskipaðri sóttkví. Þetta er þrúgandi staða og vonandi gengur þessi faraldur fljótt yfir með sem minnstum skaða fyrir alla. Annars byrjaði þetta ár ágætlega. Við höfðum nóg að gera í janúar og febrúar. Ég var leiðsögumaður og stundum keyrandi sem slíkur. Við fórum til Belgíu í byrjun mars og komum heim 6. mars. Þá var farið að tala um þessa vírusveiki. Ég fór í eina ferð 13. og 14 mars og hafði þá ferðamönnum fækkað til mikilla muna. Með mér í Gullna hringnum voru þrír gestir. Í þar síðustu ferð voru þeir 15 með í ferðinni á 19 manna springer. Nú eru engar skráðar ferðir.

þriðjudagur, 7. janúar 2020

Gleðilegt ár

Gleðilegt ár! Þetta er 16 árið sem þessari heimasíðu er haldið út en segja má að facebook hafi tekið yfir hlutverk hennar að mestu fyrir 12 árum síðan.