sunnudagur, 27. nóvember 2016

Sumarhús Dalí

Sumarhús Dalís er fróðlegt að heimsækja, ef maður hefur áhuga á listamanninum Dalí. Keyrður er fjallavegur til þorps út við Costa Brava ströndina sem heitir Cadaqués 240 km fyrir norðan Tarragona. Þaðan liggur leiðin til Portlligat, sem er pínulítið fiskiþorp og þar er sumarhúsið. Hann dvaldi þarna löngum fram til 1982 þar til konan hans Gala lést á þessum stað. Eftir það kom hann þangað ekki aftur, en dvaldi í Gala Dali Castle i Púbol og helgaði líf sitt minningu hennar. Hún stóð honum mjög nærri og var módel í fjölmörgum mynda hans.
Áhugi minn á Dalí vaknaði í gegnum Kanasjónvarpið á sínum tíma. Þar var stundum umfjöllun um þennan sérstæða listamann. ( Þið munið sjónvarpinu sem var lokað á Keflavíkurflugvelli af því að það átti að hafa slæm uppeldisáhrif á óhörnuð íslensk ungmenni.)
Það hefur verið draumur minn að heimsækja þennan stað í áratugi og nú loksins rættist hann. Minnist sérstaks þáttar um list Dalís sem var tekinn upp á þessum stað, en ég man ekki lengur hvar ég sá þennan þátt, hvort það var á RÚV, SR eða í Kanasjónvarpinu.
Verð að bæta því við að sjón er sögu ríkari. Það kom mér á óvart hvað Dalí var fjölhæfur listamaður, eftir að hafa skoðað verk hans líka í Figureres, en þar er stórt safn með verkum hans. Skartgripirnir, málverkin, fígurnar, húsgögnin og allt það sem fyrir augun bar.

Frá Tarragona

Það hefur svo margt komið mér á óvart þennan tíma hérna á Spáni. Ég hafði ákveðna staðalmynd af landinu, sem byggði á mjög þröngri sýn á landi og þjóð, já fordómum. Í stuttu máli var Spánn í mínum huga sólarstrendur, letilíf og frekar óspennandi og ég hafði engan áhuga á að elta allan þann fjölda ferðamanna sem þangað fór í "hvítum" buxum í áraraðir. Þessar bráðum sex vikur sem við höfum dvalið hérna í Tarragona hafa gjörbreytt þessu viðhorfi. Hvílíkt land, fólk, menning og saga! Ég gæti skrifað langan pistil um þetta en ég ætla aðeins að segja nokkur orð um fólkið hér í Katalóníu. Það vekur fyrst athygli gestsins hvað hér er mikið af fallegu og myndarlegu fólki, sem samsvarar sér vel í líkamsburði. Maður nánast sér ekki fólk sem stríðir við vigtarvandamál. Það hlýtur að skrifast á mataræðið. Það vekur athygli hvað fólk er snyrtilega til fara og kurteist. Vandamál mitt er að ég skil ekki spænsku né katalónsku og það gerir samtöl erfiðari því flestir sem ég hef hitt skilja ekki mikið í ensku. Ég hef þó notið samvista við fræðimenn við háskólann hér í Tarragona sem tala ensku. Maður hefur meira að segja þurft að grípa til þýsku sem ég hef ekki reynt að tala í áratugi. Allt hefur þetta gengið einhvern veginn. Nú veit ég að sólarstrendur og sangrían er annar heimur í þessu landi, "business," sem er nánast aðskilinn hluti af daglegu lífi Katalóníumanna. Skreppi maður út í Salou, þar sem ferðamenn dveljast á sólarströndu er um aðra veröld að ræða. Þar er nú eins og að horfa yfir autt leiksvið. Enginn á ferli og hús og strendur bíða þess að nýtt ferðamannatímbabil hefjist. Spænski menningarheimurinn er viðfemur og hann býður upp á góða tilbreytingu frá hinum engilsaxneska, sem maður þekkir mun betur.

fimmtudagur, 17. nóvember 2016

Af hverju ESB?

Katalóníumenn eru 9 milljónir alls. Þeir tala sérstakt tungumál. Eiiga mörg þúsund ára sögu. Þá dreymir um sjálfstæði. Þeir hafa miklar áhyggjur af framtíð evrunnar og efnahagsmálum sínum. Atvinnuleysi sem er þó mun minna en almennt á Spáni. ca 18,%. Fjöldi fjölskyldna lifir á eftirlaunum afa og ömmu. Við erum 0,3 milljónir manna. Sjálfstæð þjóð með eigin gjaldmiðil og stjórn okkar mála, Atvinnuleysi er 2 til 3%, samt eru til hópar sem vilja gefa upp á bátinn okkar sjálfstæði og ganga í ESB og taka upp evruna. Er það nema von að maður verði hugsi.

miðvikudagur, 9. nóvember 2016

Trump vann forsetakosningarnar !!

Framkvæmdamaðurinn Trump er á leiðinni í Hvíta húsið. Það sem kemur fyrst upp í hugann er skoðanamyndandi áhrif fjölmiðla og skoðanakannana og hversu hrapalega vitlaust var spáð fyrir sigri Hillary Clinton. Bak við eyrað voru þó samtöl við nokkra Ameríkana úr ólíkum áttum, sem sögðu að Trump myndi sigra. Annað truflaði mig, það var hversu mikil umræða var um Trump á félagsmiðlum, þótt hún væri aðallega neikvæð. Þriðja atriðið var hvernig hann vann keppinautana í forvalinu. Ted Bush t.a.m. hafði ekkert í hann í kappræðum. Fjórða var samtal við spænskan lögfræðing hér í Tarragona, sem búið hefur í USA. Hann fullyrti að Trump væri ameríski draumurinn holdi klæddur, hann yrði sigurvegari kosninganna. Kom þetta á óvart? Já, en samt ekki.