sunnudagur, 27. nóvember 2016

Sumarhús Dalí

Sumarhús Dalís er fróðlegt að heimsækja, ef maður hefur áhuga á listamanninum Dalí. Keyrður er fjallavegur til þorps út við Costa Brava ströndina sem heitir Cadaqués 240 km fyrir norðan Tarragona. Þaðan liggur leiðin til Portlligat, sem er pínulítið fiskiþorp og þar er sumarhúsið. Hann dvaldi þarna löngum fram til 1982 þar til konan hans Gala lést á þessum stað. Eftir það kom hann þangað ekki aftur, en dvaldi í Gala Dali Castle i Púbol og helgaði líf sitt minningu hennar. Hún stóð honum mjög nærri og var módel í fjölmörgum mynda hans.
Áhugi minn á Dalí vaknaði í gegnum Kanasjónvarpið á sínum tíma. Þar var stundum umfjöllun um þennan sérstæða listamann. ( Þið munið sjónvarpinu sem var lokað á Keflavíkurflugvelli af því að það átti að hafa slæm uppeldisáhrif á óhörnuð íslensk ungmenni.)
Það hefur verið draumur minn að heimsækja þennan stað í áratugi og nú loksins rættist hann. Minnist sérstaks þáttar um list Dalís sem var tekinn upp á þessum stað, en ég man ekki lengur hvar ég sá þennan þátt, hvort það var á RÚV, SR eða í Kanasjónvarpinu.
Verð að bæta því við að sjón er sögu ríkari. Það kom mér á óvart hvað Dalí var fjölhæfur listamaður, eftir að hafa skoðað verk hans líka í Figureres, en þar er stórt safn með verkum hans. Skartgripirnir, málverkin, fígurnar, húsgögnin og allt það sem fyrir augun bar.

Engin ummæli: