föstudagur, 28. maí 2004

Pálmi frændi í heimsókn.

Pálmi bróðir Sigurðar Ingvarssonar er kominn í heimsókn til Íslands eftir að hafa verið burtu í 5 til 6 ár. Hann hefur búið í Seattle undanfarin ár. Breytingar sem átt hafa sér stað á þessum tíma í Reykjavík og nágrenni þykja honum stórfenglegar. Hann segist bara ekkert kannast við sig hér á höfðuborgarsvæðinu. Maður kannast sjálfur svo vel við þessa tilfinningu. Þegar við höfðum verið samfellt á annað ár í Svíþjóð hér um árið fundust okkur líka breytingarnar í borginni með ólíkindum. En svona er þetta, borgarsamfélagið blæs út ár frá ári. Þetta gerist á meðan aðrar byggðir eiga í vök að verjast. Þessi þróun á sér stað einnig í nálægum löndum. Sá fær líklega Nóbelinn sem finnur farsæla lausn á þessari þróun. Ef til vill er þetta þó ekki flóknara en svo að maður er manns gaman. Þar sem byggðin er þéttust og fólkið flest sækir fólkið frá jaðarsvæðunum til. Geri þó ekki kröfu um Nóbelinn fyrir þessa "alþýðuskýringu" mína, eins og Hjörtur mundi kalla hana.

miðvikudagur, 26. maí 2004

Hæ, við erum komin frá Svearíki

Jæja þá erum við komin heim í heiðardalinn. Mikið var nú gaman að "ströva" um götur Stockhólms meðan frúin var að fræða frændur okkar á Norðurlöndum um öldrunarmálin. Að vísu var ansi kallt þetta 5°C og rok og rigning. Maður heldur að það sé alltaf betra veður í útlandinu. Skoðuðum Vasa skipið, fórum í flottar veislur og hittum margt skemmtilegt fólk. 17.norræna ráðstefnan um öldrunarmál var opnuð með athöfn sunnudaginn 23.maí. með því að Peter frá Uppsölum söng fimm tangólög, eitt lag frá hverju landi. Okkar tangólag var lag Sigfúsar Halldórssonar: Vegir liggja til allra átta. Fórum í móttöku hjá borgarstjórn Stockhólms og skoðuðum glæsilegt ráðhús þeirra (klárað 1923). Þar sem árlega er haldin Nóbelshátíðin. Eftirminnilegur er gylti mósaíksalurinn í því ágæta húsi. Aðalhóf ráðstefnunar var í gömlum matvörumarkaði(Saluhallen við Östermalmstorg) innan um litlar sölubúðir. Við lyktuðum af fiski- og kjöti eftir þetta hóf. Maður verður víst að segja að það var öðruvísi(eða annorlunda eins og Svíar segja). Ég fór og skoðaði Drotningholm höllina með tveimur öðrum íslenskum fylgdarmönnum. Kvöddum Stockhólm og marga gamla kunningja með söknuði í dag.

föstudagur, 21. maí 2004

Sigrún verðlaunuð....

Sigrún búin að fá sínar einkunnir. Náði öllum prófum og fékk fínar einkunnir og var þar að auki verðlaunuð fyrir 100% mætingu í skólanum í vetur. Til hamingju Sigrún mín! Nú dugar ekkert minna en pizza í kvöld til þess að fagna þessum áfanga.

fimmtudagur, 20. maí 2004

Uppstigningardagur

Jæja þá er enn einn frídagurinn inn miðri viku á enda runninn. Vinna á morgun og svo til Stockhólms á laugardaginn í 4 daga. Dagurinn hefur verið helgaður útiverkum. Setti saman nýju garðsláttuvélina mína og prófaði hana. Allt gékk að óskum og ég náði næstum því að klára fyrsta slátt sumarsins. Já, ef sumar skyldi kalla. Það féllu nú nokkrar snjóflygsur til jarðar rétt áður en ég fór út um níuleytið í morgun. Það er búið að vera þetta 5 til 7°C í dag og rigning eftir hádegi. Stella og Valdi komu til okkar í lambalæri. Seinni partinn hef ég verið að dunda mér við að spila sálma tengda þessum degi. Ágætis húgarhvíld fólgin í því. Fletti líka sálmasöngsbók, sem Jónas Helgason organisti í Dómkirkjunni gaf út árið 1885! Það hefur verið mikið afrek hjá manninum, enda nær hann að skipa sér á bekk meðal helstu tónlistarfrömuða þessa lands. Þetta er bók sem ég keypti á fornbókasölu og hefur verið mikið notuð og viðgerð. Læt þetta nægja í bili.

miðvikudagur, 19. maí 2004

Efnilega óperusöngkonan

Þegar unga, glæsilega sópran söngkonan hafði lokið við aríuna ruku áheyrendur á fætur og hrópuðu bravó, bravó. Nú auðvitað var söngkonan að syngja aríuna aftur. Enn hrópuðu áheyrendur bravó, bravó, bravó. Aftur kom söngkonan fram til að syngja aríuna. Enn og aftur stóðu áheyrendur á fætur og hrópuðu bravó, bravó, bravó og söngkonan kom inn á sviðið í þriðja skiptið. Þá var einni konunni í salnum nóg boðið og hallaði sér að manni sínum og spurði af hverju salurinn væri að hylla þessa söngkonu svona ákaft. Söngur hennar væri alls ekki góður. Maðurinn hallaði sér að konu sinni og sagði: "Sjáðu til elskan salurinn heldur áfram að hylla hana þar til hún hefur náð þessu rétt...." Hvað getum við lært af þessari sögu. Jú að með jákvæðu áreiti hjálpum við best hvort öðru til þess að ná árangri í því sem við erum að starfa. Stundum er það þannig að reyna þarf nokkrum sinnum til þess að ná tökum á hlutunum.

þriðjudagur, 18. maí 2004

Píanósnillingarnir Hamelin og Kamenz

Hvílíkir snillingar þessir tveir menn eru! Á innan við mánuði hef ég notið þeirra forréttinda að sækja tvenna tónleika með píanósnillingum. Hinn fyrri var í Salnum í Kópavogi þann 25. apríl sl. þar sem Igor Kamenz lék og sá síðari í Háskólabíó 15. maí sl. með Marc-André Hamelin. Sá síðarnefndi höfðaði meira til mín. Hann var sannkallaður píanó "virtuoso" svo maður slái nú um sig með óskiljanlega afburðahæfileika. En það er ekki þar með sagt að halla beri á Kamenz þrátt fyrir það. Ég hvet alla sem eiga þess kost að fara á hljómleika hjá þessum mönnum. Seldar voru plötur með Marc André Hamelin á tónleikunum, en ég veit ekki hvort Kamenz hefur spilað inn á plötur, þótt ég telji það líklegt. Það sem stendur hinsvegar upp úr varðandi þessa tónleika er hversu aðstaðan skiptir gríðarlega miklu máli. Það er ekki hægt að leggja að jöfnu hvað tóngæðin í Salnum í Kópavogi eru margfallt betri en í Háskólabíó. Háskólabíó er ekki boðlegt til svona tónleikahalds eftir að búið er að upplifa sambærilega tónleika í Salnum. Kópavogsbúar geta verið stoltir af því að eiga jafn góða aðstöðu eins og Salurinn er.

mánudagur, 17. maí 2004

Valdimar Gunnari tókst að klára almennuna!

Já, ferfallt húrra fyrir Valdimar. Honum tókst að klára "almennuna" í lögfræðináminu sínu. Þá er að halda áfram á sömu braut og leggja góðan grunn að nýrri starfsgrein innan fjölskyldunnar. Aðrar góðar fréttir dagsins eru að Sigrún Huld eygir góða von um að hafa náð prófi í eðlis- og efnafræði í 1. bekk í Kvennó. Vonandi verða þær vonir að veruleika innan skamms.

þriðjudagur, 11. maí 2004

Einn í viðbót á blogginu.

Jæja, þá er maður byrjaður á þessu margumtalaða bloggi. Nú er bara að byrja á því að tjá sig á nýju blogg síðunni. Meira síðar............................