miðvikudagur, 22. mars 2017

Á ferð um gömlu Jerúsalem

Við vorum svolítið fegnir ég og búddistinn frá Víetnam að trúfélagahverfin voru bara fjögur í gömlu Jerúsalem. Leiðsögumaðurinn hafði farið með okkur ansi hratt í gegnum þau. Kristna, múslíma, gyðinga og armenska hverfið. Við stóðum tveir fyrir framan Grátmúr gyðinganna í ferðarlok og veltum því fyrir okkur hvort þetta væri mannkyninu til framdráttar öll þessi trúarbrögð. Vorum nú eiginlega á því báðir að réttast væri að tóna þau aðeins niður. Hann spurði mig, hvort ég hefði horft í augun á múslímunum, hann hefði ekki þorað því. Hinsvegar hefði hann mætt konu í gyðingahverfinu með þau fallegustu augu sem hann hefði séð, brún og möndlulaga. Við áttum nú engin algild svör við trúarbragða spurningunni, sem var þó í huga okkar beggja. Hann sagði mér að hann hefði nú trúna fyrir sig og stundaði hana heima fyrir. Auðvitað var ég með hugann við minningu föður míns, sem helgaði líf sitt trúnni á Jesú Krist. Aldrei kom hann þó á þennan stað. Valdi frekar að heimsækja lítið klaustur á Mallorka oft og hlusta þar á lög eftir Chopin? Fegurðin skiptir sköpum. Núna langar mig að leita að fallegu klassísku gítarlagi, sem ég heyrði í Jerúsalem og aftur í morgun hér í Tel Aviv.