sunnudagur, 30. september 2007

Hauststemmning í laufsins litum.

Nærmynd. Hún er svo skáldleg fyrirsögnin að annað hvort er ég að stela henni óafvitandi nú eða maður er orðinn svona skáldlegur í hugsun. Við tókum þessar myndir í morgungöngu. Sirrý er "hönnuður" víðmyndarinnar sem á að sýna haustlitina og regndropana. Nú ég tók svo nærmyndina svo ekki færi á milli mála að dropar og litir myndu skila sér á myndinni.








Víðmynd. Afrek helgarinnar eru engin því miður.Fórum á grænmetismarkaðinn í Mosfellsdal í gær og keyptum þetta fína grænmeti. Þar gafst kostur á að bragða á grænmetissúpu og smakka á frönsku víni. Ég hringdi í Helga vin minn sem er nú í Frakklandi við vínsmökkun. Honum þótti ekki mikið til um þessa vínsmökkun mína í samanburði við Búrgúndí "smakkið" hans með Michelin bókina við hönd. Fingurbjörg í Mosfellsdalnum var alveg nóg fyrir mig. Hvernig væri nú að lögleiða bruggið í sveitum landsins og fá þetta vínsmökkunarfólk í heimsókn til okkar til að smakka afraksturinn. Einhver kann að fitja upp á nefið, en er það ekki í raun svo þegar kafað er ofaní tilganginn með þessari vínsmökkun að þá er það alkohólið sem fólk er að sækjast eftir? Það má örugglega finna einhvern fínt yfirskin með bruggsmökkun í sveitum landsins.

föstudagur, 28. september 2007

Gefur þú blóð?

Blóðgjafinn. Eitt af því sem ég hef mikla ánægju af er fara í Blóðbankann og gefa blóð. Þetta er einn af þessum stöðum sem maður heimsækir nokkuð reglulega og fær alltaf hlýjar og ánægjulegar móttökur. Maður finnur það að blóðgjöfin skiptir máli og sé líka svolítið "spes". Eftir blóðtökuna er svo boðið upp á kaffihlaðborð og síðan heldur maður glaður og reifur út í lífið að nýju í þeirri trú að hafa lagt eitthvað gott af mörkum. Í dag gaf ég blóð í 48 skipti. Ég hef lengi haft það sem markmið að gefa blóð a.m.k. 50 sinnum. Nú er að sjá hvort það takist, en hægt er að gefa blóð svona á þriggja mánuða fresti. Ég byrjaði blóðgjöfina fyrst í menntaskóla svo duttu út allmörg ár af ýmsum ástæðum. Blóðgjöf er samfélagsþjónusta í sinni björtustu mynd. Fólk gefur hluta af sjálfu sér til þeirra sem eru hjálparþurfi. Hvort sem það er nýfætt barn, sjúklingur eða slasaður einstaklingur. Enn er ekki búið að finna neinn vökva sem kemur í stað fyrir blóðið. Hvet að lokum alla til að leggja sitt að mörkum. Kveðja.

laugardagur, 22. september 2007

Aftur á laugardegi.

Það er í nógu að snúast þessa dagana þannig að lítið hefur verið párað á þessa síðu. Því má kenna um önnum og að lítill tími gefst til að leika sér í tölvunni. Ég var víst búinn að segja að það væri komið haust svo ég ætla að hlífa ykkur við löngum pistli um þennan árstíma. Ég komst ekki í að veiða lax í eldi í vikunni norður í Laxá í Refasveit en það var skemmtileg reynsla, sem ég upplifði á síðasta ári. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með fréttum þessa vikuna af þessum piltum sem voru teknir viða að smygla eiturlyfjum til landsins. Það verður ekki annað sagt en lögreglunni hafi tekist vel í þessu máli. Magnið sem þessir menn voru að smygla er hreint með ólíkindum og vekur spurningar um það hver sé í raun eftirspurnin eftir dópi hér á landi. Ef eftirspurnin er svona mikil má það ljóst vera að þeir sem nota þetta dóp eru mun fleiri en þeir ógæfu einstaklingar sem gista Vog og aðra staði sem afeitra dópista. Grein eftir Illuga Jökulsson í Blaðinu í dag vekur einmitt máls á þessu. Er það virkilega svo að "venjulegt" fólk í þjóðfélaginu ungt, miðaldra og gamalt notist við svo gríðarlegt magn eiturlyfja. Venjulega þegar maður heyrir af svona smyglmálum og heyrir í talsmönnum Vogs þá leiðir maður hugann að fíklunum sem eru ofurseldir þessum efnum, en að það væri líka Jón og Gunna það hafði ekki hvaflað að mér. Það vekur svo aftur upp þá spurningu á hvaða leið við erum sem þjóð. Erum við að tortýma sjálfum okkur í dópneyslu? Hefur okkur mistekist svona hrapalega í að byggja hér upp gott mannlíf, þrátt fyrir alla efnislegu velmegunina.

laugardagur, 15. september 2007

Kringludagur

Heimsókn í Kringluna. Þegar við vorum á leið inn í Kringluna hittum við Hildu og Valgerði Birnu. Tilefnið var að sjálfsögðu fest á mynd. Það er hrollkallt í borginni þessa dagana. Í dag hefði amma Sirrýjar hún Friðrikka Sigurðardóttir frá Krossi í Mjóafirði orðið 110 ára gömul. Blessuð sé minning hennar.











Baldur og fjölskylda. Þetta var eiginlega fjölskyldufundur hjá okkur. Inni í Kringlu hittum við Baldur og Fjólu bróður Sirrýjar með börnin sín þrjú Emil Draupni, Maríu Glóð og Katrínu Emblu.










Á kaffihúsi. Valgerður Birna er afkvæmi kaffihúsakynslóðarinnar. Hún nýtur þess að skrafa á slíkum stöðum og fá smá bita.












Víðátta veraldarinnar. Vá hvað væri gaman að prufa þessa hringekju.













á hringekjunni.
Draumurinn rættist áður en Valgerður Birna vissi var hún búin að fá eina ferð.













Stígvélin. Auðvitað verður maður að skoða eitthvað spennandi í verslunarferðum.













Mátun. Jú, jú maður verður að máta líka.














Sögustund. Það munar um það að eiga mömmu sem kann að lesa fyrir mann með tilþrifum, enda menntuð leikkona m.m.

miðvikudagur, 12. september 2007

Haustdagar.

Það er víst að haustrigningarnar eru hafnar. Ég átti að vera vestur á Ísafirði í dag og á morgun en það varð ekkert úr því þar sem flugið var fellt niður. Eins gott að ákvörðunin var tekin áður en lagt var af stað. Það er ekkert grín að hanga í flugvél yfir Djúpinu í von og óvon um að það verði lent. Byrjaði vetraræfingar með kórnum í gær. Þessi fyrsta æfing lofar góðu um framhaldið. Við erum búin að fá nýjan stjórnanda. Hann heitir Friðrik Vignir Stefánsson og er hann með annað æfingaprógram og ný lög. Nú svo er maður byrjaður í leikfimi með Gautunu. Þannig að vetraráhugamálin eru hafin að fullu. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

laugardagur, 8. september 2007

Smekklaus auglýsing.

Hún hefur verið fyrirferðamikil umræðan um auglýsingu Símans á þriðju kynslóð farsíma. Eins og alltaf skiptist fólk í tvo hópa, þá sem finnst þetta í lagi og þá sem telja þetta ekki í lagi. Í stuttu máli finnst mér þessi auglýsing skrumskæling og vanvirða á heilagri athöfn, sakramenti Krists sjálfs. Athöfn sem Leonardo da Vinci lýsti svo eftirminnilega í frægu málverki, mynd sem í aldir hefur verið ein þekktasta helgimynd kristindómsins. Auðvitað er auglýsingin meiðandi skrumskæling á helgum atburði. Hvað gengur Símanum til að ryðjast inn á þetta svið í þeim eina tilgangi að auglýsa símtæki? Getur það verið að þeir sem fara með markaðsmál Símans telji þetta enn við hæfi í ljósi umræðunnar? Auglýsingin muni leiða til mikillar sölu á þessum símum? Ég á erfitt með að trúa því. Líklegra er að þeir sem fara með markaðsmál fyrirtækisins hafi verið sofandi á verðinum þegar hugmyndin var kynnt og því hafi farið sem fór. Nú er aðeins spurningin hvað Síminn þarf langan tíma til þess að átta sig á þessum mistökum í gerð auglýsingar. Hversu lengi þeir telji sig þurfa að kosta birtingu hennar áfram til þess að geta gengið uppréttir frá þessu máli. Ég hef vissa samúð með hugmyndasmið auglýsingarinnar. Við lestur pistla hans m.a. í Fréttablaðinu hefur ekki farið á milli mála að þar fer leitandi maður. Hann hlýtur að sjá mistök sín, þótt málið sé ekki lengur í höndum hans. Skilin milli fyndni og smekkleysu hefur honum að mínu mati yfirsést að þessu sinni.

sunnudagur, 2. september 2007

Helgarbíltúrinn

Við Hvaleyrarvatn. Þetta var svo flott mótív að ég stóðst ekki mátið. Flott hvernig skýin speglast í rennisléttu vatninu. Gengum í kringum vatnið það tekur svo hálftíma. Annars er það helst í fréttum að Sirrý og Unnur Sveinsdóttir áttu afmæli í gær.








Krýsuvíkurkirkja. Síðan lá leiðin fram með Krýsuvíkurvatni, goshverasvæðinu þar rétt hjá, framhjá Grænavatni og við áðum hjá Krýsuvíkurkirkju. Krýsuvík með "y" eins og stóð á nafnskilti hjá kirkjunni. Þetta er notanleg kirkja og segir að hún sé eins og dæmigerð sveitarkirkja frá ofanverðri 19.öld. Við skoðuðum inn í kirkjuna. Þar er altaristafla eftir Svein Björnsson listmálara og hvílir hann í kirkjugarðinum. Annars er þetta er mjög skemmtilegur aksturshringur og margt skemmtileg að sjá. Örugglega áhugavert fyrir erlenda ferðamenn að fara þennan rúnt. Fjölda fólks sáum við í berjum á leiðinni.


Við Grindavíkurhöfn. Við komum við í Grindavík og tókum einn hafnarrúnt. Það fer ekki milli mála að Grindavík er höfuðútgerðarstaður Suðurnesja. Hér má sjá Hrafn Sveinbjarnarson GK í höfninni áður Snæfell EA frá Hrísey. Kveðja.