sunnudagur, 26. júní 2016

Nýr forseti

Líst alveg ljómandi vel á Guðna Th Jóhannesson, nýjan forseta Íslands. Þekki hann ekki persónulega, en hefur oft fundist hann frambærilegur viðmælandi í sjónvarpi. Hinsvegar þekkti ég föður hans, Jóhannes Sæmundsson.  Hann var leikfimiskennari minn í Menntaskólanum í Reykjavík.
Eftirminnilegt er samtal okkar Jóhannesar þegar hann sagðist í samskiptum við mig hafa gert sér grein fyrir að hann væri að kenna ungu fólki en ekki unglingum, sem glímdi margt við sömu viðfangsefni og hann.
Hann var að vísa til þess að við hefðum eignast syni á sama ári. Jóhannes var boðberi nýrra aðferða í leikfimi og Tjarnarhlaupa menntaskólanema m.m. Hann lést árið 1983 langt um aldur fram.
Hann var okkur strákunum góður kennari og umfram allt hvetjandi í störfum sínum. Það var ómetanlegt að umgangast hann á þessum árum og njóta hvatningar hans og velvilja.

Óska nýjum forseta til hamingju með embættið.

þriðjudagur, 21. júní 2016

Brexit, inni eða úti

Það er ekki mikil umræða hér á landi um Brexit þ.e. hugsanlega útgöngu Breta úr ESB. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hver áhrif þess verða í álfunni hætti Bretar í sambandinu, hvað þá á okkur Íslendinga.

 Svörtustu spár spá verulegum samdrætti í efnahagslífi Breta, vaxandi atvinnuleysi og gengissigi. Því er haldið fram að þessi staða muni hafa versnandi áhrif á efnahagslíf okkar í ljósi þess að Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar. Aðrir gera minna úr þessum efnahagslegu áhrifum og halda því fram að Brexit muni leiða til þess að nýir möguleikar skapist. 

Eftir stendur að hvernig sem atkvæðagreiðslan fer má ljóst vera að ESB er á tímamótum. Verulegir erfiðleikar í jaðarríkjum kringum þýsk - franska öxulinn skapar mikla óvissu í álvunni. (Svo er Frakkland ekkert í sérstaklega góðum málum, en hafa gamalt og gott tak á Þjóðverjum).

Stórmál eins og Schengen og evran og ójöfn samkeppnisskilyrði á innri markaði bandalagsins eru mikil vonbrigði. Ljóst að evran er mun veikari en talið var. Athyglisvert hefur verið að fylgjast með helsta talsmanni Brexit úr flokki íhaldsmanna Boris Johnson, sem heldur því blákalt fram að ESB sé steinrunnið batterí, sem kosti Breta stórfé en skili litlum sem engum árangri.

 Hamrað er á hlutverki ESB sem öryggisstofnun fyrir Evrópu m.a. hefur Obama blandað sér í umræðuna hvað það varðar. Reyndin er hinsvegar sú að ESB hefur náð afar takmörkuðum árangri á þeim vettvangi.

 Sambandið og stofnanir þess hefur aftur á móti reynst góð "mjólkurkú" fyrir bírókrata, sem hafa haft góða afkomu í Brussel á meðan fólk í aðildarlöndum ESB hefur það í vaxandi mæli fremur skítt.

 Í öllu falli er ljóst að gangi Bretar úr ESB eru framundan miklar breytingar í farvatninu á vettvangi Evrópumála. Stofnanir og hinir betur settu vilja óbreytta aðild en almenningur í Bretlandi, grasrótin, virðist vera búin að fá sig fullsadda af þessum félagsskap. Nóg í bili.

mánudagur, 20. júní 2016

St Etienne, ég var þar

Leikur Íslands og Portugals í fótbolta er einn af þessum atburðum í lífinu, þar sem maður er viðstaddur og gleymir seint. Þetta var fyrsti leikur Íslands í Evrópumeistarakeppni í knattspyrnu karla. Leikurinn endaði með jafntefli 1 1.

Andstæðingurinn var verðugur, eitt öflugasta lið keppninnar, þó ekki væri nema það eitt að hinn knattknái Ronaldo er í liðinu. Stemningin á vellinum var mögnuð allan leikinn.

Þegar við komum loks til St Etienne var klukkan ríflega sjö að kvöldi. Leikurinn hófst kl. 21.00. Tíminn leið sem örskotstund og áður en við vissum af vorum við farin að syngja lagið Ég er kominn heim og svo þjóðsönginn.


Við lögðum af stað frá St. Etienne upp úr miðnætti og vorum komnir í Mylluna í Commessey klukkan hálf fimm að morgni sælir og glaðir.

þriðjudagur, 7. júní 2016

Eldhugar Fjölsmiðjunnar


Þessir tveir, Ásgeir Jóhannesson og Þorbjörn Jensson hafa báðir verið útnefndir Eldhugar Kópavogs. Ásgeir fyrir að hafa átt hugmyndina og stofnað Fjölsmiðjuna og Þorbjörn fyrir að hafa rekið hana með frábærum árangri í finmtán ár. Fjölsmiðjan er vinnustaður fyrir ungt fólk, sem skólakerfið hefur gefist upp á. Verkefnið hefur vaxið og dafnað undir stjórn Þorbjörns, sem um árabil var þjálfari landsliðsins í handbolta. Ljósið formar geislabaug yfir höfði Ásgeirs til marks um það að hann ætti hann skilið fyrir sitt mikilvæga brautryðjendastarf. Það er ómetanlegt að á meðal okkar er fólk, sem hugsar í lausnum og er tilbúið að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins og ungu fólki til heilla.

mánudagur, 6. júní 2016

Minnisstæður útgerðarmaður

Hjó eftir því hjá Elísabetu Jökulsdóttur í umræðuþætti í gær að hún nefndi nafn útgerðarmanns og skiptstjóra sem var ágætis kunningi minn. Hann hét Óskar Þórarinsson, stundum kenndur við bát sinn Frá VE í Vestmannaeyjum. Af öllum þeim útvegsmönnum sem ég hef kynnst á 30 ára ferli hjá samtökum útvegsmanna voru fáir betur máli farnir en Óskar. Það var hrein unun oft á tíðum að hlusta á hann reifa málin á útvegsmannafundum, þótt hann væri ekkert alltaf sammála síðasta ræðumanni. Hann var hnittinn með afbrigðum og beittur í senn. Hann gat verið mikill grallari og gleðimaður var hann. Víðlesinn og fróður um margt. Fræg er sagan þegar hann keypti verðlauna stóðhestinn upp á landi á einhverju hestamannamótinu. Eftir nokkurn tíma var hringt og hann spurður hvort ekki ætti að fara sækja gripinn. Óskar mundi ekkert eftir þessum kaupum en skoðaði í tékkheftið sitt og mikið rétt þar stóð hrossakjöt fyrir 700 þús. krónur. Já, eða þegar þeir fóru á barinn í Tryggvagötu nokkrir félagar úr Eyjum og ætluðu að finna þar reykvískan glæpon, sem þeir höfðu heyrt að héldi til þar. Mikið rétt þeir sáu einn við barinn, sem gæti verið glæpon. Tókum manninn tali og spurðu hann hvaða starf hann hefði með höndum. Það stóð ekki á svari: Ég er bara svona venjuleg fyllibytta eins og þið. Síðar kom í ljós að maðurinn var prófessor við Háskóla Íslands og fór vel á með þeim þarna á búllunni. Óska sjómönnum og útgerðarmönnum til hamingju með daginn.

föstudagur, 3. júní 2016

Eftirmálin af þeim grænlensku

Má eiginlega til með að segja ykkur frá málalokum í samskiptum við grænlensku sjómennina, sem komu hingað árið 1992 til að veiða "grænlensku" loðnuna, sem við leigðum af þeim. Þetta var í fyrsta skipti sem viðskipti með aflaheimildir áttu sér stað milli landa, það best ég veit.

Það gékk því miður margt úrskeiðis hjá okkur við að koma þeim um borð í loðnuflotann þegar verið var að veiða grænlenska kvótann. Bæði voru þess valdandi land- og veðurfræðilegar aðstæður, einhverjir skipstjórar vildu þá ekki um borð, en svo var líka hitt að biðin var sjómönnunum erfið, sérstaklega áfengið og í einhverjum tilvikum konur. Aðrir komust með í túr.

Hann var færeyskur, útgerðarstjórinn hjá stóru útgerðarfyrirtæki, sem ég var í samskiptum við vegna fullnustu þessa tímamóta veiðisamnings. Nokkru eftir að sjómennirnir koma til Grænlands hringir hann í mig og segir að nú séu góð ráð dýr. Þeir séu með himinháar bótakröfur vegna svikinna loforða um skipsrúm á Íslandi.


Ég átti minnislista yfir hvern og einn sjómann, hvert þeir fóru, hvernig þeir höfðu hagað sér og af hverju þeir hefðu ekki komið til skips. Hann var æði skrautlegur án þess að ég greini frá því í smáatriðum. Það næsta sem ég frétti frá Grænlandi var að það yrðu engin eftirmál vegna vanefnda á samningnum eftir fund með sjómönnunum.

Sumarið eftir var sjávarútvegsráðstefna hér á landi og ég frétti að þar væri færeyskur maður sem vildi hitta mig. Þetta var þá kontaktaðili minn í Grænlandi vegna grænlenska kvótans.Hann sagði mér upplýsingarnar hefðu komið sér vel.

Þegar hann hóf lestur listans hurfu allar kröfur eins og dögg fyrir sólu og allt annað hljóð var komið í menn. Þeir sögðu að Íslendingar væru frábærir og hefðu gert vel við sig. Einn sagðist hafa fengið gefins klukku og þeir gerðu enga kröfur um bætur.

Þar með var þessi fyrsti leigusamningur á grænlenskum aflaheimildum fullefndur.