föstudagur, 3. júní 2016

Eftirmálin af þeim grænlensku

Má eiginlega til með að segja ykkur frá málalokum í samskiptum við grænlensku sjómennina, sem komu hingað árið 1992 til að veiða "grænlensku" loðnuna, sem við leigðum af þeim. Þetta var í fyrsta skipti sem viðskipti með aflaheimildir áttu sér stað milli landa, það best ég veit.

Það gékk því miður margt úrskeiðis hjá okkur við að koma þeim um borð í loðnuflotann þegar verið var að veiða grænlenska kvótann. Bæði voru þess valdandi land- og veðurfræðilegar aðstæður, einhverjir skipstjórar vildu þá ekki um borð, en svo var líka hitt að biðin var sjómönnunum erfið, sérstaklega áfengið og í einhverjum tilvikum konur. Aðrir komust með í túr.

Hann var færeyskur, útgerðarstjórinn hjá stóru útgerðarfyrirtæki, sem ég var í samskiptum við vegna fullnustu þessa tímamóta veiðisamnings. Nokkru eftir að sjómennirnir koma til Grænlands hringir hann í mig og segir að nú séu góð ráð dýr. Þeir séu með himinháar bótakröfur vegna svikinna loforða um skipsrúm á Íslandi.


Ég átti minnislista yfir hvern og einn sjómann, hvert þeir fóru, hvernig þeir höfðu hagað sér og af hverju þeir hefðu ekki komið til skips. Hann var æði skrautlegur án þess að ég greini frá því í smáatriðum. Það næsta sem ég frétti frá Grænlandi var að það yrðu engin eftirmál vegna vanefnda á samningnum eftir fund með sjómönnunum.

Sumarið eftir var sjávarútvegsráðstefna hér á landi og ég frétti að þar væri færeyskur maður sem vildi hitta mig. Þetta var þá kontaktaðili minn í Grænlandi vegna grænlenska kvótans.Hann sagði mér upplýsingarnar hefðu komið sér vel.

Þegar hann hóf lestur listans hurfu allar kröfur eins og dögg fyrir sólu og allt annað hljóð var komið í menn. Þeir sögðu að Íslendingar væru frábærir og hefðu gert vel við sig. Einn sagðist hafa fengið gefins klukku og þeir gerðu enga kröfur um bætur.

Þar með var þessi fyrsti leigusamningur á grænlenskum aflaheimildum fullefndur.

Engin ummæli: