sunnudagur, 31. ágúst 2008

Kvenskörungur.

Annars hefur helgin liðið hjá sem örskotstund eins og venjulega. Markmiðið var að koma heilmiklu í verk en því miður hefur það ekki orðið sem skyldi. Á föstudagskvöldið var ég boðinn í 75 ára afmæli Guðrúnar Lárusdóttur útgerðarkonu í Hafnarfirði. Þar var m.a. boðið um á söng og tískusýningu. Vox Feminae (Rödd kvenna), sem Margrét J Pálmadóttir stjórnar söng nokkur lög. Þá héldu dætur Guðrúnar tískusýningu þar sem sýnd voru vesti og kjólar sem hún hefur hekklað í gegnum tíðina. Nú laugardagurinn fór í ýmislegt hér heima við. Í dag sunnudag var ég boðinn í Grænuhlíðina í bröns. Prófaði nýja píanóið hennar Laugu og svo hlustuðum við á nýja plötu sem er ættuð að vestan með lögum eftir Vilberg Vilbergsson. Ágætis tónlist valsar,tango, blues og jass. Hitti Valdimar og Lilju líka í Grænuhlíðinni. Nafni og pabbi hans hringdu frá Svíþjóð. Þetta er það helsta. Kveðja.

laugardagur, 30. ágúst 2008

Ný útfærsla af möndluköku

Ég var að prófsmakka nýja útfærslu af möndluköku í Bónus. Hún var flatri en eldri útfærsla og kremið rautt en ekki bleikt. Möndlukökur eru eitt af áhugamálum mínum. Þetta eru hversdagskökur sem fást víða en þeim er sjaldan haldið á lofti í umræðunni. Þær eru misjafnar af gæðum og bragði og það fer ekki alltaf eftir verðflokkum. Bestar eru möndlukökurnar jafnan í Björnsbakari á Skúlagötu en þær eru líka langdýrarstar þar kosta ca 800.-. Næst besta möndlukaka sem ég hef fengið var í Kristjánsbakarí á Akureyri fyrir mörgum árum. Hún hafði þá sérstæðu að kremið á henn var hvítt en ekki bleikt. Möndlukökurnar hjá Reyni bakara á Dalvegi eru ágætar og mun ódýrari en í Björnsbakarí. Algengastar eru möndlukökurnar frá Millunni og fást víða. Þær hefur mér ekki þótt neitt sérstakar þar til ég datt niður á það að skella þeim inn í mikróofninn í tvær mínútur og borða þær heitar með mjúku kremi. Þannig komast þær nálægt því að vera jafngóðar og í Björnsbakari, en þær eru meira en helmingi ódýrari. Þá er þess að geta að Kornið sem er mitt aðal bakarí er stundum með hátíðarútgáfur af möndlukökum en oftast eru þær ekki til. Stundum er Bónus með tilboð á möndlukökum. Reyndar hef ég grun um að sá sem er yfir möndlukökuframboðinu í Bónus sé sérstakur áhugamaður um möndlukökur eins og ég. Hann/hún er oft með tilboð á einmitt þessari kökugerð. Þá stenst ég ekki mátið og kaupi nokkrar til að eiga í frystinum. Nú og svo var verið að kynna þessa nýju útfærslu af kökunni í dag. Ástæðan fyrir því að möndlukökurnar eru bestar í Björnsbakari held ég að sé vegna þess að þeir nota egg í framleiðsluna. Hinsvegar hef ég einu sinni keypt möndluköku af þeim sem var engu líkari en að þeir hefðu misst möndludropna í baksturinn. Þessi möndluköku áhugi minni hefur orðið þess valdandi að í fjölskyldunni eru þær nefndar í höfuðið á mér, Svennakökur. Svona geta birtingarmyndir vanafastans verið. Kveðja.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Mæðgurnar i Minneapolis

Þær mæðgur Sirrý og Sigrún skelltu sér vestur um haf til Minneapolis í dag og verða þar fram yfir helgi. Foreldrar mínir ásamt Þórunni systur skelltu sér í morgun til Mallorka í viku. Þau uðu að fresta för sinni fyrr í sumar af óviðráðanlegum ástæðum. Maður er að komast í sína daglegu rútínu og framundan eru hin skemmtilegustu verkefni. Kveðja.

sunnudagur, 24. ágúst 2008

Viðburðarrík helgi.

Helgi heldur tölu. Það stóð til að fara í hina árlegu Strandarkirkjugöngu afkomenda Helga Ingvarssonar. Því miður setti veðrið strik í reikninginn og við urðum að hætta við. Helgi vinur ásamt vinum sínum Ástríði og Gunnlaugi höfðu hafið gönguna fyrr um morguninn í Heiðmörk og má því segja að gangan hafi verið byrjuð, en við hin ætluðum að slást í hópinn á Bláfjallaveginum. Haldið var eigi að síður í bílum að Strandarkirkju og þar hélt Helgi tölu um upphaf þessarar göngu, sem afi hans Helgi Ingvarsson yfirlæknir á Vífilstöðum hóf upp úr 1950. Síðar tók faðir hans Sigurður Helgason sýslumaður við merkinu og hélt þessum göngum áfram og nú hafa afkomendur hans haldið á kyndlinum í áratug. Helgi Sigurðsson gekk sína fyrstu göngu 1960. Þess var minnst í kirkjunni að tíu ár eru síðan Sigurður lést. Helgi kom víða við í máli sínu. Hann skýrði m.a. tilgang göngunnar og rakti hvað vakti fyrir afa sínum. Hann sagði frá kirkjunni og sögu hennar og af hverju menn færu í píslargöngur þ.e. er að erfiða líkamlega, hreinsa hugann og setja sér háleit markmið. Að lokum sagði hann frá Þóri haustmyrkva sem nam mikið land á Reykjanesi meðal annars það land sem Strandarkirkja stendur. Ennfremur frá dætrum hans tveimur Herdísi og Krísu og eftir þeim eru landsvæðin kennd þ.e. Krisuvík og Herdísarvík. Hann greindi frá því að kirkjan væri helguð Maríu mey og væri eina kirkjan í lúterskum sið hér á landi sem gæti státað af Maríulíkneski. Blái liturinn í kórnum væri einnig litur hennar.
,,Strákarnir okkar" Til hamingju með silfrið í Kína. Frammistaða þeirra á vellinum og viðtölin við þá milli leikja hefur verið uppbyggileg upplifun sem aldrei gleymist. Þjóð sem á skipa þvílíkum afreksmönnum getur borðið höfuðið hátt. Hér var skráð í silfur mikilvægur áfangi í íslenskri íþróttasögu.
"Lame dudes" Að venju tókum við þátt í ýmsu af því sem menningarnótt Reykjavíkur hafði upp á að bjóða. Við vorum mætt á tónleika í þessari skóbúð þar sem Hannes hennar Tátu og Snorri frændi voru í aðalhlutverkum. Þeir kalla sig Lame dudes eða Slappa kappa á íslensku og fluttu þeir m.a. nokkur blueslög meðan við stoppuðum við.
Gjörningur. Við gegnum upp og niður Skólavörðustíginn sem er nýendurgerður að hluta. Þar gat að líta þennan þvottavélagjörning. Auk þess röltum við um miðbæinn og enduðum hjá Hallgrímskirkju þegar flott flugeldasýningin hófst upp úr ellefu um kvöldið. Þetta er það helsta. Kveðja.

föstudagur, 22. ágúst 2008

Laxá í Refasveit heimsótt.

Ofarlega í ánni. Við félagarnir Helgi og Hörður fórum norður í Laxárdal í Refasveit að veiða lax. Við lögðum af stað á miðvikudagskvöldið og vorum fram á föstudag. Veiðihúsið er flott og alltaf verið að bæta það. Við uppskárum fjóra laxa og áttum þarna góðan tíma í góðu veiðiveðri. Hörður Stefán sá um að elda handa okkur gömlu mönnunum og þvílíkar kræsingar sem hann bar fram þessa tvo daga. Lambafile í sérstökum lög og kjúklingabringur í mjög góðum kryddlegi með öllu tilheyrandi. Hér má sjá upp eftir ánni frekar ofarlega í henni. Umhverfið er mun stórbrotnara neðan þjóðvegarins. Þetta er frábært veiðisvæði og mikil náttúruperla þessi dalur. Þegar best lét munu hafa verið 28 býli í dalnum en nú eru þau aðeins fjögur. Það var orðið tímabært að heimsækja Laxá í Refasveit aftur því ég hef ekki komið þangað í bráðum tvö ár. Þetta er svo friðsælt svæði.
Rennt fyrir. Áin var vatnslítil þessa daga. Laxinn leynist víða í litlum pollum eins og þeim sem sjást á þessari mynd. Þetta kallast víst rennslisveiðar þ.e. að standa fyrir ofan pollana og renna maðkinum ofan í þá.
Helgi í stuði. Helgi vann það afrek á fimmtudeginum að ganga eina 10 kílómetra meðfram efri hluta árinnar fyrir ofan veiðihúsið Torfu. Við vorum mættir snemma í morgun út í á og höfðum tvo laxa upp úr krafsinu. Annar fékkst úr svokölluðum Urriðapolli og hinn fékkst úr Húsakvísl ef ég man þetta rétt.
Hörður á síðasta leik. Hann náði þessum fallega laxi rétt áður en við hættum að veiða. Hylurinn heitir Lambhagahylur. Hér má nálgast upplýsingar um hylina í ánni. Þegar við hættum veiðum brunuðum við niður á Blönduós og náðum að sjá seinni hálfleikinn í undanúrslitaleik okkar og Spánverja. Wow þvílík frammistaða sem liðið okkar sýndi. Kveðja.

sunnudagur, 17. ágúst 2008

Maríudagur í Strandarkirkju

Gengið til altaris.
Við fórum í dag við messu í Strandarkirkju þar sem boðið var upp á tónleika og fyrirlestur um Maríu mey. Björg Þórhallsdóttir sópran og Elísabet Waage hörpuleikari sáu um tónlistarflutning. Þær fluttu m.a úrval af Maríuljóðum. Hreint frábær flutningur. Predikun flutti Pétur Pétursson prófessor. Hann gat í predikun sinni um göngur Helga Ingvarssonar yfirlæknis á Strandarkirkju frá Vífilsstöðum og sagðist hafa gengið slíka göngu í gær. Þá fjallaði Pétur um tvennslags göngur sem við göngum í lífinu, innri og ytri göngur. Innri gangan er okkar lífs- og þroskaganga en ytri göngur eru mælanlegar í tíma og rúmi svo sem eins og Strandarkirkjuganga. Séra Sigurður Árni Þórðarson og Hulda maría Mikaelsdóttir djákni þjónuðu fyrir altari. Fyrirlestur um Maríu mey og dýrlingahlutverk hennar flutti Ásdís Egilsdóttir dósent við H.Í. Fjallaði hún m.a. um jarteikn Maríu, táknmyndir og sýnir henni tengdar fyrr á öldum. Strandarkirkja er helguð Maríu mey og er myndarlegt líkneski af henni í kirkjunni ásamt líkneski Jesús.
Ingunn, Helgi og Sirrý. Eftir messuna og altarisgönguna fórum við í messukaffið og fengum gott bakkelsi og kaffi. Að loknu kirkjukaffi héldum við af stað heim og héldum til Kópavogs með því að keyra áfram í átt til Grindavíkur og svo Krísuvíkurleiðina í bæinn en við keyrðum austur í átt til Þorlákshafnar þegar við lögðum af stað. Þannig lokuðum við þessari hringferð með viðkomu í kirkjunni. Kveðja.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Allsång på Skansen.

Allsång på Skansen. Talandi um sumarið sem nú er senn á enda þá sit ég hér og hlusta á þáttinn - Allsång på Skansen - í sænska sjónvarpinu í endursýningu. Þetta er uppáhalds sjónvarpsþáttur Svía yfir sumarmánuðina og sýndur í beinni. Þarna kirja þeir á Skansen í Stockhólmi öll yndislegu sumarlögin sín og syngja í sig gleði og lífskraft úr Allsångsheftinu. Þessari fínu stemmingu á Skansen sem klikkar aldrei er síðan dreift til allra landsmanna og ratar hingað. Heiðursgestir í þessum síðasta þætti var hljómsveit Abbameðlimsins Benny Anderson. Söngvari þetta kvöld var m.a. enginn annar enn Tommy Körberg. Síðasta lagið var "Stockholm i mitt hjärta". sem er kynningarlag þáttarins. Það er ekki laust við að það bresti lítill strengur í sálartetrinu þegar lagið er flutt í síðasta sinn og minningar sumarsins renna í gegnum hugann eina örskotsstund. Allt er tímatakmörkum háð: sumar, haust, vetur og vor. Það er sannarlega bót í máli að geta fylgst úr fjarlægð með sænsku þjóðlífi í gegnum sjónvarpið. Maður rifjar upp árin í Svíþjóð og nýtur þess sem sænska sjónvarpið hefur upp á að bjóða. Minnir mig einnig á það þegar við vorum að flytja heim frá Svíþjóð 1979 og ég spurði Hjört þá sex ára hvort hann væri ekki sáttur að flytja heim til Íslands: ,,Jú, jú pabbi minn þetta er allt í lagi. Við tókum með okkur sjónvarpið." Það tók hann smá tíma að skilja að við myndum ekki geta horft á sænska sjónvarpið á Íslandi. Það átti eftir að rætast aldarfjórðungi síðar það sem barninu þótti hinn eðlilgasti hlutur þá. Maður sér ekki alla hluti fyrir. Kveðja.

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Það er að koma haust.

Snemma í morgun fóru drengirnir okkar þeir Sveinn Hjörtur og Jóhanns Ernir ásamt móður sinni til Svíþjóðar. Það eru svona ákveðin kaflaskil í almanakinu þegar litlu baslararnir eru farnir til síns heima. Hér var mikið fjör í gær og ýmsir mættir til að kveðja þá bræður. Nú annars er lítið að frétta héðan. Vinnan hafin að nýju eftir sumarfrí. Það sem helst hefur plagað okkur undanfarið er mikill urmull geitunga sem hefur gert sig heimakomna á pallinum okkar. Þetta hefur ekki verið svona í mörg ár. Við höfum ekki getað rakið búið þeirra. Okkur sýnist þeir vera víðar en hjá okkur.
Ég missti af handboltaleiknum við Þjóðverja í beinni því miður. Þetta er aldeilis frábært hjá "strákunum okkar". Þau eru óhugnanleg þessi átök sem eru milli Georgíu og Rússa. Ég er sammála Bush forseta um það að þetta eigi ekki að geta átt sér stað á 21. öldinni. Kveðja.

föstudagur, 8. ágúst 2008

Olimpíuleikarnir í Peking.

Eldurinn. Hef setið og horft á opnunarhátíð olimpíuleikanna í Peking í dag. Þetta var mikið sjónarspil og tók um þrjá tíma. Nennti nú ekki að horfa á allar þjóðirnar þramma inn á leikvanginn. Vonandi að maður sjái einhver skemmtileg tilþrif á þessum leikum. Ég hef alltaf verið hrifinn af kínverskri menningu, allt síðan ég lá yfir Kínabókinni sem AB útgáfan gaf út fyrir mörgum árum. Margar myndirnar í þeirri bók eru mér enn í fersku minni áratugum síðar. Kínverjar ættu aftur á móti að láta af hersetu Tíbets. Ég er heldur ekki enn búinn að gleyma atburðunum á Torgi hins himneska friðar þegar kommúnistarnir murkuðu lífið úr æskufólki sínu í beinni útsendingu vegna mótmæla 1989. Nýútkomin ævisaga Mao er góð lýsing á þeirri brjálsemi sem þessi vinnusama þjóð hefur mátt búa við um áratuga skeið. Hún lýsir því hvernig þjóðríki geta verið ofurseld valdasjúkum brjálæðingum og fólkið fær ekki rönd við reist. Það er einu sinni svo þegar einhver/einhverjir brjóta gegn mannkyninu þá varðar það okkur öll burtséð frá því hverrar þjóðar við erum.

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Nýr frændi fæddur.

Við óskum Isabelle og Bjarna til hamingju með nýfæddan son sinn. Stórglæsilegur piltur af myndum að dæma. Pilturinn fæddist 2. ágúst. Kveðja.

laugardagur, 2. ágúst 2008

Túristi í Reykjavík

Fórum í bæinn í morgun og gengum frá Landakotstúninu krókaleiðir niður í miðbæ. Skoðuðum Landakotskirkju sem við höfum aldrei áður gert almennilega. Gengum eftir Hávallagötu, Sólvallagötu niður að gömlu Pétursbúð sem heitir nú eitthvað annað. Ánægjulegt að enn skuli finnast kaupmenn á horninu. Keyptum smotterí til að búa okkur erindi til að koma inn í búðina. Hann var að vísu ekki í hvítum slopp eins og í gamla daga kaupmaðurinn. Annars tengi ég þessa búð í minningunni við appelsínur sem skalaðar voru að hluta og svo settir sykurmolar í endan á þeim. Þetta saug maður af mikilli áfergju sem krakki í heimsókn hjá afa og ömmu á Hringbraut 52. Hann tók því ljúfmannlega kaupmaðurinn þótt við kíktum í nýjasta tekjublaðið án þess að kaupa það meðan við biðum eftir afgreiðslu. Við fengum meira að segja ágætan fyrirlestur um fyrirhyggjuleysi athafnamanna og bankamanna og hve gæfan getur verið fallvölt í fjármálum - menn ættu að sníða sér stakk eftir vexti. Það eru tveir gamlir skólabræður mínir sem hafa af því atvinnu að gefa út þetta hnýsniblað og einhverra hluta vegna hafa þeir séð ástæðu til þess að birta launin mín þarna í áratugi án leyfis. Síðan gengum við út Sólvallagötuna og í gegnum gamla kirkjugarðinn. Sum starfseiti á legsteinum eru ekki tíð í dag t.d. söðlasmiður. Það er eins með legsteinana og launin í hnýsniblaðinu að þeir eru æði misjafnir. Enginn þarf þó meira pláss í garðinum en sem nemur 6x2 fetum eða jafnvel minna að lokum. Við gengum niður Tjarnargötuna og í gegnum Ráðhúsið. Þar stóð yfir fyrirlestur á hollensku við landakortið. Næst lág leiðin í alþingisgarðinn þar sem utangarðsmaður var að pissa á blómin. Eftir stutta heimsókn í Kolaportið komum við við í versluninni þar sem Björn Krisjánsson var lengi á Vesturgötunni. Fengum þar að sjá 100 ára gamla verðskrá yfir vefnaðarvörur og ýmislegt smálegt sem varð eftir þegar listakonurnar tóku húsnæðið yfir fyrir 15 árum. Kveðja.

föstudagur, 1. ágúst 2008

Aftur í bænum

Við skruppum austur í Skaftártungu á miðvikudaginn. Frestuðum för okkar vegna veðurblíðunnar í nokkra tíma og lögðum af stað síðdegis. Í för með okkur var Sveinn Hjörtur, Valdimar, Stella og Lilja. Veðrið var ekki eins gott og hér í Fossvogi. Mistur og vindhviður á köflum. Grilluðum í gærkvöldi og borðuðum allslags meðlæti sem Stella hafði útbúðið. Ákváðum að fara í bæinn í dag á móti umferðinni en Valdi og Stella ætluðu að vera eina nótt í viðbót.