föstudagur, 8. ágúst 2008

Olimpíuleikarnir í Peking.

Eldurinn. Hef setið og horft á opnunarhátíð olimpíuleikanna í Peking í dag. Þetta var mikið sjónarspil og tók um þrjá tíma. Nennti nú ekki að horfa á allar þjóðirnar þramma inn á leikvanginn. Vonandi að maður sjái einhver skemmtileg tilþrif á þessum leikum. Ég hef alltaf verið hrifinn af kínverskri menningu, allt síðan ég lá yfir Kínabókinni sem AB útgáfan gaf út fyrir mörgum árum. Margar myndirnar í þeirri bók eru mér enn í fersku minni áratugum síðar. Kínverjar ættu aftur á móti að láta af hersetu Tíbets. Ég er heldur ekki enn búinn að gleyma atburðunum á Torgi hins himneska friðar þegar kommúnistarnir murkuðu lífið úr æskufólki sínu í beinni útsendingu vegna mótmæla 1989. Nýútkomin ævisaga Mao er góð lýsing á þeirri brjálsemi sem þessi vinnusama þjóð hefur mátt búa við um áratuga skeið. Hún lýsir því hvernig þjóðríki geta verið ofurseld valdasjúkum brjálæðingum og fólkið fær ekki rönd við reist. Það er einu sinni svo þegar einhver/einhverjir brjóta gegn mannkyninu þá varðar það okkur öll burtséð frá því hverrar þjóðar við erum.

Engin ummæli: