sunnudagur, 17. ágúst 2008

Maríudagur í Strandarkirkju

Gengið til altaris.
Við fórum í dag við messu í Strandarkirkju þar sem boðið var upp á tónleika og fyrirlestur um Maríu mey. Björg Þórhallsdóttir sópran og Elísabet Waage hörpuleikari sáu um tónlistarflutning. Þær fluttu m.a úrval af Maríuljóðum. Hreint frábær flutningur. Predikun flutti Pétur Pétursson prófessor. Hann gat í predikun sinni um göngur Helga Ingvarssonar yfirlæknis á Strandarkirkju frá Vífilsstöðum og sagðist hafa gengið slíka göngu í gær. Þá fjallaði Pétur um tvennslags göngur sem við göngum í lífinu, innri og ytri göngur. Innri gangan er okkar lífs- og þroskaganga en ytri göngur eru mælanlegar í tíma og rúmi svo sem eins og Strandarkirkjuganga. Séra Sigurður Árni Þórðarson og Hulda maría Mikaelsdóttir djákni þjónuðu fyrir altari. Fyrirlestur um Maríu mey og dýrlingahlutverk hennar flutti Ásdís Egilsdóttir dósent við H.Í. Fjallaði hún m.a. um jarteikn Maríu, táknmyndir og sýnir henni tengdar fyrr á öldum. Strandarkirkja er helguð Maríu mey og er myndarlegt líkneski af henni í kirkjunni ásamt líkneski Jesús.
Ingunn, Helgi og Sirrý. Eftir messuna og altarisgönguna fórum við í messukaffið og fengum gott bakkelsi og kaffi. Að loknu kirkjukaffi héldum við af stað heim og héldum til Kópavogs með því að keyra áfram í átt til Grindavíkur og svo Krísuvíkurleiðina í bæinn en við keyrðum austur í átt til Þorlákshafnar þegar við lögðum af stað. Þannig lokuðum við þessari hringferð með viðkomu í kirkjunni. Kveðja.

Engin ummæli: