þriðjudagur, 29. júní 2004

Júnílok á næsta leiti.

Tíminn líður ótrúlega hratt. Júnílok á næsta leiti. Sumarsólstöður, Jónsmessan þutu hjá og maður varð ekki var við það. Það stafar nátturlega af því að maður hefur verið svo upptekinn af því að fylgjast með boltanum. Nú hillir undir úrslitaleikina tvo. Það verður spennandi að fylgjast með þeim. Jú reyndar við sóttum Sigrúnu út á flugvöll þann 21.júní um nóttina. Það var ótrulegt sjónarspil að sjá sólina í austri vera að hefja sig upp fyrir fjöllin. Himininn heiður og útsýnið stórkostlegt hvert sem litið var. Júní hefur verið ótrúlega skemmtilegur mánuður. Það sér maður þegar maður skoðar bloggið júní. Nú verður maður að fara að undirbúa sig fyrir ferðina til Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga í lok júlí. Allar góðar ábendingar vel þegnar.

mánudagur, 28. júní 2004

Mánudagssól og sunnudagsbíltúr.

Skrítið þetta veður. Þegar helgin kom var leiðinda rok og rigning meira og minna allan tímann. Svo kemur mánudagur og þá skýst sólin fram og vindinn lægir og maður situr inni á kontór og missir af góða veðrinu. Þetta gerist trekk í trekk. Þetta minnir mann á það þagar maður var í prófum ár eftir ár í maí mánuði. Þá skein sólin og vorilmurinn var dag eftir dag í loftinu. Svo lauk prófum og þá kom rokið og rigningin. Hjörtur er á námskeiði í Leeds í UK. Hann var ekki hrifinn af borginni. Raunar var hann hissa á aðstæðum. Ekkert um að vera og allar búðir loka kl. 17.30. Hann verður þarna næstu fjóra daga. Annars fórum við Sirrý í "gamaldags" sunnudagsbíltúr með vissum afbrigðum þó. Nesjavallaveginn í stað Mosfellsleiðarinnar. Komum niður í Grafninginn þar sem drukkið var brúsakaffi að gömlum sið og svo haldið áfram og stoppað næst í Ljósafossvirkjun. Við stoppuðum þar og skoðuðum sýningu um virkjunina. Síðan fórum við niður á Selfoss, Stokkseyri, Bakkann og heim yfir Ölfusárósa og í gegnum Þrengslin til baka í Kópavoginn. Á Stokkseyri skoðuðum við hundaþúfuna hans Páls Ísólfssonar og Þuríðarbúð. Á Bakkanum skoðuðum við Rauða húsið, sem heitir reyndar Gunnarsshús nú eða gamla barnaskólahúsið eftir atvikum. Langafi minn átti þetta hús. Vorum með tvær ungar námsfúsar stúlkur með okkur.
PS. Fyrir þá sem ekki vita hvað er "gamaldags" bíltúr má geta þess að á sjötta og sjöunda áratugnum keyrðu borgarbúar gjarnan í rykmettaðri halarófu svokallaðan Þingvallahring um helgar. Upp Mosfellsdaglinn til Þingvalla. Niður Almannagjá í Þjóðgarðinn fram hjá Peningagjá með viðkomu í sjoppunni hjá Valhöll. Áfram hringinn niður Ljósafossveginn niður á þjóðveg og þaðan í bæinn oft með viðkomu í Hveragerði.

sunnudagur, 27. júní 2004

Evrópuboltinn er smáþjóðaleikar.

Ég hef hitt naglann á höfuðið hérna um daginn með það að EM keppnin væri að þróast í smáþjóðaleika. Svona áður en íþróttafréttaritararnir gerðu það að klisju. Portugalarnir sendu Englendingana heim og Tékkar sendu Frakkana heim. Þannig að þetta hafa verið leikar smáþjóðanna. Nú sendu Tékkarnir Danina heim. Ég veit svo sem ekki hvor þjóðin er fjölmennari en báðar hljóta að teljast til smáþjóða. Áður höfðu Portugalir sent Svíana heim. Við höfum ekki verið svikin með það að þetta hefur verið sannkölluð knattspyrnuveisla. Ég spái því að það verði Portugalir sem vinni þessa keppni.Nú fer að draga til tíðinda. Ég er farinn að kvíða fyrir lokum þessarar veislu þegar bummerinn kemur og maður hefur engan bolta til þess að ylja sér við eftir vinnu. Jæja það líður hjá. Ég man bara að eftir heimsmeistarkeppnina í Japan þá var maður lengi að ná sér. Kom heim og starði á svartan skjáinn. Þetta er nú kannski aðeins fært í stílinn. Ha hver var að tala um forsetakosningar......

fimmtudagur, 24. júní 2004

Boltinn rúllar

Í gær voru það Tékkarnir sem sendu Þjóðverjana heim. Í fyrradag voru það Danir og Svíar sem sendu Ítalina heim. Þetta hafa verið svona "móment" smáþjóðanna. Ég er hræddur um að Tjallarnir verði erfiðir fyrir hina blóðheitu Portugali. En við verðum að sjá til hvernig það fer. Nú það fór þá svo að Portugalarnir sendu Englendingana heim!

miðvikudagur, 23. júní 2004

Veislan heldur áfram...

Hvílík fótboltaveisla. Leikurinn milli Dana og Svía í gær var frábær skemmtun. Þetta er skemmtilegasta Evrópukeppni sem ég hef horft á, ef undan er skilin keppnin í Gautaborg 1992 þegar Danir urðu meistarar. Það rekur hver stórleikurinn annan og dramatíkin bara eykst. Eins gott að hafa eitthvað annað að hugsa um en leiðindin hér á Fróni. Annars er lítið að frétta þessa dagana. Veðrið áfram mjög gott. Sól og sumarylur.

þriðjudagur, 22. júní 2004

Sigrún frá Ítalíu

Þá er Sigrún komin úr söngferðalaginu frá Ítalíu. Gerði þessa fínu ferð til Mílanó, Flórens, Písa og fleiri staða, sem ég kann ekki að nefna. Kórarnir sungu fyrir þá ítölsku milli þess sem verið var í sólbaði. Sú kemur aldeilis með góða veðrið með sér. Hér er búið að vera 20°C hiti tvo daga í röð. Maður veit bara ekki hvernig þetta mun enda. Á sama tíma er rigning og leiðindi víða í Evrópu.

sunnudagur, 20. júní 2004

Annasöm helgi

Jæja þá er Kanadastúlkan farin frá okkur. Hún er búin að vera hér á landi á vegum Rotary ásamt fjórum öðrum löndum sínum. Enduðum hér í gærkvöldi eftir að hafa snætt á Við Tjörnina. Þetta voru hressir krakkar öll, en eru orðin lúin á ferðalaginu. Tvö þeirra borða ekki kjöt eða fisk þannig að það var einungis baunaréttur fyrir þau. Þetta virðist færast í aukana hjá ungu fólki að það vilji ekki kjötrétti. En það er víst ekkert við því að segja annað en að það er þá meira handa okkur hinum sem viljum kjötið og fiskinn.

fimmtudagur, 17. júní 2004

Á þjóðhátíðardaginn.

Fórum á Rútstún með Jennifer frá Kanada. Hittum hópinn hennar og þau fór svo niður í miðbæ Reykjavíkur og ætla að vera þar í dag. Fórum sjálf í bæinn. Yndislegt veður sól og sumar en hvasst. Mikill fjöldi fólks í bænum að venju.

miðvikudagur, 16. júní 2004

Það er kominn 17. júní tralllalla

Þannig var það áður fyrr. Nú erum við bara tvö saman. Síðasti unginn ekki heima á 17. júní. Mikið drama búið að vera í boltanum. Sá leikinn milli Portugala og Rússa í dag(2-0). Svo sá ég leikinn milli Þjóðverja og Hollendinga (1-1). Hef ekki náð að sjá aðra leiki nema í endurspili hjá Þorsteini J. Vilhjálmssyni. Ég er farinn að hafa áhyggjur af því hvernig þetta verður allt saman þegar þessari frábæru keppni lýkur. Yfir hverju eigum við þá að dreifa huganum og skemmta okkur. Hjá okkur er ung stúlka frá Kanada í heimsókn. Hún er hér á vegum Rotary hreyfingarinnar. Búin að ferðast víða um landið og verður hér á landi til mánaðarmóta. Verðum að sinna henni næstu fjóra daga. Sú virðist aldeilis vera búin að fá kynningu á Íslandi og því sem landið hefur að bjóða.

Kris Kristoferson á tónleikum í Höllinni

Við Sirrý skelltum okkur í Laugardalshöllina á mánudagskvöldið og hlýddum á tónleika með Kris Kristoferson hinum ameríska. Upphitun og stuðið sáu Ríó tríó um ásamt KK. KK er alltaf góður. Ríó stendur alltaf fyrir sínu. Leyninúmer hjá KK var upphálds söngkonan mín hún Ellen Kristjánsdóttir systir hans. Söng hún lagið: When I think of engels, I think of you. Það var gaman að hlusta á Kris Kristoferson. Söngurinn eða "raulið" hans er svona einfalt form til þess að koma boðskapi textanna á framfæri. Hann er á móti misbeitingu valds, mannvonsku og stríði. Það er ekki laust við að maður fengi gamla "Woodstock fílinginn." Það fór ekki milli mála að þarna fór mikill friðarsinni. Sá var ekki að vanda Clinton og Bush kveðjurnar. Lagið sem ég tengi honum helst er: Help me make it through the night, sem reyndar Ríó tríó hefur haldið lifandi öll árin hér á landi. Höllin var full af fólki og þetta var hin besta skemmtun. Þekkti þarna mörg andlit af kynslóðinni + 45. Nú höfum við náð á 28 árum að sækja tónleika með þremur úr "Highwaymen genginu" þ.e. Johnny Cash sem við sáum í Gautaborg 1977, Willy Nelson sáum í Oslo 1998 og nú Kris Kristoferson. Sáum aldrei Waylon Jennings, en hann dó árið 2002. En þetta hafa allt verið afar eftirminnilegir tónleikar, en ólíkir. Ætla ekki að vera neikvæður en kynnir kvöldsins var einu orði sagt "substandard".

mánudagur, 14. júní 2004

Þvílíkt drama!

Ja hérna. England Frakkland (1/2) hver hefði trúað því að Frakkarnir gætu unnið leikinn á þremur síðustu mínútunum með því að skora tvö mörk!! Þá er að gera sig kláran í veisluna í dag.

laugardagur, 12. júní 2004

Boltinn byrjaður......

Ég hef blendnar tilfinningar gagnvart fótbolta. Hef töluvert horft á hann sérstaklega á námsárunum. Hef gaman af að fylgjast með stóru liðunum og stjörnum þeirra og helstu stórviðburðum í þessari íþrótt. Ég velti því aftur á móti fyrir mér hvort fótboltaleikir séu opíum almennings. Ég er ekki frá því að sé maður með nokkrar sjónvarpsstöðvar þá geti maður allan liðlangan daginn fylgst með fótboltaleikjum einhversstaðar. Það er viðurkennd afsökun fyrir því að sitja á rassinum og gera "ekki neitt" að horfa á leiki og það tilheyrir að sötra bjór á meðan horft er. Það er að ekki að undra að helsti kostunaraðili fótboltaleikja í Evrópu er Carlsberg bjórframleiðandinn sbr. nýlegan sjónvarpsþátt á Sýn þar um. Bjórframleiðendur eru svo snjallir í markaðssetningu sinni að þeir eru búnir að tengja saman bjórþorsta og "áhorfsþorstan" á knattleiki? Allavega er það svo með mig að horfi ég á leiki vaknar alltaf hjá mér bjórlöngun. Þegar maður veltir þessu fyrir sér virðist það liggja í augum uppi að það geti verið sniðugt að tengja ólíkar fíknir saman þ.e. áhorfsfíkn í fótbolta og bjórfíknina. Hverjir eru það svo sem halda uppi aðsókninni að leikjum í Englandi. Er það meðaljóninn eða eru það þeir sem hafa verið slegnir út af vinnumarkaðinum, jafnvel atvinnulausir í fjórða ættlið. Það væri verðugt rannsóknarefni. Jæja best að hætta þessu og fara að horfa á leikinn.

föstudagur, 11. júní 2004

Helgin framundan

Það er alltaf góð tilfinning að hafa helgina framundan. Því miður er spáin ekki góð, þannig að maður verður væntanlega að finna sér einhver inniverk. Nú eða maður þá hvíli bara lúin beinin. Það er alltaf vinnsælt.

fimmtudagur, 10. júní 2004

Einn mánuður á blogginu.

Jæja nú er ég búinn að vera einn mánuð á blogginu. Það er skrítið að vera með svona dagbók á opnum vef fyrir hvern sem er til að skoða og rýna inn í daglegt líf okkar. Fyrir utan Hjört,Stellu og Valdimar held ég að það séu ekki margir sem skoða þetta pár mitt. Ég verð nú að viðurkenna það að ég hef svolítið gaman af þessu. Þetta nærir einhverjar hvatir. Ætli það sé ekki "fimmtán mínútuþörfin" hans Andy Warhol, hver veit. Jæja við sjáum til hvað ég nenni þessu mikið lengur. Ég neita því hinsvegar ekki að það er skemmtilegra ef maður fær einhver "response" í formi kommenta. Eins og stórskáldið sagði í sunnudagspistlum sínum: Meira síðar..

Sól, sól, og sitt lítið af hverju...

Það er yndælt sólarveður í höfðuborginni og nágrannabyggðum. En það er ekkert sérstaklega hlýtt úti ca. 10 til 12°C. Grillað á pallinum í gær þessar líka fínu kindakótilettur. Vorum í afmæli og "housewarming" hjá Birni og Sigríði á þriðjudaginn. Mallorka farar hringdu og eru í góðum gír. Mig grunar að þau sé nú farið að langa heim, enda þriðja vikan hafin. Kvöddum Pálma frænda í gær. Hann fer til Seattle í dag. Hann segist ætla að koma aftur eftir tvö ár. Claus frændi er hér á landi að heimsækja son sinn. Hann býr hjá Oddi. Amma er komin í hvíldarinnlögn á Landakot. Nú styttist í að Sigrún fari í söngferðalagið til Ítalíu n.k. mánudag. Þetta eru nú helstu fréttir úr stórfjölskyldunni. Man ekki eftir öðru.

mánudagur, 7. júní 2004

Afkomendur Ingvars og Friðrikku.

Hér í Brekkutúninu var fjölskylduboð á laugardaginn, sem tókst í alla staði vel þótt það hafi lent í skugganum af D-day og Sjómannadeginum hér á blogginu. Föðurfólk Sirrýjar kom saman í tilefni veru Pálma frænda hennar hér á landi. Hann heldur aftur til USA nú í vikunni. Þetta var ánægjuleg stund og tókst í alla staði vel þótt ýmsa hafi því miður vantað. Mikið rætt um gjörðir forsetans og sýndist sitt hverjum. Rætt var um grunngerð þjóðfélagsins: framkvæmdavald, löggjafavald,dómsvald og nú forsetavaldið eða "Bessastaðavaldið" eins og ég kýs að kalla það. Eins og svo oft áður þá virðist afstaða fólks miðast fyrst og fremst við það hvoru megin hryggjar það fylkir sér þ.e. til vinstri eða hægri. Nú svo eru alltaf einhverjir sem vilja sitja klofvega á hryggnum. Veðrið var yndislegt og bauð upp á það að verið væri út á palli í sólinni.

sunnudagur, 6. júní 2004

Sjómannadagurinn og Innrásin í Normandy

Í dag er hátíðardagur sjómanna, Sjómannadagurinn, sem við höldum hátíðlegan til heiðurs okkar mönnum. Sjómönnum eru hér færðar bestu óskir í tilefni dagsins. Í dag er líka 60 ár síðan innrásin í Normandy átti sér stað. Vafalaust er þessi atburður sá sem markar mestu og örlagaríkustu tímamót í sögu 20. aldarinnar. Ég hef fylgst með Sky og CNN gera þessum atburði viðeigandi skil í sjónvarpinu í dag. Ég neita því ekki að oft hefur manni vöknað um augun af myndskeiðum af gömlu hermönnunum sem þarna eru samankomnir til þess að taka þátt í hátíðarhöldunum. Efst er þeim þó í huga gömlu félagarnir sem létust á þessum degi. Segjast hafa komið áður og mundu koma aftur vegna þeirra. Þetta voru mest strákar á aldrinum 17 til 25 ára, sem var falið að ganga fyrir bissukjafta Þjóðverja. Nálægt 10 þúsund piltar létust á fyrsta degi innrásarinnar. Það er helst til tíðinda við þessa athöfn að Schröder kanslari er viðstaddur hátíðarhöldin. Fyrsta skipti sem fulltrúa Þýskalands er boðið á slíka minningarathöfn. Fréttamennirnir segja að enn séu sumir gömlu hermennirnir ekki á eitt sáttir með það. Skilboðin frá þessari minningarathöfn finnst mér vera þau hvað tilviljanir í lífnu virðast ráða miklu um auðnu okkar. Sbr. sitt er hvað gæfa eða gjörvuleiki.

föstudagur, 4. júní 2004

Glæsilegur og hátíðlegur kórsöngur.

Við fórum í Grensáskirkju í gærkvöldi fimmtudaginn 3. júní og hlýddum á undurfagran kórsöng þriggja kóra, sem sameinaðir eru í einum kór: Stúlknakór Reykjavíkur, Stúlknakór Grensáskirkju og Unglingakór Digraneskirkju. Sigrún okkar syngur með þessum kór en hún er í Unglingakór Digraneskirkju. Á prógrami kvöldsins voru þau lög sem kórinn mun syngja á Ítalíu nú um miðjan júní. Meðal laga má nefna Kyrie, Gloria, Te Deum og Heyr himnasmiður, Ave Maria, Sanctus,Adoramus te Christi, Pie Jesu,One Small Voice og að lokum Angus Dei. Alls eru um 70 stúlkur í kórnum. Stjórnendur eru Heiðrún Hákonardóttir og Margrét J.Pálmadóttir. Þessi stund var hápunktur dagsins og afar ljúf. Við óskum kórnum velfarnaðar í Ítalíuförinni og erum þess fullviss að Ítalir verða ekki sviknir af þessum glæsilega sönghópi. Reyndar má velta því fyrir sér hversvegna einmitt þeir verða þessa heiðurs aðnjótandi.

miðvikudagur, 2. júní 2004

Bessastaðavaldið- nýtt afl í ískenskri pólitík

Þetta var dramatískt hjá "Bessastaðavaldinu" í dag þegar landslýð var gjört kunnungt að ekki yrði skrifað undir fjölmiðlafrumvarpið en í staðinn yrði það lagt í þjóðaratkvæði. Ekki vekur minni athygli að forystumenn stjórnarandstöðunnar koma fram í fjölmiðlum og eru harla ánægðir með það að lagasetningarvald Alþingis sé afnumið með þessum hætti. Augljóst er að ekkert verður sem áður í þjóðmálaumræðunni. Þjóðaratkvæðisrétturinn er orðinn virkur og hann verður svífandi yfir lagafrumvörpum í framtíðinni. Þingmeirihluti er ekki lengur trygging fyrir því að koma málum í gegnum þingið. Grunnstoðir lýðveldisins eru í uppnámi og vandséð hvernig verður bætt úr því. Þetta eru álitaefni sem leita nú á hugan. Ég deili semsagt ekki skoðunum með þeim sem telja þetta vera hið besta mál hjá "Bessastaðavaldinu" og sé bara gott á ríkisstjórnina og gott á Davíð eins og einhver orðaði það í dag. Slíkur málflutningur er fyrir neðan allar hellur og lýsir mikilli skammsýni. Ég tel að þetta gönuhlaup hafi aðeins skapað stærri vandamál í stjórnun þessa lítla samfélags í framtíðinni.