laugardagur, 31. desember 2005

Við áramót.


Allt á sinn tíma, upphaf og endi. Nú árið er að líða í aldanna skaut. Þetta hefur verið viðburðarríkt ár, gott og gjöfult fyrir okkur hér í Brekkutúni. Fyrst er að nefna að við fengum okkar fyrsta barnabarn, Svein Hjört, um miðjan febrúar. Við höfum haft góða heilsu og gert víðreist á árinu. Ferðin til Utah, California, Arisona og Nevada veður lengi minnisstæð. Dvöl í London og heimsókn til Kristianstad í Svíþjóð á nýtt heimili Hjartar, Ingibjargar og Sveins Hjartar. Allt eru þetta mikilvægar perlur í perlufesti minninganna. Við höfum haft í mörgu að snúast bæði í vinnu og frítíma. Stundum svo að manni hefur stundum jafnvel fundist nóg um. Það er þó yfir engu að kvarta sem betur fer. Jæja, ég ætla ekki að fara að tíunda allt annað sem á dagana hefur drifið. Annálsritunin verður að duga hvað það varðar. Myndin sem fylgir þessum pistli er af flugeldasýningu sem var yfir Perlunni í vikunni. Ég vona að þið eigið öll ánægjulegt kvöld. Hugur okkar hér í Brekkutúni er hjá ykkur og með ykkur hvar svo sem þið dvelið á þessum tímamótum. Við vonum að nýtt ár færi ykkur ný og góð tækifæri. Þökkum heimsóknir hingað í Brekkutúnið og vel á minnst heimsóknir á þessa heimasíðu. Fariði varlega með flugelda og blys. Gleðilegt ár gott og farsælt komandi ár.


Flugeldar yfir Perlunni.

þriðjudagur, 27. desember 2005

Á þriðja í jólum.


Jólin eru hjá mörgum hin stóra fjölskylduhátíð. Þannig er það hjá okkur við höfum umgengist börn, tengdabörn, barnabarn, foreldra, systkini, mágfólk og börn þeirra. Samveran styrkir fjölskylduböndin og viðheldur mikilvægum tengslum stórfjölskyldunnar. Ykkur finnst þetta ef til vill svolítið uppskrúfað en svona er þetta eigi að síður. Það eru ekki allir svo vel settir að eiga stóra fjölskyldu. Í fjölmiðlum segir í dag frá konu sem fannst látin í íbúð sinni án þess að nokkur hafi vitjað hennar vikum saman. Á jóladagskvöldið kom mitt fólk í heimsókn. Áttum við ánægjulega stund með þeim. Júlíus Geir tók lög á flygilinn og mamma og pabbi spiluðu og sungu nokkur sálmalög. Við vorum öll sjö í gærkvöldi í Grænuhlíðinni hjá Sigurði og Vélaugu ásamt öðrum börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Kvöldið endaði á hinum árlega spilaleik sem ávallt er mikil skemmtan. Annars lítið að frétta. Veðrið hefur lægt eftir suðaustan rok og rigningu í nótt. Nú er gott skyggni úti og sést vel til helstu kennileita. Bið að heilsa ykkur.

sunnudagur, 25. desember 2005

Jóladagspistill.

Það hafa orðið umskipti í veðrinu. Búið að vera hífandi rok og rigning lengi fram eftir morgni. Það er dimmt í dalnum og byggðin kúrir í myrkrinu. Eins og venjulega var mikið um að vera í gærdag. Ég keyrði Hjört Friðrik í Borgarnesrútuna um hádegið. Vel á minnst þau eru hér heima í jólafríi Ingibjörg, hann og Sveinn Hjörtur. Með okkur hér í gærkvöldi voru Hilda og Magnús, Björn og Sunna og síðar um kvöldið komu Valdimar og Stella auk okkar þriggja sem erum heimilisföst. Við borðuðum gæs að hætti Björns, velling og jólaísinn sem er eftir uppskrift Jensínu ömmu. Eftir opnun pakka og kaffi fór fólk að tygja sig til síns heima, en við skelltum okkur í síðbúna kvöldheimsókn til Þórunnar systur og Svenna mágs. Þar hittum við prestshjónin og frændur og frænkur. Þetta er nú svona það helsta á þessum jóladagsmorgni. Boðskapur jólanna seitlar inn í sálartetrið og nærir hug og hjarta. Enn á ný er jólahátíð og svo flýgur tíminn áfram. Áður en við vitum komin áramót. Á myndinni má sjá þreytt jólabarnið okkar með pabba sínum. Kveðja.

laugardagur, 24. desember 2005

Á aðfangadagskvöldi.


Gamla kirkjan.

Lesendur þessar síðu vita að kirkjubyggingar er eitt af hugðarefnum annálsins. Það er við hæfi á þessu aðfangadagskvöldi að birta hér mynd af kirkjunni sem Sigurveig amma hennar Sirrýjar átti. Fátt er jólalegra en þessi gamla kirkja. Hún minnir um margt á kirkjurnar fyrir austan, sérstaklega Grafarkirkju sem nú lýsir upp næturmyrkrið í Skaftártungu. Nú fer að hefjast hin mikla hátið frelsarans er við fögnum fæðingu hans og við minnumst með kærleika og þökk þess sem var og þess sem við höfum. Það húmar að kvöldi hér í Fossvogsdal. Það er friðsælt yfir dalnum og við fáum "rauð" jól að þessu sinni. Fossvogskapellan, Borgarspítalinn og Útvarpshúsið eru uppljómuð en aðeins eitt rautt ljós á Perlunni að þessu sinni. Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og vonum að þið eigið góðar stundir. Kveðja.

Jólatréð og flygillinn.

Já, hann tekur sig vel út nýji flygillinn minn hjá jólatrénu. Nú er búið að stilla hann og ævintýrið fullkomnað. Hann hljómar yndislega og er hrein unun að fá að sitja og spila á hann. Jólalögin hljóma undursamlegar en nokkru sinni fyrr.

Jólasveinar Sveins.

Þessir jólasveinar eru órjúfanlegur þáttur í jólahaldinu. Þeir koma frá Gautaborg fyrir hátt í þremur áratugum til þess að lífga upp á jólin. Þeir þjóna vel þessu hlutverki sínu enn í dag. Hugsið ykkur svo eru til lærðir menn sem segja að jólasveinar séu ekki til. Mikið hlýtur að vera leiðilegt hjá þeim ef þeir sjá ekki jólasveinana all um kring á þessum árstíma.

mánudagur, 19. desember 2005

19. desember 2005

Það var helst í fréttum á þessum mánudegi að ömmubróðir minn Sveinn Sveinsson var jarðsunginn frá Kópavogskirkju. Blessuð sé minning hans. Prestur var sr. Hjörtur Hjartarson. Sveinn var 97 ára gamall. Eftir athöfnina í kirkjunni var erfidrykkja í félagsheimili safnaðarins. Við kynntumst Sveini þegar við bjuggum í Gautaborg á árunum 1975 til 1979. Heimsóttum hann oft á Bullegummansgatan og vorum í sjötugsafmælinu hans þar. Hann flutti 70 heim til Íslands og starfaði mörg ár eftir það hér heima við verslunarrekstur á Vesturgötunni. Hann stóð fyrir ættarmóti Gillastaðafólksins árið 1987. Þegar hann stóð fyrir því að heiðra minningu Sveins og Valgerðar á Gillastöðum. Við vorum í níræðsafmælinu hans árið 1998 sem hann hélt af miklum höfðingsskap. Annars var það pabbi sem var í miklum samskiptum við hann eftir að hann flutti að nýju til Íslands. Kveðja.

sunnudagur, 18. desember 2005

Stella á afmæli í dag.

Það bar helst til tíðinda í dag að við fórum í afmæli til hennar Stellu í Drápuhlíðina. Þar var hún Brynhildur líka í heimsókn. Okkar beið þetta fína veisluborð sem við gerðum góð skil. Næst lá leiðin í Smáralind til þess að kaupa fleiri jólagjafir. Við höfum verið dugleg í matgargerð í dag. Bökuðum loftkökur, hnoðuðum í piparkökudeig og bjuggum til hátíðarís. Ég verð nú aðeins að grobba mig á nýja flyglinum. Nú er búið að stilla hann og er hann hreint út sagt mjög góður. Píanóstillarinn óskaði mér til hamingju með þetta frábæra hljóðfæri. Nú get ég sagt að þessu flygil verkefni sé lokið með fullkomnum árangri.

laugardagur, 17. desember 2005

Laugardagspistill á aðventu.

Það er mest lítið í fréttum héðan . Við tókum daginn snemma og vorum komin út kl. 7.30 í göngutúr með Sunnu sem er hér í heimsókn. Björn er í London fór á fótboltaleik þar með Manchester United. Nú við fórum í Hafnarfjörð á jólamarkað svo fórum við í Ikea og fengum okkur hangikjöt og þaðan í Bónus í innkaupin. Við bökuðum lagkökuna sem við bökum fyrir hver jól. Ég fór seinnipartinn í leikfimi í nýju sundlaugina hér í Kópavogi. Hitti þar Helga vin minn. Í morgun var sannkallað vetrarríki kallt og vindur. Síðan hlýnaði þegar leið á daginn og snjófölin hvarf. Ég las í morgun viðtal við afkomanda Gunnars Gunnarssonar í Mbl. Þar segir frá því hvernig komið var í veg fyrir að hann fengi nóbelinn á sínum tíma. Þetta vekur mann til umhugsunar um það hvað menn geta verið óvægnir og grimmir. Jafnvel með listamanna og heimspekinga þar sem mannsandinn er sagður ná hæstu hæðum. Þetta sýnir manni líka hversu mikill óþveri getur verið að baki veraldlegum vegtillum mannanna. Að ég tali nú ekki um vegtillur sem veittar eru af "rentum" af framleiðslu sprengiefnis sem reyndist skilvirkara til að drepa menn en áður hafði þekkst. Kveðja.

fimmtudagur, 15. desember 2005

Tunglið á hádegi.


Tunglið yfir Akrafjalli kl. 12.30

Þessa sjón gat að sjá í dag um hádegisbilið. Fullt tungl yfir Akrafjalli kl. 12.30. Þetta var svo sérstök sýn að ég varð að birta hana hér á vefsíðunni. Vinnufélagi minn tók myndina á símamyndavélina sína. Annars lítið í fréttum. Ég fór í leikfimi í Nautulus í morgun. Er að reyna að byrja aftur á morgunleikfiminni sem ég stundaði af sem mestu kappi hér fyrir nokkrum árum. Maður er svolítið farinn að finna fyrir jólastressinu. Óleystu verkefnin hrannast upp.
Kveðja.

mánudagur, 12. desember 2005

Jólalögin flutt.

Í kvöld sungu Skaftarnir á LHS á endurhæfingardeild og geðdeild. Vel var mætt og sungin voru sömu lögin og í gærdag. Þá er kórinn kominn í jóla- og áramótafrí fram í janúar. Þetta er búin að vera ágætis "törn". Eftir áramót hefst nýjársstarfið sem endar væntanlega með tónleikaferðalagi í maí. Ég var einnig í síðasta píanótímanum fyrir áramót á föstudaginn. Nú er það heimanámið sem gildir. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Hingað litu við Ia vinkona og Sólrún dóttir hennar. Sigrún er á fullu í próflestri og situr vel við sýnist mér. Valdimar og Stella eru bæði í prófum en maður verður minna var við það enda býr fólkið nú fjarri Brekkutúninu. Veðrið undanfarna daga hefur verið gott. Snjólaust, plúsgráður 2 til 4 °C svolítill vindur. Núna þegar þetta er skrifað um kl. 22.30 er ágætis skyggni til Perlunnar. Flugljósið á fullu lýsir upp himininn hvítu og grænu kastljósi. Tíminn æðir áfram og tíminn til jóla styttist óðum. Það er dimmt úti og dagur styttist til 21. desember. Þá er stystur dagur en svo fer daginn að lengja að nýju. Þannig að þetta horfir allt til bóta.

laugardagur, 10. desember 2005

Sunnudagskaffi hjá Skaftfellingafélaginu.


Jólalög á aðventu.(mynd af ruv vef)
Komið þig nú öll blessuð og sæl. Á morgun kl. 4.00 verður sunnudagskaffi hjá Skaftfellingafélaginu í Bolholti. Kór Skaftanna mun syngja nokkur velvalin jólalög af því tilefni. Allir velunnarar eru hvattir til að mæta. Annars höfum við aðallega verið á búðarrápi í dag. Höfum varla stoppað. Þetta hefur gengið vonum framar og einhverju höfum við áorkað. Þetta er nú það helsta. Von er á Valda og Stellu hingað í hús síðar í kvöld. Kveðja.

fimmtudagur, 8. desember 2005

Hann á stórafmæli í dag.

Sr. Hjörtur á afmæli í dag 8. desember. Við óskum honum til hamingju með þennan merka áfanga í lífinu, árin 75. Það eitt og sér er góður áfangi. Afrekaskráin er löng og fáu lík. Það er óþarfi að vera tíunda hana núna á þessum vettvangi. Við vonum að sjálfsögðu að við fáum að njóta hans meðal okkar um mörg ókomin ár og hans ágætu konu. Við fórum í dag í afmælisveislu á Hlíðarveginn hittum Stebbu og Unni Jónsd., Axel og Rannveigu, Hjört og Unni Sveins börn og Kollu frænku. Annars hefur dagurinn liðið á sinn venjubundna hátt. Það er dimmt þessa dagana á Ísalandi. Ég fór í leikfimi í morgun kl. 7.15 og síðan fór ég í Blóðbankann og gaf blóð í dag eftir að hafa fengið neyðarkall vegna blóðskorts þar á bæ. Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag. Þetta er það helsta. Kveðja.

mánudagur, 5. desember 2005

Jólalögin fullkomnuð.


Altinn og bassinn.

Ég var á söngæfingu í kvöld. Við héldum áfram að æfa jólalögin. Það gékk mjög vel enda kunnum við þau flest ágætlega. Það verða tónleikar í Skaftfellingabúð næstkomandi sunnudag kl. 14.00. Allir velkomnir í köku og að hlusta á sönginn.

Kórinn á söngæfingu í kvöld.
Hér má sjá sópran söngvarana og tenórana þ.e. þá sem mættu það vantaði nokkra.

sunnudagur, 4. desember 2005

Á annan sunnudag í aðventu.


Hér komu Björn og Sunna í morgun. Hann var m.a. að hjálpa Sigrúnu í þýsku. Við fórum í kaffi til Valdimars og Stellu og komum við í ELKÓ á heimleiðinnni. Keyptum okkur "Web" myndavél. Sr. Hjörtur er með aðventuhugvekju í Grindavík í kvöld. Hér til hliðar má sjá kirkjuna. Mörg undangengin sunnudagskvöld annan í aðventu höfum við verið í kirkju á þessu kvöldi að hlíða á Sigrúnu syngja en nú er hún í engum kór. Þannig að við höfum ekki farið núna. Það er náttúrlega engin afsökun fyrir því að fara ekki og eiga góða stund í kirkju. Við vorum að leika okkur að því að tala við Hjört í gegnum MSNið og SKYPE. Annars lítið í fréttum héðan úr Brekkutúninu. Kveðja.

laugardagur, 3. desember 2005

Ferð til Vestfjarða.

Ég fór í gærdag vestur til Ísafjarðar. Myndin hér er af Silfurtorginu í vetrarbúningi. En sama sjónarhorn má finna á bloggi frá því í júlí er ég tók aðra mynd þar. Flugið vestur var bókað kl. 13.30 en við komumst ekki í loftið vegna þess að vélin var biluð. Skipt var um vél og haldið í loftið að verða 14.30. Flugið vestur gékk vel en það var svolítill hristingur yfir Djúpinu eins og verða vill. Fyrir óvana er þetta óþægilegt, vont en það venst. Hríðarmugga var en hún náði ekki inn í Skutulsfjörð. Erindið var fimmtugsafmæli sjávarútvegsráðherra haldið í Bolungarvík. Þetta var fínasta veisla og skemmtilegt að taka þátt í henni. Eftir ræður og mat var slegið upp balli og stóð það langt fram á nótt. Við vorum komnir heim á hótel um 4.00. Við vorum vaknaðir um 8.00 í morgun og drifum okkur þrír ég, Kristján Loftsson og Hjörtur Gíslason í gönguferð um bæinn. Enduðum inn í Gamla bakaríinu og fengum okkur kaffi og með því. Virkilega notaleg stund og frúin gaf okkur þetta fína "stollen". Átti flug kl. 14.20 en gátum fengið því flýtt til 11.20.Flugum í fylgd forsetans, formanns Sjálfstæðisflokksins og fleiri fyrirmanna. Það munaði um það við vorum komnir í bæinn kl. 12.00. Í dag hefur maður verið að jafna sig eftir ferðina. Sirrý og Sigrún fóru í þrítugsafmæli til Kristínar Guðmundsdóttur, dóttur Sveingerðar. Við hringdum í Hjört og Ingibjörgu og sáum nafna í beinni. Honum fer mikið fram. Jæja bið að heilsa.