mánudagur, 12. desember 2005

Jólalögin flutt.

Í kvöld sungu Skaftarnir á LHS á endurhæfingardeild og geðdeild. Vel var mætt og sungin voru sömu lögin og í gærdag. Þá er kórinn kominn í jóla- og áramótafrí fram í janúar. Þetta er búin að vera ágætis "törn". Eftir áramót hefst nýjársstarfið sem endar væntanlega með tónleikaferðalagi í maí. Ég var einnig í síðasta píanótímanum fyrir áramót á föstudaginn. Nú er það heimanámið sem gildir. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Hingað litu við Ia vinkona og Sólrún dóttir hennar. Sigrún er á fullu í próflestri og situr vel við sýnist mér. Valdimar og Stella eru bæði í prófum en maður verður minna var við það enda býr fólkið nú fjarri Brekkutúninu. Veðrið undanfarna daga hefur verið gott. Snjólaust, plúsgráður 2 til 4 °C svolítill vindur. Núna þegar þetta er skrifað um kl. 22.30 er ágætis skyggni til Perlunnar. Flugljósið á fullu lýsir upp himininn hvítu og grænu kastljósi. Tíminn æðir áfram og tíminn til jóla styttist óðum. Það er dimmt úti og dagur styttist til 21. desember. Þá er stystur dagur en svo fer daginn að lengja að nýju. Þannig að þetta horfir allt til bóta.

Engin ummæli: