laugardagur, 11. september 2021

Af Sigrúnu Jónsdóttur og Vestmönnum


Við fórum á sýningu Sigrúnar Jónsdóttur heitinnar https://kirkjan.is/frettir/frett/2021/08/27/Kirkjulistakonu-minnst/  á höklum í Seltjarnarneskirkju í dag. Afar fróðleg sýning á höklum hennar og ýmsum öðrum listmunum. Áttum þar líka fróðlegt spjall um írska munka sem bjuggu á Íslandi fyrir landnám norrænna manna. Vestmannaeyjar komu upp í umræðunni og sagan af þrælum Hjörleifs sem þangað flúðu. Getur verið að þar hafi verið írskt klaustur sem norrænir menn hafi eytt við komuna til landsins. Allavega er þar í 173 metra hæð kross af keltneskri gerð hogginn í klett. Á Seltjarnarnesi má sjá hringlaga minjar sem gætu verið írskar. Þá komu til tals hellarnir á Suðurlandi sem taldir eru frá Írum. Við rifjuðum upp gamalt samtal við Vilhjálm Eyjólfsson frá Hnausum í Meðallandi . Hann var þess fullviss að hér hafi verið Írar fyrir landnám. Að vísu hafði ég einn fyrirvara um veru Íra hér á landi, sem fræðimaður hafði bent á, að aðeins norrænir víkingar hefðu búið yfir þekkingu og siglingatækni til að sigla á opnu hafi. Viðmælendur mínir blésu á þennan fyrirvara og fullyrtu að Írar hefðu haft þessa þekkingu líka. Hvað haldið þið?