sunnudagur, 23. janúar 2005

Flensan á þorranum

Við feðginin erum með flensku. Hiti, beinverkir, þyngsli fyrir lungum, þurr hósti. Andsk..... að fá þennan óþverra. Búinn að eiga í þessu alla helgina. Nú er það parkodínið sem heldur manni á fótum. Annars lítið að frétta héðan á þorranum. Maður er löngu hættur að fara á þorrablót. Man ekki hvenær við fórum síðast, örugglega 15 ár. Maður kaupir sér þó alltaf svolítið af þorramat. Annars var stór hluti af þessum þorramat matur sem var hluti af þeirri fæðu sem maður var alinn upp við. Slátur, svið, harðfiskur, hangikjöt o.s.fr.

fimmtudagur, 20. janúar 2005

Kalt, kalt, frost, hvítt.....

Fimmtudagskvöld og það er kallt og stillt veður hér í Fossvogsdal. Hugsa sér það er kominn 19. janúar! Tíminn líður ótrúlega hratt, jafnvel í skammdeginu. Það er ekkert að frétta héðan þessa dagana. Fórum í kveðjuhóf í gærkvöldi til heiðurs Birni í tilefni þess að hann er nú hættur störfum. Þetta var mjög huggulegt boð og tókst mjög vel í alla staði. Sjálfur átti hann afmæli í gær 18.janúar. Pabbi og mamma komu hér við í gær á nýjum Toyota Avensis og óskum við þeim til hamingju með þessa glæsikerru. Valdi og Stella komu í vikunni og upplýstu að þau væru búin að komast fyrir klóaklykt sem gaus stundum upp á klóinu í íbúðinni þeirra. Valdi fann út úr því hvernig vatnslásar eiga að vera og virka.

föstudagur, 14. janúar 2005

Föstudagskvöld í janúar

Föstudagskvöldin eru best. Maður er þreyttur eftir vikuna og helgarfríið ónotað. Fór í píanótíma í dag. Æfði nýtt lag sem gæti passað í saloon prógrammið mitt þegar fram líða stundir. Þetta er fallegt ítalskt óperulag. Veltum fyrir okkur hvað tónlistin gefur manni, hvort heldur hlustun eða eigið spil. Mun á atvinnumennsku og áhugamennsku og hvernig maður getur lesið lagið af nótnaborðinu án nóta. Þetta geta bara alvörumenn og miklir músíkkantar. Orðið hamingja kom upp í þessum pælingum. Leitin að hamingjunni. Er það eitthvað sem við erum að leita að í tónlistinni? Hvað veit ég. Aðrar fréttir eru helst þær að Sirrý er í Finlandi yfir helgina kann ekki einu sinni nafnið á bænum sem hún heimsækir. En þar munu eigi að síður vera nafnkunnar búðir, þannig henni ætti ekki að leiðast í þessari stuttu ferð.

miðvikudagur, 12. janúar 2005

Rautt, grænt og hvítt...

Það eru kvöldljósin á flugvita Perlunar sem ég er að tala um. Svo er fólk ekkert að flýta sér að taka niður jólaskrautið á húsunum í kring. Þau eru líka rauð græn, gul og hvít. Það er still og rólegt veður í Fossvogsdalnum. Annars allt við það sama á þessum slóðum. Stella og Valdi heiðruðu okkur með komu sinni í kvöld. Borðuðu með okkur hið fræga "pabba spagettí" sem ég framreiði að hætti hússins. 750 gr. nautakjöt, tveir laukar, 2 súputeningar, tómatpurré, hveiti jafningur, spagettílengjur og tómatsósa og svo að sjálfsögðu franskbrauðslengja. Það er enginn menningarvefur eða sjónvarpsþáttur sem stendur undir nafni nema hann birti uppskriftir. Hér með er bætt úr því. Í eftirrétt var borðaður afgangur af Jensínuís með kaffi og rest af súkklaðiköku úr Björnsbakari.

þriðjudagur, 11. janúar 2005

Tíðindalaust í Fossvogsdal

Það hefur hlýnað töluvert og svo er stilluveður. Heldur fer nú þó kólnandi aftur. Það sést vel í öll helstu kennileitin í dalnum séð til vesturs. Hvað er hægt að biðja um meira. Nú eru kóræfingar byrjaðar að nýju með "Sköftunum" það væri nær að þið Skaftfellingar sem kíkið stundum inn á þessa síðu hélduð uppi nafni forfeðra ykkar. Nú annars er ekkert sérstakt í fréttum þannig ég hef þetta stutt núna.

sunnudagur, 9. janúar 2005

Sunnudagsvafstur og smáfuglar.

Brekkutúnsannáll óskar Höllu til hamingju með afmælið í dag 9. janúar 2005. Hingað komu Björn, Brynhildur og Sunna í dag í tilefni dagsins. Ræddum skaftfelsk hugtög sem Sigurveig Guðbrandsdóttir amma hennar Sirrýjar og ykkar allra notaði gjarnan í dægurmáli: grjúpán (bjúgu), velskt (allavega), daunsnast (vesenast), "óttalegur vandræðagangur er þetta", ætli það ekki (já), ætli það nokkuð (nei). Eins og sannur Skaftfellingur sagði hún helst aldrei nei og já, þó fór aldrei milli mála hvað hún átti við. Annars hefur þessi dagur verið tíðindalítill. Það er áfram hrollkallt úti. Úr Fossvogsdalnum er það helst að frétta í dag að heitavatns himinmigan fyrir neðan Perluna naut sín vel í dag í heiðskíru veðrinu. Við fórum í stuttan göngutúr um dalinn. Mikið af hröfnum, gæsir og endur á lækpollinum og aragrúi af snjótittlingum. Við gáfum snjótittlingunum fræ og komu þeir hundruðum saman og átu það. Munið nú eftir smáfuglunum í umhverfi ykkar.

Næturhúmið hvílir yfir Fossvogsdal

Kalt er í dalnum ca. 10°C. Stillt veður sannkallað vetrarríki. Í dag var heiðskírt og sólin var sterk um hádegisbilið. Við Sirrý fórum í göngu um miðbæ Reykjavíkur. Það er svo gott að ganga þar vegna þess að víða eru gangstéttir auðar. Hér hafa komið í heimsókn í dag Stella og Valdimar og borðuðum við með þeim pizzu. Annars hefur lítið verið gert af viti í dag. Ég hef aðeins verið að dunda mér í Langförulsverkefninu mínu. Það snýr að ákveðinni rannsókn á ljóði Stephans G, sem ég er ekki tilbúinn að fara nánar út í á þessu stigi. Við höfum verið að rifja upp liðinn tíma í tengslum við söfnun upplýsinga um Loftsalasystkinin í Mýrdal. Afkomendur Elínar og Guðbrands vitavarðar. Það yljar alltaf í skammdeginu og kuldanum að rifja upp hlýjar minningar.

föstudagur, 7. janúar 2005

Fyrsta vinnuvikan búin!

Hugsiði ykkur það er kominn 7. janúar 2005. Fyrsta vinnuvika ársins er liðin!! Ef þið ætlið ykkur að vinna einhver afrek á þessu ári er eins gott að fara drífa sig aðeins 51 vika eftir af árinu - 4 vikur í sumarfrí og svo einhverjir hátíðardagar einnig til frádráttar. Það er Stillt og kallt veður hér í Fossvogsdalnum í kvöld. Fossvogskapellan upplýst að venju, Perlan lýsir himininn með flugvitanum, Borgarspítalinn tignarhár. Nú sé ég bláa ljósið nálægt Veðurstofunni. Ælti það sé ekki skilti frá Símanum eða Landsvirkjun. Húsin kúra í kuldanum og enn eru jólaljós í gluggum margra þeirra. Helsta afrekið í dag var að píanónámið hjá Þorsteini Gauta hófst í dag. Spilaði nokkur lög fyrir hann m.a.: Einu sinni á ágúst kvöldi eftir Jón Múla Árnason, Ég leitaði blárra blóma eftir Gylfa Þ Gíslason. Fékk tvö lög til þess að æfa mig. Kennaranum fannst ég ekki nógu "sóber" þ.e. æfa þarf taktinn betur. Mælingin í leikfiminni hjá hinum Gautanum fór fram í hádeginu. ´Hún var ekki eins slæm og ég hélt. Ég gæti náð áramótaheitinu um páskana ef ég held vel á spöðunum. Engar frekari fréttir af því. Læt þetta nægja að sinni.

fimmtudagur, 6. janúar 2005

Á þrettándanum....

Komin, búin og farin blessuð jólin. Það er heiðskírt hérna í Fossvogsdalnum í kvöld og maður finnur aðeins fyrir kuldanum úti. Fossvogskapellan kúrir upplýst í Öskjuhlíðinni. Perlan lýsir náttmyrkrið með flugvitanum, hvítu og grænu ljósi til skiptis. Spítalinn stendur tignarlegur með sína rauðu krónu. Stillt veður og bálkösturinn sem jafnan er kveiktur á þessu kvöldi í dalnum er að kulna út eftir að hafa logað vel fyrr í kvöld og lýst fólki upp snjólagðan dalinn. Mikið er búið að skjóta rakettum og blysum upp í næturhimininn. Verð þó að segja að ég er að verða svolítið leiður á þessum eilífu sprengingum. Þetta er orðið meira en gott og skapar enga hátíðarstemmingu. Er frekar í átt við einhverja brjálsemi sem við þurfum að takast á við fyrr en síðar. Að ég tali nú ekki um peningaaustrið. Af vettvangi mínum í dag er það helst að frétta að sjómenn samþykktu nýgerðan kjarasamning í dag. Ég trúi því að hann marki ný tímamót í samskiptum sjómanna og útvegsmanna.

mánudagur, 3. janúar 2005

Fyrsti mánudagur á nýju ári.

"Við höldum okkar striki." er setningin sem hljómar í hugskoti mínu í lok þessa dags. Þannig mæltist fimleikastjóranum mínum honum Gauta í dag í fyrsta leikfimitímanum á nýju ári. Þetta þýðir að maður eigi að mæta reglulega í leikfimina og taka sig á í mataræði eftir jólin. "Ég mun vigta ykkur ALLA á næstunni. Það sleppur enginn." Hugsa sér að maður skuli ár eftir ár borga fyrir svona pínu. "Nú svo verður nú bjórkvöld fljótlega," bætti hann við að bragði til þess að missa okkur ekki strax í fyrsta tíma. Svo sendi hinn Gautinn mér e-mail í dag til þess að minna á að nú byrji píanónámið að nýju í vikulokin. Þá vantar bara að Kolbrún kórstjóri minni á hvenær kóræfingarnar hefjist að nýju hjá Sköftunum. Á Rótarýfundina var ég búin að lofa sjálfum mér að mæta betur fyrir áramót. Nú er bara að sjá hvað áramótaheitin halda manni lengi gangandi á Þorranum og Góunni eða þar til sól fer að hækka að nýju. Þá held ég sé búinn að telja upp öll stóru "strikin" mín er snúa áhugamálum mínum í bili. Vinnu, vinum og fjölskyldu ætlum við líka að reyna að sinna betur, svo það sé nú fært til bókar. Það er dimmt yfir Fossvogsdalnum nú kl. 22.00. Það sést ekki í Fossvogskapelluna, Perluna og reyndar ekki í Borgarspítalann heldur. Ljósin í húsunum Reykjavíkurmegin í dalnum sjást varla vegna snjómuggu. Ljósin í ljósastaurunum sjást hinsvegar betur og marka með reglulegum hætti byggðina í kringum spítalann, þótt ekki sjáist húsin. Fréttir berast af snjóspýjum á Vestfjörðum og fjölmiðlar lýsa hörmungunum í SA - Asíu. Samt má maður ekki láta "svörtu hundana" ná sér. Þótt ljósið sjáist ekki vel í augnablikinu þá veit maður af því þarna í muggunni.

laugardagur, 1. janúar 2005

Nýjársdagur 2005

Best að byrja á veðurlýsingu. Það hefur verið kallt í dag en stillt veður. Snjór yfir öllu en ekki mikill. Fórum í brúðkaup í dag í Dómkirkjunni í Reykjavík. Guðrún Bragadóttir og Sigurður Böðvarsson voru að gifta sig. Prestur var séra Sigfinnur Þorleifsson. Brynhildur Björnsdóttir söng þrjú lög við undirleik Marteins Hunger og Halldórs Bragasonarí einu lagi. Henni tókst vel til að vanda. Brúðhjónin héldu svo glæsilega veislu á heimili sínu. Um kvöldið kom fólkið mitt í kvöldkaffi áttum með þeim inndæla kvöldstund. Sérstakur gestur var Kristján Róbert Axelsson elsti sonur Axels bróður, en hann er hér í jólaleyfi. Býr annars í Gautaborg. Þetta hefur verið góður dagur til að hefja nýtt ár. Presturinn lagði út af kærleiksboðorðinu um trú, von og kærleika af þessu þrennu er kærleikurinn þeirra mestur. Ágætis hugvekja og hverjum manni holl. Jæja læt þetta duga fyrir þennan fyrsta dag ársins.