sunnudagur, 9. janúar 2005

Sunnudagsvafstur og smáfuglar.

Brekkutúnsannáll óskar Höllu til hamingju með afmælið í dag 9. janúar 2005. Hingað komu Björn, Brynhildur og Sunna í dag í tilefni dagsins. Ræddum skaftfelsk hugtög sem Sigurveig Guðbrandsdóttir amma hennar Sirrýjar og ykkar allra notaði gjarnan í dægurmáli: grjúpán (bjúgu), velskt (allavega), daunsnast (vesenast), "óttalegur vandræðagangur er þetta", ætli það ekki (já), ætli það nokkuð (nei). Eins og sannur Skaftfellingur sagði hún helst aldrei nei og já, þó fór aldrei milli mála hvað hún átti við. Annars hefur þessi dagur verið tíðindalítill. Það er áfram hrollkallt úti. Úr Fossvogsdalnum er það helst að frétta í dag að heitavatns himinmigan fyrir neðan Perluna naut sín vel í dag í heiðskíru veðrinu. Við fórum í stuttan göngutúr um dalinn. Mikið af hröfnum, gæsir og endur á lækpollinum og aragrúi af snjótittlingum. Við gáfum snjótittlingunum fræ og komu þeir hundruðum saman og átu það. Munið nú eftir smáfuglunum í umhverfi ykkar.

Engin ummæli: