mánudagur, 3. janúar 2005

Fyrsti mánudagur á nýju ári.

"Við höldum okkar striki." er setningin sem hljómar í hugskoti mínu í lok þessa dags. Þannig mæltist fimleikastjóranum mínum honum Gauta í dag í fyrsta leikfimitímanum á nýju ári. Þetta þýðir að maður eigi að mæta reglulega í leikfimina og taka sig á í mataræði eftir jólin. "Ég mun vigta ykkur ALLA á næstunni. Það sleppur enginn." Hugsa sér að maður skuli ár eftir ár borga fyrir svona pínu. "Nú svo verður nú bjórkvöld fljótlega," bætti hann við að bragði til þess að missa okkur ekki strax í fyrsta tíma. Svo sendi hinn Gautinn mér e-mail í dag til þess að minna á að nú byrji píanónámið að nýju í vikulokin. Þá vantar bara að Kolbrún kórstjóri minni á hvenær kóræfingarnar hefjist að nýju hjá Sköftunum. Á Rótarýfundina var ég búin að lofa sjálfum mér að mæta betur fyrir áramót. Nú er bara að sjá hvað áramótaheitin halda manni lengi gangandi á Þorranum og Góunni eða þar til sól fer að hækka að nýju. Þá held ég sé búinn að telja upp öll stóru "strikin" mín er snúa áhugamálum mínum í bili. Vinnu, vinum og fjölskyldu ætlum við líka að reyna að sinna betur, svo það sé nú fært til bókar. Það er dimmt yfir Fossvogsdalnum nú kl. 22.00. Það sést ekki í Fossvogskapelluna, Perluna og reyndar ekki í Borgarspítalann heldur. Ljósin í húsunum Reykjavíkurmegin í dalnum sjást varla vegna snjómuggu. Ljósin í ljósastaurunum sjást hinsvegar betur og marka með reglulegum hætti byggðina í kringum spítalann, þótt ekki sjáist húsin. Fréttir berast af snjóspýjum á Vestfjörðum og fjölmiðlar lýsa hörmungunum í SA - Asíu. Samt má maður ekki láta "svörtu hundana" ná sér. Þótt ljósið sjáist ekki vel í augnablikinu þá veit maður af því þarna í muggunni.

Engin ummæli: