fimmtudagur, 6. janúar 2005

Á þrettándanum....

Komin, búin og farin blessuð jólin. Það er heiðskírt hérna í Fossvogsdalnum í kvöld og maður finnur aðeins fyrir kuldanum úti. Fossvogskapellan kúrir upplýst í Öskjuhlíðinni. Perlan lýsir náttmyrkrið með flugvitanum, hvítu og grænu ljósi til skiptis. Spítalinn stendur tignarlegur með sína rauðu krónu. Stillt veður og bálkösturinn sem jafnan er kveiktur á þessu kvöldi í dalnum er að kulna út eftir að hafa logað vel fyrr í kvöld og lýst fólki upp snjólagðan dalinn. Mikið er búið að skjóta rakettum og blysum upp í næturhimininn. Verð þó að segja að ég er að verða svolítið leiður á þessum eilífu sprengingum. Þetta er orðið meira en gott og skapar enga hátíðarstemmingu. Er frekar í átt við einhverja brjálsemi sem við þurfum að takast á við fyrr en síðar. Að ég tali nú ekki um peningaaustrið. Af vettvangi mínum í dag er það helst að frétta að sjómenn samþykktu nýgerðan kjarasamning í dag. Ég trúi því að hann marki ný tímamót í samskiptum sjómanna og útvegsmanna.

Engin ummæli: