sunnudagur, 18. október 2015

Moon Country,further reports from Iceland.

Árið 1996 kom út bók í Bretlandi sem heitir Moon Country, further reports from Iceland eftir Simon Armitage og Glyn Maxwell. Útgáfa  þessarar bókar var að minnast ferðar W.H. Auden og Louis Mac Neice til Íslands árið 1936. Þessir tveir menn, Armitage og Maxwell, sem komu hingað 1996 voru sagðir meðal efnilegustu ungra ljóðskálda Breta á tíunda áratug síðustu aldar. Það var BBC útvarpið í Bristol, sem stóð fyrir þessu verkefni og komu þeirra hingað til lands vegna þáttagerðar fyrir BBC útvarpið. Aðkoma mín að þessu máli var sú að til Landssambands íslenskra útvegsmanna leituðu bresku þáttagerðamennirnir til þess að koma þessum mönnum um borð í fiskiskip. Vegna þessa hluta verkefnisins átti ég nokkur samskipti við aðstoðarkonu stjórnandans við að koma þeim til Eyja og um borð í fiskiskip. Ég fékk síðar bréf frá þessum starfsmanni BBC fyrir veitta aðstoð. Í bréfinu segir hún að einmitt þessi ferð með fiskiskipinu hafi verið einn af hápunktum ferðasögunnar. Hún sendi mér þennan þátt sem þakklætisvott á spólu svo að ég gæti hlustað á hann. Árið 1996 var ég staddur í London þegar umrædd bók kom út, - merkileg tilviljun. Ég keypti eintök af bókinni og auk þess á ég blaðaumsagnir um bókina m.a. í The Daily Telegraph og var látið mikið með bókina í blaðinu. Á eina fundinum með listrænum stjórnanda þáttarins og aðstoðarkonu í Reykjavík lýstu þær verkefninu og óskuðu eftir aðstoð eins og áður segir. 
Það skal viðurkennt að ég hafði ekki hugmynd um á þeim tíma hver W.H.Auden var, hvað þá að hann hefði nokkurntíma komið til Íslands. Fyrir fundinn vissi ég aðeins að BBC hefði áhuga á að komast um borð í fiskiskip þannig að ekki gafst tími til að kynna sér hver W.H .Auden var. Ég minnist enn með nokkrum hryllingi svipnum á stjórnanda þáttarins þegar þessi fáfræði mín varð henni ljós. Nú til að gera langa sögu stutta þá ákvað ég að bæta úr þessari fáfræði minni. Las ævisögu hans og keypti helstu ljóðabækur m.a. á ég frumútgáfu Letters from Iceland sem ég keypti fyrir nokkrum árum. Þessi kynni mín af W.H.Auden hafa verið mjög gefandi undanfarin ár og sannfært mig um að mikið skortir á það að uppfræða okkur Íslendinga um þá sameiginlegu menningararfleið sem við eigum með Bretum í verkum og lífi Audens. Ég minnist þess ekki að hafa frétt af umfjöllun um þessa ferð Armitage og Maxwell til Íslands í íslenskum fjölmiðlum. Á næsta ári eru 20 ár frá útgáfu þessarar bókar.Þið sem enn eigið eftir að kynna ykkur Auden þá er hann ef til vill þekktastur fyrir að eiga jarðarfaraljóðið í myndinni Four weddings and a funeral.

fimmtudagur, 15. október 2015

Áfengisbölið

Líklega hefur mér stafað hvað mest hætta af að leiðast út í  „áfengissollinn“ þegar ég fór fimmtán ára út í Hlíð, þar sem nú er Digraneskirkja, með vinum mínum og þeir grófu þar upp áfengisflösku. Þeir fengu sér gúlsopa þarna í rjóðrinu og urðu hreifir og kátir, en ég lét það eiga sig enda oftast kátur að eðlisfari. Ferðirnar voru nokkrar þetta sumar.

Datt þetta í hug í ljósi þeirrar umræðu sem nú á sér stað varðandi aðgengi unglinga að áfengi. Hvort selja eigi áfram áfengi í ÁTVR eða heimila eigi að selja það í Bónus, Hagkaupum eða Krónunni. Hlustaði á umræðu um þetta á fundi í vikunni þar sem að bindindisfrömuður fór mikinn í ræðustól um nauðsyn þess að vernda æskuna. Þessvegna væri nauðsynlegt að selja áfengi áfram í ÁTVR.

Það var ekkert vandamál að ná í áfengi á þessum árum. Það var hægt að stelast í áfengi foreldranna þar sem því var til að dreifa og fela rýrnunina með vatni. Svo voru auðvitað sprúttsalar á ferð. Þá keyptu sumir foreldrar áfengi fyrir börnin sín. Sögðust ekki getað hugsað þá hugsun til enda ef þau væru einhversstaðar hímandi undir vegg drekkandi ólöglegan landa eða eitthvað enn verra.

Punkturinn er þessi að mínu mati: Það skiptir mestu að foreldrar séu á vaktinni og fylgist með börnum sínum. Það gera það ekki aðrir. Það ræður ekki úrslitum hvort ÁTVR hefur einkasöluna á hendi eða hvort matvöruverslanir fá heimild til að selja áfengi.    

sunnudagur, 11. október 2015

Eitt lítið "halló" í stað fyrirgefningar

Í gærkvöldi hlustaði ég á samtal tveggja bræðra, 8 ára og 2 ára. Eldri bróðirinn var ósáttur við þann yngri sem hafði komist í liti og krassað í bók sem hann átti. Það gékk á ýmsu og sá yngri skyldi ekki það tilfinnanlega tjón, sem hann hafði valdið bróður sínum. Eftri nokkrar umræður og örvæntingu á báða bóga segir sá eldri: Þú skemmdir bókina, segðu fyrirgefðu. Sá yngri horfði á stóra bróðir og sagði, Nei! Ekkil líkaði eldri bróðurnum svarið og endurtók ásökun og afsökunarkröfu. Þá kom NEI/JÁ! Ekki líkaði svarið og aftur reyndi sá yngri og sagði, JÁ en nú á vitlausum stað. Nú voru góð ráð dýr fyrir þann litla og hann greip til þess orðs sem hafði hjálpað honum að bræða fólk áður og sagði hátt og snjallt, HALLÓ. Það var látið duga þar til hann verður kominn á þann stað í lífinu að vita í hverju fyrirgefningin fellst