miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Haustdagar.


Sirrý og Svenni jr.

Lítið verið skrifað síðustu daga enda mikið að gera hjá okkur. Hjörtur, Ingibjörg og nafni hafa verið í heimsókn síðustu daga. Nú er þau farin. Hjörtur farin til Kristjanstad í Svíþjóð í framhaldsnám og Ingibjörg og nafni eru í Borgarnesi og bíða þess að fara út líka. Sigrún var að byrja í Kvennaskólanum og Valdimar í HÍ. Þetta er þessi tími þegar allt er á fleygiferð. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

þriðjudagur, 23. ágúst 2005

Í örfáum orðum - "Þér eruð salt jarðar."

Vinir mínir Helgi og Ingunn buðu mér á flutning Matteusarpassíu Jóhanns Sebastian Bach (1685-1750) á sunnudaginn var þann 21. ágúst í Hallgrímskirkju. Þessir tónleikar stóðu í fjóra tíma með hálftíma hléi á milli. Flutningur verksins var stórkostlegur og hrífandi. Ég segi bara: hafið bestu þökk fyrir þetta framtak. Allt gékk fagmannlega upp leikur hljóðfæraleikara, einsöngvara og kóra. Verkið leið fram allan þennan tíma og ég missti aldrei athyglina, ekki eitt augnablik. "Þér eruð salt jarðar." eru einkunnarorð Kirkjulistarhátíðar árið 2005. Manni finnst maður vera betri maður að hafa upplifað uppfærslu á þessu mikla tónverki, sem færir í búning frásögn guðspjallsins af veru Jesús í garðinum með lærisveinunum, síðustu kvöldmáltiðina, krossfestingu Jesús og upprisuna. Enn og aftur kærar þakkir.

laugardagur, 20. ágúst 2005

Menningarnótt í Reykjavík.


Skólavörðustígurinn.

Ég hef alltaf farið í bæinn á menningarnótt eða á að segja menningardaginn því það er búið að færa svo mikið af dagskrárliðum fram á daginn. Hér má sjá fólkið á Skólavörðustíginum um kl. 21.00 þegar ég var á heimleið úr miðbænum. Fór í heimboð til Helga og Ingunnar og þáði líka þessa fínu menningarveislu. Það var annars mikil þröng á þingi afslappað andrúmsloft í miðbænum.
Hvarvetna mátti heyra hljómlist leikna af hjartans list. Fátt vitnar betur um hversu rík hljómlistarmenning okkar Íslendinga er en sú músíkiðkun sem fram fer þennan dag um miðborgina. Þetta leiðir hugan að írskum og engilsaxneskum ættartengslum og fær mann til þess að trúa því að við séum með meira af því blóði í æðum en "ferkantaðra" frænda í Noregi. Þá undanskil ég Sissel Kirkeby og Grieg enda kunnu þeir nú framan af alls ekkert að meta hann. Svona undantekning sem sannar regluna.

Menningarnótt í Reykjavík.


Laugarvegurinn.

Það var eins og vanalega maður við mann á Laugarveginum um níu leytið í kvöld þegar ég var á leiðinni heim eftir að hafa verið með Helga og Ingunni í bænum á þessum menningardegi. Nú má heyra óminn af eldflaugunum í bænum þegar þetta er skrifað um miðnættið. Reykjavík breytir heldur betur um svip þennan dag. Hún breytist úr stórborg í lítinn bæ þar sem maður hittir alla kunningja sína á einu litlu svæði. Fólk sem maður rekst annars aldrei á sér maður í bænum á menningarnótt.

Helgi og Ingunn.

Við fórum í Þjóðmenningarhúsið og skoðuðum sýningu um mormóna sem fóru frá Íslandi til vesturheims upp úr miðri 19. öld. Efst upp í horninu hægra megin eru myndir af langalangaömmu Ingunnar, Guðrúnu Jónsdóttur og þremur börnum hennar og fósturdóttur. Guðrún var 58 ára þegar hún fór vestur. Hún var velmegandi bóndakona í Hrífunesi í Skaftártungu gift Einari Bjarnasyni bónda þar. Eftir urðu á Íslandi Einar bóndi og tveir synir hans sr. Bjarni Einarsson langafi Ingunnar og Jón Einarsson langafi Sirrýjar þannig að þetta eru sameiginleg amma og frændfólk þeirra. Það hefur verið stóra gátan í fjölskyldunni af hverju konan fór vestur. Líklegasta svarið er það að hún hafi gert það trúarinnar vegna. Sirrý er á ráðstefnu í Finnlandi þessvegna vantar hana á þessa mynd.

Þjóðleikhúsið.

Loksins lifnaði Þjóðleikhúsið á menningardaginn með skemmtun utandyra undir stjórn Tinnu Gunnlaugsdóttur. Það er sýnilegt að nýji leikhússtjórinn er með á nótunum í þessum efnum. Það var kominn tími til.

Edit Paif.

Brynhildur Guðjónsdóttir fór á kostum í fjórum Piaf lögum við inngang Þjóðleikshúsins. Hún syngur hreint frábærlega. Hún hefur allt sem þarf í þessu hlutverki enda vel æft hjá henni. Það er einstök upplifun að hlusta á hann jafnvel undir berum himni með svalan síðsumarsvindinn blásandi ofan í raddböndin. Þakka þettta.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.

Var á stofutónleikum hjá Aðalsteini Ásberg í Þjóðmenningarhúsinu. Sonur hans söng líka eitt lag mjög vel. Man ekki hvað hann heitir því miður en hann gerði þetta afskaplega vel. Þarna er mikið efni á ferðinni, þótt hann sé aðeins 8 ára. Fram komu einnig hjónin Guðrún Gunnarsdóttir og eiginmaður hennar Valgeir Skagfjörð sem spilaði á píanóið. Mjög fallegir og hugljúfir tónleikar. Guðrún er í fremstu röð sem söngkona. Hún er með aðlaðandi rödd, örugg í framkomu og góða útgeislun, skýrmælt og lýrísk. Aðalsteinn Ásberg byrjaði árið 2001 að halda þessa tónleika heima í stofnunni hjá sér á þessum degi ásamt eiginkonu sinni Önnu Pálínu sem lést fyrir skömmu. Hann ætlar að halda þessum tónleikum áfram.

Heimboð að Tröð í Árnessýslu.


Tröð og húsráðendur.

Alltaf leggst manni eitthvað skemmtilegt til í lífinu. Í gær var haldið austur fyrir fjall í heimboð Guðlaugar, Birgis og Gunnars vinafólks okkar frá því við bjuggum í Engihjallanum fyrir 20 árum. Veðrið á leiðinni austur var mjög slæmt, hífandi rok og grenjandi rigning. Þegar komið var austur fyrir Hellisheiði lægði veðrið töluvert og þegar komið var heim að Tröð, en svo heitir sumarbústaðurinn, var ágætasta veður. Við borðuðum saman grillmat í gærkveldi og sátum drjúga stund að spjalli og áttum saman góða stund. Hélt af stað í bæinn kl. 11.30 í morgun. Ía og Sólrún Dís voru líka í heimsókn og höfðu þær afnot af litla kotinu, sem er afar "kósí" staður. Sigrún Huld hefur verið undanfarna daga vestur á Snæfellsnesi í sumarbústað á Hellum ásamt þremur vinkonum sínum þeim Erlu, Röggu og Steinunni. Þær komu heim í gærkvöldi þannig að Sigrún treysti sér ekki austur. Í kvöld er Menningarnótt í Reykjavík. Maður sér til hvort maður hafi nennu til þess að fara í bæinn. Nú Sirrý hefur verið á ráðstefnum í Kaupmannahöfn og Finnlandi og er væntanleg heim annað kvöld. Kveðja.

sunnudagur, 14. ágúst 2005

Heimsókn í Borgarnes.


Sveinn Hjörtur og Sigrún frænka.

Við Sigrún Huld fórum upp í Borgarnes að heimsækja nafna sem er í heimsókn hjá Margréti ömmu og Jóhannesi afa með foreldrum sínum. Þar áttum við ánægjulega kvöldstund og fengum þessa fínu kvöldmáltíð. Sveinn litli dafnar vel og er farinn að snúa sér og það styttist í það að hann fari af stað. Á morgun á hann sex mánaða afmæli. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Nú styttist líka óðum í það að Hjörtur, Ingibjörg og Sveinn Hjörtur fari til Svíþjóðar. Hjörtur er búinn að fá vinnu í Kristjanstad.

Sveinn Hjörtur og pabbi og mamma.

Ég stenst nú ekki mátið að sýna ykkur þessa fínu mynd af litlu fjölskyldunni hans nafna á góðri stund í Borgarnesi.

Regnbogi.

Það er búið að vera skýjað og rigning í dag. Keyrðum fram á þennan fallega regnboga á leiðinni upp í Borgarnes.

Hvalfjarðargöngin.

Hér er farið niður í Hvalfjarðargöngin að sunnanverðu. Þessi göng teljast nú meðal merkustu vegaframkvæmda hér á landi. Þau stytta vegalengdina upp í Borgarnes með yfir 40 km.

Borgarneskirkja.

Tók þessa mynd af Borgarneskirkju til þess að bæta henni í safnið á þessari síðu. Þetta fer að verða ágætis heimildarsíða fyrir kirkjubyggingar.

laugardagur, 13. ágúst 2005

Á ferð um Reykjavík.


Á hamborgarabúllunni.

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á ferð okkar feðga um borgina. Við fengum okkur hamborgara á hamborgarabúllunni niður við höfn eftir að hafa rápað í nokkrar búðir. Þeir eru ágætir þessir borgarar en dýrir. Nú svo var haldið áfram með "utanbæjarmanninum" um götur borgarinnar.

Nýjasta dellan.

Rákumst á þennan flokk mótorhjólagæja og væntanlega skvísa líka, þar sem þau söfnuðust fyrir utan mótorhjólaumboðið í Kópavogi. Þetta er orðið mjög vinsælt og oftar má sjá "miðaldra" fólk keyra um á þessu tólum í svörtum leðurfötum á virðulegum hraða í hópreið. Ef til vill eru þau að endurupplifa "Easy rider" þ.e. á alvöru hjólum í stað þess að láta sér nægja að dreyma eins og margur gerði eftir að hafa séð myndina á sjöunda áratugnum. Mótorhjólaframleiðendur halda því allavega á lofti að mótorhjólin veiti þetta mikla frelsi sem allir þrái og þannig akandi komist menn á vit ævintýranna. Hver veit.

Milljón dollara "view"

Á Ægissíðunni getur að líta "milljón dollara" útsýni út á Skerjafjörðinn með Bessastaði og Keili út við sjóndeildarhringin en þetta er allt ókeypis ef maður keyrir götuna. Líklega er þetta eitt fegursta útsýni sem hægt er að sjá úr nokkrum stofuglugga í Reykjavík. Allavega er ég ekki enn orðinn þreyttur á því að rúnta um þessa götu til þess að sjá þetta útsýni.

Kaþólskakirkjan í Rvík.

Ég verð að viðurkenna það að ég er veikur fyrir kirkjubyggingum. Smellti mynd af kaþólsku kirkjunni í Reykjavík. Þessi kirkja er vissulega eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur. Alltaf gott að koma í messu þar. Hef komið þar nokkrum sinnum á stórhátíðum og er það alltaf notalegt. Það sést aðeins í gaflinn á Landakotsspítala. Það verður aldrei fullþakkað það mikilvæga starf sem kaþólskar nunnur hafa unnið í heilbrigðismálum okkar Íslendinga. Vonandi að einhver hafi munað að þakka ærlega fyrir okkur í þeim efnum.

Hallgrímskirkja.

Þá erum við komin að höfuðkennileiti borgarinnar, sjálfri Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti. Stóðst ekki mátið og ákvað að taka eina mynd af henni á þessum laugardagsrúnti okkar feðga. Þá er ég komin með tvær kirkjubyggingar sem Guðjón Samúelsson teiknaði á þessa síðu. Þetta er að verða kirkjubyggingavefur hjá okkur. En hvað er reykvískara í dag en einmitt þessi glæsta
bygging?

föstudagur, 12. ágúst 2005

Kvöldkaffi hjá presthjónunum.


Frú Unnur í eldhúsinu.

Fátt er betra í tilverunni en að lauma sér í kvöldkaffi hjá mömmu og pabba þótt á ókristilegum tíma sé. Hér er undirbúningur að góðgerðunum á fullu í eldhúsinu hjá prestfrúnni.

Hvíldarstaða í stofusófanum.

Það er nú aldeilis fínt að geta lagst fyrir smástund í stofusófanum hjá presthjónunum meðan kaffið og meðlætið er að sjatna og ræða dægurmálin í vikulok.

Hirtirnir tveir.

Hér hittast þeir Hirtirnir tveir til að taka stöðu í dægurmálum og bera saman bækur sínar presturinn og læknirinn.

Kvennaskólamærin mætt í boðið.

Sigrún kom óvænt í kaffiboðið. Hún fór að sjálfsögðu yfir stöðu mála með presthjónunum meðan feðgarnir hvíldu lúin bein í stofusófanum.

fimmtudagur, 11. ágúst 2005

Fjallasýn í Salt Lake City.


Klettafjöllin í Utah.
Loksins, loksins sá ég hluta af Klettafjöllunum í sumar. Þessi mynd er tekin í Salt Lake City. Þið sjáið "Y" merki í fjallinu. Þetta er til þess að minna vegfarendur á að fyrir neðan þetta merki er Brigham Young háskólinn, sem mun vera stærsti einkaháskóli í heimi. Hversu oft hefur maður ekki heyrt af þessum mikla fjallgarði. Hann er tígurlegur sérstaklega er minnistætt fjallið Sofandi indjána prinsessan. Ég á enga mynd af því vegna þesss að ég gleymdi að taka hana ég var svo hugfanginn af því. Það minnir mig á manninn upp í Manitóba á sléttum Kanada sem hafði aldrei séð Klettafjöllin og lét svo verða að því að fara og sjá þau. Þegar hann kom til baka og var spurður hvernig honum hefði litist á Klettafjöllin sagð'ann; "þau voru svona eins og stórt grjót". Klettafjöllin eru stórkostleg sýn og einstakt augnayndi jafnvel fyrir okkur aðdáendur Esjunnar og Borganna í Reykhólasveit, en Jensína amma sagði að það væri fallegasti staður á jörðinni. Annállinn færir Axel bróður bestu hamingjuóskir í tilefni dagsins. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Sirrý skrapp aðeins yfir pollinn. Kveðja.

þriðjudagur, 9. ágúst 2005

Símakeflið horfið.


Símakeflið.

Við tókum eftir því að gamla símakeflið var horfið þegar við komum austur í Skaftártungu. Það var komið vel til ára sinna og hafði þjónað vel og lengi sem útiborð. En nú býður það endanlegra örlaga sinna í gilinu og verður væntanlega næsta varðeldi að bráð. Gamla símakeflið minnir okkur á að allir veraldlegir hlutir eru forgengilegir. Framtíðin felst í endurnýjun lífsins. Litla páskaliljan minnir okkur á þetta en við settum niður lauk í fyrra og nutum hennar í sumarbyrjun. Hún minnir okkur á að nú hallar sumri og allt á sinn tíma og mikilvægt sé að nota tímann. Kveðja.

sunnudagur, 7. ágúst 2005

Vík í Mýrdal.


Hér sést yfirlitsmynd yfir Vík í Mýrdal tekin frá kirkjunni fyrir ofan þorpið og Reynisdrangar í fjarlægð. Alltaf finnst okkur gaman að koma til Víkur í Mýrdal. Stoppuðum að vísu stutt í þetta sinn.

Víkurkirkja, Vík í Mýrdal.


Víkurkirkja.

Ég var í kirkjumyndarstuði um helgina og tók líka mynd af þessari fallegu kirkju í Vík í Mýrdal. Hún á það sameiginlegt með Hallgrímskirkju í Reykjavík að Guðjón Samúelsson teiknaði þær báðar. Þessi kirkja er glæsileg og stendur á tígurlegum stað yfir þorpinu. Í kirkjunni eru steindir gluggar sem vert er að sjá.

Austur í Skaftártungu.


Við skelltum okkur austur í Skaftártungu um helgina. Komum til baka í gær. Tók þessa mynd af Grafarkirkju í Tungunni. Þetta er höfuðkirkja fyrrum Ásasóknar sem séra Hjörtur Hjartarson þjónaði á tíundaáratugnum. Veðrið var ágætt en skýjað og vindur. Ella var samferða austur en hún gisti hjá Höllu í hennar bústað. Í dag höfum við verið hér heima og hlustað á gnauðið í fyrsta haustveðrinu??? Jæja annars ekkert sértakt í fréttum. Kveðja.

fimmtudagur, 4. ágúst 2005

Frá Dyrhólaey.


Endurfundir.

Sirrý fór með Marie vinkonu sína frá Kållered í Svíþjóð upp á Dyrhólaey til þess að sýna henni og Erland manni hennar lunda. Einnig var tilgangur ferðarinnar að sýna henni Mýrdalinn, suðurlandsundirlendið og Vík í Mýrdal. Við sáum lundana í þúsundavís og þau hjónin voru frá sér numin af hrifningu og tóku margar myndir af þessum sérstæða fugli. Hér eru þær vinkonur á Dyrhólaey með Reynisdranga í baksýn. Marie hefur verið í sambandi við Sirrý alla tíð frá því við komum frá Svíþjóð árið 1979. Þau Erland og Marie voru mjög hrifin af Íslandi. Þau voru óvenju heppin með veðrið og allt gékk upp í þessari fyrstu heimsókn þeirra hingað. Sirrý er búin að vera spyrja hana reglulega í yfir aldarfjórðung hvenær hún ætlaði að láta verða að því að heimsækja Ísland. Loksins létu þau verða af því og sjá ekki eftir því.

miðvikudagur, 3. ágúst 2005

Veisla hjá Höllu og Erni.


Trúbadorarnir Sæmi og Snorri.

Þessir tveir trúbadorar fóru á kostum í veislunni sem Halla og Örn héldu frændfólki Höllu og hyski þess föstudaginn fyrir Verslunarmannahelgina. Hér er sýnt lokaatriði tónleikanna þegar Sæmi tekur hugljúft lag og Snorri hlustar á hann með andakt. Svona atriði upplifir maður ekki á hverjum degi. Það hefði mátt heyra saumnál detta á meðan þetta rafmagnaða lag rafvirkjans var flutt af dýpstu innlifun.

Dansað við undirleik trúbadoranna.

Gleðin og einbeitnin skín úr hverju andliti. Hver sem betur getur gefur sig dansinum á vald eða þannig.

Framlag Brands frá Bandaríkjunum.

Frændinn frá Ameríku tók lagið fyrir frændur sína á Íslandi með þvílíkum stæl að ekki var betur gert í þeim efnum. Endaði þriggja laga prógram sitt á þjóðsöngnum hinum ameríska og söng hann með tilþrifum. Íslensku frændurnir upplifðu þetta kvöld að erfitt getur verið að syngja íslenska þjóðsönginnn raddaðan án æfingar.

mánudagur, 1. ágúst 2005

Þá er sumarfríið á enda.


Feðgar á Akureyri.

Þessi fína mynd var tekin á Akureyri í júlílok eftir ferðina um Vestfirði. Við höfum nú verið aðallega innan bæjarmarkana síðustu viku. Skruppum þó austur að Dyrhólaey til þess að skoða lunda með Marie Berg og Erland. Þau voru afar hrifin og eyddu góðum tíma í að ná myndum af lundum. Síðan skruppum við til Víkur en þar var haldið Landsmót ungmennafélaganna í ár. Sænsku hjónin voru mjög hrifin af Íslandi og sögðu að ferðin með okkur hefði verið punkturinn yfir iið. Veðrið var okkur innan handar þótt búið væri að spá rigningu en sú spá rættist ekki að þessu sinni. Við erum búin að vera að ditta að húsinu og taka því rólega, kannski fullrólega en þetta er búið að vera ágætt. Við fórum í veislu til Höllu og Arnar á laugardaginn var. Þar voru saman komnir ættingjar Sirrýjar í móðurætt. Þetta voru um 60 manns. Fengum þennan fína grillmat og hittum frændfólk Sirrýjar frá Ameríku, Chester og Ann frá Flórída með þrjú börn (Brand, Anna og Jacky) og Thor og Mary Beth með tvö unglinga (Margret Ann og Kyle). Nú við hittum prestshjónin í gærkvöldi og litum við hjá Sigurði og Vélaugu fyrr í vikunni þannig að við höfum komið viða við í fríinu. Kveðja.